Sóknaráætlun Suðurnesja 2025-2029
Suðurnes– sterkari saman!
Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi segir Árni Magnússon handritasafnari í ritinu Chorographica Islandica.
Í texta Árna segir einnig að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú
kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.
Árið 1839 ritaði sr. Sigurður B. Sívertsen sóknarlýsingu en hann var sóknarprestur í Útskálaprestakalli sem þá náði yfir Útskála, Hvalsnes og Kirkjuvogssókn. Í sóknarlýsingu segir m.a.
„Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innes, nl.
Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá
því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu.”
Talið er að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum. Fram kemur í fjórða bindi, Landið þitt, Ísland að þeir hafi notað það um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi. Jafnframt kemur fram
að Þorvaldur Thoroddsen hafi fyrir nefnt svæðið suðvestan Hafnarfjarðar, Reykjanesskaga.
Það má því segja að fyrr á tímum hafi verið gerður skýr greinarmunur á Reykjanesi og Suðurnesjum þar sem það fyrrnefnda var „hællinn” á skaganum en það síðarnefnda „táin”, en í dag sé nokkurn veginn um sama svæði að ræða.
Hvort sem notað er Suðurnes eða Reykjanes um svæðið er ljóst að fólk hefur sótt vinnu inn á okkar svæði í langan tíma. Íbúafjölgunin á sér engin fordæmi á Íslandi og við búum í fjölmenningarsamfélagi. Í upphafi árs 1998 bjuggu hérna 15.715 manns en í upphafi árið 2025 voru íbúar 31.631
en það er rúmlega 100% fjölgun. Árið 2008 var hlutfall erlendra íbúa á Suðurnesjum 9,8% en er árið 2025 32% eða 10.163. Hluti af skýringu er mikill vöxtur í atvinnulífi, sem þarf að mæta með vinnuafli.
Þá sýnir þróunin það að fólk sest að til lengri tíma á Suðurnesjum. Þrautsegja og dugnaður hefur einkennt íbúa Suðurnesjanna í gengum tíðina og hafa áskoranir verið margar. Við trúum því að Reykjanesskaginn sé lífæð landsins og þessi orð eigi enn við okkur.
„Gull að sækja í greipar þeim geigvæna mar
ekki nema ofurmennum ætlandi var.
Sagt hefur það verið um Suðurnesjamenn,
fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn“.
Ólína Andrésdóttir
Við þökkum öllum þeim fyrir sem lögðu hönd á plóg við að gera sóknaráætlun fyrir Suðurnes til næstu fimm ára. Án ykkar framlags hefði þetta ekki orðið að veruleika.
Suðurnesjum, janúar 2025
Berglind Kristinsdóttir
Framkvæmdastjóri — Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum