fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

39. Aðalfundur SSS 2. og 3. október 2015

39. aðalfundur S.S.S. haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Reykjanesbæ, föstudaginn 2. október og laugardaginn 3. október 2015.

Dagskrá:

Föstudagurinn 2. október.
1. Skráning fulltrúa og afhending gagna.
Fundinn sóttu alls   sveitarstjórnarmenn aðal- og varmamenn.
Reykjanesbær  11  fulltrúa
Grindavík  7 fulltrúar
Sandgerði 7 fulltrúar
Garður 7 fulltrúar
Vogar 7 fulltrúar

• Gestir og frummælendur á fundinum voru:
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæ, Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Garði, Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri í Sandgerði, Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Guðmundur Kjartansson, Deloitte, Páll Ketilsson, Víkurfréttir, Páll Valur Björnsson, Alþingi, Jórunn Guðmundsdóttir, Öldrunarráð Suðurnesja, Sigurveig Sigurðardóttir, HÍ, Pálmi V. Jónsson, HÍ / LSH, Halldór Guðmundsson, ÖA, Sigurbjörg Eiríksdóttir, FEBS, Hera Ósk Einarsdóttir, Velferðarsvið Rnb, Ása Eyjólfsdóttir, Velferðarsvið Rnb, Margrét Blöndal, þjónustuhópur aldraðra, Þórunn Benediktsdóttir, HSS, Halldór Jónsson, HSS, Magnús Guðjónsson, HES, Eyjólfur Eysteinsson, FEBS, Kristín Þ. Þorsteinsdóttir, félagsmálastjóri, Sigurður Jónsson, FEBS, Vilhjálmur Árnason, Alþingi, Silja D. Gunnarsdóttir, Alþingi, Sigurður Garðarsson, Hrafnista, Finnur Þ. Gunnþórsson, ráðgjafi, Kári Gunnarsson, ráðgjafi, Ásmundur Friðriksson, Alþingi, Jón Guðlaugsson, BS, Gunnlaugur Júlíusson, Samband íslenskra sveitarfélaga, Oddný G. Harðardóttir, Alþingi, Kristján Ásmundsson, FS.

2. Fundarsetning.
Gunnar Þórarinsson, formaður stjórnar S.S.S. setti fundinn bauð fundarmenn og gesti velkomna.

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Formaður lagði fram tillögu um Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur og Baldur Guðmundsson sem fundarstjóra og var tillagan samþykkt. Tillaga kom um Davíð Pál Viðarsson og Lovísu Hafsteinsdóttur sem ritara og var það samþykkt.
• Guðný Birna tók við stjórn fundarins.

4. Skýrsla stjórnar.
Gunnar Þórarinsson, formaður  flutti skýrslu stjórnar. Fram kom að stjórnin hafi haldið 16 fundi á starfsárinu.  Almenningssamgöngur tóku mestan tíma stjórnar á árinu bæði samskiptin við Vegagerðina og vegna sjálfstæðs útboðs sem stjórn ákvað að ráðast í. Stjórn S.S.S ákvað í kjölfar riftunar Vegagerðarinnar á hluta samningsins að höfða mál gegn ríkisvaldinu. Málið hefur ekki verið útkljáð fyrir dómstólum.
Formaðurinn sagði að mesta atvinnuleysi á landinu hefur verið á Suðurnesjum, sífellt þarf að sækja fram í atvinnumálum. Heklan hefur eflst og tekið við fleiri verkefnum. Einnig ræddi formaður um Sóknaráætlun landshluta, en á árinu gerði stjórn S.S.S samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið annars vegar og við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hins vegar um verkefnið árin 2015-2019.
Formaður ræddi um málefni fatlaðra og sagði að talsverður halli væri á rekstri þessarar þjónustu hjá sveitarfélögunum. Einnig ræddi formaður málefni aldraðra en hér eru færri hjúkrunarrými en  víðast annars staðar ef miðað er við íbúafjölda. Mikilvægt er að sveitarfélögin sameinist um stefnu til næstu ára eða áratuga, þar sem knúið verður á um að veruleg aukning verði á hjúkraunarrýmum á svæðinu, sagði formaðurinn.  Stofnað var byggðasamlag um rekstur Brunavarna Suðurnesja á árinu.  Að lokum þakkaði formaður sjórnarmönnun og starfsfólki sambandsins fyrir ánægjulegt samstarf. 

