fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

43. Aðalfundur SSS 13. – 14. september 2019

14:00-14:30Skráning fulltrúa og afhending gagna
15:00-15:30Fundarsetning – Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla ReykjanesbæjarÁvarp ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála – Sigurður Ingi Jóhannsson.Kosning fundarstjóra og fundarritara.Skýrsla stjórnar – Kolbrún Jóna Pétursdóttir formaður stjórnar S.S.S.Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2018 – Íslenskir endurskoðendur.Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.Umræður um skýrslur. *Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja – Heklan *Markaðsstofa Reykjaness Tillögur og ályktanir lagðar fram.
15:45- 18:00Heimsókn á öryggissvæði Landhelgisgæslu Íslands.
18:00Fundi frestað.

Laugardagur 14. september 2019

9:30-10:00Morgunkaffi
10:00-12:30Sóknaráætlun Suðurnesja – Capacent.
12:30-13:00Hádegismatur
13:00Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
13:10Ávarp frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
13:40Áhrif fjölgunar farþega um Leifsstöð á nærsamfélagið – Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir, Mirra.
14:15Erindi um stöðu Keflavíkurflugvallar – Sveinbjörn Indriðason forstjóri Isavia.
14:45Kaffi
15:00Erindi um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja – Markús Ingólfur Eiríksson forstjóri HSS.
15:40Ályktanir og umræður.
16:40Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.Kosning endurskoðunarfyrirtækis.Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.
17:00Áætluð fundarslit.

Kl. 20:00 Kvöldverður í boði S.S.S. fyrir fundarmenn/gesti og maka í sal Oddfellow, Grófinni 6, Reykjanesbæ. Skráning fulltrúa og gesta.

Fundinn sóttu alls 31 sveitarstjórnarmenn aðal- og varamenn.

Gestir og frummælendur á fundinum voru:

Bergný Jana Sævarsdóttir, Suðurnesjabær, Einar Kristjánsson, Vogar, Fannar Jónasson, Grindavík, Guðni Þ. Gunnarsson, Íslenskir endurskoðendur, Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra, Páll Magnússon, Alþingi, Birgir Þórarinsson, Alþingi, Ari Trausti Guðmundsson, Alþingi, Héðinn Unnsteinsson, Capacent, Snædís Helgadóttir, Capacent, Ásdís S. Sigurbergsdóttir, Capacent, Oddný G. Harðardóttir, Alþingi, Ásmundur Friðriksson, Alþingi, Kristján Ásmundsson, FS, Hallfríður Þórarinsdóttir, Mirra, Karl Björnsson, Samband íslenskra sveitarfélaga, Sveinbjörn Indriðason, Isavia, Markús Ingólfur Eiríksson, HSS, Kjartan Már Kjartansson, Reykjanesbær, Páll Ketilsson, VF.

  • Kolbrún Jóna Pétursdóttir formaður stjórnar SSS setti fundinn. Hún kynnti tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
  • Ávarp, Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála.

Ráðherrann talaði um að ánægjulegt hafi verið að fylgjast með uppbyggingu hér á svæðinu síðustu árin og því blómlega atvinnulífi sem hér dafnar og vex. Hann talaði um fjölgun íbúa á Suðurnesjum á tíu ára tímabili, um 26% þegar fjölgun á landsvísu er 12%. Svo mikill vöxtur kallar á miklar fjárfestingar í innviðum og þjónustu við íbúana og vissulega reynir á við slíkar aðstæður, sagði ráðherrann.  Hann talaði um byggðaáætlun, sem gerir ráð fyrir samstarfi milli ríkisins og sveitarfélaga á vaxtarsvæðum og að bregðast við þenslu og uppgangi. Hann sagði að Suðurnes verður fyrsta svæðið þar sem slíku samráðsteymi ráðuneyta, sveitarfélaga, Byggðastofnunar  og fleiri eftir atvikum, verði komið á fót,  þar sem horft verður  til framtíðar. Ráðherrann talaði um áskoranir í atvinnulífi, áfallið að missa WOW flugfélagið út af markaði, ekki síst fyrir þetta svæði. Hann sagði að það væri ánægjulegt fyrir ríkið að vita til þess að hér á svæðinu er stekt og öflugt sveitarstjórnarstig. Hann talaði um sjálfbærni sem leiðarljós á sveitarstjórnarstiginu. Hann talaði um samgöngumál og tillögu að  flýtiframkvæmdum utan höfuðborgarsvæðisins sem lúta að framkvæmdum á Suðurnesjum.  Verum bjartsýn og jákvæð, framtíðin er björt ef við stöndum saman og vöndum okkur við það sem við erum að gera sagði ráðherrann að lokum.

