fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

EGN ráðstefna á Íslandi

Dagana 2.-4. október 2024 verður haldin alþjóðleg ráðstefna evrópskra jarðvanga í Reykjanesbæ. Nú þegar hafa hátt í 300 erlendir gestir skráð sig á ráðstefnuna en reiknað er með að allt að 400 gestir sæki ráðstefnuna.

Ráðstefnan fer fram að mestu í Hljómahöll 2. og 3. október, þar sem fara fram hátt í 200 kynningar og vinnustofur með fulltrúum háskóla og jarðvanga um alla Evrópu. Á þessum tveimur dögum gefst gestum tækifæri á að kynnast fjölbreyttum verkefnum jarðvanga sem meðal annars snúa að jarðfræði, verndun náttúruminja, rannsóknum, menntun og fræðslu, ferðaþjónustu, menningu og samfélagsþróun.

Seinnipartinn 2. október verður opið hús í Duushúsum þar sem jarðvangar í Evrópu kynna svæðin sín og íbúum á Reykjanesi, gestum og gangandi gefst tækifæri á að kynnast því sem svæðin hafa uppá að bjóða í ferðaþjónustu, mat og fleira. 

Þann 4. október verður gestum boðið uppá nokkrar ferðir um Reykjanesið, þar sem þau fá að kynnast náttúru, atvinnulífi, menningu og fræðslumálum á svæðinu. 

Yfir ráðstefnudagana er lögð áhersla á að gestir fái að kynnast því sem Reykjanesið hefur uppá að bjóða. Þannig eru lagt upp með að veitingar komi frá þjónustuaðilum á svæðinu, gestir og fjölskyldur þeirra gista á svæðinu og þau fái tækifæri til að skoða sig um og versla við þjónustuaðila okkar á meðan á dvöl þeirra stendur. 

Við hvetum ykkur til að fylgist með þegar dagskráin verður kynnt frekar og taka þátt, en upplýsingar um ráðstefnuna og fleira má finna inn á vefslóðinni www.egn2024.is