5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2014.
Guðmundur Kjartansson fór yfir ársreikning Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust um ársreikning og skýrslu stjórnar.
Til máls tóku, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Einar Jón Pálsson og Hólmfríður Skarphéðinsdóttir  og ræddu þau m.a. um samstarfið innan S.S.S, fjárhagserfiðleika Reykjanesbæjar og stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
Fundarstjóri bar upp ársreikning sambandsins og og var hann samþykktur samhljóða.

7. Umræður um skýrslur.
• Menningarsamningur Suðurnesja
• Atvinnurþóunarfélag Suðurnesja
• Markaðsstofa Reykjaness
Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslunar, enginn óskaði eftir að taka til máls.

8. Tillögur og ályktanir lagðar fram.
Stjórn S.S.S. lagði fram þrjár ályktanir sem fundarstjóri fylgdi eftir, ályktanir um hafnarmál, ályktun um málefni aldraðra og ályktun um samgöngumál.
Fundarstjóri gaf orið laust. Til máls tók Inga Rut Hlöðversdóttir og  Ólafur Þór Ólafsson.
• Fundi frestað.

9. Fyrirtækjaheimsóknir á Ásbrú.

• Laugardagur 3. október.
• Baldur Guðmundsson tók við fundarstjórn.

Fundarstjóri gaf Einari Jóni Pálssyni orðið sem kynnti breytingar á dagskrá fundarins. Nýr dagskrárliður – Staða samstarfs sveitarfélaga á Suðurnesjum, á dagskrá kl. 14.40. Niður fellur dagsrkárliðurinn – Flokkun sorps, hagkvæmni eða kostur.
Fundarstjóri bar upp breytingartillöguna og var hún samþykkt.

10. Ávarp Iðnaðar- og viðskiptaráðherra – Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ráðherra byrjaði á að skila kveðjum frá Sigurði Inga Jóhannssyni, ráðherra og öðrum þingmönnum kjördæmisins, sem ekki áttu þess kost að mæta á aðalfundinn. Ráðherrann  ræddi samstarf sveitarfélaga og benti á kosti þess að hafa einn talsmann fyrir hönd landshluta gagnvart ríkisvaldinu. Einnig ræddi ráðherra grafalvarlega fréttir gærdagsins varðandi Reykjanesbæ og Helguvík. Ráðherra sagði einnig að nú værum við komin á þann stað að ekki er lengur mikið atvinnuleysi á svæðinu heldur þurfum við að hafa áhyggjur af því hvernig við ætlum að fá fólk til starfa á þessu svæði. Ráðherra benti á að það væri verkefni sveitarfélaga á svæðinu og íbúa allra að tala svæðið upp því hér er gífurlega gott að búa og tækifærin mikil. Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvæg, nú er verið að ljúka stefnumótun í ferðaþjónustunni í ráðuneytinu, en sú vinna mun verða kynnt nk þriðjudag. Einnig ræddi ráðherrann um stöðuna í efnahagsmálum, fjárlagafrumvarpið, hallalaus fjárlög, niðurfellingu tolla og lækkun skatta. Ráðherrann óskað svæðinu til hamingju með vottunina sem Reykjanes Geopark hlaut nýverið og ræddi um mikilvægi jarðvangs og auðlindagarðs og þá starfsemi sem sprottið hefur upp vegna orkuauðlindarinnar og sérþekkingu á heimsmælikvarða sem hér er til staðar. Einnig ræddi ráðherrann  ferðamál á Reykjanesi og þá breytingu sem er orðin vegna fjölgunar ferðamanna hér á svæðinu og tækifærin sem felast í aukningu þeirra fyrir svæðið.  Að lokum óskaði ráðherrann öllum góðs gengis í að vinna að framgangi Suðurnesja.
• Ávarp gesta.
Gunnlaugur Júlíusson flutti ávarp fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga og skilaði kveðju frá sínu fólki og formanni sambandsins. Hann ræddi skipan sveitarstjórnarstigsins í landinu. Hann ræddi flutning verkefna frá ríkinu til sveitarfélaga. Hann fór yfir fjárhagsstöðu sveitarfélga og birti lykiltölur úr rekstri og efnahag. Varðandi ferðamál eru sveitarfélögin ekki að fá auknar tekjur miðað við þær auknu kröfur sem gerðar eru til sveitarfélaga. Ferðamálin eru gríðarleg áskorun, sagði Gunnlaugur.   Hann ræddi þjónustu við fatlað fólk og fór yfir rekstrarhalla sveitarfélaga vegna yfirfærslunnar.  Sóknaráætlanir landshluta hafa fengið verulega fjármuni til að standa fyrir ýmsum verkefnum. Almenningssamgöngur er verkefni þar sem staðan mætti vera betri bæði lagalega og rekstrarlega hjá sveitarfélögum. Hann ræddi hjúkrunarheimili og stefnu í þeim málaflokki , ljósleiðaravætt Ísland, sem skiptir miklu máli og er stórt verkefni, málefni flóttamanna er einnig stórt verkefni þar sem þarf að eiga sér stað umræða milli ríkis og sveitarfélaga um það hvernig verður að þessu staðið. Að lokum vonaðist Gunnlaugur til að sveitarstjórnarmenn hefðu fengið innsýn í þá  málaflokka sem sambandið vinnu að og brenna á sveitarfélögunum.

