Úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja 2026


Uppbyggingarsjóður Suðurnesja hefur úthlutað styrkjum fyrir árið 2026. Opnað var fyrir umsóknir 17. september og var opið til 22. október. Úthlutunarhátíðin var haldin hátíðlega í Stapanum í Hljómahöllinni föstudaginn 21. nóvember.
Tilgangur Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Suðurnesjum. Uppbyggingarsjóður Suðurnesja er samkeppnissjóður og gríðarlegur fjöldi flottra verkefna sem þarf að velja úr. Auglýst er opinberlega eftir umsóknum og þær metnar út frá markmiðum og áherslum sem fram koma í Sóknaráætlun Suðurnesja.
Umsóknir sem bárust voru samtals 64 talsins og hljóðuðu styrkbeiðnir upp á rúmlega 160 milljónir króna. Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs úthlutar nú 53 milljónir til 43 verkefna.
Hátíðin byrjaði á því að félagar úr Kvennakór Suðurnesja fluttu tvö lög fyrir gesti. En Kvennakór Suðurnesja fékk styrk úr sjóðnum í ár fyrir verkefnið sitt Landsmót íslenskra Kvennakóra.
Kórinn hefur alltaf skipað söngkonum frá öllum bæjarfélögum á Suðurnesjum og er elsti starfandi kvennakórinn á landinu, hefur nú starfað í 57 ár. Kórinn heldur út mikilli starfsemi hér á svæðinu og hefur komið víða við bæði innanlands og erlendis, tekið þátt í samstarfsverkefnum, alþjóðlegum kóramótum og haldið tónleika víða.
Verkefnið sem kórinn fékk styrk fyrir felur í sér að landsmót íslenskrakvennakóra verður haldið í Reykanesbæ í júní á næsta ári og er gestgjafi mótsins er Kvennakór Suðurnesja. Kórar frá öllum landshlutum munu sækja mótið og eru mótsgestir um 500 konur. Einnig verða haldnir tvennir tónleikar.
Skiptingin milli flokka er með þessum hætti
Stofn og rekstrarstyrkir á sviði menningar fá úthlutað 3.800.000 kr.
Menning og samfélagsverkefni fá úthlutað 26.950.000 kr.
Atvinnu- og nýsköpun fær úthlutað 22.250.000 kr.
Menningarverkefnið Safnahelgi Suðurnesja er á þriggja ára samningi og fær nú úthlutað annað ár samningsins eða 3.500.000 kr.
Eftirtalin verkefni hlutu styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja 2026
Stofn- og rekstarstyrkir á sviði menningar
Grindavíkurskip – tíróinn áttæringur með grindavíkurlagi
Umsækjandi: Hollvinasamtökin Áttæringurinn
Grindavíkurskip – tíróinn áttæringur er nýsmíði áraskips , slíkt hefur ekki verið smíðað á Íslandi í 100 ár. Tryggja á að skipið fái öruggan og góðan sess í Grindavík þegar fram líða stundir. Nú þegar að skrokkur áraskipsins hefur verið smíðaður, kerran hefur verið smíðuð , er stefnan á að ljúka verkefninu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.500.000 kr.
Uppbygging útisvæðis Vélarhúss Reykjanesvita
Umsækjandi: Hollvinasamtök Reykjanesvita og nágrennis
“Leiðarljós að lífhöfn” er sýning í Vélarhúsi vitans sem fjallar um sjóslys og afleiðingar þeirra ásamt sögu Reykjanesvita og uppbyggingar á vitakerfi landsins. Sýningin hefur hlotið góðar viðtökur og árið 2026 verður unnið að uppbyggingu útisvæðis sem felst m.a. í því að byggja pall við húsið með rampi sem mun bæta verulega aðgengi að sýningunni, auk sérstaks útsýnispalls.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 700.000 kr.
Hólmsteinn GK20 80 ára
Umsækjandi: Suðurnesjabær
Byggðasafnið á Garðskaga hefur í varðveislu sinni íslenska trébátinn Hólmstein GK20, sem var settur niður á safnasvæðinu á Garðskaga árið 2009. Viðhald bátsins er mikið og mikilvægt til að geta sýnt, varðveitt og miðlað til komandi kynslóða sögu trébátasmíði á Íslandi og sögu sjávar- og strandmenningar á Suðurnesjum og á Íslandi. Með reglulegu viðhaldi safnast einnig þekking um hvernig er best að varðveita trébáta á landi.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 600.000 kr.
