Sorp og flokkun

Sorp og flokkun
Þegar minnst er á sjálfbærni eru fyrstu hughrif oft eitthvað sem tengist rusli. Að tína rusl úti í náttúrunni og að flokka vel ruslið sem fer frá okkur. Þetta er sem betur fer eitthvað sem flestir Íslendingar hafa gert í mörg ár og sem samfélag erum við stöðugt að bæta okkur í þessum málum. En við getum samt gert enn betur, og hluti af því er að hugsa um allt rusl sem hráefni sem ekki má eyðileggja, t.d. með því að setja hlutina í vitlausa flokka og skemma þá kannski það vel flokkaða hráefni sem þar var fyrir. Um umtalsverð verðmæti er að ræða ef hráefnið er hreint.
Úrvinnslusjóður
Á öllum vörum sem við kaupum er úrvinnslugjald sem er í raun greiðsla fyrir það að farga hlutnum. Þess vegna ættum við alltaf að hugsa um það sem fjárhagslega hagkvæmt að koma ónýtum vörum á rétta staði svo hægt sé að endurvinna sem mest og farga á réttan hátt restinni.
Góð ráð um flokkun
- Ef þú ert í vafa í hvaða flokk þú átt að setja rusl, þá er góð regla að spyrja aðra ráða.
- Ef þú ert enn í vafa, settu þá hlutinn í almennt sorp frekar en að eyðileggja jafnvel vel flokkað hráefni.
- Niðursuðudósir eru mjög hreint hráefni en um leið og þær blandast öðrum málmum dregur úr virði þeirra.
- Hreint ál er mjög mikils virði, því er gott að fá það flokkað saman.
- Hreint gler má losna við frítt hjá Úrvinnslusjóði, en ef t.d. postulín fer með í glergáminn er glerið orðið mengað.
Plokk og rusl í náttúrunni
Við erum flest stolt af hreinu fallegu íslensku náttúrunni okkar og verðum döpur ef við sjáum rusl á víðavangi. Það er góð venja að hafa alltaf með okkur poka fyrir rusl þegar við förum út í náttúruna, og tína allt rusl sem við rekumst á. Oft er hægt að fá sveitarfélögin til að gera plokk-ker aðgengileg fyrir íbúa, þegar þannig stendur á.