fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Vetrarfundur SSS 15. febrúar 2013

Vetrarfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum
Haldinn 15. febrúar 2013, í Stapa, Reykjanesbæ

Dagskrá:

Kl. 13:30 Skráning fulltrúa og afhending gagna.  
Kl. 14:00 Fundarsetning. Gunnar Þórarinsson, formaður stjórnar SSS.
Kl. 14:10 Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Gyða Hjartardóttir og    Gunnlaugur Júlíusson.
Kl. 14:50 Kynning á samningi – þjónustusvæði. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í    Grindavík
Kl. 15:00 Kynning á málaflokknum – samstarfið. Félagsþjónustur á Suðurnesjum.
Kl. 15:30 Sjónarhorn notanda. Sigurður Kristófersson, Þroskahjálp.
Kl. 15:50 Sjónarhorn notanda. Arnar Ingi Halldórsson og Birna Sigurbjörnsdóttir.
Kl. 16:10 Fyrirspurnir.
Kl. 16:30 Framtíðarsýn málaflokksins. Rannveig Traustadóttir.
Kl. 17:10 Umræðuhópar.
Kl. 18:00 Fundarslit. Gunnar Þórarinsson, formaður stjórnar SSS.
Kl. 18:05 Léttar veitingar.

 

1. Skráning og afhending gagna.
Á fundinn mættu alls 25 sveitarstjórnarmenn (aðal og varamenn) frá Reykjanesbæ mættu 9, frá Vogum mættu 2, frá Garði mættu 6, frá Grindavík mættu 5, frá Sandgerði mættu 3.
Gestir og frummælendur á fundinum voru: Gyða Hjartardóttir, Gunnlaugur Júlíusson, Sigurður Kristófersson, Arnar Ingi Halldórsson,  Birna Sigurbjörnsdóttir, Rannveig Traustadóttir, Sveinn I. Þórarinsson, Inga S. Ásmundsdóttir, Sigríður Daníelsdóttir,  Hjördís Árnadóttir,  Kristín Þ. Þorsteinsdóttir, Guðrún Björg Sigurðardóttir, Nökkvi Már Jónsson, Sigrún Árnadóttir,  Róbert Ragnarsson, Ásgeir Eiríksson, Magnús Stefánsson.

2. Fundarsetning. Gunnar Þórarinsson, formaður stjórnar SSS.
Hann bauð sveitarstjórnarmenn og gesti velkomna á Vetrarfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. En fundinum er ætlað að fjalla um ákveðin málefni sem að þessu sinni eru málefni fatlaðs fólks.  Fundinum er ætlað að gefa yfirlit yfir  málaflokkinn bæði frá sjónarhorni neitenda og þeirra sem veita þjónustuna.  Hann gerði að tillögu sinni að fundarstjórar yrðu Baldur Guðmundsson og Guðný Kristjánsdóttir og var það samþykkt. Guðný tók við fundarstjórn og stakk upp á Friðjóni Einarssyni og Björk Þorsteinsdóttur sem fundarritara og var það samþykkt.

3. Erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Fundarstjóri gaf Gyðu Hjartardóttur  orðið.
Hún fór yfir heildarsamkomulagið, skyldur sveitarfélaganna og hvernig yfirfærslan væri að ganga. Markmið yfirfærslunnar er m.a. að styrkja sveitarfélögin auk þess að bæta þjónustu við notendur. Sveitarstjórnir hafa borið ábyrgð á málaflokknum frá yfirfærslunni, alveg óháð því hver veitir þjónustuna. Hún ræddi um nýmæli í þjónustu við fatlaða eftir að yfirfærslan átti sér stað sem í sumum tilvikum hefur verið réttarbót fyrir notendur þjónustunnar.  Ekkert alvarlegt hefur komið upp þrátt fyrir flókna yfirfærslu og mikið flækjustig í málaflokknum.  Það er lykilatriði að það sé samkomulag og sátt um þann ramma sem unnið er út frá sagði Gyða að lokum.
Fundarstjóri gaf Gunnlaugi Júlíussyni orðið. Hann rifjaði upp meginatriði samningsins frá 1. nóvember 2010 og var hann gerður til þriggja ára. Samkvæmt samningnum á að fara fram sameiginlegt mat á faglegum og fjárhagslegum árangri árið 2014. Vinna við matið þarf að hefjast á árinu 2013. Matið er grunnur að viðræðum um nauðsynlega leiðréttingu ef í ljós kemur veruleg röskun á forsendum. Matið á síðan að nota sem útsvarsstofn fyrir árið 2014.  Hann sagði að fjárflæðið sé flókið og ekki einfalt að ná heildaryfirsýn yfir fjármálalega hlið verkefnisins
og ræddi vandamál sem sveitarfélög standa frammi fyrir varðandi fjárhagshliðina auk þess sem hann talaði um mismunandi fjárþörf einstakra svæða til málaflokksins.

