Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

38. Aðalfundur SSS 12. og 13. september 2014

38. aðalfundur S.S.S. haldinn í Tjarnarsal, Stóru-Vogaskóla, sveitarfélaginu Vogum, föstudaginn 12. september og laugardaginn 13. september 2014. 

Dagskrá:

Föstudagurinn 12. september 2014.

Kl. 14:30               1.            Skráning fulltrúa og afhending gagna.

Kl. 15:00               2.            Fundarsetning.

3.            Kosning fundarstjóra og fundarritara.

4.            Skýrsla stjórnar:  Ásgeir Eiríksson formaður S.S.S.

5.            Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2013 – Guðmundur Kjartansson endurskoðandi.

6.            Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.

7.            Ávörp gesta.

•             Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra.

•             Halldór Halldórsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga.

8.            Umræður um skýrslur.

•             Vaxtarsamningur Suðurnesja.

•             Menningarsamningur Suðurnesja.

•             Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja-Heklan.

•             Málefni fatlaðs fólks.

Kl. 16:00                              Kaffihlé.

Kl. 16:20               9.            Skýrsla Menntahópsins  – Hanna María Kristjánsdóttir

•             Fyrirspurnir vegna skýrslu menntahópsins .

Kl. 16:50               10.          Almenningssamgöngur á Suðurnesjum – hugmyndir um nýtt leiðarkerfi,            Hafliði R. Jónsson, VSÓ.

•             Fyrirspurnir vegna kynningar um almenningssamgöngur.

Kl. 17:20               11.          Tillögur og ályktanir lagðar fram.

Kl. 17:40               12.          Fundi frestað.

 

Laugardagurinn 13. september 2014.

Kl. 9:30                                 Morgunkaffi.

Kl. 10:00               13.          Ávarp Innanríkisráðherra – Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Kl. 10:30               14.          Kynning á skýrslu um samstarf í málefnum fatlaðs fólks – KPMG.

•             Fyrirspurnir um skýrslu um samstarf í málefnum fatlaðs fólks.

Kl. 12:00                              Matarhlé.

Kl. 13:00               15.          Tækifæri á Keflavíkurflugvelli – Þröstur Söring.

Fluglestin – Runólfur Ágústsson.

Kl. 14:30                              Fyrirspurnir og umræður.

Kl. 15:30                              Kaffihlé.

Kl. 15:50               16.          Ályktanir og umræður.

Kl. 16:30               17.          Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Kl. 16:40               18.          Kosning endurskoðendafyrirtækis.

19.          Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.

Kl. 17:00               20.          Áætluð fundarslit.

 

Kl. 20:00               Kvöldverður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í Tjarnarsal, Stóru-Vogaskóla, 190 Vogar.

Föstudagur 12. september.

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Fundinn sóttu alls 37 sveitarstjórnarmenn aðal- og varamenn.
Reykjanesbær 10 fulltrúar
Grindavík – 6 fulltrúar
Sandgerði 7 fulltrúar
Garður 8 fulltrúar
Vogar  6 fulltrúar

Gestir og frummælendur á fundinum voru:
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, Sigurður Skarphéðinsson, BS,  Guðmundur Kjartansson, Deloitte,  Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Alþingi, Torfi Jóhannesson, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Ásmundur Friðriksson, Alþingi, Páll Jóhann Pálsson, Alþingi, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Alþingi,  Hilmar Bragi Bárðarson, VF, Kristján Ásmundsson, FS, Halldór Halldórsson, Samband ísl. sveitarfélaga, Karl Björnsson, Samband ísl. sveitarfélaga, Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri í Sandgerði,  Hafliði R. Jónsson, VSÓ, Hanna María Kristjánsdóttir, form. Menntahóps, Guðjónína Sæmundsdóttir, MSS,  Haraldur Einarsson, Alþingi,  Vilhjálmur Árnason, Alþingi,  Páll Valur Björnsson, Alþingi, Sigurður Jónsson, Reykjanesið, Sesselja Árnadóttir, KPMG, Hjördís Árnadóttir, Reykjanesbær, Kristín Þ. Þorsteinsdóttir, Sandgerði, Garður, Vogar, Runólfur Ágústsson, Fluglestin, Þröstur V. Söring, Isavia.

