fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Starfsreglur fyrir Svæðisskipulag Suðurnesja

  1. gr.
    Markmið og gildissvið
    Sveitarfélögin á Suðurnesjum, Reykjanesbær, Grindavíkurbær, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar, skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og Landhelgisgæslan, sem fulltrúi öryggissvæðis B f.h. utanríkisráðherra, hafa ákveðið að koma á fót svæðisskipulagsnefnd til að vinna að svæðisskipulagi Suðurnesja, í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Skal nefndin sjá um gerð tillögu, framfylgd og breytingar á svæðisskipulagi Suðurnesja.
    Skipulagssvæði nefndarinnar tekur til marka sveitarstjórnarsvæða þeirra sveitarfélaga sem þátt taka í nefndinni auk A og B svæðis Keflavíkurflugvallar eins og það er skilgreint í 2. gr. laga
    176/2006.
  2. gr.
    Skipan nefndarinnar
    Eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar skipar hver sveitarstjórn tvo fulltrúa og tvo til vara í nefndina og skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar og Landhelgisgæslan sinn hvorn fulltrúann og hvor einn til vara.
    Ef bæjarstjórar hlutaðeigandi sveitarfélaga eru ekki valdir í svæðisskipulagsnefndina, er þeim heimilt að sitja fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt án atkvæðisréttar, auk forstjóra Isavia og Landhelgisgæslunnar.
    Nefndin skipar með sér verkum og kýs formann og varaformann. Framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum er ritari nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt án atkvæðisréttar.
  3. gr.
    Hlutverk
    Hlutverk svæðisskipulagsnefndar er að vinna tillögu að svæðisskipulagi fyrir Suðurnes. Nefndin skal sjá um framfylgd og breytingar á svæðisskipulaginu í samræmi við ákvæði skipulagslaga.
    Að loknum sveitarstjórnarkosningum hverju sinni skal svæðisskipulagsnefnd meta hvort ástæða sé til að endurskoða svæðisskipulagið. Skal sú ákvörðun m.a. taka mið af landsskipulagsstefnu, breyttum forsendum frá fyrri skipulagstillögum þ.m.t. efnahagslegri og samfélagslegri þróun og hvort framfylgd gildandi svæðisskipulags hafi gengið eftir eins og að var stefnt. Ef niðurstaða nefndarinnar er að svæðisskipulagið þarfnist ekki endurskoðunar skal sú ákvörðun tilkynnt til Skipulagsstofnunar. Ef niðurstaða nefndarinnar er að endurskoða svæðisskipulagið, skal hún taka saman lýsingu skv. skipulagslögum, sem gerir m.a. grein fyrir forsendum endurskoðunar og viðfangsefnum sem unnið verður með.
    Ekki verður ráðist í endurskoðun á svæðisskipulagi Suðurnesja nema með samþykki allra hlutaðeigandi aðila á framlagðri lýsingu svæðisskipulagsnefndar.
    Svæðisskipulagsnefnd annast vinnslu, kynningu og afgreiðslu á svæðisskipulagi og breytingar á því undir yfirstjórn hlutaðeigandi aðila.
    Erindi til nefndarinnar skal senda á skrifstofu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem annast skjalavörslu og fjárreiður nefndarinnar.
  4. gr.
    Um starfsemi skipulagsnefndarinnar
    Formaður nefndarinnar boðar til funda með rafrænu fundarboði eða öðrum sannanlegum hætti með viku fyrirvara eða öðrum skemmri tíma sem meirihluti nefndarmanna hefur samþykkt. Fundur er lögmætur ef formaður eða varaformaður og helmingur nefndarmanna eru viðstaddir. Dagskrá fundar skal fylgja fundarboði. Formaður stýrir fundum samkvæmt dagskrá og undirbýr þá.
    Ritari ritar fundargerðir, tekur við erindum og annast kynningu á afgreiðslum nefndarinnar og aðstoðar auk þess formann nefndarinnar við undirbúning funda. Skulu fundargerðir lagðar fram á næsta fundi til samþykktar. Fundargerðir skulu sendar þeim aðilum er standa að nefndinni skv. 1. mgr. 1. gr.
    Fundi skipulagsnefndar skal halda ef einn eða fleiri nefndarmanna óska þess eða telji formaður þess þörf. Ef ósk berst frá nefndarmanni um fund skal boðað til hans svo fljótt sem verða má í samræmi við 1. mgr. Fundi í svæðisskipulagsnefnd skal halda eigi sjaldnar en þrisvar á ári.
    Leitast skal við að ná samkomulagi um ákvarðanir og afgreiðslur svæðisskipulagsnefndarinnar, takist það ekki ræður afl atkvæða. Nefndin getur ekki ályktað um mál sem varða sérstaklega hagsmuni eins sveitarfélags, skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar eða Landhelgisgæslunnar að fulltrúum þess fjarstöddum. Svæðisskipulag og breyting á því er háð samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórna og aðila sem eiga aðild að svæðisskipulagsnefnd.
    Svæðisskipulagsnefnd sendir samþykkta tillögu til Skipulagsstofnunar, sem staðfestir hana. Svæðisskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af hlutaðeigandi aðilum, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.
  5. gr.
    Kostnaður af störfum nefndarinnar o.fl.
    Svæðisskipulagsnefndin hefur heimild til að kalla til starfa ráðgjafa eftir því sem þörf krefur. Kostnaður, þ.e. aðkeypt vinna ráðgjafa, aðkeypt þjónusta og gagnaöflun, kostnaður vegna ljósrita, prentunar og kynningar skiptist á milli sveitarfélaganna Isavia f.h. skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar og Landhelgisgæslunnar samkvæmt reiknireglu um fastgjald, hlutfall landsvæðis og hlutfall íbúafjölda 1. október ár hvert, nema samkomulag verði um aðra skiptingu. Hvert sveitarfélag um sig, skipulagsnefnd Keflavíkurflugavallar og Landhelgisgæslan bera kostnað af þátttöku sinna fulltrúa.
    Kostnaður vegna breytinga á skipulagi, undirbúningur þeirra og kynning, greiðist af þeim aðila/aðilum sem óska eftir breytingum.
    Sameiginlegur kostnaður við endurskoðun svæðisskipulags greiðist til helminga af Skipulagssjóði samkvæmt skipulagslögum, það sem eftir stendur greiðist í samræmi við 1. mgr. og fylgiskjal um reiknireglu við skiptingu kostnaðar. Fylgiskjalið er hluti starfsreglnanna.
  6. gr.
    Gildistaka
    Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 4. mgr. 9. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, öðlast þegar gildi.

Suðurnesjum -12.02.2019
F.h. Svæðisskipulagsnefndar Suðurnesja
Ólafur Þór Ólafsson
formaður