fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Tækifærin alls staðar á Reykjanesi – haustfundur Heklunnar 2016

Staðan á Reykjanesi hefur breyst gríðarlega á stuttum tíma og þar eru miklir vaxtarmöguleikar. Þetta er meðal þess sem fram kom á árlegum haustfundi Heklunnar sem haldinn var í Hljómahöll þann 27. október sl. undir yfirskriftinni Verðmætasköpun í atvinnulífinu.
Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og forstjóri Bláa lónsins fór yfir tækifæri í ferðaþjónustu en fram kom í máli hans að efla þyrfti gæði ferðaþjónustunnar til þess að koma til móts við nýja markhópa. Heiðar Guðjónsson hagfræðingur og formaður stjórnar Vodafone og varaformaður stjórnar HS veitna sagði frá mikilvægi flutninga og góðri staðsetningu á Reykjanesi í því samhengi en þar væri samstarf sveitarfélaga mikilvægt.Hjördís Rut Sigurjónsdóttir sérfræðingur hjá Nordregio sagði frá miklum vaxtarmöguleikum á Suðurnesjum skv. nýrri útttekt en fram kom í máli hennar að aukning í ferðaþjónustu á Suðurnesjum væri mest á Norðurlöndunum eða 176%. Þetta er mikill viðsnúningur frá því sem var en þar eru áhrif Bláa lónsins og Keflavíkurflugvallar mikil.Að sögn Bjarkar Guðjónsdóttur verkefnastjóra Heklunnar hefur mikill viðsnúningur orðið á atvinnulífinu á Suðurnesjum á stuttum tíma. „Nú glímum við við það lúxusvandamál að hér vantar fólk í vinnu og þar á ferðaþjónustan stóran þátt en líkja má Flugstöð Leifs Eiríkssonar við stóriðju okkar Suðurnesjamanna“.