fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Græn lán sem styðja við umhverfisvernd

Byggðastofnun býður nú svokölluð græn lán til verkefna sem með einum eða öðrum hætti stuðla að umhverfisvernd.

Lánin eru svar við auknu vægi umhverfismála eins og sjá má í stefnumörkum ríkisstjórnar s.s.  aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, umhverfisstefnu Byggðastofnunar og  áhersluatriðum nýrrar byggðaáætlunar.

Mikilvægt er að Byggðastofnun fylgist vel með þróun atvinnulífs í landsbyggðum og tryggi að lánaflokkar hennar þjóni tilgangi sínum sem best og eru grænu lánin liður í því. Alls hafa þrír flokkar bæst við lán Byggðastofnunar frá árinu 2013 og hefur þjónustuframboð því aukist verulega. Þeir eru lán til jarðakaupa eða endurbóta í landbúnaði, lán til stuðnings atvinnureksturs kvenna og sérstök án til nýsköpunarverkefna.

Lögð er áhersla á að dreifa lánveitingum jafnar á milli atvinnugreina en ferðaþjónusta og landbúnaður voru um 62% lánveitinga Byggðastofnunar. Standa vonir til að græn lán stuðli að því að verkefni sem snúa að umhverfisvernd nái framgangi og má þar nefna nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa s.s. smávirkjanir, vatns- og vindorku, sólarorku og lífgas, bætta nýtingu orku í iðnaði, atvinnuhúsnæði og samgöngum, mengunarvarnir, betri auðlindanotkunar og lífrænnar matvælaframleiðslu svo dæmi séu nefnd.

Nánari upplýsingar um lánaflokkinn má nálgast á upplýsingavef Byggðastofnunar.