Samfélagsgreining - SSS

Samfélagsgreining

Prenta

Gerður hefur verið samningur við Hagstofu Ísland þar sem samfélagsleg áhrif fólksfjölgunar á vaxtasvæði Suðurnesja verða greind. Með þessari vinnu verður unnt að gera stefnumótunarvinnu svæðisins enn skilvirkari, markvissari og heildstæðari og skilningur á samfélagsþróun Suðurnesja verður aukinn. Upplýsingarnar gefa jafnframt tækifæri til þess að skoða áhrif og meta afleiðingar íbúaþróunar á svæðinu á samfélagið í heild.

Verkefnið snýr að greiningu á samfélagsþróun Suðurnesja tíu ár aftur í tímann. Greiningin snýr að víðtækri íbúagreiningu út frá uppruna, fjölskyldugerð og -stærð, tekjutegundum (launatekjur, fjárhagsaðstoð, bætur frá Tryggingastofnun, atvinnuleysisbætur), menntunarstöðu og búsetutíma á svæðinu. Allar breytur verða greindar út frá fimm ára aldursbilum og aldursskeiðum, þ.e. börn, fullorðnir og eldri borgarar, kyni, ríkisfangi og uppruna. Samið hefur verið um skil á gögnum einu sinni á ári frá 2020 til 2024, samtals fimm sinnum.

Annars vegar verður gerð greining fyrir Suðurnesin í heild, þ.e. fyrir sveitarfélögin Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Voga og Grindavík saman og hins vegar fyrir Reykjanesbæ sérstaklega og önnur sveitarfélög á Suðurnesjum, þar sem því verður við komið út frá gagnsæi greiningarinnar miðað við íbúafjölda.

Starfandi er starfshópur á Suðurnesjum, skipaður fulltrúum allra sveitarfélaganna og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Verkefni hópsins er að fjalla um síðari hluta aðgerðarinnar er snýr að viðhorfs- og þátttökugreiningu og vinna saman að sameiginlegum skilningi verkefnisins.

Verkefnið skiptist í þrjá hluta þar sem gert er ráð fyrir greiningu á stöðu þekkingar og niðurstöðum rannsókna síðustu tveggja ára, könnun á viðhorfi til samfélagsins og á félagslegri þátttöku íbúa svæðisins og að lokum verði farið í rýnihópagreiningar með íbúum svæðisins.

Skoða gögn