fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Ánægja með menningu er meiri eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu

Íbúar á landsbyggðinni eru almennt ánægðari með menningu heima fyrir eftir því sem þeir eru eldri, með meiri menntun eða hafa búið lengi í viðkomandi sveitarfélagi. Þá eru konur frekar ánægðar með framboð menningar og barnafólk.

Þetta kemur fram í íbúakönnun  sem Samband sveitarfélaga á Vesturlandi vann ásamt fjórum öðrum landshlutum á árunum 2016 og 2017. Efnið var nýverið  birt í nýju veftímariti um menningu sem heitir Úr vör.

Spurt var um álit íbúa eftir málaflokkum og þar var ánægja með menningu fyrir ofan meðallag þar sem mældir voru 39 aðrir þættir sem tengjast afkomu heimilanna, innviðum samfélagssins, verkefnum ríkisins, samfélaginu á staðnum og verkefnum sveitarfélaga.

Fram kom að ánægjan er meiri eftir því sem dregur fjær höfuðborgarsvæðinu. Talið er hugsanlegt að það sé vegna þess að íbúar á jaðri höfuðborgarsvæðisins geri meiri kröfur til menningar eða að nálægðin við höfuðborgarsvæðið geri framboð á menningu minna.

Menning er talin mikilvæg byggðaþróun á landinu og að hún geti komið í veg fyrir að íbúar flytjist burt. Þá hefur hún hagrænt gildi og í því sambandi er vísað til þess að menning styður við ferðaþjónustu sem er mikilvæg atvinnugrein og að mati greinahöfundar ef til vill bjartasta von landsbyggðarinnar.