Farsæld barna
Farsældarráð barna er hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi en þar sameinast þjónustuveitendur um metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir börn og fjölskyldur í samræmi við ný farsældarlög.
Með stofnun ráðsins hefst nýr kafli í þverfaglegu samstarfi ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka í landshlutanum.
Meginmarkmið Farsældarráðs Suðurnesja er að efla og samræma þjónustu við börn og fjölskyldur með samþættri, snemmtækri og heildstæðri nálgun. Þetta felur meðal annars í sér að styrkja samstarf, tryggja jöfn tækifæri barna til þátttöku, náms og félagslegrar virkni þvert á kerfi. Einnig er lögð áhersla á aukna fjárfestingu í forvörnum og snemmtækum stuðningi í virku samráði við börn og foreldra.
Að ráðinu standa: Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Grindavíkurbær, Vogar, Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Lögreglustjóri og Sýslumaður á Suðurnesjum, auk Svæðisstöðvar íþróttahéraða.
Skipulag ráðsins byggir á fjórum einingum: Farsældarráðinu sjálfu, framkvæmdahópi, tímabundnum verkefnahópum og faghópi.

Framkvæmdahópurinn starfar í umboði ráðsins og hefur umsjón með innleiðingu ákvarðana, þar á meðal undirbúningi aðgerðaáætlunar. Verkefnahópar verða settir á fót eftir þörfum og faghópur sinnir faglegu mati og ráðgjöf. Verkefnastjóri farsældar, sem starfar í umboði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, annast daglega framkvæmd og undirbúning funda.