Auðlindir og orkulæsi

Auðlindir og orkulæsi
Íslendingar eru svo lánsamir að stærstur hluti af bæði rafmagni og heitu vatni í landinu kemur frá endurnýtanlegum orkugjöfum. Að mestu leyti er okkar rafmagn framleitt með vatnsafli eða jarðhita, sem er mun sjálfbærara en rafmagn sem framleitt er með kolum, olíu eða gasi eins og oft þarf að gera í öðrum löndum. Hér innan Reykjanes jarðvangs er víða mikill jarðvarmi sem orkuverin nýta til að færa okkur inn á heimilin bæði rafmagn og heitt vatn. En þó við eigum þessar góðu auðlindir er samt mikilvægt fyrir okkur að umgangast þær á sjálfbæran hátt og gæta þess að skerða ekki möguleika komandi kynslóða til að njóta góðs af þeim líka.
Veitur
Á Reykjanesi er ýmis þjónusta sem fær kannski ekki mikla daglega athygli en skiptir okkur íbúana mjög miklu máli. Dæmi um svona þjónustuaðila eru HS Veitur sem færa okkur heim bæði heitt og kalt vatn, og þar að auki rafmagn. Þetta eru mikil lífsgæði sem við tökum orðið sem sjálfsagðan hlut en óhætt er að segja að samfélagið fari á hliðina ef einhver truflun verður á þessari þjónustu. Það sýndi sig vel í byrjun febrúar 2024 þegar glóandi hraun eyðilagði heitavatnslögnina frá orkuverinu í Svartsengi. Flest hús á Reykjanesi urðu þá heitavatnslaus og því hvorki hægt að baða sig né hita upp húsin, og rafmagnið dugði ekki til sinna þörfum allra íbúa á meðan þetta ástand stóð yfir.
„Hjáveitulögn rofnaði – kalt verður í hýbýlum næstu daga“
Þessi reynsla kenndi okkur ýmislegt og gerði okkur meðal annars vel sýnilegt hversu háð við erum heitu vatni og rafmagni.
Orkunotkun og kolefnisspor:
Því meira rafmagn sem við notum, því stærra er kolefnissporið. Jafnvel þó við eigum mikið af grænni orku hér á Íslandi, er mikilvægt að sóa ekki rafmagninu í vitleysu. Allur orkusparnaður, hvort sem hann kemur með betri ljósaperum, aukinni einangrun eða snjallkerfum, dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Vatnsnotkun og orka:
Vatn er takmörkuð auðlind og mikilvægt er að nota það á skynsaman hátt. Vatnsnotkun krefst einnig orku, t.d. við dælingu og hreinsun. Sóun á vatni er því líka orkusóun. Ef við mengum vatnið okkar þá skaðar það vistkerfi og dregur úr aðgengi okkar allra að hreinu vatni í framtíðinni.
Hér eru nokkur góð ráð frá HS veitum sem við getum nýtt okkur til sjálfbærari lífstíls:
- Látum ekki vatn renna að óþörfu
- Skrúfum fyrir vatnið á meðan við burstum tennurnar
- Höfum vatn í flösku inni í ísskáp í stað þess að láta vatnið renna lengi til að fá það kalt úr krananum
- Gættum að því að nota eiturefnalausar sápur og annað sem fer í niðurfallið
- Slökkvum ljós í rými sem ekki eru í notkun
- Gættum þess að slökkva ljós ef það er bjart úti
- Notum LED perur í stað glópera
- Vöndum valið við kaup á raftækjum (Skoðum orkuflokkana – hversu rafmagnsfrekt er tækið?)
- Hengjum upp þvottinn og drögum úr notkun þurrkara
- Opnum ekki glugga með ofninn í botni
Gagnaver
Á Reykjanesi má finna nokkur gagnaver, sem hafa risið frekar hratt undanfarin ár. Staðsetningin er engin tilviljun, því gagnaver þarf bæði gríðarmikið rafmagn og mikla kælingu. Því er Ísland ákjósanlegur staður með umhverfisvænu rafmagni og frekar köldu veðurfari. Efttirfarandi upplýsingar og ábendingar koma beint frá atNorth gagnaverinu sem er staðsett í Reykjanesbæ.
Hvað er Gagnaver?
Gagnaver er bygging sem hýsir fjölda tölvuþjóna og geymslukerfa sem tengd eru við internetið. Gagnaver eru notuð til að geyma, vinna úr og stjórna miklu magni gagna og mynda grunninn að skýjaþjónustum og stafrænu hagkerfi.
Hvaða hlutverki gegnir gagnaver í daglegu lífi okkar?
Í hvert skipti sem þú notar leitar á netinu, nýtir þér gervigreind eða notar öpp í símanum þínum er mjög líklegt að þú virkjar tölvuþjón í gagnaveri. Daglegt líf okkar er að miklu leyti háð gagnaverum, þó fæstir geri sér grein fyrir því.
„Þú ert mögulega búin að nota gagnaver 400 sinnum síðan í morgun“
Hvernig tengjast gagnaver sjálfbærni?
Gagnaver nota mikið magn af orku og vatni. Þessi notkun eykst hratt, sérstaklega vegna aukinnar notkunar á gervigreind. Gagnaver geta losað mikið magn af gróðurhúsalofttegundum ef orkugjafinn kemur frá óendurnýjanlegum auðlindum og þannig stuðlað að hlýnun jarðar. Því leggur atNorth mikla áherslu á að leita stöðugt nýrra leiða til annars vegar að minnka orkunotkun og hins vegar að skipta yfir í 100% endurnýjanlega orku.
Tölvuþjónar hitna mjög mikið við notkun og þurfa því kælingu, sem oft krefst vatns. Til eru mismunandi vatnskælingarlausnir og sumar þeirra krefjast gífurlegs vatnsmagns. Vatnsskortur er alþjóðlegt vandamál og því er mikilvæg forgangsverkefni hjá atNorth að draga úr vatnsnotkun, meðal annars með „lokaðri hringrásarkælingu“, þ.e. vatn er fyllt á og endurunnið aftur og aftur.
Hvað get ég sem einstaklingur gert til að draga úr kolefnisspori af mínum stafrænum gögnum?
Hér koma nokkrar tillögur að stafrænni tiltekt sem leiðir til aukinnar sjálfbærni:
- drögum úr notkun gervigreindar
- hugsum okkur um áður en við sækjum stórar skrár
- eyðum gömlum tölvupóstum
- eyðum gömlum ljósmyndum og myndböndum
- gætum þess að geyma ekki fleiri en eitt eintak af þungum skrám
- hugsum okkur um áður en við kaupum meira pláss í „skýinu“ – því fylgir nefnilega kolefnisspor
Allt eru þetta lítil skref í átt að sjálfbærara lífi en geta haft bein, jákvæð áhrif á umhverfi okkar hér á Reykjanesi.