4. Kynning á samningi – þjónustusvæði. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í  Grindavík.
Fundarstjóri gaf Róberti orðið. Róbert var í undirbúningshópnum sem undirbjó yfirtöku málaflokksins fyrir hönd sveitarfélaganna. Hann lýsti  vinnu hópsins í aðdraganda yfirfærslunnar, verkaskiptingu og þróun þjónustu eftir að málaflokkurinn var kominn yfir til sveitarfélaganna.  Þróun módels til að halda utan um skipulagið var flókið verkefni sagði Róbert og benti á að Suðurland hafi notað sama módel og þar væri búið að endurskoða  módelið og  gera á því  lítilsháttar breytingar.

5. Kynning á málaflokknum – samstarfið. Félagsþjónustur á Suðurnesjum.
Fundarstjóri gaf Hjördísi Árnadóttur, Nökkva Má Jónssyni og Kristínu Þyrí Þorsteinsdóttur orðið og þau skiptu með sér framsögu. Fram kom í máli þeirra  að sífellt væri verið að rekast á vandkvæði í samningnum sérstaklega í fjármálunum.
Farið var yfir flæði fjármagnsins eins og það birtist í reynd og  jöfnunarsjóðsgreiðslur til sveitarfélaga á Suðurnesjum í málaflokknum.
Þau ræddu  samstarfið í þjónusturáðinu og því verklagi sem þar eru viðhöfð. Einnig var farið yfir  heildarúrræði í þjónustunni,  sameignleg úrræði, samræmdar reglur og mikilvægi fagteymis í samstarfinu um málaflokkinn.
Búsetumál fatlaðra,  sértæk búseta og sértæk þjónusta var meðal þess sem þau ræddu um.
Fram kom að notendur þjónustunnar hafa miklar  væntingar til sveitarfélaganna varðandi þjónustuna. Reynt er að mæta þörfum og væntingum notenda eins og kostur er.
Þau lýstu áhyggjum sínum á endurmati yfirfærslunnar þar sem augljóst er að sveitarfélögin greiða með málaflokknum.  Þau telja að endurmatið sé ekki tímabært ennþá og muni ekki gefa rétta mynd af ástandinu verði það framkvæmt nú, ástæður eru m.a. þær  að árið 2012  er til grundvallar endurmati. Biðlisti sem lá fyrir við yfirfærslu hefur ekki verið kláraður og enn eru 26 á biðlista eftir fyrsta SIS mati og 6 bíða endurmats.

6. Sjónarhorn notanda. Sigurður Kristófersson, Þroskahjálp.
Fundarstjóri gaf Sigurði orðið.
Sigurður lýsti áhyggjum aðstandenda fatlaðra við yfirfærsluna bæði þjónustulegar og fjárhagslegar.  Einnig ræddi Sigurður bæði jákvæða og neikvæða upplifun þeirra sem nota þjónustuna eftir að yfirfærslan átti sér stað. Hann taldi það hafa verið mjög mikilvægt að fulltrúi Þroskahjálpar tók þátt í að undirbúa yfirfærslunnar.  Hann  þakkaði  sveitarfélögunum fyrir gott samstarf og vonast eftir að sveitarfélögin og Þroskahjálp eigi eftir að eiga  enn frekar samstarf um málaflokkinn  í framtíðinni.

7. Sjónarhorn notanda. Arnar Ingi Halldórsson og Birna Sigurbjörnsdóttir.
Birna sagði frá fyrstu árunum sem hún og Arnar Ingi þurftu á þjónustu að halda. Hún ræddi einnig búsetumál og upplifun Arnars Inga og fjölskyldunnar á þjónustunni varðandi búsetuúrræði. Birna taldi þjónustuna í  heimabyggð persónulega og góða og að yfirfærslan hefði að þessu leyti heppnast vel.