Menningar- og samfélagsverkefni
Merking gamalla húsa í Sandgerði
Umsækjandi: Merkir Menn
Áhugahópur um merkingu gamalla húsa í Suðurnesjabæ sem nefna sig Merkir menn hafa áhuga á því að skrásetja sögu húsanna og sóttu um að fá að setja skilti við öll þessi hús. Um er að ræða u.þ.b 100 hús sem eiga sér merka sögu í Sandgerði sem mikilvægt er að varðveita. Staðsetning skiltanna og uppsetning verður gerð í fullu samræmi við núverandi eigendur húsanna. Rekinn eru niður rör og fest mynd á þá með stuttum texta um nafn hússins.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500.000 kr.
Brúum kynslóðabilið
Umsækjandi: Félag eldri borgara í Vogum
Leikskólabörn frá Suðurvöllum í Vogum koma og vinna með eldri borgurum. Markmið er að tengja saman kynslóðir í smíðastofu Álfagerðis. Krakkarnir teikna á efnivið og eldri kynslóðin grófvinnur hugmyndir þeirra í vélum, síðan fínvinna krakkarnir „hlutinn“ sinn og mála.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 160.000 kr.
Ástarsaga í vitunum
Umsækjendi: Hjalti Örn Ólason
Markmiðið er að segja ástarsögu í sterkum tengslum við vesturströnd Reykjanesskaga milli gamla Garðskagavita og Reykjanesvita. Að efla staðarvitund íbúa og ferðamanna og auka samband þeirra við svæði. m.a. með fræðslu og útivist. Að efla ferðamennsku á þessu svæði á fallegan hátt.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500.000 kr.
Góðvinir Geimsteins
Umsækjandi: Geimsteinn ehf
Góðvinir Geimsteins eru stofutónleikar á Skólavegi 12 þar sem greint er frá þeim tónlistarmönnum sem heimsóttu upptökuheimili Geimsteins. Með verkefninu er verið að auðga flóru menningarviðburða á Suðurnesjum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 450.000 kr.
Íslensk víóla í sjónmáli
Umsækjandi: Þórunn Harðardóttir
Dúettinn Dys ætlar að halda ferna tónleika á árinu 2026 og vonast til að geta hafið tónleikaferðalag sitt á heimslóðum með því að halda tónleika í Bergi, tónleikasal Hljómahallar sem hentar alveg sérstaklega vel fyrir flutning á lifandi tónlist.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 180.000 kr.
Skrásetning munnlegra heimilda um rokksöguna
Umsækjandi: Reykjanesbær
Verkefnið felst í að taka viðtöl við einstaklinga sem annað hvort voru hluti af íslenskri popp- og rokksögu eða eiga minningar tengdar tónlistarupplifun. Ólíkt hefðbundnum nálgunum verður áherslan á áheyrendur og upplifun þeirra. Stefnt er að 20 viðtölum sem verða varðveitt í Byggðasafni Reykjanesbæjar og sýnd í nýrri sýningu Rokksafns Íslands í Hljómahöll í mars 2026.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 800.000 kr.
Afmælisrit í tilefni af 100 ára afmæli félagsins
Umsækjandi: Kvenfélagið Fjóla
Markmið verkefnisins er að rita og gefa út afmælisrit í tilefni af 100 ára afmæli Kvenfélagsins Fjólu þar sem saga, starf og samfélagslegt framlag félagsins er dregið fram á heildstæðan og aðgengilegan hátt. Með ritinu er leitast við að varðveita og miðla sögu félagsins til komandi kynslóða.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 120.000 kr.
Endurgerð fræðslu- og upplýsingaskilta
Umsækjandi: Hilmar E Sveinbjörnsson
Markmið verkefnisins er að endurgera fræðslu- og upplýsinaskilti sem bæði hafa skemmst og láta á sjá. Markmið með verkefninu er ennfremur að miðla sögu og menningu svæðisins. Skiltunum er ætlað að vera lykill gesta að stöðunum sem þeir heimsækja með það að markmiði að dýpka söguvitund þeirra á svæðinu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500.000 kr.
Landsmót Íslenskra Kvennakóra
Umsækjandi: Kvennakór Suðurnesja
Landsmót íslenskra kvennakóra verður haldið í Reykjanesbæ 11.-13. júní 2026. Gestgjafi mótsins er Kvennakór Suðurnesja. Kórar frá öllum landshlutum sækja mótið og eru mótsgestir um 500 konur. Haldnir verða tvennir tónleikar, annars vegar flytja kórarnir sitt eigið prógramm og síðan verða sameiginlegir tónleikar þar sem kórarnir flytja lög úr smiðjum sem haldnar verða á mótinu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.
Már & the Royal Northern Collage of Music Session Orchestra
Umsækjandi: Már Gunnarsson
Tónlistarmaðurinn og Ólympíufarinn Már Gunnarsson heldur tónleika ásamt The Royal Northern College of Music Session Orchestra í Hljómahöll Reykjanesbæ í nóvember 2026. Á tónleikunum verða flutt vel valin lög í ævintýralegum sinfónískum útsetningum. Markmiðið er að stuðla að fjölbreyttu tónleikahaldi í Reykjanesbæ.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.
Sögur af Vellinum
Umsækjandi: Þingmannaleið ehf.
Bókin Sögur af Velli, er saga um líf og starf Íslenskra starfsmanna varnarliðsins. Sagan er full af skemmtilegum lýsingum á störfum, starfsaðstöðu og þeim hlunnindum sem fólust í því að vinna á vellinum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 450.000 kr.
Skelin barnamenningarhátíð í Suðurnesjabæ
Umsækjandi: Suðurnesjabær
Með barnamenningarhátíðinni Skelinni viljum við tryggja að öll börn fái tækifæri til að kynnast menningu og listum með inngildingu að leiðarljósi. Með því að gera barnamenningu hátt undir höfði aukum við sjálfstraust barna og ungmenna og sköpum vettvang fyrir fjölskyldur til virkrar þátttöku í samfélaginu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.
Grjóthleðslunámskeið í Höfnum
Umsækjandi: Hótel Hafnir ehf.
Grjóthleðslunámskeiðin í Höfnum miða að endurreisn og viðhaldi fornhleðslna á einu merkasta minjasvæði Reykjanesbæjar. Þátttakendur læra hefðbundna hleðslutækni undir leiðsögn sérfræðings og vinna að endurbyggingu hlaðinna mannvirkja í Kirkjuvogshverfi, þar sem finna má elstu byggð á Reykjanesi. Verkefnið tengir saman handverk, sögu og samfélag í anda sjálfbærrar menningarverndar.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.400.000 kr.
Kynning á bókmenntaarfinum
Umsækjandi: Reykjanesbær
Markmið verkefnisins er að kynna bókmenntaarfinn, minna á gamla og góða höfunda og bókmenntaverk, kynna yngri höfunda og verk þeirra, leggja áherslu á læsi og mikilvægi lesturs og auka með því þekkingu almennings á bókmenntum og töfraheimi þeirra og efla um leið menningarlífið á svæðinu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.
Leiklistarnámskeið fyrir börn á Suðurnesjum
Umsækjandi: Halla Karen Guðjónsdóttir
Verkefnið snýr að því að halda leiklistarnámskeið fyrir börn og ungmenni á Suðurnesjum. Lögð verður áhersla á leiklist, framkomu og söng en markmiðið er að þátttakendur geti, með því að taka þátt í sviðslistum, eflt sjálfstraust sitt og aukið samskiptafærni sína.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.
Skáldasuð Suðurnes og systrahátíð á Seyðisfirði
Umsækjandi: Gunnhildur Þórðardóttir
Verkefnið Skáldasuð er lítil ljóðahátíð þar sem skáldum frá Suðurnesjum hefur verið fagnað með ýmiskonar uppákomum í formi ljóðalestrar á mörgum stöðum. Upplesturinn hefur verið í formi hefðbundins ljóðaupplesturs, sýningum, skáldasmiðjum og öðrum listsmiðjum og eða með myndbandsupptöku.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 400.000 kr.
Strandmenningarmiðstöð á Suðurnesjum
Umsækjandi: Áki Ásgeirsson
Strandmenningarmiðstöð á Suðurnesjum er LIFANDI vettvangur fyrir sjávartengda fræðslu, listsköpun og viðburði. Greining, þróunarvinna og kynning nýrrar Strandmenningarmiðstöðvar sem er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 140.000 kr.
Stóru sólmyrkvagleraugun
Umsækjandi: Reykjanes jarðvangur
Almyrkvi á sólu er einstök upplifun á ævi langflestra. Þeir vekja jafnan mjög mikla athygli, ekki síst barna á grunnskólaaldri. Almyrkvinn 12. ágúst 2026 mun verða mjög sýnilegur í Reykjanes jarðvangi og búast má við gríðarmiklum áhuga heimafólks á myrkvanum, ásamt fjölda ferðalanga. Markmið þessa verkefnis er að undirbúa þennan stóra viðburð vel, sérstaklega fyrir íbúa í jarðvanginum – tryggja þeim örugga upplifun með sólmyrkvagleraugum og fræðslu um viðburðinn.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.700.000 kr.
Barnamenning í Reykjanesbæ
Umsækjandi: Guðlaug María Lewis
BAUN: Barnamenningarhátíð í Reykjanesbæ er samstarfsverkefni menningarfulltrúa og menningarstofnana Reykjanesbæjar, allra 12 leikskóla bæjarins, allra 7 grunnskólanna, Fjörheima og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Það má því segja að BAUN snerti með einum eða öðrum hætti flestar fjölskyldur á svæðinu. BAUN er hattur yfir fjölmörg verkefni sem líta dagsins ljós á sérstakri hátíð tileinkaðri fjölbreyttri menningu barna og ungmenna.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.500.000 kr.
Tónleikaröð í Hvalsneskirkju
Umsækjandi: Magnea Tómasdóttir
Markmið verkefnis er að auka fjölbreytni í klassísku tónleikahaldi á svæðinu. Samfélagslegur ávinningur er sá að fólk á Suðurnesjum getur sótt tónleika með helstu listamönnum þjóðarinnar í heimabyggð. Einnig veitir svona tónleikaröð fólki annars staðar frá tækifæri til að heimsækja Suðurnes og njóta fjölbreyttrar menningar og þjónustu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500.000 kr.
Endurheimt – björgun og skráning verka
Umsækjandi: Reykjanesbær
Listasafn Reykjanesbæjar tók við verkum Vilhjálms Bergssonar (f. 1937) sem bjargað var úr húsi hans í Grindavík 2023. Safnið varðveitir nú verkin, sem eru í misjöfnu ástandi og krefjast umfangsmikillar skráningar, þrifa og forvörslu. Ævistarf Vilhjálms er merkilegt vitnisburð um íslenska myndlist 20. aldar og verkefnið tryggir varðveislu og rannsókn á þeim arfi til framtíðar.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 400.000 kr.
Samkomuhúsið Kirkjuhvoll
Umsækjandi: Minjafélag Vatnsleysustrandar.
Samkomuhúsið Kirkjuhvoll á Vatnsleysuströnd var byggt árið 1933. Bygging þess var samstarfsverkefni Ungmennafélags Þróttar og Kvenfélagsins Fjólu í Vatnsleysustrandarhreppi sem þurftu húsnæði fyrir starfsemi sína. Markmið Minjafélagsins er að halda áfram að gera Kirkjuhvol upp og færa í sem næst upprunalegu horfi. Húsið mun verða nýtt fyrir smærri samkomur og tilfallandi verkefni auk þess sem sögu hússins og félaganna sem það byggðu verður þar gerð skil.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.500.000 kr.
Sómahjónin Guðríður og Hallgrímur III
Umsækjandi: Hvalsnessetrið ehf.
Í þessum lokahluta verður fullkomnuð hönnun sýningarinnar og gefin út fjölmála sýningarskrá sem tengir sagnfræðilegar heimildir, myndlist og hönnun. Verkið sameinar rannsókn, texta, list og grafíska útfærslu í heildræna upplifun sem gerir 17. aldar Hvalsnes aðgengilegt nútímagestum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 750.000 kr.
Landamærabörnin
Umsækjandi: Jana María Guðmundsdóttir
Landamærabörnin er þátttökuleiksýning í leikstjórn Jönu Maríu Guðmundsdóttur með leikhópi mynduðum af nemendur á unglingastigi í grunnskólum á Suðurnesjum. Verkefnið varpar ljósi á sögur úr bæjarlífinu í kringum seinna stríð og umbreytinguna úr því að vera sjávarpláss yfir í blómstrandi bæjarfélag.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 500.000 kr.
Leiðin að ljósinu
Umsækjandi: Steinbogi Kvikmyndagerð ehf
Með þessu verkefni hefur Guðmundur vakið athygli á geðheilbrigðismálum á einstakan hátt sem snertir bæði hans nærumhverfi og samfélagið djúpt. Verkefnið fór af stað þann 30. september 2024, en þá hóf Guðmundur sínar daglegu göngur upp að Garðskagavita og skrásetningu þeirra á myndform og stefnir á tvö ár samfleytt. Samhliða verður unnin heimildarmynd sem fangar þetta ferðalag og miðlar von, styrk og vitund um að baráttan fyrir geðheilbrigði sé langhlaup.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.200.000 kr.
Táraborg – hlaðvarp um Skjaldarbrunann
Umsækjandi: Dagný Maggýjardóttir.
Markmið verkefnisins er að miðla sögunni um brunann í Skildi með viðtölum í hlaðvarpi í þremur þáttum sem fluttir verða á Rúv árið 2026 i tilefni þess að 90 ár eru liðin frá atburðinum. Rætt verður við aðstandendur þeirra sem sóttu þá örlagaríku jólatrésskemmtun árið 1935 þegar eldur varð laus með þeim afleiðingum að 10 manns létu lífið, þar af sjö börn. Horft verður til þess hvaða áhrif atburðurinn hafði á samfélagið og sorgarúrvinnslu þess en þögn hefur ávallt sveipað hann.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 800.000 kr.
Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni
Hvar eru Hvalirnir
Umsækjandi: Þekkingarsetur Suðurnesja
Hvar eru hvalirnir? er fyrsta þróunarverkefni Þekkingarseturs Suðurnesja með nýjum áherslum á hvalarannsóknir. Aðalmarkmið þess að safna saman gögnum um hvali á Suðurnesjum og um leið stuðla að vitundarvakningu almennings á svæðinu um lífríki hafsins.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.
Nanó-kísill úr jarðhita – prófanir í landbúnaði
Umsækjandi: Fida Abu Libdeh
GeoSilica Iceland hf. framkvæmir prófanir á virkni jarðhita nanó-kísils í grænmetisrækt í samstarfi við Lambhaga ehf. Verkefnið byggir á niðurstöðum REGEOSS-verkefnisins ( Eurostar) og miðar að því að staðfesta áhrif efnisins á gæði, næringar nýtingu og álag þol plantna við íslenskar aðstæður. Markmiðið er að þróa græna lausn sem styður við nýsköpun og sjálfbæran landbúnað á Íslandi.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 3.300.000 kr.
Saunagus Reykjanes
Umsækjandi: Petra Ruth Rúnarsdóttir
Saunagus Reykjanes býður uppá nýjung í strandmenningu á Suðurnesjum sem stuðlar að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu íbúa auk annarra gesta. Hugmyndin byggir á viðarkyntri saunu sem byggð er inn í 20 feta gámi. Þar getur fólk sótt handleidda saunutíma þar sem skiptast á lotur í sjó/kæling og saunu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.200.000 kr.
Málhljóðavaktin Froskaleikur- þróun lokaútgáfu
Umsækjandi: Bryndís Guðmundsdóttir
Þróa á Froskaleikinn – Skólameistarann, íslenskt smáforrit, yfir á nýja miðlunarleið sem verður aðgengileg öllum skólum og fjölskyldum án kostnaðar. Um nýja veflausn verður að ræða sem verður unnin í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og Therapy Box í Bretlandi. Gætt verður að sem bestri gagnvirkni sem styður við upplifun og þjálfun barna í íslensku. Hjallastefnuskólar á Suðurnesjum og víðar um landið taka þátt í prófunum á virkni og árangri.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.000.000 kr.
DroneTrails ferðaþjónustufyrirtæki
Umsækjandi: DroneTrails ehf.
DroneTrails mun halda áfram að þróa og efla einstaka ferðaupplyfun fyrir áhugafólk um dróna og ljósmyndun. Markmiðið er að byggja ofan á þann frábæra árangurs sem hefur náðst. Halda áfram að skipuleggja og fara í ferðir um landið. Þar á meðal á Suðurnesjum þegar tækifæri gefast – þar sem ferðamenn fá að upplifa og fanga Ísland úr lofti.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 300.000 kr.
Aukin sóknarfæri – dósavél
Umsækjandi: Litla Brugghúsið ehf.
Litla brugghúsið er lítið handverksbrugghús á Reykjanesi. Fyrirtækið framleiðir bjór og tekur á móti hópum í bjórsmakk og kynningu. Til að komast á nýja markaði er komin þörf á að fjárfesta í dósavél. Dósavél myndi auka sölu, framleiðslu og sýnileika fyrirtækisins og styðja þannig við aðra þætti starfseminnar.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.
Sjódavatn
Umsækjandi: Urta Islandica ehf.
