fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Matvælasjóður opnar fyrir umsóknir

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Matvælasjóð en hlutverk sjóðsins er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu íslenskra matvæla og hliðarafurða þeirra úr landbúnaðar- og sjávarafurðum á landsvísu.

Þetta er í annað sinn sem sjóðurinn auglýsir úthlutun og mun sjóðurinn fá 250 milljón króna viðbótarframlag á þessu ári og er heildarúthlutunarfé sjóðsins því samtals 630 milljónir króna.

Áhersla sjóðsins er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu og hliðarafurða um land allt. Markmið sjóðsins er að ná til verkefna á öllum stigum, allt frá hugmyndum til markaðssetningar og hagnýtra rannsókna. 

Sjóðurinn hefur fjóra flokka: 

  • Bára styrkir verkefni á hugmyndastigi. Styrkur úr Báru fleytir hugmynd yfir í verkefni.
  • Kelda styrkir rannsóknaverkefni sem miða að því að skapa nýja þekkingu.
  • Afurðstyrkir verkefni sem komin eru af hugmyndastigi en eru þó ekki tilbúin til markaðssetningar, en leiða af sér afurð.
  • Fjársjóður styrkir sókn á markað. Fjársjóður er samansafn verðmætra hluta og styrkir fyrirtæki til að koma sínum verðmætum á framfæri.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér heimasíðu sjóðsins, www.matvælasjóður.is en þar má finna handbók Matvælasjóðs, upplýsingar um umsóknir og allar nánari upplýsingar um sjóðinn. Í þessari annarri úthlutun hefur verið unnið að því að einfalda og skýra umsóknarferlið, handbók fyrir umsækjendur hefur verið uppfærð og skerpt á áherslum sjóðsins. 

Umsóknarfrestur er til og með 6. júní 2021. 

Margrét Hólm Valsdóttir er  formaður stjórnar sjóðsins, en stjórn skipa með henni þau Heiðrún Lind Marteinsdóttir, Gunnar Þorgeirsson og Karl Frímannsson.