11. Nýsköpun í þjónustu við eldra fólk.
Pálmi V. Jónsson yfirlæknir Öldrunarlækningadeildar Landspítlala og Prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands flutti erindið. Hann byrjaði á að fara yfir ríkjandi hugmyndir um öldrunarþjónustu. Eldra fólk lifir lengur og lifir betur við minni fötlun, en eftir því sem við eldumst breytast hlutirnir. Meðalævilíkur við fæðingu hafa vaxið á hverju ári frá 1840. Hver og einn einstaklingur ber í vaxandi mæli ábyrgð á eigin heilsu.  Hann sagði frá verkefninu – Hvað er aldursvæn borg. Aldursvæn borg mætir þörfum borgaranna og er aðgengilegt þéttbýli sem stuðlar að virkni á efri árum. Hann benti á að minni samfélög gætu gengið þennan veg og hvatti sveitarstjórnarmenn til að fylgjast með þróunni í verkefninu og jafnvel að taka það upp. Hann fjallaði um heildrænt öldrunarmat og heimahjúkrun. Hann telur að það þurfi að þróa þekkt úrræði og bæta við nýjum, samhæfa þjónustu. Hann sagði að fjölga þurfi tegundum úrræða. Skilaboð hans  til sveitarstjórnarmanna voru þessi, það vantar sambýli fyrir fólk sem er einmanna, þunglynt og með kvíðaröskunarvandamál , sem á ekki heima á hjúkrunarheimili.  Að lokum sagði hann að öldrunarþjónustan þurfi að líkjast sinfóníuhljómsveit, allir þurfa að spila í takt.

12. Fjölskyldan og eldra fólk – samstarf við opinbera aðila.
Sigurveig H. Sigurðardóttir, dósent, félagsráðgjafardeild, HÍ. Flutti erindið. Hún byrjaði að velta upp spurningunni –  Hverjir eiga að sjá um þjónustuna við eldra fólk. Fram kom að flestir aldraðir eru sjálfbjarga en með hækkandi aldri eru meiri líkur að aldraðir þurfi aðstoð. Opinber stefna stjórnvalda er að eldra fólk geti búið heima sem lengst. En það krefst fjölbreyttrar þjónustu og samvinnu. Hún fjallaði um aðstoð fjölskyldu við sína nánustu, einnig fjallaði hún um stöðu þekkingar hér á landi. Hér á landi búa fleiri á hjúkrunarheimilum en á hinum Norðurlöndunum og að fleiri aldraðir fá heimaþjónustu hérlendis en færri tíma hver og einn. Hún fór yfir rannsókn sem hún gerði fyrir nokkrum árum og heitir ICEOld rannsóknin – Icelandic older people. Rannsókn varðandi þjónustu og aðstoð við aldraða. Þáttur fjölskyldunnar í þjónustu við eldri borgara er stór á Íslandi. Það sýna niðurstöður rannsóknarinnar og að auka þarf samvinnu milli formlegra og óformlegra þjónustuveitenda og þess aldraða sem fær þjónustuna, er m.a. það sem kom fram í erindi Sigurveigar.

