Samgöngur og ferðalög

Samgöngur og ferðalög
Samgöngur er stór þáttur þegar kemur að umhverfisvernd. Í Heimsmarkmiði 11 sem snýr að sjálfbærum borgum og samfélögum kemur fram að „eigi síðar en árið 2030 geti allir ferðast með öruggum sjálfbærum samgöngutækjum á viðráðanlegu verði á bættu vegakerfi. Lögð verði áhersla á betri almenningssamgöngur sem taka mið af fólki í viðkvæmri stöðu, konum, börnum, fötluðu fólki og öldruðum.“
Líklega eigum mörg við frekar langt í land með að ná þessum markmiðum, en einmitt þessvegna er upplagt að skoða hvaða skref við sem einstaklingar getum tekið til að stunda sjálfbærari samgöngur hér innan Reykjanes jarðvangs.
SKREF hugmyndafræðin snýst um hvernig við getum dregið úr notkun á fólksbílnum með breyttum ferðavenjum. Breyttar ferðavenjur eru alger lykilaðgerð í loftslagsmálum á Íslandi. Auknar hjólreiðar, ganga og almenningssamgöngur eru auðveldasta leiðin til að minnka eldsneytisnotkun og útblástur frá samgöngum. Slíkt stuðlar einnig að aukinni hreyfingu og bættri heilsu. Einfaldast er að minnka óþarfa bílferðir þar sem vegalengdir eru viðráðanlegar.
Einkabíllinn verður því miður oft fyrir valinu þegar þarf að skreppa milli staða. En sem betur fer er alltaf að verða algengara að Íslendingar keyri um á rafmagnsbílum, að hluta eða heild – enda oftast töluverður fjárhagslegur ávinningur af því að aka um á rafmagni (Hér er rafbílareiknir frá FÍB). Því oftar sem bíllinn er látinn standa og við göngum, hjólum eða tökum strætó á milli staða, því betra fyrir umhverfið. Það skiptir líka máli að sameinast í bíla alltaf þegar kostur er og skipuleggja ferðir þannig að ekki þurfi að keyra oft fram og til baka.
KortEr er tæknilausn sem gerir sýnilegt hversu langt þú kemst á korteri, bæði gangandi og hjólandi. Verkefnið samanstendur af vefsíðu, appi og prentuðu korti.
Strætó er góður kostur til að komast á milli staða, sérstaklega ef hvíla á einkabílinn. Hér má finna samantekt á þeim almenningssamgöngum sem í boði eru á Reykjanesi.
Strætóskólinn getur verið ágæt leið til að koma nýjum notendum af stað með að nýta sér almenningssamgöngur. Á þessari síðu má finna upplýsandi myndband sem útskýrir vel af hverju þetta skiptir máli, af hverju við sem samfélag þurfum meðal annars að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eins og bensíni og dísel og draga úr umferð vegna svifryksmengunar. Og einnig eru þar leiðbeiningar um hvernig hægt er að æfa strætónotkun á yfirstíganlegan hátt.
Hopp er fyrirtæki sem leigir bæði út rafskútur og hlaupahjól. Hér er sjálfbær samgöngulausn sem gerir okkur kleift að ferðast á milli staða án teljandi kolefnisfótspors.
Flugferðir skilja því miður eftir sig mjög stórt kolefnisspor og því ættum við öll raunverulega að draga úr slíkum ferðalögum. En ef þú þarft að nota flugvél til að komast á áfangastað er góð regla að kolefnisjafna ferðalagið, t.d. með því að planta trjám í tengslum við hverja ferð. Til eru ýmsar reiknivélar sem geta leiðbeint okkur með það verkefni, t.d. Kolviður eða Kolefnisreiknir.