fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Nemendur í tæknifræðinámi Keilis kynna lokaverkefni

Metaðsókn er í tæknifræðinám Keilis, en ríflega 40% aukning var á umsóknum í námið milli ára. Nemendur í tæknifræðinámi Keilis munu kynna lokaverkefni sín dagana 11. – 15. júní. Kynningarnar eru öllum opnar og fara fram í húsnæði Keilis stofu A3 að Grænásbraut 910, 235 Reykjanesbæ
Þriðjudagur 12. Júní9:30 Kristinn Jakobsson“Nýting Metanóls til rafmagns og varma framleiðslu með efnarafala í Grímsey”Miðvikudagur 13. Júní9:30 Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson“Úttekt á raforkugæðum þjónustumiðstöðvar Nesvalla”11:00 Gísli Lárusson“Frumhönnun á sjálfbæri dælustöð”Fimmtudagur 14. Júní11:00 Róbert Unnþórsson“Hönnun og framleiðsla á frumgerð tölvustýrðrar roðvélar”Föstudagur 15. Júní11:00 Fida Abu Libdeh“Forrannsókn:Nýting á kísil og jarðsjó frá Reykjanesvirkjun og áhrif þeirra á gerla og sveppi”13:30 Burkni“Hreinsun á felldum kísli með rafdrætti (electrodialysis)”15:00 Egill“Bilanagreining í rennslisstýringu hitaveituvatns: AVQ-hemlar í dreifikerfi HS-Veitna”
Hér á eftir fylgja upplýsingar um verkefnin og höfunda þeirra:
“Nýting Metanóls til rafmagns og varma framleiðslu með efnarafala í Grímsey”Um höfund:Kristinn Jakobsson, Fæddur 25.05.1981 á Akureyri. Hóf nám við Verkmenntaskólann á Akureyri í Vélstjórn árið 1998 allt til ársins 2000, lauk svo nám til 2. stigs vélstjórnar í Vélskóla Íslands árið 2001. Eftir ýmis tæknistörf á vinnumarkaði til sjós og lands á árunum 2001- 2006 hélt hann til Danmerkur til að stunda nám í adgangskurs og seinna véltæknifræði við Vitus Bering í Horsens. Árið 2009. Vegna brennandi áhuga á umhverfisvænum orkugjöfum hóf hann nám í umhverfis og orkutæknifræði við Háskóla Íslands sem fram fer í Keili í Reykjanesbæ, og er að útskrifast þaðan í júní 2012. Samhliða seinasta árinu í umhverfis og orkutæknifræði, hefur hann stundað MBA nám við Háskólann í Reykjavík og mun útskrifast þaðan í maí 2013.  Ágrip:Tilgangur þessarar ritgerðar er að ákvarða hagkvæmni þess möguleika að innleiða í Grímsey, kerfi fyrir orkuframleiðslu með efnarafala sem nýtir metanól sem eldsneyti. Grímsey er eitt síðasta sveitarfélag á Íslandi sem framleiðir alla sína orku úr jarðefna eldsneyti. Tvær mögulegar lausnir eru skoðaðar út frá tæknilegum möguleika, kostnaði við uppsettningu og rekstur, og almennu framboði á íhlutum. Einn möguleikinn er að skipta yfir í 180kW miðlæga framleiðslu á hita og rafmagni í efnarafala, ásamt hitaveitu og katalískum metanól umbreyti. Hinn möguleikinn er að setja upp 5kW varma og rafmagns framleiðslu á hvert heimili. Orkunotkun Grímseyjar fyrir árin 2010 og 2011 er metin og nýtt til að áhvarða þá stærð fyrir kerfið sem þörf er á. Metanól er innig skoðað og rök færð fyrir notkun þess sem orkugjafa og tækni til umbreytingar þess í vetni er útlistuð. Þekktur og áætlaður kostnaður við uppsetningu og rekstur kerfanna er metinn og færður til núvirðis miðað við 9% fjármagnskostnað, og er innri ávöxtunarkrafa líka metin miðað við tuttugu ára líftíma. Vegna erfiðleika við að fá uppgefið áætlað verð á metanóli á Íslandi var stuðst við heimsmarkaðsverð. Útreikningar sýna að ef verð á metanóli er um 70kr á líter, og ef 2% árleg verðhækkun er á olíu næstu tuttugu árin, þá er núvirði af 180kW kerfinu um 12.259.229kr og innri ávöxtunarkrafa þess um 9.52%. Aðrar hugsanlegar aðstæður leiddu í ljós neikvætt núvirði og annaðhvort litla eða neikvæða innri ávöxtunarkröfu.
