fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

19. Aðalfundur SSS 26. október 1996

19. aðalfundur S.S.S haldinn í samkomuhúsinu í Sandgerði föstudaginn 25. og laugardaginn 26. október 1996.

Dagskrá:

Föstudagur 25. október 1996.

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
2.  Fundarsetning.
3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
4. Skýrsla stjórnar: Óskar Gunnarsson.
5. Ársreikningar S.S.S. fyrir árið 1995,
Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri.
6. Umræður og skýrslu stjórnar og ársreikning.
7. Skýrslur starfshópa og nefnda á vegum SSS.
8. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
9. Ávörp gesta.
10. Ávarp félagsmálaráðherra Páls Péturssonar.

11. Kaffihlé.

12. Yfirfærsla grunnskólans til sveitarfélaganna.
Sigurjón Pétursson, Samb. ísl. sveitarfélaga.
Eiríkur Hermannsson, Skólaskrifst. Reykjanesbæjar
Halldór Ingvason, Grindavíkurbæ.
13. Umræður.
14. Fundi frestað.

Laugardagur 26. október 1996.

15. Atvinnumál á Suðurnesjum – horft til framtíðar.
Framtíðarsýn í orkumálum á Reykjanesskaga.
Magnesíumverksmiðja og fl. verkefni.
Júlíus Jónsson forstjóri Hitaveitu Suðurnesja
Albert Albertsson aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja

Hlé

Atvinnuuppbygging og samkeppnisstaða Suðurnesja
Halldór Kristjánsson ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytinu
Leitun að fjárfestum
Friðjón Einarsson framkvæmdastjóri MOA
Sæbýli, dæmi um nýsköpun í atvinnulífi
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, stjórnarformaður.

16.  Umræður.

17. Hlé.

18. Atvinnumál á Suðurnesjum – horft til framtíðar.
Menntun og samkeppnisstaða Suðurnesja.
–   átak til eflingar starfsmenntunar á Suðurnesjum.
–   Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari F.S.
–   Logi Þormóðsson, fiskverkandi.
–   Upplýsingasamfélagið – hlutverk bókasafna
–   Hulda  Þorkelsdóttir, bæjarbókavörður.
19.  Umræður.
20. Kaffihlé
21. Ályktanir – umræður og afgreiðsla.
22. Önnur mál.
23. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
24. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
25. Kosnir 4 fulltrúar á ársfund Landvirkjunar.
26. Fundarslit

Fulltrúafjöldi:  Reykjanesbær  10
    Grindavíkurbær   5
    Sandgerði    8
    Gerðahreppur    8
    Vatnsleysustr.hr.   6

Gestir fundarins og frummælendur:
Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, Ólafur G. Einarsson, Sigríður A. Þórðardóttir, Árni M. Mathiesen, Hjálmar Árnason, Sigríður Jóhannesdóttir, Kristján  Pálsson, Ágúst Einarsson, Siv Friðleifsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Kristín Halldórsdóttir, Árni R. Árnason, Petrína Baldursdóttir, Guðmundur I. Gunnlaugsson, form. S.A.S.S., Jónas Egilsson, framkvæmdastjóri S.S.H., Sigurjón Pétursson frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Eiríkur Hermannsson, skólaskrifstofu Reykjanesbæjar, Halldór Ingvason, félagsmálastjóri, Hulda Þorkelsdóttir, bæjarbókavörður, Sigurgeir B.  Kristgeirsson stjórnarform., Júlíus Jónsson forstjóri H.S., Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri, Friðjón Einarsson framkvæmdastjóri, Halldór J. Kristjánsson ráðuneytisstjóri, Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólameistari, Logi Þormóðsson, fiskverkandi.

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.

2. Fundarsetning.
Formaður S.S.S. Óskar Gunnarsson setti fund og bauð fulltrúa og gesti   velkomna.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Lagði formaður til að fundarstjórar yrðu Pétur Brynjarsson og Sigurður Valur Ásbjarnarson til vara.  Var það samþykkt samhljóða.
Lagði hann einnig til að ritarar fundarins yrðu Sigurbjörg Eiríksdóttir,  Reynir  Sveinsson og til vara Gunnlaugur Hauksson og Guðjón Ólafsson.  Samþykkt.
        
4. Skýrsla stjórnar.

Óskar Gunnarsson formaður S.S.S. flutti skýrsluna.
Í hans máli kom fram að á aðalfundi sem haldinn var í Grindavík 13. og 14. október 1995 voru þær breytingar gerðar á samþykktum SSS að stjórnarmenn skyldu vera fimm, einn frá hverju sveitarfélagi í stað sjö áður.  Aðrar helstu breytingar voru, samþykktir stjórnar SSS sem eru fjárhagslegs eðlis þurfa samþykki meiri hluta stjórnar, ásamt samþykkt fulltrúa þeirra aðila sem bera meirihluta kostnaðar við rekstur sambandsins hverju sinni, að öðru leiti ræður einfaldur meirihluti stjórnar.
Þá voru einnig samþykktar breytingar á kjöri í launanefnd SSS og hún nú kjörin út kjörtímabil sveitarstjórna.
Stjórnarfundir S.S.S. voru 19 á starfsárinu.
Málefni D-álmu voru mjög til umræðu og margir fundir haldnir um það mál.  Eftir stíf fundarhöld var undirritað minnisblað dags. 12.12. 1995 og jafnframt var kallaður saman samráðsfundur allra sveitarfélaganna og stjórnar sjúkrahúss og heilsugæslu þann 14. desember um þetta minnisblað.
Í framhaldi af því veittu öll aðildarsveitarfélögin stjórn S.S.S. umboð til að fara í viðræður um endurskoðun samningsins um byggingu um D-álmu.  Stjórn S.S.S. fól Drífu Sigfúsdóttur, Jóni Gunnarssyni og Sigurði Val Ásbjarnarsyni að halda áfram viðræðum við hlutaðeigandi aðila.  
Annar málaflokkur, flutningur grunnskóla yfir til sveitarfélaganna var einnig nokkuð fyrirferðamikill í starfi stjórnarinnar.  Nefnd sveitarfélaganna undirbjó yfirtöku verkefna sem fræðsluskrifstofan hafði sinnt.  Nýlega hefur verið gengið frá samningi milli Skólaskrifstofu Reykjanesbæjar og sveitarfélaganna.
Samstarf við önnur landshlutasamtök var gott og kom sveitarstjórnarfólk af höfuðborgarsvæðinu í heimsókn 15. mars s.l.
17. maí s.l. stóð stjórn S.S.S. fyrir fundi um flutning grunnskólans til  sveitarfélaga.
Samstarfi við MOA var fram haldið og var samningur undirritaður 4. júlí s.l. milli Byggðastofnunar, S.S.S. og Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar.
Að lokum þakkaði formaður samstarf við stjórnarmenn, starfsfólk og framkvæmdastjóra.

5. Ársreikningar S.S.S. fyrir árið 1995.
Framkvæmdastjóri Guðjón Guðmundsson skýrði reikningana sem voru með  hefðbundnum hætti.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Ein fyrirspurn kom um ársreikninginn og svaraði Guðjón Guðmundsson henni.
Ársreikningurinn samþykktur samhljóða.

7. Skýrslur starfshópa  og nefnda á vegum SSS.
Drífa Sigfúsdóttir sagði frá störfum starfshóps um byggingu um D-álmu.

8. Ályktanir.
Stjórnin lagði fram 4 ályktanir, um vegamál, niðurfellingu gjalda á slökkvi- og björgunarbúnaði, stofnun starfshóps um framtíðarstefnumótun í flugsamgöngum á Íslandi og fíkniefnavandann.

9. Ávörp gesta.
Ólafur G. Einarsson, forseti Alþingis, flutti kveðjur þingmanna.

Guðmundur Gunnlaugsson formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi flutti  kveðjur SASS  og ræddi hann um hlutverk landshlutasamtaka.

10. Ávarp félagsmálaráðherra Páls Péturssonar.
Páll taldi yfirfærslu grunnskólans hafa tekist vel og fór yfir nokkur atriði í   samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaganna.  Hann ræddi um þau verkefni sem flytjast munu yfir til sveitarfélaganna á næstu árum þ.e. 1. janúar 1998 munu sveitarfélögin yfirtaka húsaleigubæturnar og 1. janúar 1999 munu sveitarfélögin yfirtaka málefni fatlaðra.  Þetta er mjög fjárfrekur málaflokkur og  fjárlögum fyrir næsta ár er aukið fé í þennan flokk. Endurskoðun sveitarstjórnarlaga stendur yfir  og á henni að ljúka fyrir 15. janúar n.k. þar hefur verið m.a. rætt um nafngiftir sveitarfélaga og ábyrgðir  sveitarfélaga.
Félagsmálaráðherra ræddi um úttekt sem ríkisendurskoðun hefur gert á Húsnæðistofnun.  En þar kemur fram að endurskipulagningar er þörf og er það starf hafið nú þegar.  Reglum á útlánum hjá Húsnæðisstofnun hefur verið breytt.  Þeir sem fá lán til kaupa á íbúð í fyrsta sinn hefur verið aukin úr 65% í 70%.
Páll ræddi um að félagslega íbúðakerfið væri í ógöngum og úrbóta væri þörf og rætt hefur verið um að sameina byggingasjóðina og  afskrifa hluta íbúðaverðs.
Stofnun ráðgjafarstofu hefur sannað gildi sitt og hafa 400 aðilar notið aðstoðar hennar.  Páll ræddi um að breyta yrði vinnubrögðum stofnana þar sem aðgengi að fjármagni væri ofgreitt.  Að afnema verði núverandi lánakerfi þar sem þriðji aðili er fenginn til þess að skrifa upp á lán.  Raunsærra væri að meta lántakanda eftir getu hans.      

Anna Margrét Guðmundsdóttir spurði hvort tíminn  til 1. janúar 1999 væri nógu langur til að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna?
Og hvað yrði um framkvæmdasjóð fatlaðra eftir yfirtökuna?

Páll svaraði Önnu Margréti og sagði að það hefði verið mat Sambands ísl.  sveitarfélaga að tíminn til 1999 væri nægur.  Þegar nær dregur og ef menn sjá  að tíminn dugar ekki er alltaf möguleiki á að fresta yfirfærslunni.
Varðandi framkvæmdasjóð þá væri ekki nauðsynlegt að leggja sjóðinn niður þótt  sveitarfélögin yfirtaki málefni fatlaðra.

11. Kaffihlé.

12. Yfirtaka grunnskólans til sveitarfélaganna.
Fyrstur tók til máls Sigurjón Pétursson og sagði að sú breyting sem varð á verkaskiptum ríkis og sveitarfélaga við yfirtöku sveitarfélaganna á öllum kostnaði vegna grunnskólans, væri sennilega mesta tilfærsla á fjármunum og vinnuafli sem átt hefur  stað með einu samkomulagi.  Hlutverk og starf Sambands ísl. sveitarfélaga við þessa miklu verkefnatilfærslu mætti í grófum dráttum skipta í þrennt:

Í fyrsta lagi undirbúningur verkefnatilfærslunnar.
Í öðru lagi verkefni sem ákveðin voru með lögum.
Í þriðja lagi verkefni sem snerta fleiri en eitt sveitarfélag en ekki verða notuð hjá neinu sérstöku sveitarfélagi og/eða verkefni sem sveitarfélögin eitt eða fleiri óska eftir að sambandið  hlutist til um með lausn á.

Sigurjón sagði að Samband ísl. sveitarfélaga hefði ekki í hyggju að reka grunnskóla.  Grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna og mun menntamálaráðuneytið sjá um að uppfylltar verði þær lágmarkskröfur sem gera verður til grunnskólamenntunar.
Eiríkur Hermannsson sagði að aðeins 12 vikur frá svo umfangsmikilli kerfisbreytingu væri of skammur tími til stórra dóma.  Hann ræddi um þjónustusamninga Reykjanesbæjar við nágrannasveitarfélög, ný grunnskólalög, endurmenntun kennara og breytt hlutverk menntamála-ráðuneytis.  Eiríkur hefur áhyggjur af sérskólunum og sagði  óvissu um framtíð þeirra.  Reglur jöfnunarsjóðs vegna sérkennslu væru ókomnar því væru margir í nokkurri óvissu um fjármögnun dýrra en oft bráðnauðsynlegra sérkennsluúrræða.
Grunnskólinn heim, er orðinn að veruleika með öllum kostum og göllum. Kostirnir væru fleiri.  Markmiðið er betri skóli fyrir börnin og þar er ábyrgðin nú okkar.

Halldór Ingvason, skólamálafulltrúi í Grindavík rakti aðdraganda yfir-tökunnar í Grindavík og skipan mála þar.  Taldi hann, hana hafa gengið bærilega en benti á ýmis hættumerki á lofti varðandi yfirtökuna og nefndi sem dæmi að einsetning skóla myndi hafa mun meiri kostnað í för með sér en menn gerðu sér grein fyrir.  Einnig benti hann á að ef ekki yrði bætt við þá fjármuni sem lagt er til nú á fjárlögum, til endurmenntunar kennara myndi sá kostnaður lenda á sveitarfélögunum.

13. Umræður.
Nokkrar umræður urðu.  Einnig komu nokkrar fyrirspurnir til frummælenda sem þeir svöruðu.

14. Fundi frestað til næsta dags.

15. Atvinnumál á Suðurnesjum – horft til framtíðar.
Framtíðarsýn í orkumálum á Reykjanesskaga
Magnesíumverksmiðja og fl. verkefni
      
Júlíus Jónsson forstjóri Hitaveitu Suðurnesja og stjórnarformaður Íslenska Magnesíumfélagsins sagði að seinni hluta hagkvæmni athugunar á Magnesíumverksmiðju á Reykjanesi væri að ljúka á næstu vikum og í febrúar fengi Íslenska Magnesíumfélagið skýrslu í hendur sem hægt væri að leggja fyrir fjárfesta um arðsemi framleiðslunnar.

  Albert Albertsson  aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja fór  yfir þá vinnu sem  unnin hefur verið í sambandi við magnesíumverksmiðju. Í máli hans kom fram  að árið 1981  var gerð skýrsla þar sem fram kom að Reykjanessvæðið væri  álitlegur  verksmiðjustaður. Í upphafi árs 1995 tók H.S. afgerandi frumkvæði og  hefur í samvinnu við aðra unnið að forhagkvæmni athugun síðan.  Enn í ljós hefði komið að hagkvæmast væri að byggja magnesíumverksmiðju á Reykjanesi.
Stofnkostnaður verksmiðjunnar er áætlaður 30-35 milljarðar króna.  Starfsmannafjöldi yrði 350 til 400 þegar starfsemin er komin í gang og er afurðaverðmæti áætlað um 11 til 12 milljarðar á ári miðað við 50 þúsund tonna framleiðslu af magnesíum.

Atvinnuuppbygging og samkeppnisstaða Suðurnesja.
Halldór Kristjánsson ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneyti.
Halldór ræddi um samkeppnisstöðu Suðurnesja þar sem styrkleikinn fælist m.a. í jarðhita, raforku, vatnslindum og sjávarfangi.  Þá benti hann á nálægð við alþjóðaflugvöll og hafnir.  Hann taldi mjög skynsamlegt að hafa Suðurnesin eitt atvinnusvæði og með stofnun Markaðs og atvinnumálaskrifstofu hefði verið einfölduð stjórnsýsla vegna atvinnumála.

Leitun að fjárfestum.
Friðjón Einarsson framkvæmdastjóri MOA.
Friðjón sagði að hér á Suðurnesum hefði á síðustu misserum verið gert átak í því að kynna kosti svæðisins fyrir erlendum fjárfestum og sérstaklega hefði átakinu verið beint til Englands, Þýskalands og Bandaríkjanna.  Kynningarbæklingur hefur verið gefinn út til dreifingar  erlendis.  Þrátt fyrir góðan vilja og mikla vinnu þá gengi treglega að sannfæra erlenda fjárfesta um ágæti þess að verja peningunum sínum í fárfestingu hér á landi.  Friðjón sagði að leitin að erlendum fjárfestum mundi halda áfram og skila okkur betra búi í framtíðinni.

 
Sæbýli – dæmi um nýsköpun í atvinnulífi.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson stjórnarformaður.
Sigurgeir sagði að Sæbýli ræktaði sæsnigil sem nefndist sæeyra og að  neytendur væru helst Asíuþjóðir, Kínverjar og Japanir.  Neytendur vilja fá snigilinn lifandi eða hráan á borðið.  Hann er líka sviðinn, þurrkaður eða frystur.   Sigurgeir vildi ekki tala um velheppnaða nýsköpun í atvinnulífi fyrr en eftir 4 til 5 ár.

16. Umræður.
Þessir tóku til máls undir þessum lið.
Hjálmar Árnason, Ellert Eiríksson, Jón Gunnarsson, Kristján Pálsson, Árni R. Árnason.
Þótt allir séu þeir ekki sammála, töldu þeir þó allir þetta hafa verið mjög fróðleg erindi og sýna framsýni sveitarstjórnarmanna að hafa yfirskrift fundarins þessa.

17.  Matarhlé.

18. Atvinnumál á Suðurnesjum – horft til framtíðar.
Menntun og samkeppnisstaða Suðurnesja.
–  átak til eflingar starfsmenntunar á Suðurnesjum.
–  Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari F.S.
Ólafur talaði um í  erindi sínu að lítil sem engin tengsl væru milli atvinnulífs og skóla.   Störfum í framleiðslu hefur fækkað og fjölda nema í verk- og iðnnámi á Suðurnesjum fjölgaði ekki. Markmið símenntunar á Suðurnesjum væri að auka samstarf milli atvinnulífs og skóla.  Í undirbúningi væri stofnun miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sem er samstarfsverkefni Fjölbrautaskólans, aðila vinnumarkaðarins,  Markaðs og atvinnumálaskrifstofu svo og sveitarfélaganna á Suðurnesjum.  
Ólafur sagði miðstöðina hugsaða sem miðlun sem býður námskeiðahald.  Starfsbrautir og námskeið verða sett saman af hópi aðila vinnumarkaðar og skóla sem skilgreina nám og námskröfur.  Námskeiðin eiga að vera öllum opin og eiga að standa undir sér.

Logi Þormóðsson fiskverkandi.
Hann sagðist mjög ánægður með þetta átak  til eflingar starfsmenntunar sem  Ólafur kynnti.  En sagði að samræmi þyrfti að vera í því sem skólinn  býður upp á og þeirra þarfa sem atvinnulífið krefst.
Logi talaði um að atvinnulífið væri ungt og breyting hefði orðið á því að Íslendingar vildu fjárfesta í fyrirtækjum og fyrirtækin eru því orðin eign almennings. 

Upplýsingasamfélagið  – hlutverk bókasafna.
Hulda Björk Þorkelsdóttir, bæjarbókavörður.
Hulda brá sjónum sínum til framtíðar og velti fyrir sér vægi almennings-bókasafna í atvinnulífinu og hlutverki þeirra sem upplýsingamiðstöð.  Hún lagði áherslu á að menntun væri ævistarf og því verði boðið upp á endurmenntun í síauknum mæli þar á meðal á almenningsbókasöfnum.  Hingað til hefði aðaláherslan verið lögð á að safna og varðveita en með breyttu samfélagi yrði áhersla lögð á að miðla og gera fólk sjálfbjarga í upplýsingaflóðinu.
Hulda ræddi um skýrslu sem ríkisstjórnin sendi frá sér um stefnu stjórnvalda í málefnum upplýsingasamfélagsins.  Í þessari skýrslu segir að auka þurfi áherslu á menntun og þjálfun til muna því breytingar á störfum á vinnumarkaði og stóraukið vægi miðlunar og úrvinnslu upplýsinga á öllum sviðum veldur því að gjáin milli þeirra sem tileinka sér nýja þekkingu og hinna sem eftir sitja getur orðið óbrúanleg.

19.  Umræður:
Þessir tóku til máls undir þessum lið.
Sigríður Jóhannesdóttir, Jónína Sanders, Ellert Eiríksson, Kristján Pálsson og Sólveig Þórðardóttir.   Þau töldu þetta hafa verið mjög fróðleg erindi og komu með nokkrar fyrirspurnir til frummælenda og var þeim öllum svarað.

20. Kaffihlé.

21. Ályktanir – umræður og afgreiðsla.

Tillaga til ályktunar um fíkniefnavandann.
“ Í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur um fíkniefnavandann, er stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum falið að kanna, hvort grundvöllur sé fyrir sérstöku átaki hvað varðar forvarnir á þessu sviði í samstarfi allra þeirra aðila á Suðurnesjum sem láta sig málið varða.”

Samþykkt með 24 atkvæðum.

Tillaga til ályktunar um stofnun starfshóps um framtíðarstefnumótun í flugsamgöngum á Íslandi.
“Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum samþykkir að beina þeim tilmælum til samgönguráðherra að beita sér fyrir stofnun starfshóps í þeim tilgangi að móta tillögur um framtíðar stefnumótun í flugsamgöngum á Íslandi.
Aðalfundurinn bendir á mikilvægi þess að samstaða myndist um framtíð flugsins á Íslandi og að eðlilega verði staðið að uppbyggingu mannvirkja á þeim vettvangi.  Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt og ritað um þessi mál og er það samdóma álit að eðlilegast sé að flytja flugsamgöngur frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar enda aðstæður þar allar mun betri og slysahætta minni.
Í stað þess að kosta til dýrum endurbótum á Reykjavíkurflugvelli væri eðlilegast að nota féð til að bæta samgöngukerfið og stytta ferðatímann verulega til Keflavíkurflugvallar og styrkja þannig framtíðarhlutverk flugvallarins og hanna hagkvæma flugstöð og flugvélastæði við hlið Leifsstöðvar.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
 

 

Tillaga til ályktunar um niðurfellingu gjalda á slökkvi- og björgunar-búnaði.
“Aðalfundur S.S.S. haldinn í Sandgerðisbæ 25. og 26. okt. 1996, skorar á stjórnvöld landsins að koma til móts við sveitarfélög sem endurnýja þurfa slökkvi- og björgunarbúnað, með endurgreiðslu á virðisaukaskatti og niðurfellingu á öðrum opinberum gjöldum.”

Greinargerð:
Mikillar endurnýjunar er þörf á slökkvi- og björgunarbúnaði slökkviliðanna víða í landinu, en þau eru rekin af sveitarfélögunum.  Frá því lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt tóku gildi hafa aðflutningsgjöld af slíkum búnaði ekki fengist felld niður eða endurgreidd, nema vörugjald af slökkvibifreiðum.
Það er því í hæsta máta óeðlilegt að ríkið skattleggi öryggisþjónustu sveitarfélaga með þeim hætti sem nú er gert.  Því er skorað á fjármálaráðherra að nýta nú þegar heimild í 3 mgr. 42. gr. ofangreindra laga og bæta slökkvi- og björgunarbúnaði við 12. mgr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.
Einnig er skorað á fjármálaráðherra að beita sér fyrir breytingum laga og reglugerða sem með þarf til að fella niður opinber gjöld vegna endurnýjunar á slökkvi- og björgunarbúnaði.

Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Tillaga til ályktunar um vegamál á Suðurnesjum.
“Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Sandgerðisbæ, 25. og 26. október 1996 samþykkir eftirfarandi forgangsröðun verkefna í vegamálum á Suðurnesjum til næstu ára.

Í fyrsta lagi:
Að lokið verði lýsingu Reykjanesbrautar að Flugstöð og að áfram verði unnið að frágangi gatnamóta, tvöföldun og lagfæringum á þverhalla.

Í öðru lagi:
Lýsing afleggjara að Vogum.
Lýsing á Reykjanesvegi að Sorpeyðingarstöð.
Lýsing á Garðvegi.
Nýr vegur Ósabotnar-Stafnes (breikkun til Sandgerðis).
Nýr vegur Bláa Lónið – Grindavík vestan Þorbjarnar.

Í þriðja lagi:
Suðurstrandarvegur frá Reykjanesi – Grindavík – Þorlákshöfn.

Í fjórða lagi:
Lýsing Grindavíkurvegar.
Lýsing Sandgerðisvegar.

Einnig telur aðalfundur S.S.S. að brýnt sé að byggja upp veginn frá Saltverksmiðju að Reykjanestá og um hverasvæðið á Reykjanesi vegna hins mikla aðdráttarafls sem Reykjanes hefur verið fyrir ferðamenn árið um kring.
Einnig að færa veg út fyrir byggð í Höfnum.

Einnig vill aðalfundurinn leggja áherslu á að hafinn verði nú þegar undirbúningur og lagning hjólreiðabrautar frá Njarðvík um Voga til Hafnarfjarðar.”

Samþykkt með 20 atkvæðum gegn 1 atkvæði.

22. Önnur mál.
Jóhann Geirdal tók til máls og þakkaði fyrir fróðleg og spennandi erindi.  Sveitarstjórnarmenn yrðu að fylgjast vel með og styðja við bakið á þessu. verkefni.

23. Tilnefning til stjórnar S.S.S. árið 1996 til 1997.

  Reykjanesbær:  Aðalmaður:   Drífa Sigfúsdóttir
     Varamaður: Steindór Sigurðsson

Grindavíkurbær: Aðalmaður: Hallgrímur Bogason
     Varamaður: Margrét Gunnarsdóttir

Sandgerðisbær: Aðalmaður: Pétur Brynjarsson
     Varamaður: Sigurður V. Ásbjarnarson

Gerðahreppur:  Aðalmaður: Sigurður Jónsson
     Varamaður: Sigurður Ingvarsson

Vatnsleysustr.hr.: Aðalmaður: Jón Gunnarsson
     Varamaður: Jóhanna Reynisdóttir

24. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.

Tillaga stjórnar er:

     Aðalmenn: Ingimundur Guðnason, Gerðahreppi.
       Magnús Haraldsson, Reykjanesbæ.
  
     Varamenn: Ingólfur Bárðarson og
       Ellert Eiríksson, Reykjanesbæ.

  Samþykkt samhljóða.

25. Kosnir 4 fulltrúar á ársfund Landsvirkjunar.

Tillaga stjórnar er:  Óskar Gunnarsson, Sandgerði.
      Drífa Sigfúsdóttir, Reykjanesbæ.
      Jón Gunnarsson, Vatnsleysustr.hr.
      Guðjón Guðmundsson, S.S.S.
Samþykkt samhljóða

26. Fundarslit.

Óskar Gunnarsson formaður þakkaði góðan fund svo og starfsfólki og sleit síðan 19. aðalfundi S.S.S.

     

Jóhanna María Einarsdóttir, fundarritari (sign.)