Náttúrufræðikennarar af Reykjanesi sækja innblástur til útikennslu
Hópur kennara á Reykjanesi tók á árinu þátt í námsferðum til Danmerkur þar sem áhersla var lögð á STEM og útikennslu í jarðvöngum. Verkefnið, sem var skipulagt af Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) og styrkt af Erasmus+ Menntaáætlun Evrópusambandsins, gerði 18 kennurum kleift að fara í vikuferð til Danmerkur og fá þar hugmyndir um hvernig má nýta útikennslu í náttúrunni í Reykjanes jarðvangi til að gera náttúrufræðikennslu meira lifandi og flétta fleiri STEM verkefni inn í kennsluna.
„Það var mjög áhugavert að sjá endlaust framboð af námsefni sem er styrkt af fyrirtækjum. Tækifærin sem bjóðast nemendahópum í Danmörku að sækja fræðslu og vettvangsferðir með kennurum sínum er eitthvað sem væri þarft að sjá á Íslandi.”
– Drífa Thorstensen, Háaleitisskóla í Reykjanesbæ –
Í allt sóttu 18 kennarar úr 11 grunnskólum af svæðinu tvær ferðir til Danmerkur, þar sem áhersla var lögð á STEM fræðslu og útkennslu, auk þess að byggja upp tengslanet náttúrufræðikennara og efla tengsl milli skóla, þvert á sveitarfélög.
„Það sem ég tek helst með mér heim eru kynnin við kollega mína í nágrenninu sem eiga klárlega eftir að skila sér áfram í okkar vinnu. Ég kom innblásin og full tilhlökkunar heim, ég er strax farin að tala meira um vísindi í minni kennslu.“
– Guðrún Kristín Ragnarsdóttir, Stóru Vogaskóla í Vogum –
Sem hluti af námsferðunum heimsóttu hóparnir skóla og fræðslustofnanir í Danmörku, ásamt því að fá innsýn inn í fræðslustarf í tveimur ólíkum jarðvöngum, Odsherred Geopark á norðvestur Sjálandi og Geopark Det Sydfynske Øhav á suður Fjóni. Auk þess að kynnast því hvernig kennsla getur farið fram í tengslum við jarðvanga, fengu þátttakendu innsýn í hlutverk jarðvanga fyrir nærsamfélagið. Odsherred jarðvangurinn er til að mynda þekktur fyrir gott samstarf við íbúa og skóla innan jarðvangsins, með öflugri útikennslu og fjölbreyttum STEM verkefnum.
„Mín upplifun er að nemendur og fjölskyldur þeirra, leiti oft langt yfir skammt til að upplifa Ísland og þá fegurð og undur sem landið okkar hefur að geyma. Ég held að með markvissri fræðslu og kynningu sem höfðar til fjölskyldufólks á Reykjanesinu og höfuðborgarsvæðinu, mætti laða að mun fleiri fjölskyldur í dagsferðir um Reykjanesið eða á tiltekna staði innan þess.“
– Haraldur Haraldsson, Akurskóla Reykjanesbæ –
Fyrri ferðin fór fram í mars 2024 og hófst með heimsókn hópsins í Experimentarium safnið í Kaupmannahöfn þar sem kennarar gátu prufað mjög fjölbreytt gagnvirk verkefni ætluð að vekja forvitni ungs fólks á vísindum. Þá heimsótti hópurinn Háskólann í Odense þar sem hann fékk kynningu á Rannsóknarsetri um náttúruvísindi (FNUG) og hvernig þau styðja skóla og kennara við að innleiða STEM kennsluhætti. Auð auki kynntist hópurinn jarðvangnum Geopark Det Sydfynske Øhav og leiðum þeirra til að tengjast íbúum og skólum á suður Fjóni. Megin heimsókn námsferðarinnar var til Odsherred Geopark þar sem jarðfræðingar jarðvangsins sögðu frá og sýndu á hagnýtan máta hvernig þeir sinna fjölbreyttri útikennslu með nemendum í sínu nærumhverfi. Ferðinni lauk með þátttöku hópsins á Big Bang í Óðinsvéum, sem er árleg ráðstefna náttúrufræði-, útikennslu og STEM kennara í Danmörku.
„Á lokadeginum tókum við þátt í Big Bang ráðstefnunni, þar var stór sýning þar sem fyrirtæki og stofnanir kynntu námsgögnin sín. Einnig var fjölbreytt úrval af erindum og umræðuhópum sem hægt var að velja á milli. Ráðstefnan var rúsínan í pylsuendanum, við komum heim með kollinn og ferðatöskuna fulla af nýjum hugmyndum, námsaðferðum og verkfærum sem munu hafa áhrif á mína kennslu til framtíðar.“
– Hildur Sigfúsdóttir, Heiðarskóla í Reykjanesbæ-
Seinni ferðin fór fram í ágúst 2024 og hófst á þátttöku hópsins á Þekkingarþingi í Þekkingarsetrinu á Suðurnesjum. Sem fyrr var megin heimsóknin hjá Odsherred jarðvangi þar sem hópurinn fékk ítarlega kynningu á vettvangsferðum og stöðum innan jarðvangsins sem henta vel til útikennslu í m.a. jarðfræði, sögu og náttúrufræði. Stutt frá jarðvangnum má til að mynda finna Holbæks Grønne Lunge, grænt svæði sem er nýtt á fjölbreyttan hátt af skólum til náttúrufræðikennslu.
„Til þess að nemendur vakni til lífsins þegar kemur að náttúrufræðinni þá þarf kennslan að vera áhugaverð og nauðsynlegt að hafa fleiri tíma í slíka kennslu. Ég tel mestan ávinning fyrir nemendur vera að kennarinn sé áhugasamur um námsefnið og hlusti á nemendur og þeirra skoðanir.“
– Guðrún Ósk Gunnlaugsdóttir, Sandgerðisskóla í Suðurnesjabæ –
Þá heimsótti hópurinn Science Talenter í miðaldabænum Sorø, þar sem boðið var upp á heilsdags vinnustofu í fjölbreyttum STEM verkefnum í samstarfi við kennara og vísindafólk. Auk þess fengu þátttakendur tækifæri til að leita að steingervingum í vettvangsferð í nærliggjandi kalknámur. Að lokum tóku kennarar í útikennslu í jarðvangnum á suður Fjóni á móti hópnum þar sem var farið yfir nám og fræðslu tengt skóglendi, plöntu- og dýralífi svæðisins.
„Þessi ferð hefur hvatt til nýrra aðferða til að gera STEM efni aðgengilegra og meira grípandi fyrir nemendur, þverfagleg nálgun með bæði umhverfisvitund og vísindalegar rannsóknir að leiðarljósi.“
– Brynja Stefánsdóttir, Stapaskóla í Reykjanesbæ –
Það er mat hópsins að þessar tvær námsferðir kennara af Reykjanesinu til Danmerkur hafa nú þegar skilað gagnlegum og áhugaverðum hugmyndum sem eiga fullt erindi í skólastofur grunnskóla á Reykjanesinu. Þá er það mat þátttakenda að slíkar námsferðir eru vel til þess fallnar að efla tengslanet kennara þvert á skóla á Reykjanesi, sérstaklega þar sem náttúrufræðikennarar eru oft einir í sínum skóla.
Með ferðunum hefur verið lagður grunnur að formlegu samstarfsneti STEM kennara á Reykjanesi sem mun gera þeim kleift að halda áfram að deila þekkingu, hugmyndum, góðum starfsvenjum og kennsluefni sín á milli. Þá hefur verkefnið nú þegar haft áhrif á skólasamfélagið á Reykjanesi, þar sem kennarahópurinn sem tók þátt í ferðunum eru öflugir þátttakendur í undirbúningi og innleiðingu UNESCO skóla á Reykjanesinu.
„Þetta var meira en bara ferðalag, þetta var ómetanlegur innblástur fyrir samfélag náttúrufræðikennara á Reykjanesi, bæði hvað varðar nýjar hugmyndir og aðferðir, en ekki síður þetta dýrmætt tengslanet sem mun nýtast öllum þessum kennurum áfram. Svona verkefni er algjör orkusprauta inn í skólasamfélagið á Reykjanesi.“
– Sigrún Svafa Ólafsdóttir, verkefnisstjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi og GeoCamp Iceland –