“Úttekt á raforkugæðum þjónustumiðstöðvar Nesvalla”Um höfund:Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson lauk stúdetnsprófi frá Menntaskólanum Hraðbraut árið 2009. Áður og með skóla starfaði hann við ýmis þjónustustörf og kláraði einkaflugmannsréttindi hjá Flugskóla Íslands. Í framhaldinu ætlaði hann að halda áfram í flugnáminu en í stað þess varð fyrir valinu orku- og umhverfistæknifærði hjá Keili.Nú í ár er Jón Ásgeir sumarstarfsmaður hjá Orkustofnun eins og sumrin 2010 og 2011 og líkar það vel. Einnig starfaði Jón sem aðstoðarkennari (TA) hjá Keili haustið 2011 og aðstoðaði þar með nemendur og kennara. Jón Ásgeir mun í haust hefja meistaranám sitt við Danmarks Tekniske Universitet (DTU) þar sem hann hefur fengið inngöngu á sviði sjálfbærrar orku. Þar mun hann einbeita sér að efni tengdu orkusparnaði.Jón Ásgeir mun útskrifast með gráðu í Tæknifræði (BSc) með áherslu á orku- og umhverfistæknifræði frá Keili sumarið 2012Ágrip:Verkefnið er útekt á rafmagnsgæðum þjónustumiðstöðvar Nesvalla sem staðsett er í Reykjanesbæ. Tuttugu og fjögurra tíma mælingar voru framkvæmdar í aðaltöflu byggingarinnar fyrir aðalgrein hússins auk fimm undirgreina. Á þessar greinar er meðal annars tengd lyfta hússins, hluti af loftræstikerfi hússins, eldhús og almenn skrifstofuaðstaða. Niðurstöður mælinga voru færðar í tölvu og unnar.Greinilega kemur fram á niðurstöðum mælinga mynstur orkunotkunar í húsinu. Þá kemur einnig fram að spenna í húsinu er frekar stöðug en hikstar þó lítillega líklegast vegna álagsbreytinga. Álag á greinum hússins, þá sérstaklega tveim, er ekki eins og best er á kosið. Á öllum greinum kemur fram ójafnvægi milli fasta en mismikið þó. Á þessum tveim greinum kemur það fyrir yfir alla mælinguna eða hluta hennar að einn fasi greinarnnar er alveg álagslaus. Þá skilur hann eftir hina tvo fasana eftir með allt álagið. Þetta getur valdið spennusveiflum og tapi í raforkukerfi hússins. Raunaflstuðull hússin mældist lægstur í kringum 0.4 en þá var álag mjög lítið og því tapið óverulegt. Raunaflstuðullinn mældist á aðalgrein hússin 0.93 og telst það mjög gott.
“Frumhönnun á sjálfbæri dælustöð”Um höfund:Gísli Lárusson lauk stúdents og 2. stigs vélstjórnarprófi frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja vorið 2002. Eftir að hafa starfað sem rafvirki í nokkur ár  kláraði hann sveinspróf í rafvirkjun með vinnu vorið 2008 frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Frá árinu 2004 til 2008 starfaði hann hjá SI raflögnum og 2008 til 2009 starfaði hann hjá Rafiðn, eða þangað til að hann hóf nám í tæknifræði við KeiliHann hyggst hefja nám til meistaragráðu við Álaborgar háskóla nú í haust á orkusviði með áherslu á varmafræði.Ágrip:Lokaverkefnið er lýsing á frumhönnun á búnaði til framleiðslu á rafmagni frá lághitasvæðum. Búnaðurinn á að geta dælt vatni frá þessum svæðum til notkunar í litlum hitaveitum við sumarhúsabyggðir. Notast var við hver við Syðri-Reyki í Biskupstungum sem dæmi en þar er sumarhúsabygginn Arnarhóll sem nýtir vatn úr hvernum til upphitunar á húsunum. Þar sem eini rekstrarkostnaðurinn við þetta fyrirkomulag er rafmagnkostnaðurinn við dæluna myndi svona búnaður spara mikla fjármuni fyrir þetta svæði. Frumhönnun er framkvæmt og kostnaðaráætlun gerð fyrir þennan búnað.
“Hönnun og framleiðsla á frumgerð tölvustýrðrar roðvélar”Um höfund:Róbert Unnþórsson lauk 4.stigs vélstjórnarprófi frá Vélskóla Íslands árið 1999 en meðfram náminu var hann á námssamningi í vélvirkjun hjá Sjóvélum ehf.  Árið 2000 lauk hann sveinsprófi í vélvirkjun og réði sig í framhaldi til starfa hjá fyritækinu Onno ehf, þar sem hann starfaði við að yfirfæra tvívíð tölvumódel yfir í þrívídd.  Síðar það ár hóf hann störf sem tæknilegur söluráðgjafi hjá söluaðila Autodesk á Íslandi, Cad ehf. Árið 2001 hóf hann störf á hönnunardeild Fiskvéla ehf, þar sem hann kom að hönnun og þróun margvíslegra fiskvinnsluvéla og tengdum vélbúnaði fyrir iðnaðinn.  2004 hóf hann nám í iðnaðartæknifræði hjá Tækniháskóla Íslands en skipti svo yfir í iðnfræði árið 2005 þar sem fyrirkomulag námsins hentaði betur samhliða vinnu hans hjá Fiskvélum. 2009 lauk hann námi við Háskólann í Reykjavík  í raf og véliðnfræði ásamt viðbótargráðu í rekstrariðnfræði.  Haustið 2009 sótti hann um nám í mekatróník tæknifræði (BSc) hjá Keili, þaðan sem hann mun útskrifast sumarið 2012.Í haust mun hann hefja meistaranám við Danmarks Tekniske Universitet (DTU) þar sem hann hefur fengið inngöngu  á sviði tölvuverkfræði .  Þar mun hann einbeita sér að fræðum tengdum stafrænum og ígreyptum kerfum.Ágrip:Roðdráttur á bolfiski, eins og þorsk, ýsu og steinbít getur oft verið vandkvæðum háður sökum þess hve hráefnið er viðkvæmt og erfitt roðdráttar.  Vélbúnaður í fiskvinnslu getur því oft orsakað galla og los í flökum sem verður þess valdandi að fiskurinn fellur í gæðum og missir þar með verðgildi sitt. Með því að hanna tölvustýrða roðflettivél gefst tækifæri til þess að ná fram betri meðhöndlun á hráefninu og minnka um leið líkur á losi og göllum.  Tölvustýringin veitir aukna möguleika á stjórnun vélbúnaðar vélarinnar sem um leið gefur möguleika á að hagræða ferlum vélarinnar í samræmi við hráefnið hverju sinni. Búnaðurinn veitir notandanum möguleika á því að stjórna vinnsluhraða vélarinnar, þrýsting hnífa og þrýstikefla við vinnslu ásamt því að aðlaga hreyfingar fyrir aðrar fisktegundir.  Hægt er á einfaldan hátt að breyta virkni vélarinnar þannig að hún verki sem færiband og því þarf ekki að fjarlægja vélina úr vinnslulínunni í hvert skipti sem notandinn ákveður að keyra flök í gegn með roði.Með hönnun vélarinnar er því lagður grunnur að frekari prófunum við raunaðstæður í vinnsluhúsi.  Vonast er til þess að prófanir leiði í ljós aukna flakanýtingu ásamt því að draga verulega úr flökunargöllum.
María
“Forrannsókn:Nýting á kísil og jarðsjó frá Reykjanesvirkjun og áhrif þeirra á gerla og sveppi”Um höfund:Fida Abu Libdeh er fædd og uppalin í Palistínu (Jerusalem) og kom hún hingað til Íslands árið 1995 þá 16 ára gömul. Markmiðið hennar í lífinu var að mennta sig og gera hluti sem skipta máli, en því miður vegna skorts á stuðningi fyrir innflytjendur sem koma til landsins á hennar aldri gat hún ekki klárað menntaskólann. Eftir að hafa unnið mismunandi störf, aðalega þjónustustörf, ákvað hún að hefja sinn eigin rekstur og stofnaði fyrirtækið Fida ehf. og rak söluturn og videoleigu í nokkur ár. Árin 2005-2007 vann hún sem vaktstjóri hjá Olíuverslun Íslands og eining hefur hún starfað þar eða þangað til Keilir var stofnaður. Þá sá hún loksins tækifæri til að mennta sig. Hún kláraði Viðskipta og hagfræðideild Háskólabrúar Keilis árið 2008 og var í fysta útskriftarhóp sem útskrifaðist þaðan. Árið 2009 skráði hún sig í umhverfis og orkutæknifræði  í Keili og útskrifast nú með Bsc gráðu frá Háskóla íslands í júní 2012 þegar Orku-tækniskóli Keilis útskrifar sína fyrstu tæknifræðinga.Jafnframt því að stunda sitt nám af dugnaði eignaðist hún dóttur árið 2009 og átti þá fyrir 3ja ára dóttur. Móðurhlutverkið og uppeldið á börnum sínum stundaði hún af síst minni dugnaði.Ágrip:Verkefnið fjallar um mögulega nýtingu á kísil frá Reykjanesvirkjun til framleiðslu á heilsuvörum enn fremur mögulega sótthreinsandi virkni hans á mismunandi gerla og sveppi.Kísill og jarðsjór eru mjög áhugaverð efni og á Íslandi höfum við nóg af þeim.  því miður er öllum  efnaríkjum jarðsjó sem inniheldur kísil, dælt aftur í hafið og er ekki nýtt til neinnar framleiðslu. Mögulega væri hægt að framleiða um 8500 tonn á ári af kísli úr þeim jarðsjó, um 350 l/s af efnaríkum jarðsjó, sem í dag rennur til sjávar. Nú er vel þekkt að kísill í Bláa Lóninu hefur mjög góð áhrif á húðsjúkdóma s.s. sóriasis  og einnig að engir óheilsusamlegir gerlar þrífast þar, en nánast ekkert er vítað um áhríf kísils frá Reykjanesvirkjun. Þessi rannsókn er líður í því að bæta úr þessum þekkingarskorti.Fyrirtækið Agnir ehf. stundar rannsóknir á aðferðum til að fella kísil úr jarðsjó frá Reykjanesvirkjun með svo kölluðu SR-tæki. Kísill og jarðsjór sem er meðhöndlaður með SR- tækinu er mjög sérstakur þar sem hann heldur sér mjög vel í formi kísilþykknis, allur kísill og jarðsjór í þessari rannsókn eru meðhöndlaðir í SR-tækinu án nokkurra viðbættra efna.Í samstarfi við Matís voru gerðar rannsóknir á kísil og jarðsjó og áhrif hans athuguð á gerla og sveppi. Notaðir voru algengustu gerlar sem eru á húð og og gætu skaðað fólk í miklu magni og sama var gert með sveppina.Jarðsjór hefur eftirtektarverð áhrif á gerla. Þó áhrif hans á sveppi hafi ekki verið rannsökuð ennþá er áhugavert að rannsaka það..  
“Hreinsun á felldum kísli með rafdrætti (electrodialysis)”Um höfund:Burkni Pálsson lauk stúdentsprófi af eðslifræði I braut við Menntaskólann í Reykjavik árið 1994. Það sama ár tók hann þátt í Ólympíuleikunum í eðlisfræði fyrir hönd Íslands sem haldnir voru í Peking.  Að loknu stúdentsprófi  hóf hann nám í eðlisfræði og stærðfræði við Háskóla Íslands og lauk B.Sc. prófi í báðum greinum 4 árum síðar þrátt fyrir að hafa verið í fullu starfi hjá Íslenskri Erfðagreiningu undanfarið árið. Burkni starfaði um árabil hjá Íslenskri erfðagreiningu sem sérfræðingur í lífupplýsingatækni  (Bioinformatics)  Eftir að hann hætti störfum hjá Íslenskri Erfðagreiningu stundaði hann ýmis störf sem forritari m.a. hjá markaðsdeild Landsbanka Íslands um stutt skeið. Ákvörðunina um að setjast aftur á skólabekk tók Burkni eftir að hafa verið atvinnulaus um tíma en einnig spilaði áhugi á nýtingu jarðvarma þar stórt hlutverk.  Burkni mun útskrifast með B.Sc. gráðu  í orku og umhverfisfræði frá Háskóla Íslands þann 23. Júni þegar tækniháskóli Keilis útskrifar sinn fyrsta árgang.Ágrip:I dag renna um það bil 350 sekúndulítrar af ónýttum efnaríkum jarðsjó frá skiljustöð Reykjanesvirkjunnar til sjávar. Þessi heiti jarðsjór sem er skilinn frá gufunni í skiljustöðinni er í dag ónýtanlegur vegna kísilútfellinga sem yrðu í pípum og öðrum tækjum sem hann væri leiddur um.  Fyrirtækið Agnir ehf sem þetta verkefni er unnið í samstarfi við, er að vinna að rannsóknum sem miða að því að fella út kísilinn aður en hann veldur vandræðum. Þetta myndi hafa í för með sér töluverða framleiðslu á felldum kísli sem er verðmæt afurð. Verðmæti hans er hinsvegar mjög háður hreinleika hans. Því hreinni sem hann er því verðmætari er hann. Verkefni mitt felst í því að kanna möguleika þess að nota aðferð og búnað sem kallast rafdráttur eða á ensku electrodialysis til að hreinsa felldan kísil frá Reykjanesvirkjun eins mikið og mögulegt er,  en á sama tíma að hámarka afköst búnaðarins. Rafdráttur flytur jónir úr einum vökva yfir í annan með hjálp rafsviðs og sérstakra himna sem hleypa annaðhvort aðeins jákvæðum jónum í gegnum sig eða aðeins neikvæðum jónum. Segja má að verkefnið sé tvíþætt. Fyrri hluti þess felst í því að læra á búnaðinn og finna hvaða samsetningar á himnuhólfinu gefa mest afköst og mesta hreinleika. Seinni hlutinn felst svo í því að ákvarða hreinleika hreinsaða kísilsins eftir að hann hefur verið skilinn frá hreinsuðum jarðsjónum og þurrkaður.  Það verður gert annarsvegar með því að mæla styrk klórjóna í kíslinum með aðferð Mohr sem byggir á útfellingartítrun og svo hinsvegar með mælingum á styrk natríum-og kalsíumjóna sem gerðar verða með atom gleypni litrófsmæli (e. Atomic Absorption Spectrometer).
“Bilanagreining í rennslisstýringu hitaveituvatns: AVQ-hemlar í dreifikerfi HS-Veitna”Um höfund:Egill Jónasson lauk iðnnámi í rafvirkjun árið 2004 frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja, ásamt sveinsprófi. Árið 2007 lauk hann stúdentsprófi frá sama skóla. Einnig lauk hann einu ári (60 ECTS einingar) í Byggingarfræði við VIA University í Horsens Danmörku. Frá árunum 1999 til 2012 hefur Egill unnið við mörg fjölbreytileg störf. Í verkefnastjórn hjá Reykjanesbæ, sem rafvirki hjá ÍAV við bygginu Hörpunnar og uppsetningu á nýjum háspennustreng á flugbrautum Keflavíkurflugvallar, hjá Varnarliðinu við viðhald, og hjá HS-Orku við uppsetningu og viðhald á búnaði í Svartsengi.Ágrip:Lokaritgerðin er um rannsókn sem fór fram í tengslum við BSc gráðu í Orku- og umhverfistæknifræði við Keili. Rannsóknin miðar af því finna þá bilun sem á sér stað í AVQ hemlum sem HS-Veitur nota til sölu á heitu vatni.HS-Veitur nota hemla eða stillanlega þrýstijafnara við sölu á heitu vatni í dreifikerfi sínu. Þessir hemlar eru af gerðinni AVQ og eru framleiddir af Danfoss. Þessir hemlar hafa reynst illa og eru með háa bilunartíðni. Bilunin lýsir sér þannig að eftir smátíma í notkun minnkar flæðið í gegnum hemilinn, með þeim afleiðingum að kaupandinn fær ekki það magn sem hann borgar fyrir. Starfsmenn frá HS-Veitum sem hafa verið að skoða þetta mál ásamt sérfræðingum frá Danfoss, hafa enn ekki komist að ásættanlegri niðurstöðu í þessu máli, þrátt fyrir mikla og ítarlega rannsókn. Gerð var rannsókn á efnasamsetningu vatnsins, og þar skoðað sýrustig (pH) vatnsins, klór og karbónat innihald, súlfíð, og harka vatnsins var mæld. Við úrvinnslu gagna kom í ljós að súlfat mældist 11,5 ppm eftir upphitun á vatninu, og er hann mjög tærandi fyrir koparmelmi. Við skoðun á notuðum hemlum kom í ljós að tæring eða útfelling hafi átt sér stað í flæðirásinni í hemlinum, sem gæti verið að valda minnkandi flæði í hemlinum. Skipt var um koparmelmin í flæðirásinni og sett 316 ryðfrítt stál í staðinn. Við prófanir kom í ljós að engin tæring hafði safnast fyrir í hemlinum, en þrátt fyrir það var minnkandi flæði í hemli.  Á grundvelli þessarar niðurstöðu er ekki hægt að draga afgerandi ályktanir um orsök vandans. Ástæða er til að kanna frekar samverkandi þætti sem einnig gætu valdið minnkandi rennsli svo sem áhrif þrýstingsbreytinga í kerfinu.