fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

26. Aðalfundur SSS 25. október 2003

Fundargerð 26. aðalfundar
Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2003

26. aðalfundur S.S.S. haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ, laugardaginn 25. Október 2003.

Dagskrá:

Kl. 09:30 1. Skáning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 10:00 2. Fundarsetning:  Böðvar Jónsson formaður S.S.S.
  3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  4. Skýrsla stjórnar:  Böðvar Jónsson, formaður S.S.S.
  5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2002
   Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri.
  6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
  7. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl. 11:00 8. Heilbrigðisþjónustan á Suðurnesjum.
   Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tr.málaráðherra. 
   Sigríður Snæbjörnsdóttir forstjóri H.S.S.
   Jón Gunnarsson alþingism. og stjórnarm. S.S.S.
  9. Fyrirspurnir og umræður.
Kl. 12.30  Hádegisverðarhlé
Kl. 13:30 10. Náttúruverndaráætlanir:
   Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra.
  11. Fyrirspurnir og umræður.
Kl. 14:10 12. Ávörp:
   Guðjón Bragason skrifstofustj. Félagsmálaráðun.
   Þórður Skúlason framkv.stj. Samb. Ísl. Sveitarfél.
   Gestir.
  13. Fyrirspurnir og umræður.
Kl. 14:55 14. Atvinnuráðgjöf á Suðurnesjum – kynning.
   Guðbjörg Jóhannsdóttir atvinnuráðgjafi.
Kl. 15.10 15. Ályktanir – umræður og afgreiðslur
  16. Önnur mál.
Kl. 15.50 17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
  18.  2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
  19. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.
Kl. 16:00 20. Áætluð fundarslit.

Kl. 19.30  Afmælisfagnaður (25ára) í boði S.S.S. fyrir
   Fundarmenn og maka í Eldborg, Grindavík.

 

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 40 sveitarstjórnarmenn, frá Gerðahreppi 8, Reykjanesbæ 12, Grindavíkurbæ 7, Sandgerðisbæ 8 og Vatnsleysustrandarhreppi 5.

Gestir og frummælendur á fundinum voru Jón Kristjánsson heilbrigðis- og  tryggingarmálaráðherra, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, Hjálmar Árnason alþingismaður, Guðjón Hjörleifsson alþingismaður, Magnús þór Hafsteinsson, alþingismaður, Lúðvík Bergvinsson alþingismaður, Kjartan Ólafsson alþingismaður, Brynja Magnúsdóttir, alþingismaður, Magnús Skúlason, heilbrigðisráðuneyti, Finnbogi Björnsson, DS, Sigurður Garðarsson, DS, Sigríður Snæbjörnsdóttir, HSS, Konráð Lúðvíksson, HSS, Pálína Reynisdóttir, HSS, Una Sigurðardóttir, HSS, Hildur Helgadóttir, HSS Þórður Skúlason, Sambandi ísl. Sveitarfélaga, Guðjón Bragason félagsmálaráðuneyti, Þorvarður Hjaltason, SASS, Ólafur Jón Arnbjörnsson, FS, Júlíus Jónsson, HS, Albert Albertsson, HS, Jónas Franz, Víkurfréttir, Viðar Oddgeirsson, Sjónvarpið.

2. Fundarsetning.
Böðvar Jónsson formaður S.S.S.  setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.  Böðvar bað fundarmenn að rísa úr sætum og minnast Alberts K. Sanders, fyrsta formanns sambandsins, sem lést á árinu.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um Árna Sigfússon sem fundarstjóra og Guðbrand Einarsson sem varafundarstjóra og voru þeir sjálfkjörnir.
Uppástunga kom um Steinþór Jónsson sem 1. Fundarritara og Kjartan Má Kjartansson sem 2. fundarritara, vararitarar Sveindís Valdimarsdóttir og Ólafur Thordersen og voru þau sjálfkjörinn.  Lagt var til að Jóhanna M. Einarsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Árni Sigfússon þakkaði það traust að fela honum stjórn fundarins.