13. Stefna, áherslur, tækifæri, velferðartækni og framtíðarsýn.
Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar og dósent við félagsráðgjafardeild HÍ. Hann byrjaði á upprifjun frá því að lög um málefni aldraðra voru sett 1982. Hann fjallað um umræðuna um flutning málaflokka til sveitarfélaganna með það að markmiði að efla sveitarstjórnarstigið. Vísbendingar eru um klára kyrrstöðu miðað við stefnuna sem sett var 1982 og jafnvel afturför. Uppbygging og þróun þjónustu og úrræða liggur að mestu niðri. Flest sveitarfélög eru að bíða og á meðan fjölgar í öldrunarhópnum. Hann fjallaði um áskoranir næstu ára og kröfur notenda framtíðarinnar. Hann fjallaði um Velferðartækni  sem  hefur verið á dagskrá á Norðurlöndunum en er núna fyrst að koma í umræðuna hér á landi. Hann telur að það sé hægt að gera mikið meira með aðstoð tækninnar í málaflokknum auk þess að með með tækninni má auka lífsgæði aldraðra. Að lokum talaði hann um stefnu, aðgerðir og tækifæri í málaflokknum.

Fundarstjóri gaf Kára Gunnarssyni orðið ásam Finni Gunnþórssyni sem munu stjórna vinnuhópum um málefni aldraða sem fram fer eftir hádegisverð.

• Matarhlé

14. Vinnuhópar um málefni aldraðra í þjóðfundarstíl.
Vinnuhópar að störfum undir stjórn Kára Gunnarssonar og Finns Gunnþórssonar.

15. Kynningar á niðurstöðum vinnuhópa.
Kynningin fór einnig fram undir stjórn Kára og Finns.
Endanleg niðurstaða vinnuhópa mun liggja fyrir síðar.

16. Reykjanes Geopark.
Róbert Ragnarsson formaður stjórnar kynnti verkefnið. Hann sagði frá aðdraganda þess að vottun fékkst í september sl. Geopark er gæðastimpill á svæði sem inniheldur merkilegar eða einstakar jarðminjar og kemur þeim á framfæri. Hann fór síðan yfir það sem búð er að gera á þremur árum frá því að verkefnið hófst. Fram kom að margt hefur áunnist á þessum tíma og  að verkefnin framundan eru ótal mörg. Þar nefndi hann m.a. ákvarðanir um rekstur og gjaldtöku, markaðssetningu, áframhaldandi uppbyggingar ferðamannastaða og fjölmörg önnur verkefni og tækifæri sem vinna þarf að.  Gerum Reykjanesið að framúrskarandi ferðamannastað voru lokaorð Róberts.

• Kaffihlé

17. Staða samstarfs sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Fundarstjóri Baldur Guðmundsson hóf umræðuna og fjallaði m.a. um endurskoðun samstarfsins hvernig sem fjárhagsleg staða sveitarfélaganna er á hverjum tíma. Hann benti á að oftast kæmu sveitarfélögin ekki fram sem ein rödd og þess vegna ekki að ná árangri. Til máls tók Friðjón Einarsson fjallaði um samstarf Reykjanesbæjar við eftirlitsnefnd sveitarfélaganna. Hann talaði um gott samstarf í bæjarstjórn og sagði að bæjarstjórn ætlar að sigrast á fjárhagslegum erfiðleikum á næstu árum. Hann fór yfir sameiginleg verkefni og greindi frá því að nú þarf Reykjanesbær að velja þau verkefni sem bærinn er tilbúinn að taka þátt í. Hann talaði um samskipti ríkisins og sveitarfélagsins og fjárveitingar til Helguvíkur. Hann þakkaði fyrir allan stuðninginn sem hann hefur fundið fyrir undanfarið. Til máls tók Guðbandur Einarsson og talaði m.a. um Sóknina sem unnið er eftir en er þó það plagg að taka breytingum því aðstæður hafa breyst. Þær forsendur sem lágu fyrir þegar Sóknin kom fram eru breyttar. Hann ræddi um samstarfið og fjárhagsstöðu sameiginlegra stofnanna og  það fyrirkomulag sem er á fjárveitingum frá ríki til sveitarfélaga í gegnum landshlutasamtök. Til máls tók Guðmundur Pálsson talaði um að Reykjanesbær hefur gagnrýnt Grindavík fyrir að taka ekki þátt í rekstri allra sameiginlegra rekinna stofnanna. Hann vill að menn skipi hóp til að ræða málin varðandi samstarfið ef á að komast áfram með þetta mál. Til máls tók Einar Jón Pálsson og lýsti því yfir að sveitarstjórnarmenn taki ummælum Reykjanesbæjar mjög alvarlega um sambandsslit. Hann fór yfir stöðuna ef Reykjanesbær færi úr samstarfinu, hvað mundi sparast við það. Að sjálfsögðu setjumst við niður og ræðum þessi mál, sagði hann.  Til máls tók Róbert Ragnarsson og benti á að fyrir liggur talsvert magn af skýrslum varðandi samstarfið, það er mjög mikið búið að gera í þeim efnum. Hann talaði um mjög gott samstarf á síðustu árum.  Róbert  benti á að það eru verkefnin sem eru illa rekin ekki samstarfið. Til máls tók Inga Rut Hlöðversdóttir og ræddi málefni stjórnar DS. og húsnæðismál varðandi Garðvang. Hún sagði að ekki væri vilji til að leigja eða selja húsnæðið.   Til máls tók Ólafur Þór Ólafsson og  ræddi m.a. vandann sem Sandgerði stóð frammi fyrir. Hann lýsti því að hann væri tilbúinn að fara í endurskoðun á því hvernig sveitarfélögin geta átt í þessu samstarfi og á ódýrari hátt og hvernig mætti laga lýðræðishallann. Til máls tók Gunnar Þórarinsson og sagði að margt gott hefði komið úr þessu samstarfi en annað miður. Hann talaði um sameiningarmál og taldi að innan tíðar yrðu Suðurnesin betur sett en önnur sveitarfélög vegna tækifæranna sem hér eru. Til máls tók Sigrún Árnadóttir hún taldi mikilvægt að sveitarfélögin stæðu með Reykjanesbæ í þeirra fjárhagslegu erfiðleikum. Einnig talaði hún um nauðsyn þess að endurskoða öll verkefni og skoða hvernig megi draga úr kostnaði.

