Hringrásarhagkerfið

Hringrásarhagkerfið
Mannfólki fylgir mikil neysla og oft mikið rusl eða dót sem fólk er hætt að nota.
Markmiðið með hringrásarhagkerfi er að draga úr notkun hráefna, auka líftíma auðlinda jarðar og koma í veg fyrir að efni og hlutir hverfi úr hagkerfinu og endi sem úrgangur.
Eftirfarandi atriði má hafa í huga til að hver hlutur sé lengur í notkun:
- Deila með öðrum
- Gera við það sem bilar
- Endurnýta
- Endurframleiða eða uppvinna (breyta hlutnum til að auka verðmæti hans)
- Endurvinna – flokka úrganginn okkar rétt þannig meiri líkur séu á því að hægt sé að endurvinna allt nýtilegt
Á heimasíðu Úrvinnslusjóðs er hægt er að finna gagnlegar upplýsingar um hringrásarhagkerfið og góðar útskýringar á hugtökum.
Deilihagkerfið
Ef betur er að gáð má víða í samfélaginu okkar finna deilihagkerfi, sem stuðla að því að allir þurfi ekki að eiga allt, heldur má fá margt að láni eða leigt einmitt þegar þarf að nota það. Hér eru dæmi um nokkra slíka staði innan Reykjanes jarðvangs:
Bókasöfn eru stór hluti af deilihagkerfinu. Á bókasöfnum má meðal annars fá lánað:
- Bækur
- Tímarit og dagblöð
- Spil
- DVD diska
- DVD spilara
- Kökuform
- Veislukassa
- Saumavélar
Bókasöfn má finna í öllum sveitarfélögum og svo eru skólabókasöfn í flestum grunnskólum.
Bókasafn Reykjanesbæjar er staðsett bæði í Hljómahöll (Aðalsafn) og í Stapaskóla (Stapasafn) – nánari upplýsingar um safnkost, viðburði og opnunartíma má finna á heimasíðunni.
Bókasafn Suðurnesjabæjar er staðsett á Skólastræti í Sandgerði – nánari upplýsingar um opnunartíma ofl má finna á heimasíðunni.
Bókasafn Stóru- Vogaskóla og Lestrarfélagið Baldur má finna á Tjarnargötu 2 í Vogum – nánari upplýsingar um opnunartíma ofl má finna á heimasíðunni.
Tækjaleigur má finna víða og því ekki þörf fyrir okkur öll að eiga öll heimsins verkfæri og stórar græjur.
Byko leiga er með mikið úrval af iðnaðartækjum og hægt er að leigja tækið sem þig vantar í hvaða verslun Byko sem er, líka hér á Suðurnesjum. Þar að auki er fagverslun Byko í Hafnarfirði, þar sem hægt er að leigja stærri hluti eins og steypumót, vinnupalla og stærri tæki.
Húsasmiðjan er með áhaldaleigu þar sem hægt er að leigja t.d. kerrur og verkfæri. Þessi þjónusta er í boði um allt land.
Lyfta.is er með ýmis tæki til leigu, t.d. vinnulyftur, skotbómulyftara og jarðvinnutæki. Fyrirtækið er staðsett í Reykjanesbæ.
Hopp er fyrirtæki sem leigir bæði út rafskútur og hlaupahjól. Hér er sjálfbær samgöngulausn sem gerir okkur kleift að ferðast á milli staða án teljandi kolefnisfótspors.
Endurnýting
Innan Reykjanes jarðvangs má finna fjölbreyttar leiðir til að koma t.d. hlutum, fötum og húsgögnum áfram í notkun. Hér má fræðast nánar um þau tækifæri sem felast í því að gefa dótinu þínu framhaldslíf með réttu aðferðunum.
Nytjamarkaðir – textíll
Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að offramleiðsla á fatnaði og textíl er að verða risavaxið vandamál í heiminum. Flest föt sem framleidd eru í dag eru brennd eða lenda í landfyllingu. Þar að auki er mikið magn af efnum notað við framleiðslu textíls, til að ná fram ákveðnum eiginleikum, t.d. lit, áferð, mýkt og vatnsheldni. Þessi efni eru sjaldan umhverfisvæn og vinnan við þau heilsuspillandi. Núorðið er talað um háhraða tískuiðnað, sem býður upp á hraðari og lélegri framleiðslu á fatnaði, ásamt örari endurnýjun í verslunum – slíkar flíkur eru oft seldar ódýrt og endast illa. Hólmfríður Jennýar Árnadóttir fer yfir þessi mál í greininni „Vandar þú valið við fatakaup„. Eftir að hafa farið vel yfir stöðuna í dag dregur hún fram lykilatriðin sem eru að kaupa minna af fötum, gjarnan notuð föt og nýta hverja flík betur. Það rímar alveg við þær upplýsingar sem má finna inni á heimasíðunni „Saman gegn sóun“ þar sem skilaboðin eru þessi:
Af þessu má sjá að það að „þrifta“ (e. thrifting), þ.e. að temja sér að kaupa notaðar vörur, er skemmtilegur, spennandi, umhverfisvænn lífstíll og hefur í för með sér mikinn ávinning fyrir bæði veskið og umhverfið. Mikilvægt er að nýta þær leiðir sem eru til í nærumhverfi okkar innan Reykjanes jarðvangs. Hér eru nokkrir staðir sem gott er að þekkja til:
Rauði krossinn á Suðurnesjum starfrækir fataverslun á Smiðjuvöllum 9 í Reykjanesbæ.
Fataverslunin er mikilvæg fjáröflunarleið fyrir Rauða krossinn. Með því að versla í Rauðakrossbúðunum styrkir þú mannúðarverkefni Rauða krossins um leið og þú leggur þitt af mörkum að draga úr skaðlegum umhverfisáhrifum. Endurnýting á fatnaði og öðrum textíl er mikilvægur hlekkur í hringrásarhagkerfinu og dregur úr urðun og offramleiðslu. Með vaxandi umhverfisvitund er almenningur opnari fyrir endurnýtingu og fólk almennt duglegra en áður að versla hjá okkur. Rauði krossinn á Íslandi hefur um langt árabil verið leiðandi í söfnun á notuðum textíl til endurnýtingar innanlands.
Núna stendur yfir endurskipulagning á textílsöfnunarkerfinu á Suðurnesjum og vinnur Kalka að því að setja upp söfnunargáma fyrir textíl á grenndarstöðvum. Allur textíll sem fer í söfnunargáma á grenndarstöðvum eða hjá Kölku er flokkaður en ekki hent í ljósi nýrra hringrásarlaga. Rauði krossinn á Suðurnesjum tekur aðeins við heilum og hreinum textíl, skóm og fylgihlutum til endursölu og neyðaraðstoðar. Hægt er að koma því til okkar á opnunartíma fataverslunarinnar. Annað þarf að fara með í Kölku.
Rauði krossinn vill þakka íbúum á Suðurnesjum fyrir sitt framlag bæði með að gefa okkur fatnað og að versla við okkur.
Fjölskylduhjálp Íslands rekur Ótrúlegu búðina við Baldursgötu 14 í Keflavík.
Í Ótrúlegu búðinni má kaupa föt, bæði notuð og ný. Þar má líka finna ýmsa smáhluti, leikföng, eldhúsdót og allskonar vörur. Fjölskylduhjálp tekur við bæði fötum og smáhlutum og kemur því aftur í sölu. Starfsfólk hvetur alla íbúa til að nýta sér verslunina, með því að versla þar fatnað og dót á góðu verði er samtímis verið að styðja við starfsemi fjölskylduhjálpar.
„Fjölskylduhjálp Íslands þakkar fyrir stuðning og velvild sem skiptir sköpum í þeirra verkefnum.“
Hertex Reykjanesbæ er verslun með notuð föt á vegum Hjálpræðishersins. Verslunin er staðsett á Flugvallarbraut 730 á Ásbrú.
Hjá Hertex má kaupa notaðan fatnað og aukahluti. Með því að endurnýta og gefa gömlum hlutum nýtt líf, gefst fólki kostur á að gera góð kaup ásamt því að styrkja gott málefni. Hertex tekur við notuðum fötum og kemur þeim áfram í umferð, bæði má koma með fatnað og aðrar vörur í verslunina en einnig má finna nytjagám fyrir utan búðina.
