Kostnaður vegna meðhöndlunar úrgangs
Greining á kostnaði og tekjum sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs milli áranna 2012 til 2023 sýnir að verulegar breytingar hafa átt sér stað, bæði hvað varðar heildartekjur og heildarkostnað. Þó að heildartekjur hafi aukist um 190%, þá hefur heildarkostnaður einnig hækkað um 182%.
Auknum kostnaði hefur ekki verið að fullu mætt með auknum tekjum, sem leiðir til hærri nettókostnaðar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem ber heitið: Þróun kostnaðar úrgangsmála sveitarfélaga árin 2012 til 2023, sem HLH ráðgjöf vann fyrir Sambandið.
Tvíþætt verkefni
Stjórn Sambandsins samþykkti þann 29. september 2023 að hrinda af stað verkefni um kostnað og tekjur sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs í ljósi þess að kostnaður sveitarfélaga vegna þessa málaflokks hefur aukist verulega. Markmið verkefnisins var að ná betri yfirsýn yfir kostnað sveitarfélaga og hvernig hann hefur þróast síðastliðin ár. Auk þess að fá fram tillögur um möguleika til aukinnar hagkvæmni og bættrar yfirsýnar í málaflokknum.
Verkefninu var skipt upp í tvo hluta. Í fyrri hlutanum voru fimm sveitarfélög valin til þátttöku í verkefninu, þar sem gögn þeirra voru tekin saman og unnin greining á kostnaði og tekjum þeirra í úrgangsmálum fyrir undangengið ár. Ráðgjafar Pure North unnu greiningu kostnaðar út frá hrágögnum, þ.e. reikningum og öðrum upprunalegum upplýsingum um kostnað vegna úrgangsþjónustu. Niðurstöður Pure North voru kynntar fyrir stjórn Sambandsins þann 31. maí sl.
Þrettán tillögur til úrbóta
Skýrsla HLH ráðgjar er seinni hluti verkefnisins, og í henni er greint, með niðurstöður úr fyrri hluta til hliðsjónar, hvernig kostnaður og tekjur sveitarfélaga fyrir meðhöndlun úrgangs hefur þróast frá árinu 2012 til 2023, auk þess að leggja fram tillögur til úrbóta og aukinnar hagkvæmni í málaflokknum. Í skýrslunni er skoðað hvernig sveitarfélög geta betur uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum, tryggt fjármagn til nauðsynlegra fjárfestinga, og bætt yfirsýn yfir kostnað.
Í skýrslunni eru lagðar fram 13 tillögur til úrbóta. Skýrslan var kynnt sveitarfélögum á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna þar sem kallað varr eftir sjónarmiðum sveitarfélaga. Þá mun Sambandið setja á fót starfshóp um úrgangsmál þar sem skoðaðar verða tillögur sem meðal annars snúa að Úrvinnslusjóði og koma með tillögur að framtíðarfyrirkomulagi sem byggja á þessum tillögum og fyrri skýrslum.
Hér má finna skýrslu HLH ráðgjafar – Þróun kostnaðar úrgangsmála sveitarfélaga árin 2012 -2023.