786. stjórnarfundur SSS 8. febrúar 2023 - SSS

786. stjórnarfundur SSS 8. febrúar 2023

Prenta

Árið 2023, er fundur haldinn í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum miðvikudaginn 8. febrúar, kl. 8:00 í fundarsal Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Skógarbraut 945, 262 Reykjanesbæ.

Mætt eru: Friðjón Einarsson, Anton Kristinn Guðmundsson, Björn G. Sæbjörnsson, Sverrir Auðunsson og Berglind Kristinsdóttir sem jafnframt ritaði fundargerð.

hans.

Friðjón Einarsson formaður stjórnar setti fund og bauð fundarmenn velkomna á fundinn.

Dagskrá:

  1. Undirbúningur vegna vetrarfundar S.S.S.

a) Kostir og gallar sameiningarstjórna SSS og Heklunnar. Gestur fundarins

Magnús Stefánsson formaður stjórnar Heklunnar.

Stjórn og formaður stjórnar Heklunnar ræddu kosti og galla sameiningar þessara tveggja stjórnar. Framkvæmdastjóra og formanni falið að leggja drög að kynningu og senda á stjórn, sem og að fá tilboð í ráðgjöf vegna vinnunnar.

b)Undirbúningur vegna annarra dagskráliða.

Ákveðið er að halda fundinn föstudaginn 17. mars og fundurinn verður haldinn á Courtyard Marriott. Vegagerðin hefur staðfest erindi á fundinum en unnið er að því að fá kynningu á vinnu starfshóps um stöðu raforkuöryggis á Suðurnesjum og tillögum hans til úrbóta. Einnig hefur verið óskað eftir kynningu frá Kölku vegna sorphirðumála.

2. Boðun á 38. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga verður haldið föstudaginn 31. mars. Landsþingið verður haldið á Grand hótel í Reykjavík og hefst það kl. 10:00.

3. Starfsmannamál.

Tveir starfsmenn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum munu hætta störfum í apríl/maí á þessu ári sökum aldurs, þær Ásta M. Jónsdóttir og Laufey A. Kristjánsdóttir. Framkvæmdastjóri mun á næstu dögum auglýsa störf móttökuritara og bókara.

Stjórn S.S.S. þakkar þeim fyrir vel unnin störf og ánægjulegt samstarf í gegnum árin.

4. Sóknaráætlun Suðurnesja framlög 2023. Tölvupóstur dags. 12. janúar 2023 frá Innviðaráðuneytinu.

Skipting framlaga til sóknaráætlana milli landshluta árið 2023

a)Úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóð.

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja hefur úthlutað styrkjum fyrir árið 2023. Auglýst var eftir styrkumsóknum í byrjun október og var opið fyrir umsóknir til 10. nóvember.

Alls bárust sjóðnum 80 umsóknir og hljóðuðu styrkbeiðnir upp á tæplega 220 milljónir króna. Umsóknum fjölgaði um 35% á milli ára sem er afar ánægjulegt. Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs úthlutaði 48.000.000 til 40 verkefna.

Skiptingin milli flokka var eftirfarandi:

  • Verkefni í flokknum stofn og rekstur fá úthlutað 6.300.000. kr.
  • Verkefni í flokknum menning og listir fá úthlutað 19.300.000. kr.
  • Verkefni í flokknum atvinna- og nýsköpun fá úthlutað 22.400.000. kr.
  • Menningarverkefnið Safnahelgi á Suðurnesjum er með þriggja ára samning og fær nú úthlutað annað árið af samningnum eða kr. 3.000.000.

Stjórn S.S.S. óskar styrkþegum til hamingju.

b) Áhersluverkefni 2023. Búið er að úthluta 32,1 mkr. í áhersluverkefni til lengri tíma en enn á eftir að úthluta í ný verkefni fyrir árið 2023 rúmlega 20 mkr. Framkvæmdastjóra falið að leggja fram tillögur að nýjum verkefnum fyrir næsta funda stjórnar.

5. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja – fjármál.

Skuld Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja við S.S.S. var kr. 51.968.319 um síðustu áramót. Stjórnin ræddi hvort hægt væri að greiða skuldina beint upp til S.S.S. næstu 2 árum. Framkvæmdastjóra falið að taka saman upplýsingar og senda til stjórnar.

6. Fundargerð Heklunnar nr. 91, dags. 27.01.2023.

Lögð fram. Stjórn S.S.S. felur framkvæmdastjóra að bjóða forsvarsmanni VMST á Suðurnesjum á fund stjórnar í apríl.

7. Önnur mál.

Rætt var um hvenær ársreikningur S.S.S. 2022 væri tilbúinn til undirritunar en sökum breytingu á 20. gr. reglugerðar nr. 1212/2015, þar sem kveðið er á um að byggðasamlög, sameignarfélög, sameignarfyrirtæki og önnur félagaform sem eru með ótakmarkaðri ábyrgð sveitarfélags, skuli færð inn í samantekin reikningsskil sveitarfélags miðað við hlutfallslega ábyrgð sveitarfélags. Stefnt er að því að drög að ársreikningi verði tilbúin fyrir næsta stjórnarfund, 8. mars.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:05.