„Án ykkar aðstoðar væri Hertex ekki starfandi.“
Víkurbásar er staður þar sem einstaklingar geta leigt sér bás til að selja notaðar en heillegar vörur fyrir börn og fullorðna. Verslunin er staðsett á Njarðarbraut 9 í Njarðvík.
Það getur verið spennandi að heimsækja Víkurbása reglulega og gera góð kaup – oft hægt að finna þar gersemar og gagnlega hluti fyrir lítinn pening.
„Hugum að umhverfinu, gefum hlutunum okkar nýtt upphaf“
Almennt góð ráð um endurnýtingu á textíl:
- Reglum samkvæmt er ekki heimilt að henda textíl í ruslið
- Föt þurfa að vera hrein þegar þau eru gefin áfram
- Setjum ónýt föt og textíl í sér poka og merkjum „ónýtt“, það sparar fólkinu sem flokkar mikinn tíma
- Nýtum okkur nytjamarkaði til að versla eins oft og við getum
- Nýtum okkur skapandi hugsun, er hægt að breyta flíkinni eða hlutnum?
- Látum fatapokann ganga á milli fjölskyldu, vina og jafnvel einn hring á vinnustaðnum, áður en hann er gefinn annað
- Kaupum færri föt en veljum meiri gæði í hverri flík
Nytjamarkaðir – hlutir
Líf okkar flestra er fullt af hlutum og dóti, sumt á sér langa sögu en sumir hlutir koma og fara frekar hratt.
Fjölsmiðjan / Kompan er nytjamarkaður með húsgögn, raftæki, húsbúnað, leikföng og ýmiskonar smádót. Verslunin er staðsett á Smiðjuvöllum 5 í Keflavík. Þar er tekið á móti heillegum hlutum sem hægt er að selja aftur á hóflegu verði og er upplagður staður til að gera góð kaup.
Maniolo heimilistæki er verslun á Njarðarbraut 3 í Njarðvík. Þar er hægt að kaupa notuð uppgerð heimilistæki, yfirleitt er mest úrval af þvottavélum og þurrkurum. Hægt er að hafa samband við þau og bjóða þeim heimilistæki sem á að skipta út, þau meta það þá hvort þau vilji sækja tækið og selja það.
Almennt góð ráð um endurnýtingu á hlutum og húsbúnaði:
- Reynum að laga hluti sem bila
- Nýtum okkur sölusíður og „gefins“ auglýsingar
- Bjóðum öðrum hluti áður en við losum okkur við þá
- Fylgjum leiðbeiningum nytjamarkaða um hvernig best er að gefa hluti þangað
- Skiljum ekki nothæfa hluti eftir utandyra, þá eyðileggjast þeir oft
- Kaupum minna og veljum gæði fram yfir magn
Uppvinnsla
Eitt af því sem við getum gert til að sporna við ofneyslu, er að hugsa á skapandi hátt hvernig gefa má hlutum framhaldslíf, jafnvel með alveg nýju hlutverki. Á ensku kallast þetta „upcycling“ en hefur stundum verið þýtt sem „uppvinnsla“ á íslensku. Með þessu móti er einn hlutur eða fleiri notaðir til að hanna og skapa eitthvað sem hefur meira virði en upphaflegi hluturinn, sem jafnvel var á leið í ruslið.
Dæmi um uppvinnslu:
- Tromla úr ónýtri þvottavél notuð sem eldstæði í garðinum
- Skúffur úr kommóðu nýttar sem blómaker
- Rimlarúmi breytt í bekkjarrólu á sólpallinn
- Vörubrettum breytt í húsgögn eða aðra gagnlega hluti
- Á Pintarest má finna ótal hugmyndir að uppvinnslu og víðar á alnetinu
Vefsíðan Upcycling education er afurð frá Evrópuverkefni sem Reykjanes jarðvangur var þátttakandi í, þar má finna ýmsar góðar upplýsingar og hugmyndir að uppvinnslu. Margt getur nýst í skólastarfi eða í vinnu með börnum, en sumar hugmyndirnar nýtast venjulegu fólki sem kýs að hugsa á skapandi hátt um það hráefni sem verður á vegi þess.