2. Fundarsetning.
Ásgeir Eiríksson formaður stjórnar SSS setti fundinn og bauð fundarmenn og gesti velkomna.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Tillaga kom um Þorvaldur Örn Árnason og Jóngeir Hlinason sem fundarstjóra og var tillagan samþykkt. Tillaga kom um Ingu Rut Hlöðversdóttur og Guðbjörgu Kristinsdóttur sem fundarritara og var tillagan samþykkt. Formaður lagði til að Björk Guðjónsdóttir starfsmaður atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar skrifi fundargerð aðalfundarins.
Þorvaldur Örn Árnason tók við stjórn fundarins.

4. Skýrsla stjórnar.
Ásgeir Eiríksson formaður stjórnar flutti skýrslu stjórnar. Stjórn hélt alls 15 bókaða fundi á árinu. Formaður tæpti á því helsta sem kom til kasta stjórnarinnar á starfsárinu. Hann ræddi m.a. um skýrslu sem unnin var varðandi hagkvæmni þess að flogið verði innanlands með ferðahópa beint frá Keflavíkurflugvelli, óháð því hvort innanlandsflug verði áfram stundað í Vatnsmýrinni í Reykjavík eða ekki. Samkv. niðurstöðum skýrslunnar eru einungis 10-20% farþegar í innanlandsflugi erlendir ferðamenn, sóknarfæri gætu falist í því að fjölga erlendum ferðamönnum t.d. með beinu flugi milli Keflavíkurflugvallar og valdra áfangastaða innanlands. Hann fjallaði um Sóknaráætlun, um  almenningssamgöngur á Suðurnesjum, og sagði m.a. að almenningssamgöngur á Suðurnesjum hefðu verið eitt megin verkefni stjórnar á starfsárinu. Hann lýsti stöðu verkefnisins og samskiptum við þær stofnanir sem um málið fjalla og að stjórn sambandsins hefði tekið ákvörðun um málshöfðun gegn Innanríkisráðherra fyrir ólögmæta uppsögn samningsins. Formaðurinn fjallaði um málefni fatlaðs fólks en stjórn fékk ráðgjafa frá KPMG til að gera faglega úttekt á samstarfinu um málaflokkinn. Fram kom að sambandið fór með formennsku í samstarfi landshlutasamtaka sveitarfélaga þetta árið og einnig átti sambandið fulltrúa á sveitarstjórnarvettvangi EFTA. Hann fjallaði um nýtt og glæsilegt hjúkrunarheimili sem tók til starfa á árinu, málefni BS sem mun taka breytingum á næstunni þegar starfseminni verður breytt í byggðasamlag. Að lokum þakkaði hann samstarfsfólki sínu í stjórn SSS, framkvæmdastjóra og starfsfólki fyrir gott samstarf.

5. Ársreikningur.
Guðmundur Kjartansson fór yfir ársreikning Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir árið 2013.

6. Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning sambandsins.
Til máls tóku Guðmundur Pálsson og Ásgeir Eiríksson.
Fundarstjóri bar upp ársreikning sambandsins og var hann samþykktur samhljóða.

7. Ávarp gesta.
Til máls tók Ragnheiður Elín Árnadóttir 2. þingmaður kjördæmisins. Hún flutti fundinum kveðjur ráðherra og þingmanna kjördæmisins sem ekki gátu mætt. Hún þakkaði sveitarstjórnarmönnum fyrir gott samstarf í gegnum tíðina og hlakkar til að vinna með nýjum sveitarstjórarmönnum. Það er bjart framundan hér á svæðinu í atvinnumálum sagði ráðherrann og hægt að fara að lita björtum augum til framtíðar. Hún hvatti sveitarstjórnarmenn til að halda áfram þessari vegferð í atvinnumálum. Hún talaði um að enn væri atvinnuleysi hæst á Suðurnesjum og það væri of hátt. Hún lýsti yfir samstarfsvilja þingmana kjördæmisins og óskaði fundarmönnum góðs gengis á ársfundinum.
Til máls tók Halldór Halldórsson, formaður sambands íslenskra sveitarfélaga
Halldór byrjaði að fjalla um kosningaþátttöku og kynjaskiptingu í sveitarstjórnum. Fram kom að konum fjölgar í sveitarstjórnum en kvenkynsoddvitum hefur fækkað. Hlutfall nýrra sveitarstjórnarmanna eftir síðustu kosningar eru 54%. Hann fjallaði um hlutverk sambandsins,  þá stefnumótum sem framundan er og einnig fór hann yfir skipurit sambandsins. Hann fór yfir umsvif hins opinbera á vinnumarkaði, kjarasamninga og skuldir sveitarfélaga. Síðan fjallaði hann um brýn verkefni sem unnið er að. Hann fjallaði um fjárlagafrumvarpið fyrir 2015 og styttingu atvinnuleysisbótatímabils um 6 mánuði. Hann talaði um lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaga og benti á að þar stæðu sveitarfélögin frammi fyrir risastóru máli. Að lokum bar hann fundinum kveðjur frá stjórn og starfsmönnum sambandsins.

8. Umræður um skýrslur.
• Vaxtarsamningur Suðurnesja
• Menningarsamningur Suðurnesja
• Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja
• Málefni fatlaðs fólks.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslurnar, enginn óskaði eftir að taka til máls.

KAFFIHLÉ
9. Skýrsla Menntahópsins sem Hanna María Kristjánsdóttir flutti.
Hún fór yfir tilurð verkefnisins og skipun stýrihópsins. Hún kynnti forgangsverkefnin tíu og sagði að það hafi verið verkefni stýrihópsins að setja upp verkáætlanir fyrir þessi 10 forgangsverkefni. Hún fjallaði um nokkur atriði varðandi helstu nýjungar og hvað stýrihópurinn leggur til að gert verði. M.a. leggur stýrihópurinn til að búin verði til staða verkefnisstjóra menntamála á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem þjóni öllu svæðinu.
• Fyrirspurnir vegna skýrslu menntahópsins.
• Frummælandi  svaraði þeim spurningum sem fundarmenn báru fram úr sal.

10. Almenningssamgöngur á Suðurnesjum – hugmyndir um nýtt leiðarkerfi. Erindi Hafliða R. Jónssonar frá VSÓ.
Hann byrjaði á að rifja upp núverandi leiðakerfi á Suðurnesjum áður en hann kynnti hugmyndir um nýtt leiðakerfi. Með nýju leiðakerfi er gert ráð fyrir góðum tengingum við leiðarkerfi á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Strætó bs. Einnig kynnti hann hugmyndir að fargjöldum í nýju kerfi og afsláttakjör sem boðin verða. Hann fór yfir þá þjónustu sem í boði er í samstarfi við Strætó bs. bæði fjárhaglega og tæknilega auk þess sem hann nefndi helstu kosti samstarfs S.S.S. og Strætó bs. Fram kom að gert er ráð fyrir skólaakstri inni í þessu kerfi.
• Fyrirspurnir vegna kynningar um almenningssamgöngur.
Frummælandi svarði þeim fyrirspurnir sem bárust úr sal.

11. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Stjórn S.S.S. lagði fram fjórar ályktanir sem formaðurinn Ásgeir Eiríksson fylgdi eftir.
Friðjón Einarsson tók til máls og benti á aðra möguleika við framlagningu ályktana.
Til máls tók Kristinn Þór Jakobsson og lagði fram tillögu um samráðsvettvang um aukna hagsæld á Suðurnesjum.
Til máls tók Hólmfríður Skarphéðinsdóttir og tók undir hugmyndir Friðjóns um framlagningu ályktana.
Til máls tók Ólafur Þór Ólafsson og fylgdi eftir tveim ályktunum sem lagðar voru fram.

12. Fundi frestað.

Laugardagurinn 13. september.
Fundi framhaldið. Jóngeir Hlinason tók við fundarstjórn.

13. Ávarp Innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Ráðherra óskaði nýjum sveitarstjórnarmönnum til hamingju með kjörið og þá ábyrgð sem þau hafa tekið að sér. Hún ræddi hlutfall kvenna í sveitarstjórnum og þann árangur sem náðist í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Einnig ræddi hún um kosningaþátttöku. Ráðherra ræddi um breytingu á tekjustofnum og sagði frá því að viðræður væru hafnar við samband íslenskra sveitarfélaga, en frumvarpið verður ekki lagt fram að svo stöddu. Einnig talaði hún um almenningssamgöngur. Ráðherrann  ræddi um  atvinnumál þau sem undir hennar ráðuneyti falla það eru samgöngumál. Niðurskurður er í málaflokknum svo ekki verða stórar framkvæmdir á þessu svæði, en stóra verkefnið hér á svæðinu er stækkun Flugstöðvarinnar sagði ráðherrann.
Að lokum kom hún inn á sameiningu sveitarfélaga og sagði að það væri nú í höndum sveitarfélaganna sjálfra hvort af frekari sameiningum verður. Að lokum óskaði hún þess að fundurinn yrði sveitarstjórnarmönnum árangursríkur.

Fundarstjóri óskaði eftir heimild fundarins til að leggja fram ályktun til umræðu síðar á fundinum. Var það samþykkt.

14. Kynning á skýrslu um samstarf í málefnum fatlaðs fólks sem Sesselja Árnadóttir frá KPMG flutti.
Hún byrjaði að fara yfir lögin um málefni fatlaðs fólks og fjallaði um  samninginn fyrir Suðurnes sem var gerður árið 2010 þar sem fram kemur að Suðurnes eru eitt þjónustusvæði. Dagleg framkvæmd samningsins er í höndum þjónusturáðs. Síðan fór hún yfir það sem ekki hefur komist í framkvæmd samkvæmt ákvæðum samnings. Hún talaði um tvær leiðir sem eru færar til að uppfylla samningsákvæðin og benti á að báðar leiðir hafi verið farnar víða um land, það væri misjafnt hvernig sveitarfélög vildu hafa skipulagið. Á Suðurnesjum þarf að taka ákvörðun um hvaða leið sveitarstjórnir vilja fara. Að lokum sýndi hún útreikninga varðandi uppgjör áranna 2011 til 2013.
• Fyrirspurnir um skýrslu um samstarf í málefnum fatlaðs fólks.
Fundarstjóri gaf orið laust. Til máls tóku, Ásgeir Eiríksson, Kristinn Þór Jakobsson, Kjartan Már Kjartansson, Gunnar Þórarinsson, Ólafur Þór Ólafsson, Áshildur Linnet, Hjördís Árnadóttir, frá félagsþjónustu Reykjanesbæjar, Sigrún Árnadóttir, Kristín María Birgisdóttir, Guðmundur Pálsson, Páll Jóhann Pálsson, Kristín Þ. Þorsteinsdóttir frá félagsþjónustu, Garðs, Sandgerðis og Voga, Einar Jón Pálsson og Páll Valur Björnsson. Komið var víða við í málflokknum og ýmislegt rædd sem betur mætti fara m.a. með hvaða hætti málaflokknum væri best fyrir komið og hvaða fyrirkomulag sveitarstjórnarmenn teldu best. Sveitarstjórnarmenn lýstu óánægju með að skýrslan hafði ekki borist í hendur þeirra fyrir fundinn sem hefði gert umræðuna markvissari. Bent var á fund í Innanríkisráðuneytinu um málið fyrir fáum dögum,  þar sem fátt var um sveitarstjórnarmenn af Suðurnesjum. Bent var á  að um málaflokkinn mæti t.d. stofna Byggðasamlag.  Rætt var um rekstur málaflokksins og nauðsyn þess að fara betur yfir tekjur og gjöld. Einnig var komið inn á  flækjustig samningsins og það hvort ekki væri hægt að einfalda hann. Ræddur var þjónustuþátturinn og samstarfið sem má betur fara í yfirstjórn málaflokksins. Það kom fram að væntingar þeirra sem þjónustuna þiggja voru miklar við yfirfærsluna og spurt hvort þeir væru nú ánægðir með þá þjónustu sem þeir fá. Því var varpað fram  hvort verið væri að ofþjónusta eða hvort sumir hafi ekki fengið þá þjónustu sem þeim ber.  Talið var að þjónustan hafi verið verulega vanþróuð og grettistaki hafi nú verið lyft til að færa málaflokkinn til nútíðar. Sveitarstjórnarmenn ræddu fjármálin, tekjuskiptinguna og jafnvel það að skila verkefninu aftur til ríkisins. Að lokum tók Sesselja Árnadóttir til mál og svaraði fyrirspurnum sem til hennar var beint.

Hádegishlé

15. Fluglestin – Runólfur Ágústsson kynnir.
Verkefnið hófst hjá ráðgjafafyrirtækinu Reitir, Reykjavíkurborg, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Kadeco, Landsbankinn, Efla, Isavía, Ístak og Deloitte eru samstarfsaðilar um verkefnið. Hann lýsti fyrirhuguðu skipulagi, mannvirkjum, kostnaði og  kynnti framkvæmdaráætlun. Hann tók fram að í þessu verkefni væri verið að leggja teina á tiltölulega flatt umhverfi sem ætti að vera þægilegt að gera. Runólfur fór yfir tekjumöguleikana og fór yfir áætlaðan fjölda farþega. Hann telur að langstærsti hópur farþega verði erlendir ferðamenn. Útreikningar varðandi áætlað hlutfall farþega Keflavíkurflugvallar sem munu nýta fluglestina eru byggðar á samanburði við Gardermoen í Osló.
Hann kynnti skýrslu um samfélagsleg áhrif sem Mannvit vann. Verkefnið er samfélagslega séð ákaflega jákvætt. Varðandi ábatann á Suðurnesjum,  er  fyrsta niðurstaðan sú að það er líklegt að verkefnið hefði mjög jákvæð áhrif á atvinnu á Suðurnesjum. Auk þess mun það leiða til hækkunar launastigs,  bæta ímynd og auka tækifæri í ferðaþjónustu.
Niðurstaðan er sú að hraðlest er hagkvæm fjárfesting í einkaframkvæmd. Að lokum fór hann yfir framhald og framkvæmd verkefnisins þar sem m.a. kom fram að verið er að undirbúa stofnun félags og söfnun hlutafjár.

Tækifæri á Keflavíkurflugvelli – Þröstur Söring kynnir.
Hann fór yfir hlutverk Isavía,  rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónusta og önnur hlutverk fyrirtækisins. Isavia er fyrirtæki í ferðaþjónustu með um 850 starfsmenn.  Isavia er næst stærsti aðilinn innan Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann fór yfir skipuritið sem skiptist í fjóra kjarna. Rekstrartekjur hafa aukist og að sama skapi hafa fjárfestingar aukist. Hann fjallaði um Keflavíkurflugvöll, stærð hans og flugbrautir. Flogið er til 80 áfangastaða og 20 flugfélög fljúga til Keflavíkurflugvallar. Hann fjallaði um farþegaspár frá 2014-2023  þar sem áætlað er að um 7 milljónir ferðamanna fari í gegnum flugstöðina í lok spátímabilsins. Fram kom að 85% starfsmanna Isavia á Keflavíkurflugvelli eru búsettir á Suðurnesjum. Síðan vék hann að skipulagsmálum og sýndi núgildandi aðalskipulag og aðalskipulagið sem er í vinnslu og á að gilda til ársins 2030. Þröstur vék að fjárfestingum til að auka afkastagetu og sagði að stærsta fjárfestingin væri stækkun flugstöðvarinnar. Viðbyggingin verður komin í full not samkvæmt áætlun árið 2016. Á næstu árum þarf að fara í miklar fjárfestingar til viðhalds brautarkerfum, áætlun hefur verið gerð um endurgerð flugbrauta var meðal annar sem hann kom inn á í sinni kynningu.

Fyrirspurnir og umræður. Fundarstjóri gaf orðið laust.
Til máls tóku Friðjón Einarsson, Kjartan Már Kjartansson, Ólafur Þór Ólafsson,  Kristinn Þór Jakobsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Einar Jón Pálsson og Ásgeir Eiríksson.  Sveitarstjórnarmenn veltu fyrir sér þeim samfélagslegu áhrifum á Suðurnes sem Fluglestin kæmi til með að hafa. Hvort það hefði áhrif að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar á Lestarsamgöngurnar og/eða hvort Fluglestin hefði áhrif á breyttan hámarkshraða á Reykjanesbraut. Öryggisþáttur þessara samgangna var reifaður,  tækifæri í ferðaþjónustu sem lestin getur komið til með að hafa, rekstur og staðsetningu höfuðstöðva fyrirtækisins. Einnig veltu sveitarstjórnarmenn fyrir sér hvaða áhrif Fluglest kynni að hafa á fasteignaverð á svæðinu.
Fram kom að Isavia þurfi að eiga gott samtal við sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum varðandi skipulagsmál, stækkun flugstöðvar og fjölgun farþega. Þar sem þessir þættir í þeirra rekstri hefur áhrif m.a. á uppbyggingu þjónustu hjá sveitarfélögunum. Komið var inn á samfélagslega ábyrgð Isavia við nærsamfélagið. Í því sambandi var bent á að enginn stuðningur er við íþróttafélög á svæðinu og spurt hver væri stefna félagsins í þeim málum. Einnig koma fram að samskiptaörðuleikar væru við starfsfólk Isavia sem mjög erfitt væri að fá til að svara fyrirspurnum. Rætt var um verslunarrekstur í Flugstöðinni og að ekki væri horft til Suðurnesja hvorki í  starfsmannaráðningum né verslunarrekstri.
Að lokum tóku til mál frummælendur Runólfur og Þröstur og svöruðu spurningum sem til þeirra var beint. 

Kaffihlé

16. Ályktanir og umræður.

Tillaga stjórnar um útboð um endurskoðun á reikningum sambandsins hafði verið lögð fram. Fundarstjóri bar upp þá tillögu að henni yrði vísað til afgreiðslu undir 18. lið dagskrárinnar og var það samþykkt.

Ályktun vegna fjárlaga 2015
lögð fram á 38. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Vogum 12.-13. september 2014.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn 12. og 13. september í Vogum gagnrýnir harðlega tillögur í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 um að stytta hámarksbótatíma atvinnulauss fólks úr þremur árum í tvö og hálft ár án þess að til komi fjárframlög á móti til sveitarfélaganna. 
Með  áformum um styttingu  hámarksbótatíma er verið að velta 500 milljóna króna útgjöldum frá ríki  til sveitarfélaga.  Búast má við að þessi útgjöld leggist þyngst á sveitarfélög á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi mælist enn mest á landinu.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hvetur til þess að í stað þess verði unnið með sveitarfélögunum að lausn atvinnuleysisvandans og eflingu endurhæfingarúrræða fyrir langtímaatvinnulausa.
Þá lýsir aðalfundurinn vonbrigðum sínum með þær lækkanir á framlögum til sóknaráætlana landshluta sem birtast í fjárlagafrumvarpinu.
Fundarstjóri gaf orðið laust um  ályktunina. Til máls tóku Ásgeir Eiríksson,  Böðvar Jónsson,  Kristinn Þór Jakobsson, Einar Jón Pálsson, Friðjón Einarsson og Gunnar Þórarinsson og lagði fram breytingatillögu og  Kristín María Birgisdóttir.
Fundarstjóri bar upp breytingatillöguna sem var samþykkt samhljóða. Fundarstjóri bar upp ályktunina með áorðnum breytingum og var hún samþykkt samhljóða.

Ályktun um fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Vogum 12. – 13. september 2014 krefst þess að fjölgun hjúkrunarrýma á Suðurnesjum komi til strax á árinu 2015. Nú þegar er þörf fyrir um 30 hjúkrunarrými á svæðinu. Við blasir að eldri borgurum fjölgar mjög á næstu árum mun því stefna í óefni ef ekkert verður að gert.

Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina.  Til máls tók Einar Jón Pálsson og lagði fram breytingartillögu. Til máls tók Friðjón Einarsson, Kristín María Birgisdóttir, Kristinn Þór Jakobsson, Friðjón Einarsson og Böðvar Jónsson .
Fundarstjóri bar upp breytingatillöguna og var hún samþykkt samhljóða. Fundarstjóri bar upp ályktunina með áorðnum breytingum og var hún samþykkt samhljóða.

Ályktun um húsnæðismál
lögð fram á 38. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Vogum 12.-13. september 2014.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn 12. og 13. september í Vogum lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun eignarhalds húsnæðis á Suðurnesjum. Á örfáum árum hefur Íbúðalánasjóður eignast þar æ fleiri fasteignir en í lok ágúst 2014 átti sjóðurinn 831 eign á svæðinu sem eru um 40% af heildareignum hans. Búast má við  að sjóðurinn eignist enn fleiri íbúðir þegar frestun á nauðungarsölum verður aflétt.

