fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Heildaratvinnutekjur á Suðurnesjum hækka

Heildaratvinnutekjur á Suðurnesjum hafa hækkað umtalsvert og er aukningin tengd ferðaþjónustu og Keflavíkurflugvelli.

Heildaratvinnutekjur á Suðurnesjum hækkuðu um rúmlega 22% á milli áranna 2008 og 2016 en hækkunin á milli áranna 2015 og 2016 nam 18,5%. Mest af hækkun á atvinnutekjum á tímabilinu varð því á árinu 2016. Á árinu 2016 voru langmestu atvinnutekjurnar greiddar í flutningum og geymslu en þar nokkuð langt á eftir komu
fiskvinnsla, fræðslustarfsemi, mannvirkjagerð, verslun, iðnaður og opinber stjórnsýsla.

Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um Atvinnutekjur 2008 – 2016 eftir atvinnugreinum og svæðum.

Meðalatvinnutekjur eru reiknaðar þannig að teknar eru heildaratvinnutekjur og þeim deilt niður eftir fjölda íbúa á aldrinum 18-67 ára.

Sömuleiðis var langmesta aukningin í flutningum og geymslum á milli áranna 2008 og 2016. Nokkur aukning varð einnig í leigu og sérhæfðri þjónustu og gistingu og veitingum. Allar þessar greinar tengjast ferðaþjónustu og hafa sterka tengingu við Keflavíkurflugvöll. Verulegur samdráttur varð í mannvirkjagerð og nokkur í fjármálastarfsemi og vátryggingum.
Meðaltekjur á Suðurnesjum voru árið 2016 um 90% af landsmeðaltali. Meðaltekjur voru hæstar í Grindavík, rétt um landsmeðaltal árið 2016 og höfðu hækkað verulega frá árinu 2008. Þær voru hins vegar aðeins um 90% í Reykjanesbæ og tæplega 85% í Sandgerði, Garði og Vogum.

Stærstu atvinnugreinarnar mælt í atvinnutekjum í Grindavík árið 2016 voru fiskvinnsla og fiskveiðar. Í Reykjanesbæ voru það flutningar og geymsla en í Sandgerði, Garði og Vogum voru það flutningar og geymsla og fiskvinnsla.