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara.

Tillaga kom um  Friðjón Einarsson og Ríkharð Ibsen sem fundarstjóra. Tillagan var samþykkt. Tillaga kom um  Andra Örn Víðisson og Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur sem ritara. Tillagan var samþykkt.  Tillaga kom um Önnu Sigríði Jóhannsdóttur og Valgerði Björk Pálsdóttur sem vararitara. Tillagan var samþykkt.  

Fundarskrifari er Björk Guðjónsdóttir, verkefnastjóri.

Fundarstjórarnir tóku við stjórn fundarins.

  • Formaður stjórnar Kolbrún Jóna Pétursdóttir flutti skýrslu stjórnar.

Sveitarstjórnarfólk, þingmenn, ráðherra og aðrir gestir, Ég býð ykkur innilega velkominn á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.  Á meðan okkur fjölgar stöðugt á Suðurnesjum fækkar sveitarfélögunum, en hér er samstarfið gott og ég trúi að á endanum göngum við öll saman í heilagt hjónaband og verðum eitt. Eitt af markmiðum SSS er að koma fram sem heild í sameiginlegum málum gagnvart ríkisvaldinu og höfum við stjórn og framkvæmdastjóri gert það sem í okkar valdi stendur til að ýta við öllum þeim sem einhver áhrif hafa á það hvernig peningum ríkisins er úthlutað til sveitarfélaganna. Á síðasta starfsári hefur allt gengið sinn vanagang, þökk sé góðu starfsfólki SSS sem sér um að allt gangi upp. Framkvæmdastjóri er mjög natin að grípa þá bolta sem eru á lofti   og sem dæmi þá skrifaði hún tillögu sem kemur sér vel á vaxtarsvæði eins og Suðurnes eru, en þar lagði hún til að komið verði á fót samráðsteymum ráðuneyta, viðkomandi sveitarfélaga, Byggðastofnunar og eftir atvikum fleiri aðila fyrir þau svæði sem skilgreind eru sem vaxtarsvæði utan höfuðborgarsvæðisins, svo sem Suðurnes, suðurfirði Vestfjarða og Árnessýslu. Tillagan var tekin var inn í byggðaáætlun og eru Suðurnesin fyrsta svæðið sem fer í gegnum ferlið skv. Byggðaáætlun  2018-2014. Haustið 2018 fór mikið til í það að reyna að fá ríkið og vegagerðina til að koma á móts við okkur með greiðslu á halla sem myndaðist árin á undan vegna einhliða ákvörðunar fyrrverandi ráðherra og með því að semja okkur frá dómsmáli því sem SSS höfðaði gegn ríkinu. Margir fundir voru haldnir og náðum við engri niðurstöðu í málið, því miður. Það var því ákveðið á stjórnarfundi í desember að segja upp samningi við Vegagerðina sem tók þar með við rekstri almenningssamgangna frá og með 1. janúar s.l.  Vegagerðin tók yfir samning SSS við Hópbíla og gengur það að því ég best veit bara ágætlega. Aðalmeðferð í dómsmálinu hefur verið frestað fram í janúar 2020 að kröfu ríkislögmanns og er okkar sókn í traustum höndum Unnars Bjarndal lögmanns.  Hin landshlutasamtökin hafa undanfarna daga verið að taka sömu ákvörðun og við gerðum á síðasta ári og eru að skila verkefninu til Vegagerðarinnar. Ríkisvaldið, þrátt fyrir loforð um að gera upp hallarekstur þeirra landshlutasamtaka sem sáu um rekstur almenningssamgangna á þessu ári, hefur ekki gert upp halla þeirra. Það er því ljóst að allir eru í sömu sporum. Lagt var fram minnisblað frá hálfu ríkisvaldsins um að stofna ætti byggðasamlag í eigu ríkis og sveitarfélag til að sjá um rekstur almenningssamgangna. Stjórn S.S.S. bókaði um það á fundi sínum um málið. Heilt yfir landið eru almenningssamgöngur i óvissu, ekkert landshlutafélag hefur fengið greitt uppí tapreksturinn. Tillaga hefur komið fram í minnisblaði frá Sveitarstjórnar og samgönguráðuneyti um að ríki sveitarfélögin stofni félag um almenningssamgöngur á   Íslandi. Ekki er búið að kostnaðarmeta verkefnið en það er háð fjármagni sem Alþingi samþykkir á fjárlögum hverju sinni. Fram kemur í minnisblaðinu að komi til hallareksturs bera eigendur félagins sameiginlega ábyrgð og þurfa sveitarfélögin þar með að greiða 49% komi til halla af rekstri félagsins um almenningssamgöngur, sem í dag eru á ábyrgð ríkisins. Hefur SSS lýst vonbrigðum með tillögur ríkisins og bókaði um það á fundi í sumar. Samstaða sveitarfélaganna endurspeglaðist vel í viðbrögðum við gjaldþroti Wow air. Strax við fyrstu fréttir af atburðinum var boðað til fundar þar sem bæjarstjórar og kjörnir fulltrúar tóku stöðuna og ræddu hvað hægt væri að gera. Svæðið fékk góð viðbrögð frá ráðherra félags- og barnamála­ Ásmundi Erni Daðasyni og  Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og þingmenn svæðisins settu sig í samband. Lögð var fram þingsályktunartillaga um stöðu sveitarfélaganna á Suðurnesjum, sem var samþykkt í júní og niðurstaða hennar var að stofna skuli starfshóp fulltrúa sveitarfélaga á suðurnesjum og fulltrúum úr öllum ráðuneytum. Ég held að starfshópurinn hafi ekki verið stofnaður enda alþingi rétt komið saman á ný. Niðurstöðu er að vænta eigi síðar en 1. desember n.k. Bæjarstjórar sveitarfélaganna, framkvæmdastjóri SSS og menntamálaráðherra skrifuðu undir samkomulag um stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja á árinu og hefur byggingarnefnd hafið störf, það má fagna því sem vel er gert en áfram verðum við að þrýsta á að við fáum að sitja við sama borð og aðrir landsmenn. Á morgun fáum við erindi um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem nýr forstjóri stofnunarinnar, Markús Ingólfur Eiríksson flytur okkur. Það hefur verið eitt af áherslumálunum að fá aukið framlag fjármagns frá ríkinu til að reka sómasamlega heilsugæslu á svæðinu. Því miður þá virðast fréttir af stöðunni ekki vera ásættanlegarfyrir íbúa Suðurnesja Eftir að hafa gefið ástandinu mörg tækifæri gafst ég sjálf upp og skráði mig á heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu og er komin með minn heimilislækni í fyrsta skipti á ævinni. Það er ekki það að ég fái ekki þjónustu og almennilegt viðmót, heldur er það helst að ég er orðin langþreytt starfsmannaveltu HSS en ljósi punkturinn er að það er alltaf hægt að snúa við þegar ástandið verður betra. Sveitarfélögin á Suðurnesjum, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Heilbrigðisstofun Suðurnesja og Landslæknir skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að starfa saman í Heilsueflandi samfélagi á Suðurnesjum (HSAM) í ágúst s.l. Mikil fólksfjölgun hefur verið á Suðurnesjum undanfarin ár. Svæðið stendur vel hvað varðar ýmsa þætti sem hafa áhrif á    vellíðan íbúa en samkvæmt m.a. Lýðheilsuvísum 2019  eru sóknarfæri til að gera betur.  Í  samræmi við meginmarkmið samstarfsins er tilgangur þess að greina með markvissum hætti stöðuna og sameinast um að leita lausna sem stuðla að heilbrigðum  lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa á Suðurnesjum. Samstarfið verður útfært frekar í framhaldinu en það mun m.a. nýtast við undirbúning Sóknaráætlunar Suðurnesja 2020-24. Við fengum úttektaraðila á vegum UNESCO í júlí s.l. en þeir voru hingað komnir til að gera úttekt á Reykjanes Geopark. Úttektin sjálf stóð yfir í 3 daga. Við fáum ekki að vita niðurstöðu hennar fyrr en á næsta ári. Ég hvet ykkur fundarmenn að hafa skoðanir á ályktunum þeim sem lagðar eru fram í dag og afgreiddar á morgun. Í framhaldi mun stjórn SSS fylgja þeim eftir eins og gert hefur verið undanfarin ár. Við verðum að halda áfram að hamra járnið.

