fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

28. Aðalfundur SSS 19. nóvember 2005

28. aðalfundur S.S.S. haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Reykjanesbæ
laugardaginn 19.  nóvember 2005.

Dagskrá:
Kl. 09:30 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 10:00 2. Fundarsetning: Böðvar Jónsson formaður S.S.S.
  3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  4. Skýrsla stjórnar:  Böðvar Jónsson, formaður S.S.S.
  5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2004,
   Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri.
  6.      Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
  7. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl. 11:00 8. Ávörp  gesta.  
Kl 11:20  9. Samgöngumál á Suðurnesjum
   Steinþór Jónsson form. samgöngunefndar S.S.S.
   gerir grein fyrir vinnu og tillögum nefndarinnar.
  10. Fyrirspurnir og umræður.
Kl. 12:20     Hádegisverðarhlé.
    
Kl. 13:00 11.  Húsnæði FS skoðað undir leiðsögn skólameistara.
Kl. 13:30 12. Kynning á aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar 2005-2025      Guðmundur Björnsson form. skipulags-, bygginga- og     umhverfisnefndar varnarsvæða.
Kl.13:45 13. Suðurnes í sókn.
Byggðaþróun í nútíð og framtíð.
Jóhanna Reynisdóttir sveitarstjóri,
Einar Jón Pálsson form. skipulagsnefndar,
Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri,
Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri,
Böðvar Jónsson form. bæjarráðs.
Kl:15:30    Kaffihlé
Kl 15:50  Suðurnes í sókn frh.   Samantekt
   Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri.
  14. Fyrirspurnir og umræður.
Kl. 16:30 15. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.
  16. Önnur mál.
Kl. 17:20 17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
18. Kosnir 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara.
  19. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.
Kl. 17:30 20. Áætluð fundarslit.

Kl. 20:00                    Kvöldfagnaður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í Golfskálanum í Leiru.

 

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 34 sveitastjórnarmenn, frá Garði  5, Reykjanesbæ 11, Grindavíkurbæ 8, Sandgerðisbæ 5 og Vatnsleysustrandarhreppi 5.

Gestir  og frummælendur á fundinum voru Kjartan Ólafsson Alþingi, Hjálmar Árnason Alþingi, Björgvin G. Sigurðsson Alþingi, Þorvarður Hjaltason SASS, Guðmundur Björnsson skipulag-og bygginganefnd varnarsvæða, Oddný Harðardóttir FS, Sigmundur Eyþórsson  BS Magnús H Guðjónsson  HES, Viðar Oddgeirsson  Sjónvarpið, Ólafur Sigurðsson Sjónvarpið,  Páll Ketilsson Víkurfréttir/stöð2  og  Þórður Ingimarsson frá Sambandi ísl. Sveitarfélaga.

2. Fundarsetning.
Böðvar Jónsson, formaður S.S.S. setti fundinn og bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna til fundarins.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Uppástunga kom um Björk Guðjónsdóttur og Jóhann Geirdal sem fundarstjóra og voru þeir sjálfkjörnir.
Uppástunga kom um Sigríði Jónu Jóhannesdóttur sem 1. fundarritara og Kjartan Má Kjartansson sem 2. fundarritara, vararitarar Sveindís Valdimarsdóttir og Eysteinn Eyjólfsson  og voru þau sjálfskjörin.  Lagt var til að Jóhanna M. Einarsdóttir yrði sett sem skrifari fundarins.

Björk Guðjónsdóttir þakkaði það traust að fela henni stjórn fundarins.

