fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Ársskýrsla Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2023

Ársskýrsla Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2023 ásamt ársreikningi var lögð fram á síðasta fundi stjórnar.

Við lifum á fordæmalausum tímum er setning sem heyrðist mjög oft á tímum Covid. Það má með sanni segja að fá ef nokkur önnur landsvæði hafi orðið fyrir jafn miklum efnahagslegum áhrifum vegna kórónuveirunnar eins og Reykjanesskaginn. Eins og öll áföll gekk það yfir en Adam var ekki lengi í Paradís.

Frá 19. mars 2021 til 21. maí 2024 hefur alls gosið sjö sinnum á Reykjanesskaganum. Auk þess hafa jarðskjálftahrinur staðið nær óslitið yfir á skaganum frá því í ársbyrjun 2021. Skjálftarnir hafa verið misstórir og hafa upptök þeirra ekki alltaf verið á sama stað.

Sá atburður sem hefur haft mest áhrif á samfélagið á Suðurnesjum varð þann 10. nóvember 2023 en þá opnaðist stór sprunga sem fór í gegnum Grindavíkurbæ og olli jarðsigi.

Talsverðar skemmdir urðu á innviðum og húsum. Rafstrengur slitnaði og olli rafmagnsleysi í austurhluta bæjarins. Aðrar lagnir í bænum rofnuðu einnig. Í framhaldi var bærinn rýmdur en talið var að kvikugangur væri undir bænum. Rúmlega 3600 íbúar urðu að yfirgefa bæinn sinn og hafa ekki enn snúið aftur.

Þessir atburðir hafa markað samfélagið í Grindavík og nágrannasveitarfélög. Starfsmenn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem og starfsmenn aðildarsveitarfélaganna hafa þurft að bregðast við aðstæðum sem upp hafa komið hverju sinni og þurft að leggja sín hefðbundnu störf til hliðar á meðan.

Það er ófyrirséð hvernær þessi atburðir taka enda en það sem við vitum þó er að þessir atburðir munu marka samfélögin á Suðurnesjum um ókomin ár, þó á ólíkan hátt.

Þrátt fyrir allt þetta hélt íbúum á Suðurnesjum áfram að fjölga á milli ára eða um 6,67%. Þrautseigja og dugnaður hefur einkennt íbúa Suðurnesjanna í gegnum tíðina og hafa áskoranirnar verið margar. Við trúum því enn að Reykjanesskaginn sé lífæð landsins og þessi orð eigi enn við um okkur, í víðu samhengi.

,,Gull að sækja í greipar þeim geigvæna mar
ekki nema ofurmennum ætlandi var.
Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn,
fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn“.

Ólína Andrésdóttir

Berglind Kristinsdóttir
Framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum