37. Aðalfundur SSS 11. og 12. október 2013
37. aðalfundur S.S.S. haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, föstudaginn 11. október og laugardaginn 12. október 2013.
Dagskrá:
Föstudagurinn 11. október 2013
Kl. 14:00 1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Kl. 14:30 2. Fundarsetning
Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Skýrsla stjórnar: Gunnar Þórarinsson formaður S.S.S.
Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2012 – Guðmundur Kjartansson endurskoðandi.
Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Ávörp gesta.
• Hanna Birna Kristjánsdóttir, Innanríkisráðherra.
• Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrsti þingmaður kjördæmisins.
• Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands ísl. Sveitarfélaga.
Umræður um skýrslur.
• Vaxtarsamningur Suðurnesja
• Menningarsamningur Suðurnesja
• Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja
• Málefni fatlaðs fólks
Kl. 16:00 Kaffihlé.
Kl. 16:20 9. Almenningssamgöngur á Suðurnesjum – Unnar Steinn Bjarndal
Kl. 16:50 10. Fyrirspurnir vegna almenningssamgangana.
Kl. 17:20 11. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Kl. 17:40 12. Fundi frestað.
Laugardagur 12. október 2013.
Aðalfundur S.S.S.- framhald.
Kl. 9:00 Morgunkaffi.
Kl. 9:30 13. Hópastarf vegna Sóknaráætlunar Suðurnesja – Expectus
Unnið verður í eftirfarandi hópum:
• Fjármál og rekstur
• Velferðarmál
• Íþrótta- og tómstundamál
• Menningarmál
• Fræðslumál
• Samgöngumál
• Skipulagsmál og umhverfismál
• Atvinnumál og hafnarmál
Kl. 11:30 14. Niðurstöður hópastarfs kynntar.
Kl. 12:00 Matarhlé.
Kl. 13:00 15. Sóknaráætlun Suðurnesja 2013 –staða verkefna.
Kl. 14:00 16. Ályktanir og umræður.
Kl. 15:00 Kaffihlé.
Kl. 15:30 16. Ályktanir og umræður frh.
Kl. 16:00 17. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
Kl. 16:10 18. Kosning endurskoðendafyrirtækis.
19. Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.
Kl. 17:00 20. Áætluð fundarslit.
Kl. 20:00 Kvöldverður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í Officeraklúbbnum, Grænásbraut 619, 235 Reykjanesbæ.
Áskilinn er réttur til að víkja frá boðaðri dagskrá.
1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Fundinn sóttu alls 34 sveitarstjórarmenn (aðal- og varamenn)
Reykjanesbær 11
Grindavík 4
Sandgerði 6
Garður 7
Vogar 6
Gestir og frummælendur á fundinum voru:
Kristín Þ. Þorsteinsdóttir, Sandgerði, Garður, Vogar, Oddný G. Harðardóttir, Alþingi, Guðlaugur Sigurjónsson, Reykjanesbær, Kristinn T. Gunnarsson, Expectus, Lára Guðmundsdóttir, Reykjanesbær, Elísabet Þorsteinsdóttir, Sandgerðisbær, Stefán Bjarkason, Reykjanesbær, Guðlaug M. Lewis, Reykjanesbær, Hjördís Árnadóttir, Reykjanesbær, Sigurður Kristmundsson, Grindavík, Kristinn Reimarsson, Grindavík, Nökkvi Már Jónsson, Grindavík, Jón Þórisson,Grindavík, Grétar Sigurbjörnsson, Sandgerði, Pétur Jóhannsson, Reykjanesbær, Rut Sigurðardóttir, Sandgerði, Ármann Halldórsson, Grindavík, Stefán Arinbjarnarson, Vogar, Finnbogi Björnsson, DS, Karl Björnsson, Samband íslenskra sveitarfélaga, Ásgeir Eiríksson, Vogar, Hilmar Bragi Bárðarson, Víkurfréttir, Unnar Steinn Bjarndal, LS Legal, Páll Guðjónsson, SSH, Ásmundur Friðriksson, Alþingi, Jón Guðlaugsson, B.S. Magnús Stefánsson, sveitarstjóri Garði, Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri Sandgerði, Guðmundur Kjartansson, Deloitte, Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri Innanríkisráðuneyti, Kristján Ásmundsson, FS, Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavík, Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra, Björn Valur Björnsson, Alþingi, Vilhjálmur Árnason, Alþingi, Magnús H. Guðjónsson, HES.
2. Fundarsetning.
Gunnar Þórarinsson formaður S.S.S. setti 37. aðalfund sambandsins. Hann sagði frá því að 10. október hefðu verið 35 ár frá því að sambandið var stofnað. Hann lagði til að fundarmenn stæðu á fætur og tækju lagið í því tilefni. Fundarmenn tóku vel í beiðnina og sungu lagið Suðurnesjamenn.
3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Tillaga kom fram um að fundarstjórar verði þau Björk Þorsteinsdóttir og Kristinn Jakobsson og voru þau sjálfkjörin. Tillaga kom fram um að fundarritarar verði þau Eysteinn Eyjólfsson og Magnea Guðmundsdóttir og voru þau sjálfkjörin.
Lagt var til að Björk Guðjónsdóttir starfsmaður atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar skrifi fundargerð aðalfundarins.
Fundarstjórar skiptu með sér verkum. Björk Þorsteinsdóttir tók við stjórn fundarins.