4. Skýrsla stjórnar.
Böðvar Jónsson,  formaður SSS flutti skýrslu stjórnar.

“Á 27.aðalfundi SSS sem haldinn var í Fræðasetrinu í Sandgerði, þann 30. október 2004, voru eftirtaldir kosnir í stjórn sambandsins.  Hörður Guðbrandsson, Grindavík, Jón Gunnarsson, Vogum, sem gegnt hefur embætti varaformanns á þessu starfsári, Óskar Gunnarsson, Sandgerði sem kom að nýju inn í stjórnina í stað Reynis Sveinssonar, Sigurður Jónsson, Garði, sem verið hefur ritari stjórnar og Böðvar Jónsson, Reykjanesbæ, sem hefur gegnt embætti formanns sambandsins á síðasta starfsári.  Stjórnin hefur haldið 13 stjórnarfundi á starfsárinu.  Hér verður greint frá helstu verkefnum stjórnarinnar.
Í desember á síðasta ári samþykkti stjórn sambandsins að skipa starfshóp sem færi yfir verkefni í samgöngumálum á Suðurnesjum og inni að tillögugerð um ályktanir og verkefni sem framundan eru í samgöngumálum á svæðinu. Segja má að tvær ástæður hafi leitt til stofnunar slíks vinnuhóps. Í fyrsta lagi höfum við náð góðum árangri með þau verkefni sem sambandið hefur barist fyrir í gegnum árin. Flest mál eru komin í farveg sem leiða til verkloka á næstu árum og því nauðsynlegt að skoða málin að nýju frá grunni og meta þau verkefni sem mikilvægust eru til næstu framtíðar. Í öðru lagi hafa þingmenn og ráðherrar lagt á það mikla áherslu að skýrt sé hvaða verkefni séu í forgangi hjá sveitarstjórnarmönnum á hverju landssvæði þannig að unnið sé að málum í samræmi við áherslur heimamanna á hverjum stað. Á meðan barátta fyrir tvöfaldri. Reykjanesbraut hefur staðið yfir hafa litlar deilur verið um hvaða verkefni væri í forgangi meðal sveitarfélaganna á Suðurnesjum en þegar það stórverkefni er að nálgast verklok er mikilvægt að sveitarstjórnarmenn séu sammála um framhaldið. Það er öruggt mál að samstaða sveitarstjórnarmanna og íbúa á Suðurnesjum um Reykjanesbrautina hefur orðið til þess að málið hefur fengið hraðari framgang en upphaflega var gert ráð fyrir. Samgönguhópur SSS mun skila áfangaskýrslu síðar á þessum aðalfundi.
Á fyrsta stjórnarfundi sambandsins á þessu starfsári var lögð fram tillaga frá fulltrúum allra sveitarfélaganna utan Reykjanesbæjar um skipan 7 manna nefndar sem færi yfir samstarf sveitarfélaganna og gildi þess fyrir sveitarfélögin. Nefndarskipan lá fyrir í upphafi árs 2005 og hélt nefndin einn fund þar sem talið var skynsamlegt að bíða með frekari skoðun þar til niðurstaða sameiningarkosninga lægi fyrir en þá var gert ráð fyrir að kosningar færu fram í apríl á þessu ári. Sameiningarkosningum var síðar frestað fram í október og samþykkti stjórn sambandsins að fresta starfi nefndarinnar fram yfir næsta aðalfund sambandsins. Eins og kunnugt er voru engar breytingar gerðar á skipan sveitarfélaga á Suðurnesjum í kjölfar sameiningakosninga og verða því ekki breytingar á starfsemi sambandsins af þeim ástæðum á næstunni. Nefndin mun hins vegar hefja störf að nýju eftir þennan aðalfund og óskar stjórn sambandsins eftir að nefndin skili niðurstöðum sínum á næsta aðalfundi sambandsins á árinu 2006.  

Málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja eru að mestu komin út fyrir verksvið stjórnar SSS enda hafa sveitarfélögin ekki lengur fulltrúa inn í stjórn stofnunarinnar. Engu að síður hafa málefni Heilbrigðisstofnunar verið til umræðu hjá stjórninni nokkru sinnum auk þess sem framkvæmdastjóri HSS hefur haldið fundi með sveitarstjórnarmönnum. Sú viljayfirlýsing sem undirrituð var í júní 2004 af heilbrigðisráðherra og framkvæmdastjóra HSS um uppbyggingu stofnunarinnar og framtíðarsýn hefur ekki gengið eftir hvað tíma varðar og nú í fjáraukalögum 2005 eru fyrst settir fjármunir til uppbyggingar og aukins reksturs. Ljóst er að sveitarstjórnarmenn þurfa áfram að leggja þunga áherslu á mikilvægi stofnunarinnar gagnvart ráðherrum og þingmönnum þannig að þjónusta stofnunarinnar gagnvart íbúum þessa svæðis verði viðunandi. Gert er ráð fyrir að aðalfundurinn álykti um málefni HSS síðar í dag.

Atvinnumál hafa verið með besta móti á Suðurnesjum á síðasta ári. Atvinnuleysi hefur verið tiltölulega lítið eða 1,7% nú í október samanborið við 2,6% á sama tíma fyrir ári. Fjölmörg stórverkefni eru gangi á Suðurnesjum sem kallað hefur á aukið vinnuafl og hefur leitt af sér fjölgun íbúa og íbúða í öllum sveitarfélögunum á svæðinu. Óvissa um framtíð Varnarliðsins hér á landi er sannarlega nokkur og mikilvægt að ná lendingu um framtíðarrekstur stöðvarinnar sem fyrst. Engu að síður má fljótfærni eða óþolinmæði gagnvart samningsaðilanum ekki leiða til þess að verri niðurstaða náist en ella gæti orðið. Bæjar- og sveitarstjórar hafa skipað Atvinnuráð SSS sem hefur haft með höndum samstarf við Byggðastofnun um atvinnuþróun. Á upphafsmánuðum ársins 2004 var unnin skýrsla þar sem sameiginleg stefna sveitarfélaganna á Suðurnesjum í atvinnumálum var til skoðunar. Umsjón með vinnunni höfðu Hrannar Hólm frá KPMG og Guðbjörg Jóhannsdóttir atvinnuráðgjafi SSS auk atvinnuráðsins og framkvæmdastjóra SSS. Skýrslan var lögð fyrir stjórn SSS á þessu ári og stóð til að taka hana til umfjöllunar á þessum aðalfundi. Í skýrslunni eru metnir veikleikar og styrkleikar Suðurnesja miðað við þá stöðu sem var uppi þegar skýrslan var unnin. Stjórn sambandsins var sammála um að svo margir þættir hefðu breyst frá gerð skýrslunnar að ekki væri ástæða til þess að fjalla um hana sérstaklega. Engu að síður eru þættir í skýrslunni sem nýtast áfram og vert er að horfa til. Skýrslunni er dreift hér á fundinum til þeirra sem þess óska.

Viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja var að mestu lokið þegar síðasti aðalfundur SSS var haldinn. Frágangi við lóð og bílastæði var þó ólokið. Nú er öllum framkvæmdum við Fjölbrautaskólann lokið og hefur tekist vel til. Kostnaðaráætlanir stóðust og nú fyrir nokkrum vikum fór fram svokölluð ábyrgðarúttekt þar sem lagt er mat á gæði framkvæmdar-innar, ári eftir að byggingin var tekin í notkun. Lokauppgjöri er því að ljúka á næstu dögum. Byggingarnefnd eru færðar þakkir fyrir vel unnin störf við framkvæmd verksins en í nefndinni sátu Hjálmar Árnason, Guðmundur Björnsson og Kristbjörn Albertsson auk fullfrúa frá SSS sem voru Sigurður Jónsson og Böðvar Jónsson.

