fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

555. fundur SSS 20. mars 2006

 Árið 2006, er fundur haldinn í stjórn Sambands sveitarfélga á Suðurnesjum mánudaginn 20. mars kl. 08.00.

Mætt eru:  Jón Gunnarsson,  Ingimundur Guðnason, Hörður Guðbrandsson,. Böðvar Jónsson og Óskar Gunnarsson. Guðjón Guðmundsson framkv.stj. og Jóhanna M. Einarsdóttir ritari

Einnig sat atvinnuráðið fundinn þ.e. Árni Sigfússon, Sigurður Valur Ásbjarnarson, Sigurður Jónsson, Ólafur Ólafsson og Jóhanna Reynisdóttir.

1. Rætt var um nýja stöðu í varnarmálum.

Eftirfarandi var fært til bókar:

Sameiginlegur fundur stjórnar SSS og Atvinnuráðs Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum lýsir áhyggjum sínum vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna ákvörðunar bandaríkjastjórnar um að fjarlægja flugvélar sínar og björgunarþyrlur af Keflavíkurflugvelli. Fundurinn telur brýnt að bregðast hratt við til þess að unnt verði að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem felast í mannvirkjum og landssvæði sem áður hefur verið nýtt undir starfsemi varnarliðsins og að þau tækifæri nýtist því fólki sem býr á Suðurnesjum.

Það skiptir verulegu máli fyrir Suðurnes hvernig brugðist verður við atburðum síðustu daga og hvaða ákvarðanir verða teknar um framtíðaruppbyggingu atvinnumála á svæðinu. 

Til skemmri tíma litið verður þó að láta málefni þeirra sem unnið hafa hjá Varnarliðinu hafa forgang og tryggja að gengið verði frá nýjum störfum og/eða starfslokasamningum þeirra sem missa atvinnu sína og að mannleg reisn verði höfð að leiðarljósi.

Fundurinn fagnar þeirri hugmynd forsætisráðherra að skipuð verði samráðsnefnd ríkisins og sveitarstjórna á Suðurnesjum sem vinni að viðbrögðum við  brotthvarfi flugsveita varnarliðsins. Fundurinn leggur til að í nefndina verði skipaðir fyrir hönd sveitarfélaganna á Suðurnesjum, bæjarstjórar Reykjanesbæjar, Sandgerðis og Garðs.
 
Einnig leggur fundurinn til að skipuð verði sérstök landaskilanefnd sem vinni að yfirtöku/yfirráðum íslendinga á þeim mannvirkjum og  landssvæði sem Varnarliðið hefur haft til umráða og í þeirri nefnd verði einn fulltrúi frá hverri sveitarstjórn á Suðurnesjum.

      

Fleira ekki gert og fundi slitið kl.9.45