4. Skýrsla stjórnar.
Böðvar Jónsson formaður SSS flutti skýrslu stjórnar.
„Á 25. Aðalfundi SSS sem haldinn var í Grindavík, þann 13.-14. september 2002 voru eftirtaldir kosnir í stjórn sambandsins.  Hörður Guðbrandsson, Grindavík, Jón Gunnarsson, Vogum, sem kjörinn var ritari stjórnar á fyrsta stjórnarfundi, Óskar Gunnarsson, Sandgerði sem gegndi embætti varaformanns, Sigurður Jónsson, Garði og sá sem hér talar, (Böðvar Jónsson, Reykjanesbæ), sem hefur gegnt embætti formanns sambandsins á síðasta starfsári.  Stjórnin hefur haldið 16 stjórnarfundi á starfsárinu. Hér verður greint frá helstu verkefnum stjórnarinnar.

      Málefni Heilsugæslunnar og Sjúkrahússins voru fyrirferðamikil á árinu.  Vandræðaástand     skapaðist í lok síðasta árs þegar heilsugæslulæknar á heilbrigðisstofnun Suðurnesja sögðu upp og hættu störfum við stofnunina.
Þann 14. Nóvember 2002, sendi stjórnin frá sér svohljóðandi ályktun:
 

      Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum lýsir þungum áhyggjum yfir því
óviðundandi ástandi sem skapast hefur á Suðurnesjum eftir að heilsugæslulæknar hafa hætt stöfum.  Stjórnin skorar á heilbrigðisráðherra og eðlilega heilbrigðisþjónustu við íbúa á svæðinu.

Stjórnin fór á fund Heilbrigðisráðherra þann 12. febrúar og ræddi þá stöðu sem upp var komin og nauðsyn þess að marka stofnuninni framtíðarstefnu auk þess sem rætt var um frágang peningamála vegna D-álmunar en sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa talið  sig eiga rúmar 40 milljónir óuppgerðar frá ríkissjóði vegna byggingarframkvæmda Við D-álmuna.
Þann 17. mars átti stjórn sambandsins síðan fund með framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Í framhaldi af fundinum ályktaði stjórnin öðru sinni um stöðuna á HSS.
Ég tel að talsverður árangur hafi orðið af þessum fundum og mál séu vel á veg komin þó enn sé nokkuð í land.
Lausn fékkst að nokkru leyti á því læknaleysi sem hér var í byrjun síðasta sumars þrátt fyrir að þjónusta hafi ekki verið með sama hætti  og var fyrir.  Ljóst var að talsverðan tíma tæki að fylla skarð sem myndaðist í lok ársins 2002.
Framkvæmdastjóri HSS hefur unnið að því hörðum höndum að manna stöðina með fólki sem hér verður til lengri tíma.  Vonandi mun það takast fyrr en síðar.  Um miðjan mars barst stjórn SSS bréf frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu varðandi skipan í nefnd um framtíðaruppbyggingu, þróun og skipulag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.  Fyrir hönd sambandsins var tilnefndur Jón Gunnarsson, vogum.  Sú nefnd mun skila af sér hugmyndum síðar á þessum fundi og verður áhugavert að fá fram viðbrögð sveitarstjórnarmanna við þeim hugmyndum sem þar koma fram.  Sjálfur tel ég þessar hugmyndir mjög jákvæðar fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja  og tryggja stoðir undir áframhaldandi öfluga sjúkrastofnun á Suðurnesjum.
Varðandi uppgjör ríkisins við sambandið vegna byggingar D-álmunnar var að mati sambandsins óuppgerð greiðsla frá árinu 2002 upp á rúmlega 40 milljónir króna.  Á hinn bóginn taldi ráðuneytið að eftir væri að ræða uppgjör vegna þess kostnaðar sem fór framúr áætlun við byggingu hússins.
Niðurstaða þessa máls verður sú að ríkið mun greiða samkvæmt fjáraukalögum 2003, kr. 45.000.000.- til sambandsins og skilar greiðslan sér í lok þessa árs.  Eru þau málalok mjög jákvæð fyrir SSS.