Þetta er slæm þróun fyrir samfélagið á Suðurnesjum og hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar í för með sér bæði fyrir  bæjarfélögin  og þær fjölmörgu fjölskyldur sem misst hafa heimili sín. Stöðugleiki í búsetu er öllum mikilvægur og óöryggi í húsnæðismálum fylgir mikil streita.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum óttast að verði ekki gripið í taumana muni hin neikvæðu áhrif á samfélagið aukast enn frekar og skapa meiri vanda. Leita verður lausna á þeim vanda sem við er að etja í húsnæðismálum á Suðurnesjum, þar sem fjöldi fullnustueigna í eigu Íbúðalánasjóðs er hlutfallslega langmestur þegar horft er til landsins alls. Leggja verður áherslu á farsæla þróun og uppbyggingu á Suðurnesjum.

Bæði Íbúðalánasjóður og ríkisvaldið bera hér ríka ábyrgð og hvetja sveitarfélögin félags- og húsnæðismálaráðherra til að beita sér sem allra fyrst fyrir lausn þessara mála og lýsa sveitarfélögin á Suðurnesjum sig reiðubúin til samvinnu við það verkefni. 

Aðalfundurinn leggur til að þegar í stað verði skipaður starfshópur ráðuneyta, Íbúðarlánasjóðs, fjármálastofnana og sveitarfélaga á Suðurnesjum sem hafi það hlutverk að gera heildstæða og tímasetta aðgerðaráætlun um að koma íbúðarhúsnæði í not.

Fundarstjóri gaf orið laust um ályktunina. Til máls tóku, Ólafur Þór Ólafsson og lagði fram breytingatillögu og Guðmundur Pálsson.
Fundarstjóri bar upp breytingatillöguna og var hún samþykkt samhljóða. Fundarstjóri bara upp ályktunina með áorðnum breytinum og var hún  samþykkt samhljóða.

Ályktun um atvinnumál
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Vogum 12. – 13. september 2014 leggur áherslu á mikilvægi þess að nauðsynleg skilyrði verði sköpuð til uppbyggingar öflugs atvinnulífs á Suðurnesjum. Aðalfundurinn hvetur ríkisvaldið til að leggja sitt af mörkum í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu svo aðstæður fyrir þau fyrirtæki sem vilja hasla sér völl á Suðurnesjum séu til staðar. Auk almennra aðgerða telur aðalfundurinn nauðsynlegt að ríkisvaldið gæti jafnræðis þannig að iðnaðar- og hafnarsvæðið í Helguvík njóti sambærilegs stuðnings og verið er að veita framkvæmdum á Bakka við Húsavík með sérstakri löggjöf.  Ríkisvaldið er sérstaklega hvatt til að huga að flutningi opinberra stofnana og með fjölgun opinberra starfa til Suðurnesja, sem lið í þessari ráðstöfun.  Jafnframt er ríkisvaldið hvatt til að huga vel að allri áætlanagerð m.a. uppbyggingu raforkumannvirkja, samgangna og fl. í tengslum við framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum.  Atvinnuleysi á Suðurnesjum er mest á landsvísu því er mikil þörf fyrir uppbyggingu nýrra starfa á svæðinu.  Fundurinn krefst þess að ríkisvaldið leggist á árarnar með sveitarstjórnarmönnum og öðrum hagsmunaaðilum og stuðli að því að ný atvinnutækifæri verði til á Suðurnesjum.
Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina. Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson og lagði fram breytingatillögu, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir og lagði fram breytingatillögu.

Fundarstjóri bar upp tillögu Kjartans Más og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu.  Þá bar fundarstjóri upp tillögu Hólmfríðar og  var hún  samþykkt samhljóða. Fundarstjóri bara upp ályktunina með áorðnum breytingum og var hún samþykkt samhljóða.