18. Ályktanir og umræður.
Ályktun um hafnamál
Lögð fram á 39. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Reykjanesbæ
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 2.-3. október 2015 skorar á ríkisvaldið að styðja við uppbyggingu í Helguvík. Þessa daganna er verið að reisa kísilver United Silicon og gert er ráð fyrir að uppbygging Thorsil hefjist á næsta ári. Uppbygging í Helguvík hefur tekið á fjárhagslega hjá Reykjanesbæ og fyrirsjáanlegur er töluverður kostnaður við áframhaldandi uppbyggingu á næstu árum. Fundurinn leggur til við hlutaðeigandi að fyrirhuguðum hafnarframkvæmdum sem og kostnaði vegna fyrri framkvæmda verði sett á fjárlög 2016. Jafnframt verði horft til þess að á næstu fjórum árum þar á eftir komi fjárframlög. Lagt er til að hluti þessara fjárframlaga byggi á forsendum hafnarlaga nr. 61/2003 og vegalaga nr. 80/2007 og hluti verði vegna sérlaga um sértakan stuðning. Aðalfundurinn bendir á að þjóðhagslegur ávinningur framkvæmda í Helguvík er margfaldur umfram þau fjárframlög sem óskað er eftir að lagt verði í verkefnið. Samkvæmt samþykktu svæðisskipulagi Suðurnesja 2008-2024 er gert ráð fyrir því að Helguvíkurhöfn gegni hlutverki sem útskipunarhöfn Suðurnesja og er hún mikilvæg í allri atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Jafnframt kemur fram í Svæðisskipulagi Suðurnesja að hafnirnar í Grindavík og Sandgerði eru skilgreindar sem fiskihafnir og að er ekki gert ráð fyrir nýjum höfnum. Nauðsynlegt er að endurgera þil við Miðgarð í Grindavík og þil í Sandgerðishöfn. Fyrrgreind þil eru frá 1964-1978 og en meðallíftími bryggjuþilja 40 ár. Samkvæmt minnisblaði Vegagerðarinnar um stálþilið í Grindavík, dags. 08.05.2015 kemur fram að ástand stálþilsins er ekki gott enda þilið orðið um 50 ára gamalt. Ástand þekju er ekki gott og ástand bryggjukants þó sýnu verra. Metur Vegagerðin það sem svo að brýn þörf sé á að endurbyggja bryggjuna innan mjög fárra ára. Grindavíkurhöfn er með næstmesta verðmæti afla á hvern metra viðlegukants á landinu. Afar mikilvægt er að allir viðlegukantar séu í notkun og hægt sé að veita þjónustu hratt og örugglega, svo skip komist sem fyrst aftur á sjó til veiða.
Í minnisblaði hafnasviðs Vegagerðarinnar dags. 24.02.2015 um ástand Suðurbryggju
Sandgerðishafnar kemur fram að víða hafa myndast göt á stálþilið vegna tæringar og að burðargetan er mjög skert eða aðeins 20% af upprunalegum styrk þilsins. Takmarka hefur þurft þungaumferð um bryggjuna. Brýn þörf er á að allar bryggjurnar séu nothæfar enda er Sandgerðishöfn meðal þeirra hafna þar sem flestar landanir eru á ári hverju.
Metur Vegagerðin brýna þörf á að endurbyggja bryggjurnar í Grindavík og Sandgerði innan mjög fárra ára.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Einar Jón Pálsson.
Breytingartillaga kom fram frá fulltrúum Sandgerðis. Breytingartillagan var samþykkt. Fundarstjóri bar upp ályktunina með áorðnum breytingum og var hún samþykkt samhljóða.

Ályktun um málefni aldraðra.
Lögð fram á 39. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Reykjanesbæ
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 2.-3. október 2015 bendir á að
samkvæmt nýjustu upplýsingunum bíða 43 sjúkir aldraðir eftir hjúkrunarrými á Suðurnesjum. Ljóst er að það stefnir í óefni ef ekkert verður gert í þessum málaflokki. Það hlýtur að vera forgangsmál að vinna nú þegar að fjölgun hjúkrunarrýma á Suðurnesjum.
Ef stuðst er við reiknireglu Velferðarráðuneytisins við mat á þörf ætti hjúkrunarrými á Suðurnesjum að vera 141 en eru aðeins 118. Reiknireglan gerir einnig ráð fyrir því að 10-15% rýma séu skilgreind sem hvíldarrými en í dag eru einungis 8 rými af 118 með þá skilgreiningu eða 6,7%. Sé gengið út frá forsendum miðspár Hagstofu Íslands um fjölgun aldraðra til ársins 2025 má búast við að öldruðum íbúum á Suðurnesjum fjölgi um 857 á næstu 10 árum og 1708 á næstu 20 árum. Sé stuðst við reiknireglu ráðuneytisins þyrftu að vera 182 hjúkrunarrými á Suðurnesjum árið 2025 og 267 rými árið 2035.
Þessi staða er með öllu óásættanleg fyrir íbúa Suðurnesja og gerir aðalfundurinn því þá kröfu til stjórnvalda að þau standi með sveitarfélögunum á Suðurnesjum í þeirri viðleitni að byggja upp hjúkrunarþjónustu við aldraða sem uppfyllir þörf, mæti nútíma- og framtíðarþörfum í málaflokknum og standist samanburð við önnur heilbrigðisumdæmi landsins. Fundurinn skorar því á Velferðarráðherra að beita sér fyrir bragarbót í öldrunarþjónustu á Suðurnesjum þar sem ríki og sveitarfélögin verði leiðandi í nýrri nálgun í heildrænni þjónustu við aldraða.

Breytingartillaga lögð fram frá fullltrúm sveitarfélagsins Voga.  Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Guðbrandur Einarsson. Fulltrúar sveitarfélaganna komu sér saman um breytingu á aðaltillögunni, sem fundarstjóri bar upp og var hún samþykkt samhljóða. Fundarstjóri bar upp tillöguna með áorðnum breytingum og var hún samþykkt samhljóða.

• Eyjólfur Eysteinsson formaður Öldrunarráðs Suðurnesja ávapaði fundinn.

Ályktun um samgöngumál.
Lögð fram á 39. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í Reykjanesbæ
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 2.-3. október 2015 skorar á
Innanríksráðherra að beita sér fyrir útbótum á lagaumhverfi almenningssamgangna. Nauðsynlegt er að tryggja landshlutasamtökunum einkaleyfi almenningssamgangna eins og kemur fram í samningum milli Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Vegagerðarinnar. Leggja verður áherslu á að einkaréttur landshlutasamtakanna til að starfrækja almenningssamgöngur á tilleknum leiðum og svæðum og að þeim rétti sé veitt ríkari vernd í lögum. Gera verður skýrari greinarmun á almenningssamgöngum og farþegaflutningum í atvinnuskyni. Skorað er á stjórnmálamenn að standa vörð um almenningssamgöngur á Suðurnesjum sem og landinu öllu og tryggja að almenningssamgöngur séu raunhæfur kostur fyrir almenning. Aðalfundurinn leggur áherslu á að unnið verði að því að breikka Grindavíkurveg. Vegurinn er illa farinn vegna mikilla þungaflutninga og mjög sprunginn á köflum. Vert er að benda á að vegurinn liggur í gegnum vatnsverndarsvæði Suðurnesja og því afar mikilvægt að hann sé þannig úr garði gerður að hægt sé að bregðast við mengunarslysum. Laga þarf gatnamót að Bláa Lóns afleggjara sem eru dimm og hættuleg, en þau þarf að endurhanna og bæta umferðaröryggi. Jafnframt þarf að laga vegi til Sandgerðis og Sveitarfélagsins Garðs. Breikka þarf vegina og þarfnast þeir talsverðar lagfæringa. Nokkur straumur er um vegina af stórum bifreiðum m.a. vegna fiskflutninga og uppfylla
þeir ekki öryggiskröfur. Fundurinn bendir á að mikilvægt er að ljúka við tvöföldun
Reykjanesbrautarinnar upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða í það minnsta bæta innkomur í
Reykjanesbæ og auka umferðaröryggi við Aðalgötu og Þjóðbraut.
Aðalfundurinn gerir athugasemdir við þá aðferð sem notuð var þegar skoðaðir voru kostir fyrir staðsetningu innanlandsflugs. Sameiginlegur stýrihópur ríkisins, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group mat millilandaflugvöll á Miðnesheiði, Keflavíkurflugvöll ekki sem einn þeirra valkosta sem kæmu til greina.

Breytingartillaga lögð fram frá fulltrúm sveitarfélagsins Voga og Grindavíkur. Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Guðbrandur Einarsson, Ingþór Guðmundsson, Ólafur Þór Ólafsson. Fulltrúar sveitarfélaganna komu sér saman um breytingu við aðaltillöguna sem fundarstjóri bar upp og var hún samþykkt samhljóða. Fundarstjóri bar upp ályktunina með áorðnum breytingum og var hún samþykkt samhljóða.

19. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.
Reykjanesbær
Aðalmaður: Kolbrún Jóna Pétursdóttir
Varamaður: Guðbrandur Einarsson
Grindavíkurbær:
Aðalmaður: Guðmundur Pálsson
Varamaður: Hjálmar Hallgrímsson
Sandgerðisbær:
Aðalmaður: Ólafur Þór Ólafsson
Varamaður: Hólmfríður Skarphéðinsdóttir
Sveitarfélagið Garður:
Aðalmaður: Einar Jón Pálsson
Varamaður: Jónína Magnúsdóttir
Sveitarfélagið Vogar
Aðalmaður: Ingþór Guðmundsson
Varamaður: Birgir Örn Ólafsson

20. Kosning endurskoðendafyrirtækis.
Á síðasta aðalfundi S.S.S. var samþykkt að efna til útboðs á endurskoðun reiknings Sambandsins og að semja við lægstbjóðanda á grundvelli þess tilboðs. Útboðið hefur farið fram og buðu 5 fyrirtæki í endurskoðunina, boðið var út til næstu 5 ára.
Lægstbjóðandi var Íslenskir endurskoðendur og er því lagt til að Íslenskir endurskoðendur verði kjörið endurskoðunarfyrirtæki Sambands sveitarfélaga á Suðurnesum.
Tillagan samþykkt.

21. Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.
Lagt er til að þóknun til stjórnarmanna S.S.S. verði sem hér segir;
Formaður stjórnar 4,5% af þingfararkaupi eða 29.315,- fyrir hvern fund.
Aðrir stjórnarmenn 3% af þingfararkaupi eða kr. 19.543,- fyrir hvern fund.
Þingfararkaup alþingismanna er frá 1. febrúar 2014 kr. 651.446.
Tillagan samþykkt.

22. Fundarslit.
Til máls tók Ólafur Þór Ólafsson og flutti hann eftirfarandi:
Vart léttir í lund við mættum á fund
bugaðir mjög og blankir
Við glímdum við alla um lýðræðishalla
litlir bræður létu þung orð falla
og neituðu að hlusta á miðaldra kalla

• Fundarstjóri sleit fundi kl. 17.20

Björk Guðjónsdóttir, fundarritari aðalfundar.