4. Skýrsla stjórnar.
Gunnar Þórarinsson, formaður stjórnar S.S.S. flutti skýrslu stjórnar.
Á 36. aðalfundi SSS sem haldinn var í Sandgerði laugardaginn 5. október 2012
voru eftirtaldir kjörnir í stjórn sambandsins eftir tilnefningu:
Gunnar Þórarinsson, Reykjanesbæ, formaður
Inga Sigrún Atladóttir, Vogum, varaformaður/Ásgeir Eiríksson, varaformaður
Bryndís Gunnlaugsdóttir, Grindavík.
Ólafur Þór Ólafsson, Sandgerði
Einar Jón Pálsson, Garði
Þá var Jónína Hólm, Garði um tíma í stjórninni í stað Einars.
Stjórnin hélt 19 stjórnarfundi á starfsárinu. Fjölmörg mál komu á borð stjórnar og verða hér nefnd þau sem vega þyngst.
Eins og menn muna eflaust gerði framkvæmdastjóri S.S.S. úttekt á framlögum ríkisvaldsins til ýmissa verkefna sem það hefur á sinni könnu út í héraði í upphafi þessa kjörtímabils. Víðast stóðum við langt að baki öðrum byggðarlögum í þessum framlögum en hvergi framar. Á þetta m.a. við um menntamál á framhaldsskólastigi, heilbrigðismál, menningarmál, málefni fatlaðra, öldrunarmál og atvinnumál. Þessu var komið á framfæri við stjórnvöld. Ljóst er að mikið verk er að vinna til að vera jafnfætis öðrum byggðarlögum á Íslandi hvað þetta snertir. Heldur hefur þó þokast í rétta átt í þessum efnum.
Atvinnumál ber auðvitað hæst í samfélagi okkar hér á Suðurnesjum. Hér er mest atvinnuleysi á öllu landinu og langt í að búið sé að fylla það skarð sem brotthvarf Varnarliðsins skildi eftir sig. Þá eru meðaltekjur hér fremur lágar.
Atvinnuþróunarfélagið Heklan hefur eflst og tekið sífellt fleiri verkefni að sér. Þannig tók Heklan við Markaðsstofu Suðurnesja af ferðamálasamtökum Suðurnesja. Um leið og ég lýsi von minni um að þetta megi reynast farsælt spor, vil ég þakka þeim sem voru í fararbroddi ferðamálasamtakanna fyrir öflugt starf þeirra á vegum Markaðsstofunnar á undanförnum árum .
Eins og menn rekur eflaust minni til þá var sótt um IPA styrk í kjölfar mikillar undirbúningsvinnu við styrkumsókn.
Fimm sérfræðingar á vegum Evrópusamstarfsins komu að verkefninu til að byrja með auk þess sem starfsmenn Heklunnar lögðust á árarnar með þeim auk margra annarra.
Niðurstaðan varð sú að engir IPA styrkir fengust í verkefnin frá Evrópusambandinu.
Sóknaráætlun landshluta sem komið var á af síðustu ríkisstjórn byggir á þeirri framtíðarsýn að þeir fjármunir sem Alþingi ráðstafar hverju sinni af fjárlögum til verkefna í einstökum landshlutum á sviði atvinnumála, byggða- og samfélagsþróunar byggi á sóknaráætlunum hvers landshluta og renni um einn farveg á grundvelli samnings til miðlægs aðila í hverjum landshluta. Til þess að svo megi verða þarf að forgangsraða verkefnum og áherslum hvers landshluta í gegnum sóknaráætlanir.
Á síðasta aðalfundi í Sandgerði fór fram hugmyndavinna til að kalla fram verkefni í sóknaráætlun sem hægt væri að nýta svæðinu til framdráttar. Sú hópavinna heppnaðist almennt mjög vel. Verkefnin sem voru valin 14 að tölu eru öll vel á veg komin og áætlað að þeim ljúki í byrjun komandi árs. Verkefnin eru fjölbreytt, en öll hafa þau það að markmiði að efla atvinnulíf á Suðurnesjum, bæta stjórnsýslu og auka samvinnu. En einnig að laða fram og styðja við bakið á íbúum sem sjá ákveðin sóknarfæri sjálfum sér og öðrum til framdráttar. Þannig er t.d. gert ráð fyrir að á morgunn laugardag fari fram hópavinna í verkefni sem snýr að auknu samstarfi sveitarfélaganna og hvernig má virkja það samstarf til aukinnar þjónustu og hagræðingar. Þá er einnig fyrirhugaður fundur á næstunni um menntamál svæðisins þar sem lögð verður áhersla á aukið samstarf menntastofnana, en við okkur blasir að almennt er menntunarstig á Suðurnesjum mjög lágt í samanburði við önnur svæði á landinu. Það eru ákveðin vonbrigði að nú sé ætlunin að hætta þeim vinnubrögðum sem sóknaráætlun hefur fært okkur, og fara þannig aftur til miðlægra vinnubragða í stað þess að dreifa vinnu við sókn til framfara út til byggðanna.
