Ferðaþjónusta mikilvæg á Reykjanesi
Ferðaþjónusta er mikilvæg á Reykjanesi og hefur hlutfall hennar verið að aukast en rekja má 30,3% af útsvarstekjum í Reykjanesbæ til hennar. Þá býr Reykjanesbær hvað nálægð við öflugan vinnumarkað varðar í samanburði við önnur sveitarfélög.
Þetta kemur fram í nýlegri úttekt Vífils Karlssonar sem birt er í tímaritinu Glefsu sem hefur að geyma hagvísa og skýrslur SSV. Úttektin var gerð í tilefni af fyrirhugaðri hækkun gjalda á sjávarútveg og ferðaþjónustu til að skoða áhrif hennar á sveitarfélög. Samantektin birtir tölur frá 2024 og svo meðaltal frá 2017-2024.
Íbúaþróun er hagfelldari í sveitarfélögum þar sem vægi ferðaþjónustunnar er mikið en þar sem hún er minni öfugt við sjávarútveg. Trúlega liggur það í því að uppbygging og vöxtur í ferðaþjónustu hefur verið mikill um langt árabil á meðan sjávarútvegur hefur ekki getað aukið framleiðslu sína lengi nema annað slagið og svo þurft að draga aftur saman síðar, segir í skýrslunni.

Ýmsar hugmyndir hafa komið fram varðandi hækkun skatta gagnvart ferðaþjónustu eða að nýjum sköttum verði komið á laggirnar. Í nýlegri skýrslu í samstarfi við Nordregio (Vífill Karlsson og félagar, 2024, bls. 119) voru færð rök fyrir því að grænir skattar af ýmsu tagi muni hafa ólík áhrif á landshluta hérlendis og ein ábendingin gekk út á að flokka áfangastaði hérlendis í ómissandi (e. Must see destinations) og forvitnilega (e. See out of curiosity). Landshlutar með ómissandi áfangastaði verði minna varir við fækkun ferðamanna heldur en landshlutar með eingöngu forvitnilega áfangastaði. Síðan voru færð rök fyrir því að síðarnefndu áfangastaðirnir væru hlutfallslega fleiri eftir því sem fjær drægi höfuðborgarsvæðinu og þau landsvæði því líklegri til að verða vör við fækkun ferðamanna vegna sumra skattahækkana en þau sem nær væru.