Þann 12.nóvember 2004 samþykkti stjórn SSS að láta gera athugun á kostum þess að gera Sorpeyðingarstöð Suðurnesja að hlutafélagi. Árni Páll Árnason, lögfræðingur, var fenginn til verksins og skilaði hann minnisblaði um málið á fyrri hluta þessa árs. Árni telur nokkra vankanta á slíkri breytingu en sjálfsagt er þó fyrir framtíðarnefnd sambandsins að taka minnisblaðið til skoðunar og fá frekari álit eða viðhorf til breytinga í þessa átt.
Önnur skýrsla sem nefndin mun taka til skoðunar er Hagkvæmniskönnun og tillögur að úrbótum varðandi slökkviliðin á Suðurnesjum. Skýrslan var tekin fyrir á stjórnarfundum sambandsins í nóvember og desember á síðasta ári og var vísað til umfjöllunar framtíðarnefndarinnar. Síðan þá hafa nokkrar umræður átt sér stað um frekara samstarf slökkviliðanna hér á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfsagt er að skoða alla möguleika sem gætu leitt til betri þjónustu og hagkvæmari rekstrar í þessu sambandi.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur verið á verkefnaskrá SSS frá stofnun stöðvarinnar. Hafa margar ályktanir verið sendar af aðalfundum sambandins um mikilvægi miðstöðvarinnar vegna þeirrar aðstöðu sem hún skapar fyrir fjarnámsnemendur á Suðurnesjum. Enn skortir talsvert upp á að fjármagn frá ríkisvaldinu nægi til þess að halda uppi háskóla-kennslunni en fjölgun nemenda á Suðurnesjum hefur leitt til þess að nauðsynlegt var að skapa fjarnáminu betri aðstöðu en var í húsnæði miðstöðvarinnar að Skólavegi 1. Ný og glæsileg aðstaða var tekin í notkun innan veggja Íþróttaakademíunar í haust og losnaði þá verulega um fyrra húsnæði miðstöðvarinnar sem getur nú sinnt því að halda styttri námskeið innan veggja stofnunarinnar í stað þess að þurfa að leigja húsnæði undir þá starfsemi annars staðar. Á síðasta aðalfundi sambandsins var ályktað um þetta málefni og jafnframt bókaði stjórn sambandsins í þessa veru á fundi í mars síðast liðnum. Enn er þó þörf á að krefjast þess að ríkisvaldið veiti símenntunarmiðstöðvum, hvar sem er á landinu, sambærileg fjárframlög.  

Mjög mikilvægt er að efla og rækta tengsl sveitarstjórnarmanna og alþingismanna þannig að áherslumálum okkar svæðis sé fylgt eftir á alþingi. Formaður sambandsins átti á starfsárinu fund með Fjárlaganefnd alþingis til þess að fylgja eftir stefnumálum sambandsins. Þá skipulagði sambandið heimsókn þingmanna í Suðurkjördæmi til sveitarfélaganna á Suðurnesjum nú fyrr í þessum mánuði.

Eins og fyrri ár hafa fjölmörg önnur mál komið inn á borð stjórnar sambandsins á síðasta starfsári sem ekki er unnt að nefna í stuttri skýrslu. Endurskoðandi sambandsins til margra ára, Aðalsteinn Hákonarson, lét af störfum á árinu og eru honum þökkuð góð störf og samstarf í gegnum tíðina. Guðmundur Kjartansson, endurskoðandi hjá Deloitte tók við hans starfi. Ég vil nota tækifærið og þakka samstarfsmönnum mínum í stjórninni fyrir mjög gott samstarf á árinu.  Jafnframt þakka ég framkvæmdastjóra sambandsins, Guðjóni Guðmundssyni, fyrir gott samstarf og vel unnin störf í þágu sambandsins svo og frábæru starfsfólki á skrifstofu sambandsins”.

5. Ársreikningar SSS fyrir árið 2004.
Til máls tók Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri er fylgdi ársreikningunum úr hlaði.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S. Enginn óskaði eftir því að taka til máls undir þessum lið.  Ársreikningurinn var borinn undir atkvæði og var hann samþykktur samhljóða.

