fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Reglur og leiðbeiningar

Við hvetjum umsækjendur til þess að hefja umsóknarvinnuna tímanlega en þannig verður auðveldara að fá ráðgjöf og yfirlestur á umsóknum frá ráðgjöfum. Góður undirbúningur gefur af sér betri umsókn sem á meiri líkur á að fá jákvæða afgreiðslu.

Reglur Uppbyggingarsjóðs

Úthlutunarreglur Uppbyggingarsjóðs Sóknaráætlunar Suðurnesja  2020-2024:

1. Tilgangur Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Suðurnesjum.  Uppbyggingarsjóður Suðurnesja er samkeppnissjóður.

Auglýst er opinberlega eftir umsóknum og þær metnar út frá markmiðum og áherslum sem fram koma í Sóknaráætlun Suðurnesja 2020-2024 og eftir reglum þessum.

2. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum skipar 8 manna úthlutunarnefnd uppbyggingarsjóðs. Þeir sem sitja í úthlutunarnefnd skulu gæta að hæfisreglum við ákvarðanatöku og víkja sæti ef fyrirliggjandi aðstæður eru til þess fallnar að draga úr trú á óhlutdrægni við val á verkefnum. Við mat á vanhæfi skal hafa til hliðsjónar ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

3. Starfsmaður Atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar í umboði stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sér um að auglýsa eftir umsóknum ganga frá þeim í hendur úthlutunarnefndar  og sjá um samskipti við styrkþega og eftirfylgni verkefna.

Almennt

1. Auglýsa skal eftir umsóknum og úthluta að lágmarki einu sinni á ári. Heimilt er að auglýsa eftir umsóknum tvisvar sinnum á ári ef ástæða þykir til. Miða skal við að á hverju ári sé úthlutað öllu árlegu fjármagni sjóðsins. Birta skal opinberlega lista yfir þau verkefni sem hljóta stuðning frá Uppbyggingarsjóðnum, upphæð fjárstuðnings og heildarkostnað verkefnis.

2. Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Uppbyggingarsjóðs. Þeim skal skila með rafrænum hætti skv. leiðbeiningum á umsóknareyðublaði sem hægt er að nálgast á heimasíðu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum www.sss.is.  Umsókn skal vera skýr og vel unnin.

3. Þeir geta sótt um í Uppbyggingarsjóð sem eru lögráða einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Suðurnesjum. Stofnanir, opinber hlutafélög og samtök í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga skulu að jafnaði ekki vera leiðandi aðili í verkefnum styrktum af Uppbyggingarsjóði.

4. Umsækjendur um stofn- og rekstarstyrki skulu vera lögaðilar á sviði menningarmála.

5. Umsækjendur skulu sýna fram á að minnsta kosti 50% mótframlag á móti styrkjum sjóðsins. Gera þarf grein fyrir því hvers eðlis mótframlagið er (vinnuframlag eða fjármagn) . Umsækjendur verða að geta sýnt fram á fleiri fjárhagslega bakhjarla en uppbyggingarsjóð.

6. Umsækjandi skal að jafnaði hafa gengið frá lokaskýrslu vegna fyrri styrks áður en sótt er um styrk til framhalds verkefnis.

7. Umsækjandi ábyrgist að fullnægjandi leyfi séu fyrir framkvæmd verkefnis og notkun heimilda ef þarf, sem og öðrum þáttum verkefnis.

8. Lögð er áhersla á að verkefni sem sótt er um styrk til skulu unnin innan árs frá samþykkt úthlutunar. Þó er mögulegt að sækja um styrk til verkefna sem taka lengri tíma. Í lokaskýrslu þurfa að koma fram upplýsingar um framvindu og árangur borið saman við áætlanir í umsókninni og skilmála samnings. Ef úthlutun er lægri en sú fjárhæð sem um er sótt, má taka tillit til þess við mat á framvindu og árangri verkefnisins.  Framvindu- og lokaskýrsla skulu vera á eyðublöðum Uppbyggingarsjóðs.

9. Í umsókn þurfa að lágmarki að koma fram eftirfarandi upplýsingar:

  • Markmið og hvernig verkefnið styður við sóknaráætlun Suðurnesja og
  • úthlutunarreglur Uppbyggingarsjóðs.
  • Verklýsing og tímasett verkáætlun (kostnaðar- og fjármögnunaráætlun þ.m.t.).
  • Árangur sem stefnt er að með verkefninu.
  • Hver eru sameiginleg markmið umsækjenda (ef það á við).