Í framhaldi af ákvörðun Reykjanesbæjar um breytingar á verkefnum Markaðs- og atvinnuskrifstofunnar átti formaður og framkvæmdastjóri SSS fund  með fulltrúum Byggðastofnunnar um framtíðarform þess samstarfs sem sveitarfélögin hafa átt við Byggðastofnun um atvinnuþróun á svæðinu.
Fulltrúar Byggðastofnunnar féllust að mestu leyti á þau rök sambandsins að betra væri að nýta fjármagnið sem til skiptana væri og leita ráðgjafar hjá hinum fjölmörgu ráðgjafastofum sem hér eru í stað þess að hafa fasta starfsmenn í þeim verkefnum.  Þann 13. febrúar 2003 samþykkti stjórn SSS nýjan samning við byggðastofnun sem skilaði sveitarfélögunum talsvert hærri fjárhæðum til atvinnuþróunar en sá sem fyrir var.
Í Samræmi við samninginn skipaði stjórn SSS, bæjar- og sveitarstjóra á Suðurnesjum í atvinnuþróunarráð sem hefur yfirumsjón með verkefninu.  Auglýst var eftir starfsmanni í stöðu atvinnuráðgjafa til eins árs og sóttu 31 um starfið.  Þann 15. maí staðfesti stjórn SSS, ráðningu Guðbjargar Jóhannsdóttur viðskiptafræðings í starfið að fenginni tillögu atvinnuráðs.  Guðbjörg mun síðar á fundinum gera grein fyrir helstu verkefnum sem hún hefur unnið að frá því að hún hóf störf.

Á síðasta aðalfund sambandsins var ályktað um nauðsyn þess að framkvæmdir við stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja gætu hafist sem fyrst en þá lágu fyrir drög að samningi milli sveitarfélaganna annars vegar og ráðuneyta menntamála og fjármála hins vegar.
Í janúar s.l. voru lokadrög samningsins yfirfarin af stjórn SSS og var samningur um flýtifjármögnun og umsjón sambandsins á framkvæmdinni undirritaður í sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja þann 21. febrúar 2003 að viðstöddum fjölmörgum nemendum og kennurum skólans ásamt sveitarstjórnarmönnum og þingmönnum.  Menntamálaráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd ráðuneytisins.
Byggingarnefnd var skipuð í marsbyrjun en í henni sitja Hjálmar Árnason sem er formaður nefndarinnar, Böðvar Jónsson, Guðmundur Björnsson, Kristbjörn Albertsson og Sigurður Jónsson.  Nefndin stóð fyrir alútboði á verkinu og var í framhaldi samið við Hjalta Guðmundsson og syni um bygginguna, en Hjalti hlaut bæði hæstu einkunn fyrir útfærslu byggingarinnar og fyrir að bjóða lægsta verðið.
Fjármögnun var einnig boðin út og náðust hagstæðir samningar við Landsbanka Íslands um lán til framkvæmdanna.
Byggingarframkvæmdir eru hafnar og eru nokkurn veginn á áætlun en ráðgert er að taka viðbygginguna í notkun í haustbyrjun 2004.

Framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar miðar vel og ber að fagna þeim sérstaklega.  Um fá málefni hefur verið ályktað oftar á sambandsþingum SSS en  Reykjanesbrautina.  Sú barátta sveitarstjórnarmanna, einstakra sveitarstjórna, sambands sveitarfélaga og íbúa á þessu svæði, fyrir tvöfaldri og öruggri braut milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins hefur skilað árangri.  Mikilvægt er þó að hvergi verði slakað á í framkvæmdum og tvöföldun brautarinnar verði lokið auk þess sem mikilvægt er að ganga vel frá gatnamótum, umferðareyjum, lýsingu og öðrum þáttum sem tengjast vegaframkvæmdunum sjálfum.  Um þetta munum við væntanlega álykta síðar í dag.  Í þessu samhengi má nefna að stjórn SSS óskaði eftir fundi með Samgöngunefnd Alþingis í þeim tilgangi að fara yfir ályktanir sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi sambandsins og til að fara yfir endurskoðun samgönguáætlunar.
Tilkynnti Samgöngunefnd að hún kæmi til fundar í janúar 2003.  Í febrúar ítrekaði stjórn sambandsins beiðni sína um fund með nefndinni en fékk þá þau skilaboð að ekki væri talin ástæða til þess að funda með stjórnum landshlutasamtaka þar sem slíkt kallaði aðeins á sambærilega fundi um allt land.
Það er dapurlegt að nefnd á vegum Alþingis sjái sér ekki fært að ræða við sveitarstjórnarmenn um jafnmikilvægt mál og samgöngumálin eru.  Sveitarstjórnir á Suðurnesjum verða því áfram að leggja fram ályktanir um samgöngumál með sama hætti og undanfarin ár í þeirri von að tekið verði mark á þeim þar sem á þarf að halda.