7. Tillögur og ályktanir.
Böðvar Jónsson flutti tillögur stjórnar SSS að  ályktun um atvinnumál, ályktun um menntamál, ályktun um löggæslumál,  ályktun um  menningarmál, ályktun um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og ályktun um samgöngumál.
Til máls tók Ólafur Örn Ólafsson og lagði fram viðauka við menntamál.

8. Ávörp gesta.
Hjálmar Árnason þingmaður flutti kveðjur þingmanna Suðurkjördæmis og þakkaði sveitastjórnarmönnum á svæðinu gott samstarf
Þorvarður Hjaltason framkvæmdastjóri SASS flutti kveðjur sunnlenskra sveitarfélaga og sagði ma. að áherslumál samtakanna væru mjög lík t.d. væru samgöngumál í forgrunni hjá þeim.

9. Samgöngumál á Suðurnesjum.
Steinþór Jónsson formaður samgöngunefndar SSS gerði grein fyrir vinnu og tillögum nefndarinnar og lagði fram áfangaskýrslu samgöngunefndar.

10.  Fyrirspurnir og umræður.
Til máls tóku Jón Gunnarsson, Einar Jón Pálsson, Reynir Sveinsson, Björgvin G. Sigurðsson, Sigmar Eðvarðsson, Kjartan Ólafsson, Ólafur Örn Ólafsson. Hörður Guðbrandsson svaraði þeim spurningum sem til nefndarinnar var beint.

Hádegisverðarhlé

11.  Húsnæði FS skoðað undir leiðsögn skólameistara.
Jóhann Geirdal tók við stjórn fundarins.

12. Kynning á aðalskipulagi Keflavíkurflugvallar 2005-2025.
Guðmundur Björnsson form. Skipulags-, bygginga-og umhverfisnefndar varnarsvæða sagði ma. frá deiliskipulagi Keflavíkurflugvallar.

 

13. Suðurnes í sókn- Byggðaþróun í nútíð og framtíð.

Jóhanna Reynisdóttir, sveitarstjóri  sagði m.a. frá íbúaþróun, lóðaframboði og byggingaframkvæmdum í Vogum.

Einar Jón Pálsson, formaður skipulagsnefndar fór ma.  yfir íbúaþróun og lóðaframboð í nútíð og framtíð og sagði að vinna við deiliskipulag í Garði væri á lokastigi.

Sigurður Valur Ásbjarnarson bæjarstjóri fór ma. yfir skipulagsmál og áætlun um uppbyggingu 2005 – 2010 í Sandgerði.

Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri  fór ma yfir skipulagsmál og framtíðaráform um uppbyggingu í  Grindvík á næstu árum.

Böðvar Jónsson  formaður bæjarráðs ræddi ma. skipulagsmál og  um þau svæði  í Reykjanesbæ þar sem væntanlega verður byggð á næstu árum.

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri ræddi ma. íbúafjölgun á svæðinu á sl. 9 mánuðum einnig ræddi hann um þann fjölda íbúða sem er í byggingu nú á svæðinu og íbúaspá fyrir svæðið.

14. Fyrirspurnir  og umræður.
Til máls tóku Guðmundur Björnsson, Sigmar Eðvarðsson, Sveindís Valdimarsdóttir, Jón Gunnarsson, Óskar Gunnarsson, Ólafur Thordersen.

15. Ályktanir – umræður og afgreiðslur.

Ályktun um atvinnumál.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ 19. nóvember 2005, skorar á stjórnvöld að ná niðurstöðu um framtíð Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eins fljótt og kostur er svo útrýma megi þeirri óvissu sem skapast hefur um framtíð stöðvarinnar og þeirra starfsmanna sem þar starfa. Fundurinn hvetur ríkisvaldið til þess að hafa virkt samráð við sveitarstjórnir á Suðurnesjum vegna hugsanlegra breytinga á rekstri Varnarliðsins.

Aðalfundurinn fagnar þeirri umræðu sem verið hefur um stóriðju í Helguvík og ítrekar fyrri áskorun sína til ráðherra iðnaðarmála að horfa í meira mæli til Reykjaness þegar umræðu um stóriðju ber á góma.

Mikil aukning hefur orðið í störfum sem tengjast ferðaþjónustu, m.a. í kringum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mikilvægt er að öll starfsemi og uppbygging í kringum alþjóðaflugvöllinn sé gerð í samráði við sveitarfélögin á Suðurnesjum þannig að svæðið njóti afraksturs framkvæmdanna á öllum sviðum.

Ályktun um atvinnumál samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun um menntamál.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ 19.nóvember 2005, skorar á ríkisvaldið að tryggja fjármagn til að standa undir kostnaði af námi á háskólastigi um allt land. Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum hefur í nokkur ár staðið fyrir fjarnámi á háskólastigi í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Sveitarfélög og samtök launþega og atvinnurekenda á Suðurnesjum hafa árlega þurft að greiða umtalsverðan kostnað við húsnæði miðstöðvarinnar ásamt nauðsynlegum búnaði til rekstursins þar sem fjárframlögum ríkisins til símenntunarmiðstöðva er misskipt eftir landssvæðum. Suðurnes eru eitt fárra landssvæða þar sem málum er svo fyrir komið. Mikilvægt er að allir landshlutar sitji við sama borð þegar kemur að fjárframlögum til símenntunarmiðstöðva vegna fjarnáms á háskólastigi.

Jafnframt skorar aðalfundurinn á stjórnvöld að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga vegna yfirfærslu grunnskóla til sveitarfélaga og fleiri verkefni  Kostnaður sveitarfélaga vegna aukningar í skólastarfi  hefur leitt til þess að tekjur sem fluttust til sveitarfélagana við yfirfærslu grunnskólans duga engann veginn fyrir rekstri þeirra.

Til máls tók Jón Gunnarsson.

Ályktun um menntamál samþykkt samhljóða.

Ályktun um löggæslumál.

Aðalfundur  Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ 19.nóvember 2005 fagnar þeim breytingum sem kynntar hafa verið nýlega í skipan löggæslumála á Suðurnesjum með sameiningu Sýslumannsembætta í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli.  Með sameiningu embætta verður til öflugt lögreglulið þannig að bæta má grenndargæslu og gera löggæsluna sýnilegri á svæðinu öllu m.a. til að halda niðri umferðarhraða og stytta þann tíma sem tekur lögregluna að komast á vettvang.

Jafnframt beinir fundurinn því til stjórnvalda að tryggja nægar fjárveitingar til að halda uppi  öflugri löggæslu á svæðinu og skorar á ríkisvaldið að kanna kosti þess að flytja Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra til Suðurnesja

Til máls tóku Ólafur Thordersen og Hörður Guðbrandsson.

Ályktun um löggæslumál samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Ályktun um menningarmál.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ 19.nóvember 2005, lýsir yfir áhuga á að gerður verði menningarsamningur milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum og Menntamálaráðuneytisins sambærilegur og gerður hefur verið við önnur landssvæði, s.s. á Austurlandi. Skorar fundurinn á Menntamálaráðuneytið að taka upp viðræður sem fyrst við fulltrúa sveitarfélaganna um framtíðarsamning vegna samstarfs í menningarmálum.

Ályktun um menningarmál samþykkt samhljoða.

Ályktun um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ 19. nóvember 2005 skorar á Heilbrigðisráðherra og Fjárlaganefnd Alþingis að standa við viljayfirlýsingu um uppbyggingu og framtíðarsýn Heilbrigðisstofnunar Suðurnejsa, sem undirrituð var þann 1. júní 2004.

Áform um uppbyggingu hafa ekki gengið eftir vegna skorts á fjárveitingum og nauðsynlegt að nú þegar verði gripið til aðgerða til að unnt sé að ljúka framkvæmdum innan þess tíma sem yfirlýsingin gerði ráð fyrir.  Uppbygging aðstöðunnar er veigamikill hluti þeirrar framtíðarsýnar sem unnið er eftir og mikilvægt að 3. hæð D-álm verði tekin í notkun sem fyrst.