Tillaga um samráðsvettvang.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2014
38. aðalfundur S.S.S. haldinn í Tjarnarsal, Stóru-Vogaskóla, Svf. Vogum,
föstudaginn 12. september og laugardaginn 13. september 2014.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga haldinn í Tjarnarsal, Stóru-Vogaskóla, Svf. Vogum, 12.-13. september 2014 samþykkir að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum standi að stofnun Samráðsvettvangs um aukna hagsæld á Suðurnesjum.  Samráðsvettvangur um aukna hagsæld á Suðurnesjum verði þverpólitískur og þverfaglegur vettvangur sem ætlað er að stuðla að heildstæðri og málefnalegri umræðu um leiðir til að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið.
Í samráðsvettvanginum sitja oddvitar allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti í sveitarstjórnum á Suðurnesjum, helstu hagsmunasamtök launþega og atvinnurekenda, fulltrúar samfélagsins og stjórnendur fyrirtækja úr ýmsum atvinnugreinum.
Meginmarkmið samráðsvettvangsins:
Samráðsvettvanginum er ætlað að stuðla að heildstæðri og uppbygglegri umræðu um leiðir til að tryggja hagsæld á Reykjanesi til lengri tíma litið.  Í því felst að:
• Skapa þverpólitískan umræðuvettvang fyrir framsýna og málefnadrifna umræðu um viðfangsefnið.
• Móta heildstætt og óháð yfirlit yfir aðgerðir sem geta stuðlað að langtímahagvexti og efnahagslegum stöðugleika.
• Fjalla um þau skilyrði og ákvarðanir sem þörf er á til að hægt sé að hrinda viðkomandi aðgerðum í framkvæmd.

Sign:
Kristinn Jakobsson  Reykjanesbær
Guðmundur Skúlason  Sandgerðisbæ
Daði Bergþórs   Sandgerðisbæ
Jóngeir H. Hlinason  Vogar
Páll J. Pálsson   Grindavík
Ásrún H. Kristinsd.  Grindavík
Fundarstjóri gaf orðið laust um tillöguna. Til máls tók Kristinn Þór Jakobsson, Páll Jóhann Pálsson, Einar Jón Pálsson, Kristinn Þór Jakobsson, Friðjón Einarsson, Kristín María Birgisdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Einar Jón Pálsson.
Fundarstjóri bar upp breytingartillögu um að vísa tillögunni til stjórnar og var það samþykkt með öllum atkvæðum gegn einu.

17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
Reykjanesbær:
Aðalmaður:  Gunnar Þórarinsson
Varamaður:  Guðbrandur Einarsson
Grindavíkurbær:
Aðalmaður:  Guðmundur L. Pálsson
Varamaður:  Hjálmar Hallgrímsson
Sandgerðisbær:
Aðalmaður:  Ólafur Þór Ólafsson
Varamaður: Hólmfríður Skarphéðinsdóttir
Sveitarfélagið Garður:
Aðalmaður:  Einar Jón Pálsson
Varamaður:  Jónína Magnúsdóttir
Sveitarfélagið Vogar:
Aðalmaður: Ingþór Guðmundsson
Varamaður:  Birgir Örn Ólafsson

18. Kosning endurskoðendafyrirtækis.
Tillaga frá stjórn sambandsins.

38. aðalfundur S.S.S. samþykkir að leggja til við stjórn S.S.S. að efnt verði til útboðs um endurskoðun á reikningum sambandsins og aðildar fyrirtækjum þess og samið við lægstbjóðanda á grundvelli þess tilboðs. Lagt er til að Deloitte verði kjörið endurskoðunarfyrirtæki til næsta aðalfundar.
Fundarstjóri gaf orðið laust um tillöguna. Engin óskað eftir að taka til máls. Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

19. Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.
Lagt er til að þóknun til stjórnarmanna S.S.S. verði sem hér segir;
Formaður stjórnar 4,5% af þingfararkaupi eða kr. 29.315,- fyrir hvern fund.
Aðrir stjórnarmenn 3% af þingfararkaupi eða kr. 19.543,- fyrir hvern fund.
Fundarstjóri gaf orðið laust um tillöguna. Engin óskaði eftir að taka til máls. Tillagan var samþykkt samhljóða.

20. Fundarslit.
Til máls tók Ásgeir Eiríksson formaður stjórnar,  hann þakkaði fundarstjórum og öðru starfsfólki fundarins,  fyrir þeirra  störf og  fundarmönnum fyrir góðan málefnalegan fund. Hann þakkaði félögum sínum í stjórninni fyrir ákaflega gott samstarf en hann er nú að ganga úr stjórn. Að lokum lýsti formaður ánægju sinni með hvað fundurinn tók á mörgum og mikilvægum málefnum og sleit fundi kl. 17.00.

Björk Guðjónsdóttir, fundarskrifari aðalfundar.

0 Comments

There are no comments yet

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *