Upplýsingar um eldgos og nýr áningarstaður
Í ljósi þess að beðið er eftgir nýju gosi á Reykjanesi vill Markaðsstofa Reykjaness minna á upplýsingar á vefnum visitreykjanes.is þar sem finna má upplýsingar um aðstæður á svæðinu vegna eldgosa, aðgengis og gönguleiða.
Markaðsstofan vinnur að upplýsingamiðlun af svæðinu vegna eldgosa í samstarfi við fjölda aðila þar sem hver hefur ákveðnu hlutverki að gegna, hvort sem það eru Almannavarnir, Lögreglustjóri Suðurnesja, Safetravel, Ferðamálastofa, Veðurstofa, Íslandsstofa og fleiri.
Hlutverk Markaðsstofunnar er að upplýsa aðila í ferðaþjónustu á svæðinu sem og gesti á Reykjanesi um aðstæður með ítarlegum hætti s.s. hvað lokanir á svæðinu þýða og hvaða áhrif þær hafa á aðgengi innan svæðisins.
Upplýsingarnar sem hafa safnast á vefinn eru byggðar á þeim fyrirspurnum sem hafa komið inn á borð til Markaðsstofunnar og ferðaþjónustuaðila, frá gestum og ferðaþjónustuaðilum. Þannig er reynt að svara þeim spurningum sem upp geta komið varðandi aðstæður á svæðinu hverju sinni hvort sem það er eldgos í gangi eða ekki.
Nýr áningastaður á Grindavíkurvegi
Áhugi gesta er mikill við að fá tækifæri til að komast í nálægð við eldgosin og nýlegt hraunið. Við opnun á nýjum veg að Northern lights Inn og Bláa lóninu var ákveðið að gefa gestum tækifæri á stoppa á gamla Grindavíkurveginum í Grenjadal, til að tryggja umferðaröryggi á nýlögðum vegi að Bláa lóninu og Northern Lights Inn. Þar er nú búið að móta svæði fyrir bílastæði og göngusvæði sem gefur fólki tækifæri að sjá öll hraunin sem hafa runnið yfir Grindavíkurveg á síðustu mánuðum.