Drög að nýrri reglugerð um kattahald á Suðurnesjum var samþykkt í stjórn SSS á þessu ári og hefur nú verið staðfest af öllum sveitarstjórnum á svæðinu.  Unnið er að endanlegri útfærslu hennar og fæst þá vonandi lausn á því vandræðaástandi sem skapast hefur víða á Suðurnesjum vegna mikillar fjölgunar villikatta á svæðinu á síðustu árum.

Ný heimasíða sambandsins var tekin í notkun á haustgötum.  Guðbjörg Jóhannsdóttir, atvinnuráðgjafi, hefur að mestu haft veg og vanda að gerð síðunnar en hún hefur fengið nýtt, frísklegt og aðlaðandi útlit sem er notendavænt.  Þar er atvinnuráðgjöfinni jafnframt gerð góð skil.  Mér finnst vel hafa til tekist og hvet sveitarstjórnarmenn til þess að skoða síðuna og gefa álit sitt á henni.

Eins og sveitarstjórnarmönnum er kunnugt um standa miklar framkvæmdir yfir við nýja starfstöð Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja.  Stjórn sambandsins hefur ekki komið beint að verkefninu en hefur fylgst með framvindu mála.  Framkvæmdir eru á áætlun og verður stöðin tekin í notkun í árslok.

Mjög mikilvægt er að efla og rækta tengsl sveitarstjórnarmanna og alþingismanna en formaður sambandsins átti tvívegis á starfsárinu fund með Fjárlaganefnd Alþingis til þess að fylgja eftir stefnumálum sambandsins.  Þá skipulagði sambandið í byrjun þessarar viku heimsóknir þingmanna kjördæmisins til sveitarstjórnanna á Suðurnesjum auk þess sem fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga voru heimsótt.  Ég tel mikilvægt að slík tengsl milli þingmanna og sveitarstjórnarmanna í landinu verði áfram ræktuð af mikilli alúð.

Þann 14. Sept. s.l. átti stjórn sambandsins fund með stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi og þingmönnum hins nýja Suðurkjördæmis.  Fundurinn tókst mjög vel og var rætt um að halda sambærilega fundi einu sinni til tvisvar á ári hér eftir. Hefur sú hugmynd m.a. komið fram að samböndin haldi aðalfundi á sama tíma og sama stað, þar sem fjölmörg erindi og verkefni eru sameiginleg eða sambærileg á Suðurnesjum. Og Suðurlandi.  Læt ég sveitarstjórnarmenn um að velta fyrir sér hugmyndinni og leyfi henni að þróast á næstu mánuðum.

Eins og fyrri ár hafa fjölmörg önnur mál komið inn á borð stjórnar sambandsins á síðasta starfsári sem hægt væri að fjalla um en ekki verða nefnd að þessu sinni.    Ég vil nota tækifærið og þakka samstarfsmönnum mínum í stjórninni fyrir mjög gott samstarf á árinu.  Jafnframt þakka ég framkvæmdastjóra sambandsins, Guðjóni Guðmundssyni, fyrir gott samstarf og vel unnin störf  í þágu sambandsins svo og starfsfólki á skrifstofu sambandsins sem þar hefur starfað bæði vel og lengi.

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum er 25 ára um þessar mundir.  Árangur af starfi sambandsins í gegnum tíðina er ótvíræður þótt stöðugt þurfi að skoða samstarf sveitarfélaganna með gleraugum gagnrýni og meta tilgang þess.
Ég óska sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum til hamingju með afmælið.“

5. Ársreikningur SSS fyrir árið 2002.
Til máls tók Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri er fylgdi   ársreikningunum úr hlaði.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S.  Enginn óskaði eftir því að taka til máls undir þessum lið.  Ársreikningurinn var borinn undir atkvæði og var hann samþykktur samhljóða.

7. Tillögur og ályktanir.
Árni Sigfússon flutti tillögur stjórnar SSS að ályktun um nám á  háskólastigi á Suðurnesjum, ályktun um Fjölbrautaskóla Suðurnesja, ályktun um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, ályktun um fyrirhugaða friðlýsingu jarðhitasvæðis yst á Reykjanesskaga og  ályktun um vegamál.

       Til máls tók Sigurður Valur Ásbjarnarson.

8. Heilbrigðisþjónustan á Suðurnesjum.
Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ræddi m.a. um stöðu heilbrigðismála á Suðurnesjum og þær bráðabirgðaaðgerðir sem grípa hefði þurft til vegna læknaleysis sem verið hefði á árinu og að D-álman verði komin í notkun árið 2005 ef áætlanir ná fram að ganga.  Einnig ræddi hann um að tímabært væri að hugsa heilsugæsluna upp á nýtt að flytja hana og öldrunarþjónustu frá ríkinu til sveitarfélaganna.

Sigríður Snæbjörnsdóttir forstjóri H.S.S. ræddi m.a. stöðu HSS á undanförnum árum og starfsemi.  Einnig kynnti hún tillögur nefndar sem heilbrigðisráðherra skipaði á árinu um framtíðaruppbyggingu HSS 2004 til 2010.

Jón Gunnarsson ræddi m.a. um starfið í nefndinni og hann væri ánægður með þá niðurstöðu að halda ætti úti þjónustu í selunum.  Jón hvatti sveitarstjórnarmenn til að standa þétt að baki stofnuninni og sýna henni stuðning.

9. Fyrirspurnir og umræður.
Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Hörður Guðbrandsson, Kjartan Már Kjartansson, Jóhann Geirdal, Ómar Jónsson, Birgir Þórarinsson, Einar Jón Pálsson, Konráð Lúðvíksson, Finnbogi Björnsson, Böðvar Jónsson, Guðni Ágústsson.

Hádegisverðarhlé.

Guðbrandur Einarsson tók við fundarstjórn.

10. Náttúruverndaráætlun.
Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra kynnti drög að áætlun um náttúruvernd en valin voru 14 svæði af 75 til friðlýsingar.  Hún sagði m.a. að ferlið væri mjög stutt komið og að allt samráð við sveitastjórnir væri eftir.

11. Fyrirspurnir og umræður.
Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson Albert Albertsson, Árni Sigfússon, Júlíus Jónsson, Jón Gunnarsson.

12. Ávörp.
Guðjón Bragason skrifstofustjóri félagsmálaráðuneytis ræddi m.a. nýhafið átak til sameiningar sveitarfélaga.  Fækka þyrfti sveitarfélögum og stækka þau því stór sveitarfélög eru betur til þess fallin að taka við þeim verkefnum sem þeim eru falin.

Þórður Skúlason framkv.stjóri Samb. Ísl sveitarf. ræddi m.a. fyrirhugaða endurskoðun á
verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.  Sveitarfélögin þurfi að stækka og eflast til að takast á við fleiri nærþjónustuverkefni og til að mæta öðrum samfélagsbreytingum.

 

Gestir:
Til máls tóki Kjartan Ólafsson sem flutti kveðjur þingmanna og þakkaði sveitarstjórnarmönnum fyrir góða ánægjulega fundi sem alþingismenn hafa átt með sveitarstjórnarmönnum í þingmannaheimsókn í liðinni viku.  Þorvaldur hjaltason flutti kveðjur frá SASS og frá öðrum landshlutasamtökum.  Hann ræddi m.a. um að samstarf SASS og SSS hefði aukist á undanförnum árum.

13. Fyrirspurnir og umræður.
Til mál tóku Ingimundur Þ. Guðmundsson, Hörður Guðbrandsson.

Árni Sigfússon tók við fundarstjórn.

14. Atvinnuráðgjöf á Suðurnesjum – kynning.
Guðbjörg Jóhannsdóttir sagði frá starfi atvinnuráðgjafa og að það væri í enn í þróun og mótum.  Einnig frá nýrri heimasíðu sem hún hefur verið að vinna að fyrir SSS.

15. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.

Ályktun um nám á háskólastigi á Suðurnesjum.

Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ, 25. okt. 2003 fagnar þeirri miklu fjölgun nemenda á háskólastigi sem nú stunda fjarnám við Miðstöð símenntunnar á Suðurnesjum en þeir eru nú 88, flestir við Háskólann á Akureyri og stofnun háskólaseturs í Sandgerði.

Aðalfundurinn leggur áherslu á að ríkisvaldið tryggi fjármagn til að standa undir kostnaði af fjarnámi um allt land og að þær fjárveitingar og/eða samningar sem gerðir eru, taki mið af fjölda nemenda sem þar stunda nám.

Þá telur fundurinn brýnt að ráðuneyti menntamála hugi að framtíðarskipan náms á háskólastigi á Suðurnesjum og undirbúi stofnun og starfsemi háskóladeilda á svæðinu.

Greinargerð:
Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum er orðin 6 ára og var hún sú fyrsta sinnar tegundar á landinu.  Frá upphafi hefur hlutverk miðstöðvarinnar verið að efla og annast fullorðinsfræðslu á svæðinu.  Mikil eftirspurn er eftir fjarnámi á háskólastigi og hefur miðstöðin brugðist við því með því að leigja húsnæði víða þar sem aðstaða er fyrir hendi.

Framlag ríkisins á þessu ári er kr. 9 milljónir en reiknaður kostnaður við háskólastarfsemina er tæplega 12 milljónir á sama tíma.

Auk háskólanámsins er boðið upp á fjölmörg námskeið í starfstengdum og bóklegum greinum fyrir atvinnulífið, ásamt ýmis konar frístundanámi og fer sú kennsla fram  ýmsum stöðum. Framlegð af námskeiðum sem haldin eru fyrir atvinulífið og framlög  sveitarfélaganna (tæplega 3 milljónir) hafa verið nýtt í þágu háskólanámsins sem er óviðeigandi til lengri tíma.

Miðstöðin stendur nú frammi fyrir fjárhagsvanda og neyðist til að draga saman í starfsemi sinni  ef ekki fást úrbætur.

Ályktun um nám á háskólastigi á Suðurnesjum samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Aðalfundur SSS haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 25. okt. 2003 lýsir ánægju sinni með samning um framkvæmdir við stækkun fjölbrautaskóla Suðurnesja og stöðugt auknum fjölda nemenda sem sækja um skólavist.

Aðalfundurinn vekur athygli á að fjölmennir árgangar eru að koma á framhaldsskólaaldur hér á Suðurnesjum og treystir því að tryggja verði fjármagn til starfseminnar þannig að ekki þurfi að synja nemendum um skólavist.

Ályktun um Fjölbrautaskóla Suðurnesja samþykkt samhljóða.

Ályktun um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ, 25. október 2003, fagnar þeirri stefnumótun sem vinnuhópur Heilbrigðisráðherra hefur unnið að og kynnt var á aðalfundinum.
Fundurinn minnir á að slíkri stefnu þarf að fylgja fast eftir með aðgerðum sem kallar á fjármagn, bæði til framkvæmda, en ekki síður til rekstrar.  Mjög mikilvægt er að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fái stuðning, bæði fjárhagslega og faglegan, til að vinna sig upp úr þeirri lægð sem hún féll í þegar heilsugæslulæknar sögðu upp störfum í lok árs 2002.

Ályktun um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja samþykkt með áorðnum breytingum.

Ályktun um fyrirhugaða friðlýsingu jarðhitasvæðis yst á Reykjanesskaga.

Aðalfundur SSS, haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ, laugardaginn 25. október 2003, telur að sú náttúruverndaráætlun sem verið er að kynna og snýr m.a. að friðlýsingu 113,1 km. 2 svæðis á Reykjanesi þarfnist mikillar endurskoðunar.

Minnt er á að ekki hefur enn orðið af boðuðu samráði við heimamenn um verkefnið.

Sveitarfélög á Suðurnesjum sýna umhverfisnefnd mikinn áhuga en vilja um leið tryggja skynsamlega nýtingu þessara auðlinda sem svæðið býr yfir á vegi sjálfbærrar þróunar.

Í náttúruverndaráætlun 2004-2008, sem umhverfisráðherra hyggst leggja fram til þingsályktunar á yfirstandandi þingi er gert ráð fyrir að 113,1 km 2 yst á Reykjanesskaga verði friðlýst sem friðland.  Svæðið nær meðal annars yfir núverandi vinnslusvæði Hitaveitu Suðurnesja hf, eignarland Hitaveitunnar og það víðfeðma svæði sem Hitaveitan hefur öðlast rétt á, til jarðhitanýtingar.  Friðlýsingin gæti torveldað að hinn öflugi og endurnýjanlegi háhitageymir verði nýttur á varfærinn og hagkvæman hátt til hagsbóta fyrir Suðurnes og landið allt.  Með friðlýsingunni gæti  verið lagður steinn í götu sjálfbærrar þróunar á borð við þá sem fram fer í auðlindagarðinum í Svartsengi og eftir er tekið víða um heim.  Með friðlýsingunni gæti einnig verið að koma í veg fyrir djúpboranir á svæðinu sem er nauðsynlegur og brýnn áfangi í sjálfbærri þróun Suðurnesja og  landsins alls auk þess sem verulega er vegið að samkeppnishæfi Hitaveitu Suðurnesja gagnvart öðrum orkufyrirtækjum.

Ályktun um fyrirhugaða friðlýsingu jarðhitasvæðis yst á Reykjanesskaga samþykkt með áorðnum breytingum.

Drög að ályktun um vegamál.

Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ, 25. október 2003 skorar á Alþingi að tryggja eftirfarandi vegaframkvæmdir.

Tvöföldun Reykjanesbrautar:
Mikilvægt er að framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar verði framhaldið og helst að þeim verði flýtt miðað við núverandi áætlanir.  Verkinu hefur miðað vel áfram og kostnaður verið talsvert undir fyrstu áætlunum Vegagerðarinnar.
Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum leggja þunga áherslu á að áfram verði haldið við tvöföldun brautarinnar og hvergi slakað á fyrr en tvöföldun og endanlegum frágangi verksins er lokið.  Það öryggi sem tvöföld braut á að tryggja vegfarendum næst ekki fyrr en við verklok.

Vegur frá Stafnesi í Hafnir um Ósabotna:
Mikil áhersla er lögð á lagningu vegar frá Stafnesi í Hafnir, um Ósabotna, en leyfi til að fara um varnarsvæðið liggur nú fyrir.  Vegurinn hefur mikla þýðingu í ferðaþjónustu auk þess sem hann bætir aðgengi slökkviliðs- og björgunaraðila um aðflugssvæði flugumferðar.  Þá gegnir vegurinn veigamiklu hlutverki í starfsemi nýrrar starfsstöðvar Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja við Helguvík.

Suðurstrandarvegur:
Mikilvægt er að hvergi verði hvikað frá áformum um lagningu Suðurstrandarvegar.  Þegar umhverfismat liggur fyrir er nauðsynlegt að haldið verði áfram í samræmi við  fyrri áætlanir um lagningu vegarins en vegtenging innan hins nýja Suðurkjördæmis styrkir allt atvinnu- og mannlíf í kjördæminu.

Ályktun um vegamál samþykkt samhljóða.

Viðbótartillaga frá Steinþóri Jónssyni:

Suðurstrandarvegur
„Þá verði möguleikar kannaðir á framlengingu Suðurstrandarvegar frá Grindavík, við Bláa lón, að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.“

Viðbótartillaga Steinþórs vísað til stjórnar SSS með þorra atkvæða.

16. Önnur mál.
Engin önnur mál voru til umræðu.

17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær
Aðalmaður: Böðvar Jónsson
Varamaður: Björk Guðjónsdóttir

Grindavíkurbær
Aðalmaður: Hörður Guðbrandsson
Varamaður: Garðar Páll Vignisson

Sandgerðisbær
Aðalmaður: Reynir Sveinsson
Varamaður: Óskar Gunnarsson

Gerðahreppur 
Aðalmaður: Sigurður Jónsson
Varamaður: Ingimundur Þ. Guðnason

Vatnsleysustrandarhreppur
Aðalmaður: Jón Gunnarsson
Varamaður: Jóhanna Reynisdóttir

18. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.

Aðalmenn: Ingimundur Þ. Guðnason
  Ellert Eiríksson

Varamenn: Jóhanna Reynisdóttir
    Jón Þórisson

19. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.
Aðalmenn: Böðvar Jónsson
  Reynir Sveinsson
  Jón Gunnarsson
  Guðjón Guðmundsson

Til vara: Sigurður Jónsson
  Hörður Guðbrandsson

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum gott samstarf og fékk formanni S.S.S. Böðvari Jónssyni orðið sem þakkaði fundarmönnum fundarsetuna og starfsmönnum fundarins vel unnin störf.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.25.

 

Árni Sigfússon       Jóhanna M. Einarsdóttir
Fundarstjóri.       fundarskrifari.