Almenningssamgöngur hafa verið í brennidepli hér á Suðurnesjum í kjölfar þeirra laga sem sett voru árið 2011. Í kjölfar samnings við Vegagerðina var hafinn undirbúningur að útboðum á leiðinni milli Flugstöðvarinnar og Reykjavíkur og strax í kjölfarið var síðan hafinn undirbúningur að útboði á samgöngum innan svæðis og til Reykjavíkur. Vegna kærumála dróst að opna tilboðin í akstur milli Flugstöðvarinnar og Reykjavíkur. Þegar þau voru síðan opnuð kom í ljós að lægsta tilboðið frá SBK var tæp 40% af viðmiðunarverði því sem sett var fram í útboðinu. Það hefur síðan verið mikil rekistefna milli allra aðila sem telja sig verkefnið varða, um endanlega niðurstöðu í þessu brýna hagsmunamáli fyrir íbúa okkar á Suðurnesjum sem annars staðar á landinu. Á endanum var samningur undirritaður af fulltrúum SSS og SBK í síðustu viku. Gert er ráð fyrir að SBK hefji akstur í síðasta lagi um næstu áramót.
Málefni fatlaðra voru tekin fyrir á vetrarfundi SSS í mars sl. Þar kom fram að það vantaði verulega upp á að sá útsvarsauki sem fylgdi yfirfærslu á verkefinu frá ríki til sveitarfélaga var ekki að skila sér til okkar í gegnum jöfnunarsjóð í samræmi við kostnað verkefnisins. Þar vantaði verulega upp á. Eftir að fulltrúar stjórnar SSS og þjónusturáðsins funduðu með jöfnunarsjóði og gerðu grein fyrir þeirri skekkju sem reyndust á útreikningum hans var þetta að nokkuru leiðrétt. Þannig stöndum við hér á Suðurnesjum fjárhagslega betur að vígi en áður hvað þessa þjónustu snertir.
Málefni aldraðra og þá sérstaklega hjúkrunarheimilismál standa langt að baki því sem víðast gerist annars staðar á landinu sbr. skýrslu sem Haraldur L Haraldsson kynnti á fundi út í Garði. Hjúkrunarrými eru færri en víðast annars staðar og í mörgum tilfellum allt of lítil. Þá er okkur ekki lengur stætt að bjóða eldri borgurum að deila herbergi með öðrum. Uppbygging 60 hjúkrunarrýma að Nesvöllum er bylting í þjónustu við aldraðra á svæðinu en þau verða tekin í notkun á næsta ári.
Mikilvægt er að sveitarfélögin sameinist um stefnu til næstu ára eða áratuga, þar sem knúið verður á um að veruleg aukning verði á hjúkrunarrýmum á svæðinu.
Önnur verkefni sem rétt er að nefna er Sorpeyðingarstöð Suðurnesja. Þar hefur verið ráðist í mikla endurskipulagningu sem hefur leitt til bætts árangurs í rekstri og skuldsetning hefur lækkað þannig að Sorpeyðingarstöðin ætti því að vera vel rekstrarhæf.
Þá blasir við að Brunavörnum Suðurnesja þarf að breyta í byggðasamlag skv. lögum. Þetta þarf að gerast eigi síðar en í sept. á næsta ári. Talsverðar skuldir og skuldbindingar m.a. vegna hallareksturs undanfarinna ára gera verkefnið vandasamara en vera skyldi.
Að síðustu. Eins og landið liggur í dag er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á Suðurnesjum nauðsynlegur. Allir stjórnarmenn gera sér grein fyrir að samstarfið byggist á því að það skili árangri fyrir öll sveitarfélögin sem standa að SSS og íbúa þeirra og að aðilar þurfa að taka tillit til hvors annars.
Stjórnarmönnum vil ég þakka ánægjulegt samstarf og fyrir hönd stjórnarinnar þakka ég starfsfólki sambandsins, stofnanna þess og framkvæmdastjóra gott starf og frábært samstarf. Lifið heil.
5. Ársreikningur S.S.S.
Guðmundur Kjartansson, endurskoðandi fór yfir og skýrði ársreikning S.S.S. fyrir árið 2012.
Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Til máls tóku: Bryndís Gunnlaugsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
6. Ávörp gesta.
• Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri í Innanríkisráðuneytinu flutti ávarp og skilaði kveðju til fundarins frá ráðherra sem því miður gat ekki verið með okkur í dag. Ragnhildur fjallaði í ávarpi sínu m.a. um frumvörp sem ráðherra mun leggja fram á Alþingi og vonast er eftir góðri samvinnu um frumvörpin við sveitarstjórnir.
Hún fjallaði einnig um löggæslumál og langtímastefnumótun ráðuneytisins. Hún lagði á það ríka áherslu að ráðuneytið og sveitarstjórnir eigi gott samstarf. Að lokum óskaði hún sveitarstjórnarmönnum góðs gengis í störfum sínum.
• Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra og fyrsti þingmaður kjördæmisins.
Hann fagnaði fréttum dagsins að störfum fjölgi í Reykjanesbæ og vonar að það sé það sem koma skal, að störfum fjölgi á Suðurnesjum. Hann fjallaði um ný tækifæri í atvinnumálum á svæðinu og sagði að ekki væri hjá því komist að fjalla um ný tækifæri í ferðaþjónustunni, sem væri vaxandi atvinnugrein. Hann fjallaði um aðferðafræði sóknaráætlunar og þörfina á því að sveitarstjórnarmenn, þingmenn og íbúar svæðisins ræddu saman um brýn svæðisbundin verkefni.
• Karl Björnsson framkvæmdastjóri sambands íslenskra sveitarfélaga.
