Matur og matarsóun

Matur og matarsóun
Matur og sjálfbærni tengjast órjúfanlegum böndum. Mataröryggi okkar Íslendinga byggir mjög mikið á því að við séum eins sjálfbær og mögulegt er í því verkefni að fæða alla þjóðina. Matur sem er framleiddur nálægt okkur er mun sjálfbærari en matvæli sem þarf að flytja langar leiðir.
Hér má sjá dæmi um þann mat sem framleiddur er innan Reykjanes jarðvangs. Það gæti verið fleira en þú heldur í fljótu bragði og samt er þetta alls ekki tæmandi listi.
Meira grænmeti
Ein af einföldustu leiðunum til að draga verulega úr kolefnisspori vegna matvæla er einfaldlega að auka hlutfall grænmetis í fæðunni samhliða því að draga úr neyslu dýraafurða.
„Grænkeri á bíl mengar minna en kjötæta á hjóli.“
Árið 2010 gáfu Sameinuðu þjóðirnar út skýrslu þar sem útskýrt var að vestrænar matarvenjur væru ekki sjálfbærar. Þau lýstu áhyggjum yfir að árið 2050 yrði mannfjöldi og kjötneysla hans komin að þolmörkum og að við munum neyðast til að minnka kjötneyslu okkar umtalsvert ef við ætlum að fæða alla jarðarbúa. Hér má lesa meira um það af hverju vegan er betra fyrir umhverfið.
Matarsóun
Eitt af þeim atriðum sem hvað auðveldast er að breyta hjá okkur einstaklingunum er matarsóun. Ef við hvert og eitt vöndum okkur við að bera virðingu fyrir mat og henda eins litlu og mögulegt er, getum við með lítilli fyrirhöfn haft raunveruleg áhrif.
Þriðjungi þeirra matvæla sem framleidd eru á heimsvísu er sóað. Með því að draga úr matarsóun má vernda umhverfið, nýta auðlindir betur og spara fé. Matarsóun er mest inni á heimilium, eða rúmlega 60% af heildarsóuninni. Með því að breyta umgengni okkar við mat getum við dregið verulega úr óþarfa sóun. (Heimild: Saman gegn sóun )
Matarsóun – góð ráð
Hér eru nokkur sniðug ráð sem auðvelt er að tileinka sér til að draga úr matarsóun:
- Settu afganga skipulega í handhægar einingar svo auðvelt sé að grípa þá með sér í nesti.
- Geymdu afganga á sýnilegum stað í ísskápnum.
- Frystu það sem hægt er, safnaðu jafnvel saman í box litlum afgöngum af mat sem hentar að nýta síðar í pastarétt, súpu eða pottrétti.
- Bjóddu fjölskyldu og vinum afganga, eða taktu með á vinnustaðinn.
- Taktu reglulega kaupstopp og nýttu mat úr skápunum, kæligeymslum og frysti, sniðugt til að undirbúa frí eða stórhátíðir.
- Gerðu það að vana að hafa afgangadag amk einu sinni í viku (“tapasdag”) og nota hugmyndaflugið hvernig vinna má úr sem flestum afgöngum vikunnar
- Ef þú ætlar að elda úr hráefninu samdægurs, er gott ráð að kaupa vörur sem eru alveg að renna út. Það er hagkvæmara fyrir þjóðfélagið og stundum eru þær meira að segja á afslætti.
Á síðunni Saman gegn sóun má finna mjög nákvæm og hagnýt ráð um það hvaða skref við getum tekið til að draga úr matarsóun, meðal annars hvernig við getum skipulagt innkaupin, geymsla og eldun matvæla, hvernig við borðum matinn og geymum afgangana – eða gefum þá! Og svo hvernig má vinna lífrænan úrgang í moltu sem er úrvals jarðvegsbætir.
Leiðir til að draga úr matarsóun
- Frískápur Ásbrú er staðsettur á Seljubraut 752 á Ásbrú. Þetta er staður þar sem hægt er að skilja eftir mat sem þú getur ekki nýtt þér. Öllum er velkomið að skilja þar eftir matvæli og taka önnur að vild. Þetta er yfirbyggt rými með hillum, ísskáp og frysti, svo hægt er að gefa bæði kælivöru, frystivöru og þurrvöru. Sniðugt er að setja inn tilkynningu í Facebook hópinn ef þú ert með mikið magn af mat sem þarf að nýta sem fyrst.
- Skólamatur er fyrirtæki sem afgreiðir mörgþúsund máltíðir á hverjum degi innan Reykjanes Jarðvangs. Ef allir vanda sig vel við að setja passlegt magn á diskana og henda þannig minna af mat í hvert sinn, má draga verulega úr matarsóun. Ef einstaklingur sem borðar 20 máltíðir hjá skólamat á mánuði, hendir alltaf ca 50 grömmum í ruslið af diskinum sínum eftir hverja máltíð, er það heilt kíló af vel nýtanlegum mat í hverjum mánuði! Þetta á að sjálfsögðu við líka um öll önnur mötuneyti og matarafgreiðslur þar sem við ráðum sjálf magninu á diskinn okkar. Setjum minna í einu á diskinn og förum frekar aftur ef við þurfum meiri mat.
- Allar matarleifar þarf svo að flokka vel ef þær enda í ruslinu. Það er mikilvægt að setja þær í sérstaka tunnu fyrir matarleifar eða lífrænt sorp. Viðmiðið er að þangað fari allir matarafgangar, hýði og börkur af ávöxtum og grænmeti, eldhúsbréf, kaffi filterar og kaffikorgur. Úr þessu er svo unnin molta sem er góður jarðvegsbætir.
Matarsóun og kaffi
Mörgum finnst kaffi mjög mikilvægur hluti af daglegri rútínu en því miður er kolefnisspor þess góða drykks mjög stórt. Kaffi er ræktað í löndum langt frá Íslandi, það þarf mikla orku í framleiðsluna og svo þarf að flytja baunirnar um langan veg með tilheyrandi mengun. Sú staðreynd að við innbyrðum ekki baunirnar sjálfar, heldur látum bara sjóðandi vatn leika um þær gerir það að verkum að við erum í raun að henda jafn miklu magni og við flytjum til landsins. Því skiptir miklu máli að bera virðingu fyrir kaffisopanum og vanda sig svo við meðhöndlun kaffikorgsins í lok ferlisins.
- Hreinn kaffikorgur getur farið beint út í blómabeð
- Hér má finna nokkur góð ráð til að nýta kaffikorg innanhúss
- Hægt er að nota kaffikorg til að rækta ostrusveppi
- Ef kaffikorgurinn er ekki nýttur í annað á að setja hann í lífrænan úrgang
Ef þú notar kaffihylki er nú búið að finna leið til að endurvinna að fullu kaffihylki úr áli ásamt því að nýta kaffikorginn í jarðgerð.