Greiðsla styrkja:

  • Uppbyggingarsjóður gerir samning við styrkþega áður en greiðslur hefjast. Styrkir  greiðist að jafnaði út eftir skilmálum samnings, framvindu verkefnis og framlögðum reikningum.
  • Styrkvilyrði að fjárhæð 500.000 krónum eða lægri, má greiða í tvennu lagi. Fyrri hlutann allt að 50%, er heimilt að greiða við upphaf verkefnis ef styrkþegi óskar þess. Lokagreiðsla fer fram þegar verkefninu er lokið og styrkhafi hefur skilað fullnægjandi lokaskýrslu.
  • Styrkvilyrði hærri en 500.000 krónur greiðast út eftir framvindu verkefnis og skil á áfangskýrslu. Við undirritun samnings og upphaf verkefnis er þó heimilt að greiða allt að 20% samningsupphæðar. Heimilt er að greiða allt að 60% styrkupphæðar við skil á framvinduskýrslum. Lokagreiðsla fer fram að verkefni loknu þegar styrkhafi hefur skilað fullnægjandi lokaskýrslu.
  • Framvindu- og lokaskýrslu skal skilað á sérstökum eyðublöðum Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja sem finna má á heimasíðu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum www.sss.is.

Áherslur Uppbyggingarsjóðs.

1. Sóknaráætlun. Verkefni þarf að stuðla að framgangi Sóknaráætlunar Suðurnesja.

2. Samstarf. Æskilegt er að fleiri en tveir þátttakendur  standi að baki hverrar umsóknar (samstafsaðilar). Mikilvægt er að fram komi hvernig samstarfið mun gagnast verkefninu. Þetta á þó ekki við minni menningarverkefni.

3. Aðkoma fræðastofnana: Samstarf við háskóla, rannsókna- eða fræðastofnanir skal teljast umsóknum til tekna, sé verkefnið þess eðlis.

4. Vaxtarmöguleikar: Stuðlar verkefnið að nýsköpun og atvinnuþróun í landshlutanum. Er líklegt að verkefnið haldi áfram eftir að stuðningi líkur.  Skapast störf á verktímanum.

5. Samfélagsleg áhrif/virði. Er verkefnið líklegt til að hafa jákvæð samfélagsleg áhrif. Eflir verkefnið samstarf á Suðurnesjum á sviði menningar og ferðaþjónustu.

Styrkhæfur kostnaður

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja tekur þátt í fjármögnun styrkhæfs kostnaðar. Styrkhæfur kostnaður skal koma fram í umsókn um stuðning. Hér að neðan fylgja dæmi um styrkhæfan kostnað.

1. Laun og launatengd gjöld. Aðeins verður tekinn til greina sá tími sem unnin er í verkefninu. Launakostnaður miðast við útborguð laun að viðbættum launatengdum gjöldum. Til hliðsjónar skulu vera almennir kjarasamningar og stofnanasamningar. Ekki er hægt að nota útseldan taxta til viðmiðunar við útreikning launa.

2. Ferða- og fundakostnaður. Gerð skal grein fyrir öllum ferðum bæði utanlands og innanlands, hver sé tilgangur ferðanna, hvert verði farið og áætlun um ferðakostnað. Leitast skal við að velja sem ódýrastan og umhverfisvænan ferðamáta.

3. Aðföng. Lýsa þarf í umsókn hvers konar aðföng eru nauðsynleg fyrir verkefnið.

4. Búnaður. Heimilt er að kaupa sérhæfðan búnað sem nauðsynlegur er fyrir framgang verkefnisins.

5. Aðkeypt þjónusta. Í umsókn skal lýsa aðkeyptri þjónustu (t.d. verktakagreiðslur) og af hverjum þjónustan verður keypt. Gera á grein fyrir hvað felst í hinni aðkeyptu þjónustu eða ráðgjöf, hvað þjónustan mun kosta, hver er hinn skilgreindi afrakstur og hverjir afgreiðsluskilmálarnir verða.

Uppbyggingarsjóður fjármagnar ekki:

1. Fjárfestingar í fyrirtækjum, kaup á lóðum eða húsnæði.

2. Skráningar menningarminja (en undantekning getur verið á áhugamannafélögum og minjafélögum), starfsemi íþróttafélaga, bæjarhátíðir eða almennar samkomur (sbr. sýningar án skilgreindrar sérstöðu),  almenn bókaútgáfa (en undantekning getur verið á sértækum bókaútgáfum sem tengjast svæðinu) , safnaðarstarf og hefðbundið menningarstarf innan skóla. Ekki eru veittir styrkir til lokaverkefna í skólum né til námsgagnagerðar.

3. Kostnað sem fallið hefur til áður en umsókn var samþykkt af úthlutunarnefnd er ekki styrkhæfur.

4. Uppbyggingarsjóður Suðurnesja styrkir ekki verkefni eða umsækjanda aftur fyrr en búið að er skila framvinduskýrslu um umrætt verkefni áður en lokað er fyrir umsóknir fyrir næstu úthlutun. Sama á einnig við um ný verkefni, þ.e.a.s. umsækjandi þarf að vera búinn að skila inn framvinduskýrslu fyrir eldra verkefni áður en hægt er að sækja um.

Hér koma leiðbeiningar

Hvar sæki ég um?

Umsóknarfrestur er einu sinni á ári, í október-nóvember, og er sótt um í gegnum umsóknargátt á vefslóðinni soknaraaetlun.is þar sem þú velur Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þar ertu beðinn um að auðkenna þig með rafrænum skilríkjum og eftir það getur þú stofnað nýja umsókn á þinni kennitölu. Ef þú sækir um fyrir hönd félags eða fyrirtækis þarftu að skrá þig inn með þeirra kennitölu.

Umsækjendur skulu vera lögráða einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir eða sveitarfélög á Suðurnesjum.

Hvað er styrkt?

Styrkt eru verkefni sem styðja við Sóknaráætlun Suðurnesja og efla menningu og atvinnu og nýsköpun á Suðurnesjum. Uppbyggingarsjóður styrkir að jafnaði ekki meira en 50% af styrkhæfum heildarkostnaði verkefnisins. Veittir eru styrkir í eftirfarandi þremur flokkum:

  • Verkefnastyrkir á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar
  • Verkefnastyrkir á sviði menningar
  • Stofn- og rekstrarstyrkir á sviði menningar

Styrkhæfur kostnaður er t.a.m. laun og launatengd gjöld, ferða og fundakostnaður, aðföng, sérhæfður búnaður sem er nauðsynlegur fyrir framgang verkefnisins og aðkeypt þjónusta, en aðeins fyrir það verkefni eða verkþátt sem sótt erum.

Hvað er ekki styrkt?

Fjárfestingar í fyrirtækjum, kaup á lóðum eða húsnæði.

Skráningar menningarminja (en undantekning getur verið á áhugamannafélögum og minjafélögum), starfsemi íþróttafélaga, bæjarhátíðir eða almennar samkomur (sbr. sýningar án skilgreindrar sérstöðu),  almenn bókaútgáfa (en undantekning getur verið á sértækum bókaútgáfum sem tengjast svæðinu), safnaðarstarf og hefðbundið menningarstarf innan skóla. Ekki eru veittir styrkir til lokaverkefna í skólum né til námsgagnagerðar.

Kostnað sem fallið hefur til áður en umsókn var samþykkt af úthlutunarnefnd er ekki styrkhæfur.

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja styrkir ekki verkefni eða umsækjanda aftur fyrr en búið að er skila framvinduskýrslu um umrætt verkefni áður en lokað er fyrir umsóknir fyrir næstu úthlutun. Sama á einnig við um ný verkefni, þ.e.a.s. umsækjandi þarf að vera búinn að skila inn framvinduskýrslu fyrir eldra verkefni áður en hægt er að sækja um.

Gerð umsóknar

Eftirtalin atriði þurfa að koma fram vð gerð umsóknar:

  • Markmið og hvernig verkefnið styður við sóknaráætlun Suðurnesja
  • Verklýsing og tímasett verkáætlun ásamt kostnaðar- og fjármögnunaráætlun
  • Árangur sem stefnt er að með verkefninu.
  • Önnur fjármögnun verkefnisins á móti styrknum (jafnvel þótt afgreiðsla sé óviss)

Gert er ráð fyrir að verkefnið verði unnin innan árs, hins vegar er hægt að skila inn áfangaskýrslu ef verkefnið er lengra og halda þannig áfram.

Hér má sjá leiðbeiningarmyndband þar sem farið er yfir helstu þætti umsóknarinnar.