Hann sagðist aðallega tala í þessu ávarpi um samskipti sveitarfélaga og Alþingis þar sem sambandið er lögformlegur samskiptaaðili við riki og Alþingi um málefni er varða sveitarstjórnarstigið. Hann fór yfir mikilvæg sameiginleg mál og sagði að fundað hafi verið með ráðherrum nýrrar ríkisstjórnar. Stefnt er að því að bjóða öllum nefndum Alþingis í kynningu til sambandsins. Hann fór yfir mjög brýn verkefni sem sambandið hefur til úrlausnar. Að lokum skilaði hann kveðju frá Halldóri Halldórssyni formanni og starfsfólki sambandsins.
7. Umræður um skýrslur.
• Vaxtarsamningur Suðurnesja
• Menningarsamningur Suðurnesja
• Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja
• Máefni fatlaðs fólks
Skýrslurnar voru sendar út til sveitarstjórnarmanna með fundarboði 37. aðalfundar.
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslurnar. Til máls tók: Eysteinn Eyjólfsson og talaði um atvinnumál og nýsköpun og mikilvægi vaxtarsamnings og menningarsamnings fyrir svæðið og beindi orðum sínum varðandi það sérstaklega til fyrsta þingmanns kjördæmisins.
KAFFIHLÉ
8. Almenningssamgöngur á Suðurnesjum.
Unnar Steinn Bjarndal lögfræðingur fjallaði um lagalegu hlið málsins ásamt því sem hann fór yfir allt útboðsferlið. Hann ræddi álit Samkeppniseftirlitsins. Í álitinu koma m.a. fram að Samkeppniseftirlitið beindi því til Vegagerðarinnar að stöðva áform sambandsins um að koma á einokun á áæltunarleiðinni milli FLE og Reykjavíkur.
Fram kom hjá Unnari að útboðið hafi ekki verið ólöglegt þrátt fyrir alvarlegar ásakanir í áliti Samkeppniseftirlitsins. Stjórn S.S.S hefur ítrekað bent á að útboðið hafi skýran lagagrundvöll og að útboðið hafi verið í samræmi við lög. Sambandið undirritaði verksamning þann 2. okt. sl. og hefst akstur samkv. honum 1. janúar 2014.
9. Fyrirspurnir vegna almenningssamgangna.
Til máls tók Bryndís Gunnlaugsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, hún vék í máli sínu að rangfærslum í áliti Samkeppniseftirlitsins og lýsti áhyggjum sínum af máli þessu. Til máls tók Oddný Harðardóttir, alþingismaður og vék einnig í máli sínu að áliti Samkeppniseftirlitsins. Til máls tók Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum. Ásgeir talaði um almenningssamgöngur og tók Suðurland sem dæmi um gott almenningssamgöngukerfi. Hann vildi nefna þann samanburð og benda á hversu gífurlegt hagsmunamál almenningssamgöngur eru fyrir svæðið. Til máls tók Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, en hann tók þátt í upphaflegu ferli þessa máls og benti á að alltaf hafi verið gengið út frá því að reka sjálfbærar samgöngur á Suðurnesjum. Til máls tók Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, sagði að rök þeirra sem áður töluðu séu mjög skýr og sterk og að þurfi að fá áheyrn í innanríkisráðuneytinu og koma þessum rökum á framfæri. Til máls tók Gunnar Þórarinsson, formaður S.S.S., og hvatti til þess að sveitarstjórnarmenn stæðu saman um þetta mál og kvika hvergi. Til máls tók Kristinn Jakobsson og spurði hvort sambærilegt mál þekktist í Evrópu og/eða nágrannalöndum, hvort það hefði verið skoðað. Til máls tók Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Sandgerði. Hann lýsti yfir ánægju með samstöðuna og fjallaði um hagsmuni Suðurnesja í þessu máli. Til máls tók Bryndís Gunnlaugsdóttir, sem taldi það hafa verið mjög mikilvægt að taka þetta mál til umfjöllunar á fundinum til að upplýsa alla sveitarstjórnarmenn um stöðuna í málinu. Auk þess væri gott að finna fyrir samstöðunni og hvatningunni frá fundarmönnum.
10. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Ályktun um heilbrigðismál á Suðurnesum. Ályktun um atvinnumál og málefni Keflavíkurflugvallar. Ályktun um almenningssamgöngur. Ályktun um hjúkrunarþjónustu við aldraða. Ályktun um menntamál. Ályktun um húsnæðisöryggi á Suðurnesjum. Tillaga frá Eysteini Eyjólfssyni um framtíðarfyrirkomulag innanlandsflugs á Íslandi.
1. Fundarstjóri tilkynnti að 34 sveitarstjórnarmenn væru skráðir á fundinn og hann væri þar með löglegur og ályktunarbær. Fundarstjóri brýndi fyrir sveitarstjórnarmönnum að mæta á morgun, seinni dag aðalfundarins en þá færu fram kosningar. Einnig óskaði fundarstjóri eftir að breytingartillögur væru lagðar fram skriflega.
11. Fundi frestað.
Laugardagurinn 12. október – fundi framhaldið.
12. Hópastarf vegna Sóknaráætlunar Suðurnesja.
Magnús Árni Magnússon, frá ráðgjafafyrirtækinu Expectus var með inngang. Hann fór yfir aðdragandann að verkefninu og kynnti aðferðafræðina sem unnið verður eftir í hópastarfinu. Einnig kom eftirfarandi fram í hans inngangi að verkefninu.
Í greiningarvinnu fyrir vinnslu sóknaráætlunar Suðurnesja 2013 kom fram í máli sveitarstjórnarmanna og hagsmunaaðila á svæðinu að ekki væri nægt samstarf milli stofnana og stjórnsýslueininga á svæðinu og að mikilvægt væri að ráðast í greiningu á þeim tækifærum sem þar væru til staðar.
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur því ákveðið að ráðast í slíka greiningu með það að markmiði að kanna hagræði af sameiningu og/eða auknu samstarfi stjórnsýslueininga t.d. sveitarfélaga eða stofnana á svæðinu.
Markmiðið með hugmyndasmiðjunni er að kalla eftir og skilgreina tækifæri til samstarfs/sameiningar á svæðinu. Við leggjum áherslu á að þessi vinna skili raunhæfum forgangsröðuðum verkefnum sem hægt verði að vinna hratt og örugglega í framhaldi af vinnustofunni.
Þátttakendur eru sveitarstjórnarmenn, bæjarstjórar og starfsmenn sem bera ábyrgð á þeim málaflokkum sem skilgreindir eru í upptalningunni hér á eftir.
Kallað eftir hugmyndum um samvinnu á eftirfarandi sviðum hvað varðar stefnumótun og rekstur sveitarfélaga á Suðurnesjum:
a) Fjármál og rekstur
b) Velferðarmál
c) Íþrótta- og tómstundamál og menningarmál
d) Fræðslumál
e) Samgöngumál
f) Skipulagsmál og umhverfismál
g) Atvinnumál og hafnarmál
Fyrir hvern málaflokk verður eitt eða fleiri borð. Sérþjálfaðir hópstjórar munu stýra umræðum á borðum. Þátttakendur veljast á borð út frá sérsviði. Á hverju borði verður sérstaklega skoðað hvar tækifærin í samstarfi liggja, m.a. út frá miðlægum útboðum og innkaupum, upplýsingatækni og annarri umsýslu.
Útfærsla á því hvernig samstarfinu verður best háttað í einstökum málaflokkum og drög að aðgerðaráætlun sett fram sem vísað verður til fullvinnslu hjá stýrihópi.
13. Niðurstöður hópastarfs kynntar.
1. Fjármál og rekstur – Sindri Sigurjónsson kynnti.
• Samstarf um samningagerð á innkaup á vöru og þjónustu.
• Sameiginleg nýting á mannskapi og tækjum í viðhaldi á gatna- og mannvirkjum og uppákomum á svæðum.
• Sameiginleg þjónusta mannauðsmála á Suðurnesjum.
• Sameiginlegur rekstur í tæknilegri vinnslu sveitarfélaga.
2. Velferðarmál – Kristinn Tryggvi Gunnarsson kynnti.
• Samstarf um öldrunarþjónustu, hjúkrunarheimili, félagsþjónustu, iðja, heimilishald, heilsugæsla, sjúkrahús, heimahjúkrun, heimaþjónusta, félagsstarf aldraðra, HSS, eftfylgni greininga, jafnréttismál, húsnæðismál.
• Samstarf um sérhæfða þjónustu, t.d. þjónusta við fatlað fólk, ferðaþjónustu, atvinnumál, sértæk búsetuúrræði, ferðaþjónusta aldraðra.
• Samstarf um eflingu foreldrafærni.
• Sameina fötlunarþjónustu alla.
3. Íþrótta- tómstunda og menningarmál – Kristinn Reimarsson kynnti.
• Sameiginlegir menningarviðburðir, hátíð.
• Samstarf í heilsu- og forvörnum.
• Sameiginlegir íþróttaviðburðir á Suðurnesjum.
• Íþrótta- og tómstundariðkun milli sveitarfélaga.
4. Fræðslumál – Ragnhildur Ágústsdóttir kynnti.
• Aukið flæði milli menntastofnanna.
• Sameiginleg skólaskrifstofa fyrir svæðið.
• Kynning á námsframboði.
• Efling kennarastéttarinnar.
5. Samgöngumál – Anna Björk Bjarnadóttir kynnti.
• Heildstætt almenningssamgöngukerfi á Suðurnesjum.
• Samgönguáætlun Suðurnesja.
• Göngu- og hjólastígar milli sveitarfélga.
• Aðgengi og merkingar fyrir ferðamannastaði á Suðurnesjum.
6. Skipulagsmál og umhverfismál – Eggert Sólberg Jónsson kynnti.
• Samráðsfundir milli nefnda, ráða og starfsmanna nefnda á umhverfis- og skipulagssviði.
• Sameiginleg sýn á umhverfismál s.s. sorp.
• Gagnaský Suðurnesja.
• Skilgreina sameiginlegar útivistaperlur og græn svæði.
7. Atvinnumál og hafnarmál – Þuríður Halldóra Aradóttir kynnir.
• Hafnarmál. Samstarf hafna á Suðurnesjum um hagræðingu í rekstri og önnur sameiginleg verkefni.
• Ferðamál. Nýta á þjónustu sem fyrir er á svæðinu og auka nýtingu fyrirtækja í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Að búa til vörur og efla verðmætasköpun í samstarfi.
• Sameiginleg atvinnusvæði. Móta samstarfsvettvang og ná fram hagræðingu á skilgreindum atvinnusvæðum óháð sveitarfélagsmörkum.
• Atvinnutækifæri á Suðurnesjum. Nýting á atvinnutækifærum á svæðinu og hvetja ungt fólk til að taka þátt í atvinnulífinu.