Kaup á RO-vél til framleiðslu á Sjódavatni – náttúrulegum steinefnadrykk úr jarðsjó á Suðurnesjum. Drykkurinn ber heitið Bára, er vistvænn og hreinn valkostur á markaði og byggir á sjálfbærri tækni og nýtingu staðbundinna auðlinda.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.
Ný kynslóð íslenskra dróna með opnum arkitektúr
Umsækjandi: Jóhann Þór Stefánsson.
Drónatækni ehf. ætlar að mæta brýnni þörf innlendra aðila sem hafa þurft að reiða sig á erlenda aðila til kaupa á drónum, þjónustu, viðhaldi, ráðgjöf og sérstaklega hugbúnaði til starfrækslu þeirra. Forritun og innleiðing dreifðra netþjóna til fjarstýringa dróna í gegnum vafra hvar sem er í heiminum yfir nettengingu.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.
Hágæða handverkskonfekt handa heimamönnum
Umsækjandi: Neskja ehf.
Verkefnið felst í stofnun konfektgerðar með lítilli verslun á Suðurnesjum, nánar tiltekið í Grindavík, undir merkinu Neskja. Þar verður framleitt hágæða handgert konfekt og vörur úr súkkulaði ásamt árstíðabundnum sætindi í litlu magni með áherslu á frumleika og fagurfræði.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.000.000 kr.
Virkniþing Suðurnesja
Umsækjandi: Reykjanesbær
Virkniþing Suðurnesja er viðburður sem sveitarfélögin á Suðurnesjum standa fyrir. Yfir 30 aðilar frá félagasamtökum, íþróttafélögum, ríki og sveitarfélögum verða með kynningarbása um framboð þeirra á virkni og tómstundum á Suðurnesjum. Virkniþingið er hugsað fyrir öll þau sem starfa með íbúum á svæðinu og sérstaklega þau sem veita íbúum utan vinnumarkaðar ráðgjöf og stuðning. Virkniþingið er engu að síður opið öllum íbúum þar sem má sjá fjölbreytt framboð á virkni á Suðurnesjum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 750.000 kr.
Snjallar hraðahindranir
Umsækjandi: Íslandshús ehf.
Snjallar hraðahindranir áfangi 2, þar sem markmiðið er að framleiða forsteyptar hraðahindranir samkvæmt hönnunarforsendum 1. áfanga verkefnisins. Hönnun og smíði stálmóta og framleiðsla eininga í heilstæðar hraðahindranir sem settar verða niður í vegi í Reykjanesbæ. Samstarfsverkefni þekkingarmikilla og reyndra fyrirtækja og bæjarfélaga með það markmið að stytta framkvæmdatíma.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 2.500.000 kr.
Leiðin að grænni framtíð – Græn upplifun
Umsækjandi: Fjórhjólaævintýri ehf.
Verkefnið felur í sér kynningu og markaðssetningu á grænni þjónustu Fjórhjólaævintýri, þar sem boðið er upp á gönguferðir og ferðir á rafmagnsscooterum um Grindavík. Lögð er áhersla á sögu, menningu og náttúru svæðisins, bæði fyrir og eftir náttúruatburði, með það markmið að efla sjálfbæra ferðaþjónustu og lengja dvalartíma gesta á Suðurnesjum.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.500.000 kr.
Enabling a Sustainable Suðurnes
Umsækjandi: Hringvarmi ehf.
Verkefnið Hringvarmi snýst um að þróa vöru af Hringvarmaeiningu sem, í samstarfi við at North ehf., hefur þróað einstaka lausn til að safna beinni varmaorku frá gagnaverum inn í gámalausnir til ræktunar á örgrænmeti. Ein eining verkefnisins verður staðsett á Suðurnesjum og hönnun nýsköpunarlausnarinnar aðlöguð þannig að hún geti einnig safnað „sóaðri“ varmaorku frá öðrum lykilgreinum atvinnulífsins á Suðurnesja.
Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð 1.200.000 kr.
Uppbyggingarsjóður Suðurnesja óskar öllum styrkþegum innilega til hamingju með árangurinn.
Fjöldi vandaðra umsókna barst sjóðnum og þakkar stjórn sjóðsins öllum umsækjendum fyrir þann metnað og frumkvæði sem endurspeglast í verkefnunum.
Ljóst er að Uppbyggingarsjóður Suðurnesja er mikilvægt hreyfiafl í þróun og uppbyggingu svæðisins og eru áhugasamir hvattir til að fylgjast með næstu úthlutun sem auglýst verður síðar.
