Aukið samstarf um ráðgjöf á landsbyggðinni
Eitt af verkefnum Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja er að veita ráðgjöf til einstaklinga, samtaka og starfandi fyrirtækja í samstarfi við hagaðila. Fjöldi einstaklinga, samtaka og fyrirtækja hafa nýtt sér atvinnuráðgjöf landshlutasamtakanna í sínum landshluta og hefur ráðgjöfin verið mikilvægur hlekkur í stoðkerfi nýsköpunar í landsbyggðunum sem stuðningur til að móta hugmyndir, fjármagna þær og koma þeim í réttan farveg.
Ráðgjöfin er veitt í samstarfi við Byggðastofnun með það að markmiði að veita skilvirka ráðgjöf sem byggir á styrkleikum hvers svæðis fyrir sig og styður við framgang nýsköpunar og atvinnuþróunar um land allt.
Fagráð um atvinnuráðgjöf
Nú á dögunum kom nýstofnað fagráð atvinnuráðgjafa saman á vinnustofu í Hveragerði með það að markmiði að móta skýra starfsáætlun fyrir ráðið, en það er skipað fulltrúum allra landshlutasamtakanna utan höfuðborgarsvæðisins og Byggðastofnunar. Markmið fagráðsins er að efla tengsl ráðgjafa og vinna að auknu samstarfi í öllum landshlutum, samræma verklag, styrkja þjálfun og endurmenntun ráðgjafa og leita leiða til að auka sýnileika þjónustunnar.

Ráðgjafar landshlutasamtakanna búa yfir gríðarlega mikilli og fjölbreyttri reynslu úr öllum öngum atvinnulífsins og eru með gott tengslanet á sínum svæðum. Það er því til mikils að vinna með auknum slagkrafti og samnýtingu þekkingar og reynslu ráðgjafa þvert yfir landið. Þetta sást bersýnilega í sameiginlegum og vel heppnuðum nýsköpunarhraðli landshlutasamtakanna fyrr á árinu, Startup landið. Með sameiginlegum slagkrafti má einnig auka sýnileika ráðgjafarinnar og kynna betur þá þjónustu sem er í boði í hverjum landshluta svo einstaklingar, samtök og fyrirtæki séu upplýst um þau úrræði og stuðningsnet sem standa þeim til boða hjá landshlutasamtökum sínum.
Vinnustofan í Hveragerði var vel heppnuð og árangursrík og ljóst að fagráð ráðgjafanna er vel í stakk búið til að tækla verkefnin fram undan, í góðu samstarfi við samstarfsfólk og aðra hagaðila.
Byggðastofnun er með samninga við sjö landshlutasamtök um atvinnuráðgjöf; Austurbrú, Heklan (SSS), SASS, SSNE, SSNV, SSV og Vestfjarðastofa.