Jafnframt er mikilvægt að staðið verði við áform um uppbyggingu hjúkrunarrýmis fyrir aldraða í samræmi við samkomulag milli Heilbrigðisráðurneytisins og sveitarfélagann á Suðurnesjum.

Til máls tóku Jón Gunnarsson og Böðvar Jónsson.

Ályktun um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Ályktun um samgöngumál.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum  haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja 19. nóvember 2005 fagnar árangri í samgöngumálum á Reykjanesi en miklar framkvæmdir eru nú í gangi og margt hefur áunnist.
Aðalfundurinn telur eðlilegt að þeir fjármunir sem spöruðust við útboð 2. áfanga tvöföldunar Reykjanesbrautar verði nýttir til vegaframkvæmda í kjördæminu.
Aðalfundurinn skorar á Alþingi að lokið verði við hönnun og fjármögnun Suðurstandavegar og minnt á þau loforð sem gefin hafa verið en vegurinn er mikilvæg vegtenging innan hins nýja Suðurkjördæmis.
Fundurinn skorar á yfirvöld að lýsa upp stofnvegi á Reykjanesi. Má þar sérstaklega nefna Grindavíkurveg, Sandgerðisveg og Garðveg. Mikil aukning umferðar á þessum vegum kallar á lausn hið fyrsta en aukinn akstur erlendra ferðamanna til vinsælla ferðamannstaða t.d. Bláa Lónsins skapar aukna hættu á dimmum vetrarmánuðum.
Þá leggur aðalfundurinn áherslu á tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og mislæg gatnamót við væntanlegt Hæðahverfi í Reykjanesbæ. Fundurinn fagnar uppbyggingu við flugstöð Leifs Eiríkssonar og fjölgun ferðamanna á Keflavíkurflugvelli.
Aðalfundurinn skorar á ráðherra, þingmenn og Vegagerðina að kynna sér forgangsröð verkefna í samgöngumálum á Reykjanesi sem kynnt er í áfangaskýrslu Samgöngu-nefndar SSS og lögð er fram sem sameiginleg niðurstaða sveitarstjórna á Suðurnesjum.

Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson og Sigmar Eðvarðsson.

Ályktun um samgöngumál samþykkt samhljóða.

16. Önnur mál.
Engin önnur mál voru til umræðu.

17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær
Aðalmaður: Böðvar Jónsson
Varamaður Björk Guðjónsdóttir

Grindavíkurbær
Aðalmaður Hörður Guðbrandsson
Varamaður Garðar Páll Vignisson

Sandgerðisbær 
Aðalmaður Óskar Gunnarsson
Varamaður Reynir Sveinsson

Garður: 
Aðalmaður Sigurður Jónsson
Varamaður Ingimundur Þ. Guðnason

Vatnsleysustrandahrepppur
Aðalmaður Jón Gunnarsson
Varamaður Jóhanna Reynisdóttir

18. Kosnir 2 skoðunarmenn reiknga og 2 til vara.

Aðalmenn Jóhanna Reynisdóttir
  Ellert Eiríksson

Varamenn Sigurbjörg Eiríksdóttir
  Jón Þórisson

19. Kosnir 4 fulltrúar á samráðsfund Landsvirkjunar.

Aðalmenn: Jón Gunnarsson
Sigurður Jónsson
Hörður Guðbrandsson
  Guðjón Guðmundsson

Til vara: Böðvar Jónsson
  Óskar Gunnarsson

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum gott samstarf og fékk formanni S.S.S.  Böðvari Jónssyni orðið sem þakkaði starfsfólki fundarins og fundarmönnum fundarsetuna.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.05.

 

     _____________________________
     Jóhanna M. Einarsdóttir
     fundarskrifari.

 

     _____________________________
     Björk Guðjónsdóttir, fundarstjóri