  • Guðni Gunnarsson frá Íslenskum endurskoðendum fór yfir ársreikning Sambandsins.

Í áliti enduskoðanda kemur fram að það sé álit þeirra að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu 2018, efnahag hans 31. desember 2018, breytingu á handbæru fé á árinu 2018 í samræmi við lög um ársreikninga og að skýrsla stjórnar hafi að geyma þær upplýsingar sem þar ber að veit í samræmi við lög og reglur um ársreikninga og koma ekki fram í skýringum.

  • Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjónar og ársreikning.

Enginn óskaði eftir að taka til máls.

Umræður um skýrslur.

Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja – Heklan.

Markaðsstofa Reykjaness

  • Tillögur og ályktanir lagðar fram.  Fimm tillögur lagðar fram.
  • Heimsókn til Landhelgisgæslu Íslands – Öryggissvæði.

Fundi frestað.

Laugardagur 14. September.

  • Sóknaráætlun Suðurnesja – Capacent

        Unnið í hópum til kl. 12.30.

Tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

  • Ávarp

Karl Björnsson framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hann byrjaði á að fara yfir hagvaxtartölur á Íslandi 2020-2024. Karl talaði um fjölda kjarasamninga sem eru lausir. Kjarasamningarnir eru 43 og stéttarfélaögin eru 61 sem eru viðsemjendur Sambandsins 2019.  Til að stuðla að verðstöðugleika mun Samband íslenskra sveitarfélaga mælast til þess við sveitarfélögin að þau hækki ekki gjaldskrá sínar á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmda. Hann talaði um að 84% íbúa á landinu búa á svæðinu Hvítá-Hvítá. Hann fjallaði um sameigningu sveitarfélaga í tengslum við þingsáætlunartillögu sem lögð hefur verið fram.  Karl ræddi um loftslagsmál og heimsmarkmið SÞ og fór yfir helstu markmið samstarfshópsins. Hann sagði að Sambandið legði áherslu á að flokkun úrgangs og sérstök söfnun þurfi að haldast í hendur við þá meðhöndlun sem á eftir kemur. Sambandið leggst eindregið gegn frumvarpi um urðunarskatt og kallar eftir víðtæku samráði um mögulega útfærslu slíkra skattheimtu.

Hann fór yfir framlög ríkisins til byggðamála og sóknaráætlana. Hann benti á að Sambandið væri í mjög verðmætu samstarfi við landshlutasamtökin um Brusselskrifstofu Sambandsins. Að lokum fór hann yfir ráðstefnur og fundi á vegum Sambandsins og hvatti kjörna bæjarfulltrúa til að sækja skólaþing Sambandsins.

  • Dr. Hallfríður Þórarinsdóttir, ræddi um áhrif innflytjanda í ferðaþjónustu.

Hún sagði m.a. að mjög erfitt er að hugsa sér vöxtinn í íslenskri ferðaþjónustu án framlags þúsunda erlendra starfsmanna í greininni. Hún sýndi graf um hlutfall innflytjenda af íbúum í lanshlutum 1. jan 2018. Þar kom fram að Suðurnesin eru langt fram úr öllum öðrum landshlutum. Hún ræddi um starfsfólk í Leifsstöð og ÍSAT atvinnugreinaflokkun Hagstofunnar varðandi ferðaþjónustu.  Aðal áhersla ríkisvaldsins í ferðamálum hefur verið á arðsemi, sagði hún og að 40% allra skráðra innflytjenda starfa við ferðaþjónustu. Fram kom að enska er alltaf fyrsta málið í ferðaþjónustunni og ekki mikið svigrúm fyrir innflytjendur til að læra íslensku. Að lokum fjallaði Hallfríður um skuggahliða ferðaþjónustunnar og þarfir vinnumarkaðarins. Stefna yfirvalda einkennist af því að mæta aukinni vinnuaflsþörf fremur en að taka á móti fólki, sem gera þarf ráð fyrir í samfélagslegri stefnumótun.

  • Sveinbjörn Indriðason forstjóri Ísavía fjallar um stöðu Keflavíkurflugvallar.

Hann fór yfir aukningu og afkastagetu síðustu ára. Þá fór hann yfir forsendur þróunaráætlunar 2015-2014. Sveinbjörn sýndi hvað efnahagsleg áhrif flugtengingar hefur á hagvöxt og efnahagslegan ábata af nýrri flugtengingu. Hann vék að áhrifum á falli Wow á uppbygginguna. Hann talaði um hvar uppbygginaráætlunin stæði núna og sagði að það þurfi að bæta aðstöðuna á flugvellinum. Forsendur uppbyggingaráætlunar eru enn til staðar en hefur aðeins hægt á þeim. Nýjar reglur um Schengen landamæri taka gildi 2021. Hann ræddi um yfirfærslu innanlandsflugvalla til Ísavía þ.e. Akureyrir, Egilsstaðir og Reykjavík. Allir þessir flugvellir eru reknir með verulegum halla þegar horft er til arðsemi.  Endanleg ákvörðun er í höndum eiganda Isavia. Að lokum ræddi hann um samvinnu um heimsmarkmiðin.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku Ólafur Þór Ólafsson, Einar Jón Pálsson, Kjartan Már Kjartansson, Einar Kristjánsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Kaffihlé

  • Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS

Hans verkefni er fyrst og fremst að byggja upp fyrsta flokks og nútímalega heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslan er hluti af heildrænni heilbrigðisþjónustu. Hann talaði um heilsueflingu og samstarf sveitarfélaganna í heilsueflingu. Hann talaði um þann vanda landsbyggðarinnar sem lýtur að erfiðleikum við að fá lækna til starfa. HSS stefnir í að verða önnur stærsta bráðamóttaka landsins og segir að þetta sé mjög mikilvægt því bráðamóttakan í Fossvogi getur engan veginn tekið við öllum þessum fjölda. Hann sagði að það þurfi að taka til í rekstri HSS, rekstrarhalli er á stofnuninni. Hann fór yfir skammtímamarkmið og langtímamarkmið til að bæta þjónustuna á HSS. Að lokum talaði hann um skipan starfshóps um hvernig efla megi þjónustu ríkisins við íbúa á Suðurnesjum.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku, Haraldur Helgason, Birgir Þórarinsson, Áshildur Linnet, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Rakel Rut Valdimarsdóttir, Fríða Stefnánsdóttir, Inga Rut Hlöðversdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson.

  • Ályktanir.

            Ályktun um fjárframlög til ríkisstofnana svæðisins

Lögð fram á 43. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ.

                Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 13.-14. september 2019 leggur áherslu á að ríkisvaldið tryggi aukningu á fjárframlögum til ríkisstofnana á Suðurnesjum í takt við mannfjöldaaukningu sem og samsetningu íbúa á svæðinu.  Fundurinn vill þakka góð viðbrögð ríkisvaldsins við ákalli sveitarstjórnarfólks á Suðurnesjum vegna falls Wow-air. Mikilvægt er að tryggja aukna fjármuni á svæðið þar sem gera má ráð fyrir því að atvinnuleysi muni aukast á næstu mánuðum. Á síðustu árum hefur orðið gríðarleg fólksfjölgun á Suðurnesjum sem skýrist að miklu leyti af verulega auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli. Þannig voru íbúar Suðurnesja 22.026 árið 2015 en í janúar 2019 voru þeir 27.113. Hlutfallslega er fjölgun íbúa langmest á Suðurnesjum.