• Aðferðafræði um samvinnu. Mynda starfshóp sem vinnu að skilgreiningu tækifæra í fullnýtingu verðmæta á Suðurnesjum.
• Stjórnsýsla. Sameiginleg hagræðing í rekstri stjórnsýslunnar.
Að lokum fór Magnús yfir það sem mun gerast í framhaldinu og þakkaði borðstjórum og þátttakendum fyrir.
MATARHLÉ.
14. Sóknaráætlun Suðurnesja 2013, staða verkefna.
Berglind Kristinsdóttir gerði grein fyrir þeirri vinnu sem nú þegar hefur farið fram. Sóknaráætlunarverkefnin eru 14 talsins. Ekki er vitað um framhaldið á þessu verkefni þar sem ekki er gert ráð fyrir verkefninu á fjárlögum ársins 2014.
15. Ályktanir og umræður.
Fundarstjóri Kristinn Jakobsson, tilkynnti að tilskilinn fjöldi fulltrúa væru á fundinum til að hann sé ályktunarbær og hófst þá afgreiðsla ályktana.
Ályktun um heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ 11.-12. október 2013 ályktar eftirfarandi um heilbrigðisþjónustu. Heilbrigðisþjónusta er ein af mikilvægustu grunnstoðum sérhvers samfélags.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja gegnir mikilvægu hlutverki í samfélagi þeirra 21 þúsund íbúa sem búa á Suðurnesjum. Öflug heilsugæsluþjónusta, slysa- og bráðaþjónusta, sérfræðiþjónusta og öldrunarþjónusta ásamt öflugri dag- og göngudeildarþjónustu eru mikilvægustu þættirnir.
Mikilvægt er að standa vörð um starfsemi HSS og tryggja stofnuninni nauðsynlega fjármuni til að rækja hlutverk sitt á svæðinu og íbúum þess til heilla.
Aðalfundur SSS hvetur stjórnvöld til að efla starfsemi HSS og tryggja fjárhagslegt öryggi stofnunarinnar. Öflug heilbrigðisstofnun með metnaðarfulla og faglega starfsemi er sú krafa sem íbúar Suðurnesja gera og vænta góðs samstarfs og skilnings heilbrigðisyfirvalda og fjárveitingarvaldsins.
Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Ályktun um atvinnumál og málefni Keflavíkurflugvallar
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ 11.-12. október 2013 telur atvinnuuppbyggingu vera mikilvægasta verkefni Suðurnesjamanna. Atvinnuleysi á landinu er mest á Suðurnesjum og því mikilvægt að allir aðilar leggist á eitt í uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Það þarf að vinna markvisst að framgangi álvers í Helguvík. Ekki er síður mikilvægt að huga að þeim fjölmörgu vaxtarbroddum atvinnulífsins sem víða leynast s.s. í tengslum við ferðaþjónustu og alþjóðlegan flugvöll. Þá má ekki gleyma því að sjávarútvegur er ein af undirstöðum atvinnulífs á Suðurnesjum og tryggja þarf rekstraröryggi hans til framtíðar.
Aðalfundurinn skorar á Alþingi og ríkisstjórnina að ganga enn ákveðnar til verks þegar kemur að framgangi þeirra verkefna sem snúa að Suðurnesjum. Fundurinn tekur undir þau sjónarmið að flytja eigi verkefni á vegum ríkisins frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar og í því sambandi er rétt að benda á að Landhelgisgæslan á hvergi betur heima en á Suðurnesjum. Þá telur aðalfundurinn það skjóta skökku við að í undirbúningi sé flutningur á hluta flugumferðarstjórnar af Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkurflugvallar.
Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina. Ályktunin var samþykkt samhljóða.
Ályktun um almenningssamgöngur.
Almennt er mikil samstaða um að mikilvægt sé að halda uppi ódýrum, öruggum og tíðum almenningssamgöngum. Almenningssamgöngur eru nauðsynlegar innan og milli byggðalaga og milli helstu samgöngumiðstöðva svo almenningur geti ferðast innanlands á einfaldan og öruggan hátt.
Góðar almenningssamgöngur er jákvæður kostur fyrir þá aðila sem vilja leita ódýrari leiða til að ferðast í stað einkabíls og létta á álagi í umferðinni og minnka mengun. Á komandi árum mun þörfin fyrir góðar almenningssamgöngur aðeins aukast. Því er mikilvægt að stjórnmálamenn standi vörð um það almenningssamgöngukerfi sem nú er verið að byggja upp.
Ríkið greiðir í dag háar upphæðir til að halda uppi almenningssamgöngum því staðreyndin er sú að aðeins fáar leiðir standa undir kostnaði. Vekur það því mikla furðu að til skoðunar sé að taka þær leiðir sem standa undir sér út úr almenningssamgöngukerfinu þvert á það sem gert er í nágrannalöndum okkar. Slíkt mun aðeins leiða af sér annað hvort aukinn kostnað ríkisins og almennings eða lélegri almenningssamgöngur.
Aðalfundur S.S.S. haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ 11. – 12. október 2013 skorar á stjórnmálamenn að standa vörð um almenningssamgöngur á Suðurnesjum sem og landinu öllu og til að tryggja að almenningssamgöngur séu raunhæfur kostur fyrir almenning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina. Tillagan var samþykkt samhljóða.
Ályktun um hjúkrunarþjónustu við aldraða.