8. Fyrirspurnir.
Fyrirspurn Árna Sigfússonar laut að þeim  hluta fjármagns úr jöfnunarsjóði sem ekki skilar sér til sveitarfélaganna.
Fyrirspurnir Einars Jóns Pálssonar, Róberts Ragnarssonar og Ingu Sigrúnar Atladóttur lutu að  fjármálum, útreikningi varðandi málaflokkinn og veikleika í því sambandi,   sviðsmati, biðlistum,  SÍS matið og  um stöðuna annars staðar á landinu.
Gyða taldi að hlutirnir væru ekki að ganga eins og upphaflega var lagt af stað með varðandi SÍS matið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Gyða hafði aflað sér,  þá eru ekki til SÍS biðlistar og telur hún þess vegna rétt að funda með aðilum hér á þjónustusvæðinu varðandi málið, þar sem annað hefur komið í ljós á þjónustusvæðinu hér.
Varðandi stöðu Reykjaness sagði Gunnlaugur að ýmislegt væri óljóst eins og  benti á að nauðsynlegt væri að endurskoðun samningsins verði lokið fyrir haustið og að hlutlausir  aðilar kæmu  að þeirri vinnu. 
Sigurður, Sigríður,  Nökkvi og Kristín Þyrí og Hjördís  svöruðu spurningum um biðlista og mat á úrræðum.

9. Framtíðarsýn málaflokksins.
Rannveig Traustadóttir, prófessor Háskóla Íslands.
Rannveig hóf sína framsögu á að tala um sögulega þróun hugmynda um fötlun og fatlað fólk. Um virðingu fyrir fötluðum,  mannréttindi fatlaðra, um rétt fatlaðra til að lifa eðlilegu lífi.  Hún  talaði m.a.  um áleitnar spurningar varðandi framtíðarsýn, hvernig getum við náð markmiðum  okkar um jafnrétti og eðlilegt líf fatlaðs fólks. Hún talaði um nýjan skilning á fötlun, fötlunarfræði, baráttuhreyfingar  fatlaðs fólks, sjálfstætt líf, þjónustu og fjárveitingar. Rannveig sagði það söguleg  tímamót þegar Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks tók gildi árið 2007.  Samningurinn er víðtækur mannréttindasamningur sem leggur áherslu á jafnrétti og  bann við mismunun á grundvelli fötlunar. Meginmarkmið sáttmálans er að koma  á fullum og jöfnum mannréttindum fyrir fatlað fólks. Hún taldi sáttmálann lýsa framsýni og vera áhugaverður mannréttindasáttmáli.  Hún talaði um skilning á fötlun í   sáttmála Sameiniðuþjóðanna og sagði að umbætur í málflokknum krefjast þess að við vinnum saman.  Umbætur í málefnum fatlaðs fólks eru ekki lengur bara æskilegar þær eru við það að verða lagaleg skylda. Norðurlöndin hafa öll undirritað eða staðfest Samninginn  það sama á við um Evrópusambandið, Evrópulönd og flest önnur lönd.
Gunnar Þórarinsson, formaður tók til máls og þakkaði þeim sem voru með framsögur á Vetrarfundi sambandsins fyrir fróðleg og upplýsandi innlegg. 

10. Umræðuhópar.
Umræðuhópar tóku til starfa og unnu útfrá eftirfarandi spurningum:
• Hvað hefur gengið vel á okkar svæði.
• Hvað hefur gengið illa á okkar svæði.
• Hverjar eru þarfirnar og væntingarnar.
A. T.d. hefur félagslegur skilningur á fötlun áhrif á það hvernig staðið er að þjónustu fyrir fatlað fólk.
B. Teljið þið að félagslegur skilningur á fötlun skipti máli fyrir fatlað fólk t.d. varðandi sjálfsskilning og möguleika á ýmsum sviðum.

• Með hvaða hætti á þjónustan að vera í framtíðinni.
A. T.d. hugmyndafræðin sem er að finna í íslenskum lögum og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um að tryggja skuli full og jöfn mannréttindi og mannfrelsi fyrir allt fatlað fólk.
Hvaða skref getum við tekið á okkar svæði til að raungera þessa hugmyndafræði og þá framtíðarsýn sem hún felur í sér.

B. Eru hindranir í veginum og ef svo er þá hvaða.
 
11. Fundarslit. Gunnar Þórarinsson, formaður stjórnar SSS.
Gunnar  telur að þessi Vetrarfundur hafi gefið góða raun og sé komin til að vera. Hann þakkaði fundarstjórum fyrir þeirra starf  svo og starfsfólki fundarins og að því loknu sleit hann fundi.

12. Léttar veitingar í boði Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Björk Guðjónsdóttir,
fundarritari.