653. fundur SSS 20. febrúar 2013
Árið 2013, er fundur haldinn í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum miðvikudaginn 20. febrúar á skrifstofu S.S.S., Skógarbraut 945, Reykjanesbæ.
Mætt eru: Gunnar Þórarinsson formaður, Inga Sigrún Atladóttir varaformaður, Sigursveinn Bj. Jónsson, Bryndís Gunnlaugsdóttir, Einar Jón Pálsson og Berglind Kristinsdóttir sem jafnframt ritaði fundargerð.
Dagskrá:
1. Almenningssamgöngur.
Gestir: Ásmundur Friðriksson, Hafliði R. Jónsson, Unnar Steinn Bjarndal og Ásbjörn Jónsson.
Ásmundur lagði fram minnisblað um stöðu mála.
Minnisblað er varðar útboð S.S.S. á almenningssamgöngum og meðferð mála hjá Kærunefnd útboðsmála og Samkeppniseftirlitinu lagt fram af þeim Unnari Steini Bjarndal og Ásbirni Jónssyni og rætt af stjórn.
Hafliði R. Jónsson fór yfir drög að tímatöflu almenningssamgangna og gerði grein umfangi þess.
2. Sóknaráætlun Suðurnesja vegna ársins 2013.
Framkvæmdastjóri fór yfir Sóknaráætlun Suðurnesja. Lagt til að bætt verði við lokaorð áætlunarinnar.
Stjórn S.S.S samþykkir Sóknaráætlun Suðurnesja fyrir árið 2013.
3. Tölvupóstur dags. 06.02.2013 frá nefndarsviði Alþingis vegna umsagnar um frumvarp til laga um virðisaukaskatt, 542. mál. Þingskjal er hægt að sækja á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/141/s/0918.html
Lagt fram.
4. Tölvupóstur dags. 04.02.2013 frá nefndarsviði Alþingis vegna umsagnar um tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Hornafjörð, 174. mál. Þingskjal er hægt að sækja á vef Alþingis: http://www.althingi.is/altext/141/s/0175.html
Lagt fram.
5. Afrit af ályktun frá formönnum og menningarfulltrúum menningarráða landshluta vegna endurnýjun menningarsamninga.
Lagt fram.
6. Afrit af ályktun frá formönnum og menningarfulltrúum menningarráða landshluta vegna Sóknaráætlunar landshluta.
Lagt fram.
7. Málefni fatlaðs fólks – Niðurstöður Vetrarfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum
Stjórnin er sammála um að fundurinn hafi tekist vel. Framkvæmdastjóra falið að taka saman niðurstöður umræðuhópanna og leggja fyrir stjórn S.S.S. á næsta stjórnarfundi.
Ályktun stjórnar
Vetrarfundur S.S.S. sem haldinn var föstudaginn 15. febrúar s.l. var tileinkaður málefnum fatlaðs fólks. Málefnið var kynnt frá flestum sjónarhornum fyrir sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum.
Í kynningum og þeim umræðum er áttu sér stað á fundinum kom í ljós að miklar brotalamir eru á framkvæmd yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaganna. Má þar nefna skiptingu fjármagns milli svæða og framkvæmd á SIS mati sem metur þjónustu- og fjármagns þörf hvers einstaklings. Við yfirfærslu málaflokksins var því lofað að fjármagn myndi skila sér til sveitarfélaga í samræmi við þörf málaflokksins á hverju svæði en það hefur ekki verið raunin.
Í máli félagsmálastjóra sveitarfélaganna á Suðurnesjum kom fram að framlög vegna málaflokksins eru 1,20 % af útsvarauka, þar af eru greiðslur úr jöfnunarsjóði 0,95%. Útsvarsauki Suðurnesja til málaflokksins er því 533.168.140 kr. en ljóst er á niðurstöðu ársins 2012 að 0,34% eða 159.772.099 kr., skila sér ekki til sveitarfélaganna á Suðurnesjum úr jöfnunarsjóði þrátt fyrir að mikill halli sé á rekstri málaflokksins.
SIS-mat er ein af þeim forsendum er ákveða hvernig fjármagni úr jöfnunarsjóði er skipt milli sveitarfélaga. Fram kom á fundinum að velferðarráðuneytið telur að búið sé að meta alla þá aðila er þurfa á SIS-mati að halda. Þetta er í hróplegu ósamræmi við þá staðreynd að í dag bíða 26 einstaklingar á Suðurnesjum eftir fyrsta SIS mati og 6 einstaklingar bíða endurmats.
Skipting jöfnunarframlags er ákvörðuð í reglugerð ár hvert og á eftir að semja reglugerð um skiptingu fjármagns vegna ársins 2013. Mikilvægt er að tryggja að fjármagni verði skipt í samræmi við raunverulega þörf sveitarfélaganna. Það verður ekki lengur unað við þessa misskiptingu fjár og misvísandi upplýsingar og verður að telja að um verulegan forsendubrest sé að ræða.
Formanni og framkvæmdastjóra er falið að óska eftir fundi hið fyrsta með fulltrúum innanríkisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga auk félagsmálastjóra sveitarfélaganna á Suðurnesjum, svo hægt sé að leiðrétta þetta misrétti.
8. Önnur mál.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 18:40.