Aðalfundur S.S.S. sem haldinn er í Reykjanesbæ 11. – 12. október 2013 gerir ríka kröfu um að stjórnvöld tryggi að aldraðir íbúar á Suðurnesjum fái notið hjúkrunarþjónustu í samræmi við þarfir. Samkvæmt skýrslu Haraldar Líndal Haraldssonar,“Garðvangur, hjúkrunarheimili“, kemur í ljós að Suðurnes hafa setið eftir í samanburði við aðra landshluta hvað varðar fjölda hjúkrunarrýma miðað við þörf.
Aðalfundurinn bendir á að verulega vantar upp á að framboð á hjúkrunarþjónustu við aldraða á Suðurnesjum uppfylli þörf fyrir þjónustuna og standist samanburð við önnur heilbrigðisumdæmi í landinu. Þá vekur aðalfundur S.S.S athygli á því að mikið vantar uppá að fjármunir sem skattgreiðendur greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra séu nýttir til uppbyggingar hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða í landinu.
Á næsta ári verður nýtt hjúkrunarheimili tekið í notkun að Nesvöllum í Reykjanesbæ, en þrátt fyrir það verður raunveruleg fjölgun hjúkrunarrýma á Suðurnesjum óveruleg. Aðalfundur S.S.S. telur ljóst að þrátt fyrir að öll þau hjúkrunarrými fyrir aldraða sem heimild er fyrir á Suðurnesjum verði nýtt, auk óverulegrar fjölgunar með tilkomu nýs hjúkrunarheimilis að Nesvöllum, þá uppfylli þau engan veginn áætlaða þörf fyrir hjúkrunarrými á Suðurnesjum.
Sú staðreynd er með öllu óásættanleg fyrir íbúa Suðurnesja og gerir aðalfundurinn því þá kröfu til stjórnvalda að þau standi með sveitarfélögunum á Suðurnesjum í þeirri viðleitni að byggja upp hjúkrunarþjónustu við aldraða sem uppfyllir þörf og stenst samanburð við önnur heilbrigðisumdæmi landsins.
Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina. Til máls tóku Árni Sigfússon og lagði fram breytingatillögu, Sigrún Árnadóttir, Böðvar Jónsson, Róbert Ragnarsson, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson, Bryndís Gunnlaugsdóttir og lagði hún fram breytingatillögu. Til máls tók Böðvar Jónsson og lagði fram breytingarstillögu, Ólafur Þór Ólafsson, Einar Jón Pálsson, Friðjón Einarsson og Davíð Ásgeirsson.
Breytingartillögur Bryndísar og Böðvars dregnar til baka.
Böðvar og Bryndís lögðu fram sameiginlega breytingatillögu. Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.
Fundarstjóri bar upp breytingatillögu Árna og var hún samþykkt samhljóða. Fundarstjóri bar upp ályktunina með áornum breytingum og var hún samþykkt samhljóða.
Ályktun um menntamál
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Reykjanesbæ 11. til 12. október 2013 vill benda á að menntun er sú fjárfesting sem er mikilvægust fyrir framtíðaruppbyggingu samfélagsins.
Brýnt er að ríkisvaldið styðji við þær umbætur sem gerðar hafa verið í menntamálum á Suðurnesjum og tryggi fjármagn til framtíðar.
Aðalfundurinn skorar því á stjórnvöld að auka framlög verulega til framhaldsnáms á Suðurnesjum. Þannig munu Suðurnesin fá aukin tækifæri til sóknar í atvinnuuppbyggingu og velferð.
Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunin. Til mál tóku Kristín María Birgisdóttir og Friðjón Einarsson sem lagði fram breytingartillögu.
Fundarstjóri bar upp breytingartillöguna og var hún samþykkt samhljóða. Fundarstjóri bar upp ályktunina með áornum breytingum og var hún samþykkt samhljóða.
Ályktun aðalfundar SSS um húsnæðisöryggi á Suðurnesjum.
Aðalfundur SSS haldinn í Reykjanesbæ 11. – 12. október 2013 lýsir yfir áhyggjum af húsnæðisöryggi Suðurnesjamanna. Það er lykilatriði fyrir uppbyggingu á Suðurnesjum og velferð á svæðinu að allir íbúar þess eigi kost á að búa í tryggu húsnæði.
Fjöldi þess fólks sem misst hefur íbúðir sínar í nauðungarsölu á Suðurnesjum er hlutfallslega miklu meiri en annars staðar á landinu og það sama gildir um fjölda fólks í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Of dýrar fjárfestingar, ófullkomið greiðslumat lánastofnana og erfitt atvinnuástand hefur komið mörgum fjölskyldum á Suðurnesjum í vanda og skapað fjölþættan samfélagslegan vanda. Sveitarfélög á Suðurnesjum telja að fólk eigi að njóta vafans og að nauðungarsölur skuli stöðvaðar á meðan minnsta óvissa er uppi um lögmæti húsnæðisskulda og beðið er eftir tillögum ríkistjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.
Það skýtur skökku við að við þessar aðstæður skuli dregið úr starfsemi umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum. Umboðsmaður skuldara hefur enn stóru hlutverki að gegna og er mikið leitað til hans. Stjórnvöld eru eindregið hvött til þess að falla frá áformum um samdrátt í þjónustu umboðsmanns skuldara á svæðinu.
Íbúðalánasjóður er eigandi stórs hluta þeirra eigna sem seldar hafa verið nauðungarsölu og nú á sjóðurinn 881 íbúð á Suðurnesjum og eru einungis 294 þeirra í útleigu. Það standa 391 íbúðarhæfar eignir í eigu sjóðsins auðar á Suðurnesjum þegar eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur sjaldan eða aldrei verið meiri. Fasteignum sjóðsins er ekki ekki vel við haldið og hefur það neikvæð áhrif á ásýnd bæjarfélaganna. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir bæjaryfirvalda á Suðurnesjum til Íbúðalánasjóðs um samvinnu um lausn á þessum vanda og velvilja einstakra starfsmanna sjóðsins til þess að leysa úr málum þokar þeim lítið sem ekkert.
Sveitarfélög á Suðurnesjum geta ekki sætt sig við þetta ástand og hvetja ríkisstjórnina eindregið til þess að taka á þessum málum af fullri alvöru og vinna með sveitarfélögum á Suðurnesjum að áætlunum um framkvæmdir til lausnar.
Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina. Ályktunin samþykkt samhljóða.
Tillaga lögð fram af Eysteini Eyjólfssyni:
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn 11.-12. október 2013 felur stjórn sambandsins að láta gera úttekt á kostum og göllum – kostnaði og ávinningi – þess að flytja innanlandsflug, kennsluflug og ferjuflug til Keflavíkurflugvallar. Úttektin liggi fyrir í lok janúarmánaðar 2014.
Greinargerð:
Framtíð og framtíðarfyrirkomulag innanlandsflugs á Íslandi hefur verið mikið í umræðunni síðustu misserin og gera má ráð fyrir að umræðan verði ekki minni í vetur. Mikilvægt er að umræðan sé grundvölluð á staðreyndum og sé yfirveguð þannig að hægt sé að komast að skynsamlegri niðurstöðu.
Málið er Suðurnesjamönnum skylt og því ber okkur að stíga fram og koma með innlegg í umræðuna. Besti vettvangurinn til þess er Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Úttekt stjórnar SSS – að megninu til samantekt og úrvinnsla úr fyrirliggjandi gögnum –verður mikilvægt innlegg í umræðuna og okkar framlag til þess að komist verði að skynsamri niðurstöðu.
Breytingatillaga lögð fram af Árna Sigfússyni:
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum samþykkir að fela Heklunni að vinna að athugun á möguleikum og hagkvæmni þess að flogið verði innanlands með ferðahópa beint frá Keflavíkurflugvelli, óháð því hvort innanlandsflug verður áfram stundað í Vatnsmýrinni í Reykjavík eða ekki.
Greinargerð: Fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll er áætlaður um 2,7 milljónir á þessu ári og 17 flugfélög hafa verið í áætlunarflugi. Fjöldi erlendra ferðamanna sem koma um þetta innhlið landsins í ár og ferðast um landið verður hátt í 800 þúsund, auk íslenskra ferðamanna. Spáð er um 15% árlegum vexti í ferðaþjónustu út þennan áratug. Gangi þær spár eftir mun ferðamönnum fjölga úr tæplega 800.000 í ár í um 2,1 milljón árið 2020.
Af þessum mikla fjölda leiðir án efa að leitað verður nýrra leiða til að ferja ferðamannahópa út á áhugaverða staði landsbyggðarinnar til austurs, vesturs, norðurs og suðurs. Flug með ferðamenn frá Keflavík til áfangastaða á landsbyggðinni hlýtur að vera kostur sem vert er að undirbúa.
Fundarstjóri gafi orðið laust um tillögurnar.
Til máls tóku: Eysteinn Eyjólfsson, Árni Sigfússon, Sigrún Árnadóttir, Gunnar Þórarinsson og lagði til að báðum tillögunum væri vísað til stjórnar. Til máls tókur Eysteinn Eyjólfsson, Árni Sigfússon, Bryndís Gunnlaugsdóttir, Einar Jón Pálsson, Davíð Ásgeirsson, Friðjón Einarsson og Oddur Ragnar Þórðarson.
Fundarstjóri bar upp tillögu um að vísa báðum tillögunum til stjórnar og var það samþykkt samhljóða.
Eysteinn Eyjólfsson sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
16. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
Reykjanesbær:
Aðalmaður: Gunnar Þórarinsson
Varamaður: Árni Sigfússon
Grindavíkurbær:
Bryndís Gunnlaugsdóttir
Kristín María birgisdóttir
Sandgerðisbær:
Ólafur Þór Ólafsson
Sigursveinn Bjarni Jónsson
Sveitarfélagið Garður:
Einar Jón Pálsson
Brynja Kristjánsdóttir
Sveitarfélagið Vogar:
Ásgeir Eiríksson
Oddur Ragnar Þórðarson
17. Kosning endurskoðendafyrirtækis.
Lagt er til að Deloitte verði endurskoðunarfyrirtæki Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir næsta starfsár.
18. Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.
Lagt er til að þóknun til stjórnarmanna S.S.S. verði sem hér segir:
Formaður stjórnar 4,5% af þingfararkaupi eða kr. 28.351.- fyrir hvern fund.
Aðrir stjórnarmenn 3% af þingfararkaupi eða kr. 18.901 fyrir hvern fund.
19. Fundarslit.
Fundarstjórar þökkuðum það traust sem þeim var sýnt. Gunnar Þórarinsson þakkaði fundarstjórum og öðrum starfsmönnum fundarins fyrir þeirra störf, þakkaði fundarmönnum fyrir fundinn og sleit fundi kl. 15.30.
Björk Guðjónsdóttir, fundarskrifari aðalfundar.