 20152016201720182019
Reykjanesbær14.92415.23316.35017.80518.920
Grindavíkurbær2.9953.1263.2183.3233.427
Sveitarfélagið Vogar1.1021.1481.2061.2681.286
Sandgerði1.5801.5771.7081.7790
Sveitarfélagið Garður1.4251.4251.5111.5950
Suðurnesjabær    3.480

Íbúum landsins á árunum 2000 til 2018 fjölgaði um 19% eða um 53.480 manns. Meginhluti þessarar aukningar er á höfðaborgarsvæðinu og Suðurnesjum eða 64%. Ef skoðuð eru árin 2015-2019 fjölgaði íbúum á Suðurnesjum um 23,1% Fulltrúar sveitarstjórna á Suðurnesjum hafa lýst yfir áhyggjum vegna þessa þar sem fólksfjölgun á svæðinu hefur verið langt umfram meðaltalsfjölgun á landinu öllu en aukning fjárframlaga ríkisins til stofnana og verkefna á svæðinu hefur á engan hátt fylgt þeirri þróun Í áætlanagerð ríkisins virðist ekki vera tekið nægjanlegt tillit til þess ef óvenju mikil fólksfjölgun verður á einstökum svæðum. Af þeim sökum er lagt til að m.a. verði skoðuð sérstaklega fjárframlög ríkisins til opinberra stofnana og annarra mikilvægra verkefna á  svæðinu til þess að íbúar búi við sömu þjónustu og íbúar annarra svæða landsins. Má t.d. geta þess að fjáraukning til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var 1% á ári með 0,5% hagræðingarkröfu á meðan íbúum svæðisins fjölgaði um 15%.

Fundurinn skorar á ríkisvaldið að tryggja að fjárframlög til ríkisstofnanna t.d. Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Lögreglunnar á Suðurnesjum fylgi þróun mannfjölda á svæðinu.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Enginn óskaði eftir að taka til máls. Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða.

 Ályktun um samgöngumál

Lögð fram á 43. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 13.-14. september 2019 leggur áherslu á að ráðist verði í nauðsynlegar samgönguframkvæmdir á Suðurnesjum. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum er sammála um að leggja áherslu á eftirfarandi verkefni:

  • Ljúka þarf tvöföldun Reykjanesbrautar og huga að öryggi vegtenginga að nærliggjandi bæjarfélögum.
  • Nauðsynlegt er að ráðast í löngu tímabærar viðhaldsframkvæmdir á þjóðvegunum að Suðurnesjabæ auk þess sem breikka þarf veginn á milli bæjarkjarnanna.
  • Sveitarfélögin, Vegagerðin og Isavia vinni saman að því að auka möguleika fólks til að ferðast fótgangandi og á hjólum á Suðurnesjum með uppbyggingu stígakerfis bæði á milli byggðakjarna og að Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
  • Tryggja þarf að stuðningur ríkisins til uppbyggingar hafna sé í samræmi við samþykkt Svæðisskipulags Suðurnesja þannig að hægt sé að halda áfram uppbyggingu stórskipahafnar í Helguvík og tryggja stöðu Grindavíkurhafnar og Sandgerðishafnar sem fiskihafna.
  • Auka þarf framlög til vetrarþjónustu á þjóðvegum á Suðurnesjum þannig að hún sé í samræmi við verklagsreglur Vegagerðarinnar um aukna umferð.
  • Fundurinn leggur áherslu á að stjórnvöld tryggi áframhaldandi uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og gæti þess að fjármögnun rekstrar og uppbyggingu annarra flugvalla sé ekki tekin úr tekjugrunni Keflavíkurflugvallar.
  • Fundurinn fordæmir að ekki sé haft samráð við sveitarfélögin á Suðurnesjum um framtíðar áform flugsamgangna á SV-horninu. Það er mikilvægt að samfélagslegir hagsmunir séu skoðaðir og metnir frá öllum hliðum áður en ákvörðun um framtíðar miðju innanlandsflugs er ákveðin.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku Björn Sæbjörnsson og lagði fram breytingatillögu, Andri Örn Víðisson og lagði fram breytingatillögu, Áshildur Linnet, Inga Rut Hlöðversdóttir, Einar Jón Pálsson, Ingþór Guðmundsson, Ólafur Þór Ólafsson, haraldur helgason og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundarstjóri bar upp breytingartillögu Björns, samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar upp breytingatilögu Andra, samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar upp ályktunina með áorðnum breytingum og var hún samþykkt samhljóða.

Ályktun um almenningssamgöngur

Lögð fram á 43. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 13.-14. september 2019 leggur áherslu á að tryggðar séu öruggar og hagkvæmar almenningssamgöngur á milli þéttbýliskjarna á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðisins.

