Stutt við smærri atvinnurekendur í Grindavík með viðauka við sóknaráætlun Suðurnesja
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra og Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) undirrituðu í vikunni samning um fjárstuðning við smærri atvinnurekendur í Grindavík. Heildarframlag ríkisins verður 50 milljónir kr.
Stuðningurinn er einkum ætlaður einyrkjum og smærri fyrirtækjum sem voru með starfsemi í Grindavík 10. nóvember 2023, eru í rekstri og hafa a.m.k. einn starfsmann á launaskrá og veltu undir 500 milljónum króna. Fjármunum skal varið til verkefna sem snúa m.a. að markaðssetningu, vöruþróun og nýsköpun. Styrkjum er hvorki ætlað að kaupa upp eignir né að greiða niður skuldir.
Opnað fyrir umsóknir í byrjun júlí
Opnað verður fyrir umsóknir um fjárstuðning 7. júlí og er umsóknarfrestur til og með 18. ágúst. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum mun fara með verkefnastjórn og umsýslu og verður fjármununum úthlutað í gegnum Uppbyggingarsjóð sóknaráætlunar Suðurnesja og gilda almennar reglur sjóðsins um mat á umsóknum.
Uppbyggingarsjóður Suðurnesja