 Samningur Vegagerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum rann út um áramótin 2018-2019. Almenningssamgöngur eru mikilvæg þjónusta fyrir íbúa Suðurnesja og er nauðsynlegt að tryggja að áframhald verði á þeirri þjónustu.

Ríkisvaldið hefur lokið við gerð nýrrar stefnu um almenningssamgöngur og er henni ætlað að styrkja almenningssamgöngukerfið á landi, lofti og legi. Fram kemur í fjármálaáætluninni að núverandi samkomulag um rekstur almenningsamgangna hafi verið í gildi frá 2012. Vert er að benda á að reksturinn hefur ekki staðið undir sér á flestum stöðum og þar sem hann hefur staðið undir sér hefur þjónustustig verið skert   verulega. Í áætluninni kemur einnig fram að stefnt sé að því að endursemja við landshlutasamtökin frá og með árinu 2020. Ef það er ætlun ríkisvaldsins að endursemja við landshlutasamtökin þarf að gera upp eldri halla sem og að tryggja fjármuni til þess að reka kerfið sem mætir kröfum notanda og að almenningssamgöngur geti verið lykilhlutverk í aðgerðum ríkisvaldsins í  húsnæðismálum eins og fram kemur í 40 tillögum starfshóps um átaksverkefni í húsnæðismálum.

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum sá um skipulagningu almenningssamgangna á  Suðurnesjum frá árinu 2012 samkvæmt samningi við Vegagerðina en halli af verkefninu er rúmar 90 m.kr. sem er tilkominn vegna einhliða ákvörðunar ríkisvaldsins á uppsögn á einkaleyfi á akstri milli FLE og höfuðborgarsvæðisins. Fundurinn skorar á ríkisvaldið að bregðast við með því að gera upp hallareksturinn og tryggja góðar almenningssamgöngur á Suðurnesjum. Fundarstjóri gaf orðið laust. Engin óskaði eftir að taka til máls. Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða.

Ályktun um menntamál

Lögð fram á 43. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ. Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 13.-14. september 2019 harmar framlögum til menntastofnanna á svæðinu sem mega sætta sig við mun lægri framlög en sambærilegar stofnanir. Í Grænbók, um stefnu stjórnvalda í málefnum flugrekstrar og flugtengdrar starfsemi á Íslandi kemur fram að Ísland eigi að vera í fararbroddi þegar kemur að menntun og þjálfun á sviði flugs. Eigi það takmark að nást er nauðsynlegt að tryggja þeim kennslustofnunum er sjá um menntun og kennslu á sviði flugs, sömu nemendaígildi og þeim sem mennta skipstjórnarfólk. Fundurinn telur það einnig áhyggjuefni að framlög til þekkingarsetra og símenntunar eru langlægst á Suðurnesjum. Fram kemur í fjárlagaáætlun 2020-2024 að framtíðarsýn stjórnvalda sé að sjávarútvegur og fiskeldisafurðir séu í fremstu röð á alþjóðlegum mörkuðum. Því ber að fagna en fundurinn bendir á að hvergi kemur fram í fjárlagaáætlun 2020-2024, að stutt verði við eina fisktækniskólann sem starfandi er á Íslandi, Fisktækniskóla Íslands í Grindavík. Skólinn gegnir lykilhlutverki í því að mennta hæft starfsfólk til starfa í þessari mikilvægu atvinnugrein okkar          Íslendinga. Fundurinn fagnar stefnu stjórnvalda um að efla menntun í landinu og þá sérstaklega með því að fjölga útskrifuðum úr starfs- og tækninámi. Ríkisvaldið hefur ákveðið að styðja við nám til stúdentsprófs í tölvuleikjagerð sem þróunarverkefni. Mikilvægt er að skoða einnig aðrar starfs- og tækninámsgreinar út frá sömu forsendum. Þ.e.a.s. hvort nemendur geti lokið þeim greinum einnig með stúdentsprófi. Fjölgun íbúa á Suðurnesjum er meiri en á öðrum landsvæðum og er samsetning íbúa fjölbreyttari m.t.t. fjölda þjóðerna en á öðrum landssvæðum. Mikilvægt er að tryggja að nemendur af erlendum uppruna hverfi ekki frá námi úr framhaldsskólum. Það skiptir íbúa á Suðurnesjum miklu máli að vel sé staðið að menntun íbúa af erlendum uppruna þar sem 25% íbúa á Suðurnesjum eru af erlendu uppruna. Það felur í sér krefjandi verkefni sem kalla á að menntastofnanir geti sinnt hlutverki sínu. Aðalfundurinn skorar á ríkisvaldið og þingmenn Suðurkjördæmis að tryggja að menntastofnanir á Suðurnesjum sitji við sama borð og stofnanir á öðrum landsvæðum þegar kemur að framlögum úr ríkissjóði. Fundarstjóri gaf orðið laust.

Til máls tók Laufey Erlendsdóttir og lagði fram breytingatillögu.

Fundarstjóri bar upp breytingatillöguna, samþykkt samhljóða.

 Fundarstjóri bar upp ályktunina með áorðnum breytingum og var hún samþykkt samhljóða.

 Ályktun um fjárframlög til Reykjanes Geopark.

Lögð fram á 43. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ.

 Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 13.-14. september 2019 leggur áherslu á að ríkisvaldið tryggi fjárframlög til Reykjanes Geopark. Reykjanes UNESCO Global Geopark er hluti af áætlun UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem nefnist International Geoscience and Geoparks Programme (IGGP). Áætlunin er ein af þremur stóru áætlunum UNESCO ásamt World Heritage List   (Heimsminjaskrá UNESCO) og Man and the Biosphere Programme (Verndarsvæði lífhvolfa). Geopark er heiti samfelldra landfræðilegra svæða, þar sem minjar og landslag hafa alþjóðlegt jarðfræðilegt mikilvægi og er stjórnað eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun. Alls eru í dag 127 geoparkar í 35 löndum viðurkenndir af UNESCO. Tvö íslensk svæði eru á umræddum lista (Reykjanes og Katla Geopark). Stefna sveitarfélaganna á Reykjanesi og ferðaþjónustunnar á svæðinu er að leggja áherslu á jarðminjar svæðisins, flekaskilin, gígaraðir, háhitasvæði, jarðvarmann, frábæra náttúru og vellíðanar ferðamennsku í markaðsstarfi og uppbyggingu innviða. Þetta er unnið undir merkjum Reykjanes UNESCO Geopark. Það er því mikilvægt að ríkisvaldið styðji við rekstur jarðvangana á Íslandi með sama hætti og önnur UNESCO svæði á landinu. Fundurinn skorar á ríkisvaldið að tryggja fjárframlög til Reykjanes UNESCO Geopark til   jafnræðis við Kötlu Geopark.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Einar Jón Pálsson tók til máls.

 Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða.

  • Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær:

Aðalmaður:       Kolbrún Jóna Pétursdóttir

Varamaður:      Jóhann Friðrik Friðriksson

 Grindavíkurbær:             

Aðalmaður:       Hjálmar Hallgrímsson

Varamaður:      Guðmundur Pálsson

Sameinað sveitarfélaga Garðs og Sandgerðis:  

 Aðalmaður:       Einar Jón Pálsson           

 Varamaður:       Ólafur Þór Ólafsson

Sveitarfélagið Vogar:    

Aðalmaður:       Ingþór Guðmundsson

Varamaður:      Birgir Örn Ólafsson

  • Kosning endurskoðunarfyrirtæki

Samkvæmt útboði sem gert var árið 2015 var endurskoðun bókhalds Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum boðin út til 5 ára. 

Lægstbjóðandi var Íslenskir endurskoðendur og er því lagt til að Íslenskir endurskoðendur verði kjörið endurskoðunarfyrirtæki Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Tillagan samþykkt samhljóða.

  • Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnar.

        Lagt er til að þóknun til stjórnarmanna S.S.S. verði óbreytt en hún er:

        Formaður stjórnar 6% af þingfarakaupi eða kr. 66.072,- fyrir hvern fund.

Aðrir stjórnarmenn 4% af þingfarakaupi eða kr. 44.048,- fyrir hvern fund.

Lagt er til að þóknun fyrir aðra fundi en stjórnarfundi verði 3% eða kr. 33.036,-

  • Kolbrún Jóna Pétursdóttir, formaður sleit fundi kl. 16.10.

Björk Guðjónsdóttir, fundarritari.