fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Vorfundur S.S.S. 2022

Vorfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum

Haldinn föstudaginn 29. apríl 2022 kl. 14.00 á Park Inn by Radisson, Hafnargötu 57, Reykjanesbæ.

Fundarefni: Í átt að hringrásarhagkerfi.

  1. Setning fundar – Ingþór Guðmundsson formaður stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Formaður stjórnar  óskaði fundarmönnum gleðilegs sumars og bauð fundarmenn velkomna á fyrsta vorfund síðan 2019. Einnig bauð hann sérstaklega frambjóðendur til sveitarstjórna velkomna en þeim var boði að sitja fundinn. Formaður fór yfir dagskrá fundarins og bauð síðan fyrsta fyrirlesara velkominn í pontu.

Formaður stýrði sjálfur fundinum.

  • Yfirvofandi breytingar í hnotskurn. Hverju þarf að breyta og hvenær? Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri Kölku.

Hann sagðist nálgast verkefnið, þennan fyrirlestur,  þannig að horfa á stóru myndina varðandi þær breytingar sem framundan eru á Suðurnesjum og þau atriði sem þarf að einblína á. Hann fór yfir ráðstöfun úrgangs frá sveitarfélögum 2018 í samanburði við lönd innan ESB, Noregs og Sviss. Hann sagði að þær lagabreytingar sem samþykktar voru til innleiðingar hringrásarhagkerfisins taka gildi 1. janúar 2023 og þurfa sveitarfélög að hefja undirbúning nú þegar. Breytingarnar munu hafa áhrif á hirðu sorps og skyldur almennings til flokkunar. Flokkun er forsenda aukinnar endurnýtingar og endurvinnslu. Áhersluatriði í þessum nýju lögum er -Borgað þegar hent er – og þarf að finna fyrirkomulag sem hentar best. Steinþór fór yfir undirbúninginn sem fram hefur farið hjá Kölku frá því að frumvarpið var lagt fram. Þótt mikið hafi verið fundað um þessi mál er margt ennþá óljóst. Við í Kölku stefnum á að allar línur um lausnir fyrir Suðurnes verði skýrar áður en sumarleyfistíminn gengur í garð sagði Steinþór. Einnig ræddi hann um Þjóðarbrennslu og stöðuna á því verkefni og vonast til að verkefnið endi á Suðurnesjum.

  • Hugleiðingar og spjall um hringrásarhagkerfið. Freyr Eyjólfsson, verkefnastjóri hringrásarhagkerfisins hjá Sorpu.

Við stefnum í átt að hringlaga hagkerfi. Hringrásarhagkerfið er eitt öflugasta kerfið í baráttu við hamfarahlýnun og svo margt fleira. Í hringrásarkerfinu felast mjög mikið af tækifærum. Hann fór yfir hvað hringrásarkerfi er í raun og veru, þetta er samvinna og meiri samvinna sveitarstjórna og atvinnulífsins. Þetta er stærsta verkefni okkar tíma sagði Freyr. Hann hvetur sveitarstjórnarmenn að fara á fullu í þetta verkefnið 1.janúar 2023 því það sé dýrt að vera ekki tilbúinn. Hann sagði frá verkefnum sem í verksmiðjunni GAJA eru unnin og sagði að  loftlagsáhrif verksmiðjunnar væri gífurlega mikil.  Urðurnarstaðurinn Álfsnes lokar árið 2023. Álfsnes er stærsti urðunarstaður í þessum landshluta, þar með endar línulega hagkerfið. Í staðinn kemur sorpbrennsla og flokkun. Byggja þarf hátæknisorpbrennslu sem allra fyrst. Hann hvatti sveitarstjórnarmenn til að skilgreina svæði sem Grænt atvinnusvæði, í því eru tækifæri og hann sagði að mikill áhugi væri fyrir því nú að fjárfesta á grænum svæðum.  

  • Þáttur Úrvinnslusjóðs. Ólafur Kjartansson, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs.

Markmið Úrvinnsulsjóðs er að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. Skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og endurvinnslu úrgangs og aðra endurnýtinu úrgangs með hliðsjón af umhverfilegum ávinningi. Framleiðendur bera ákveðna ábyrgð á vörum meðan hún er í notkun, framleiðendur eiga líka að bera ábyrgð eftri að varan verður að úrgangi, sagði Ólafur. Úrvinnslusjóðir í Evrópu eru jafnvel að ganga ennþá lengra m.a. með því að framleiðendur eiga að bera ábyrgð á hegðun neytenda og koma með skaðaminnkandi aðgerðir. Hann fór yfir starfsemi sjóðsins og lýsti síðan hvernig Úrvinnslusjóður virkar og sýndi viðskiptalíkan til skýringar. Hann ræddi um lagabreytingarnar og nýjar álagningar úrvinnslugjalda árið 2023 og fór þar yfir helstu málaflokka.  Hann talaði um tillögu að útvíkkun viðskiptalíkansins sem lúta að nýjum leiðum við að safna úrgangi til ráðstöfunar vegna sérstakrar söfnunar við heimili og hjá lögaðilum og söfnunar á víðavangi.

  • Fyrirspurnir og umræður. Í pallborði sitja fyrirlesarnir þau Steinþór Þórðarson, Freyr Eyjólfsson og Ólafur Kjartansson auk þeirra Önnu Karenar Sigurjónsdóttur, sjálfbærnifulltrúa Reykjanesbæjar og Önundar Jónassonar formanns stjórnar Kölku.

Formaður stjórnar SSS Ingþór Guðmundsson, stýrði pallsborðsumræum.

Til máls tóku, Ingþór Guðmundsson Margrét Sanders, Baldur Þórir Guðmundsson, Kjartan Már Kjartansson og Guðmundur Pálsson.  Fyrirspurnirnar lutu að ýmsum málaefnum m.a. kostnaði, sorphirðu, metan og orkuskiptum, úrvinnslugjaldi á gler, niðurbrjótanlegu plasti, sorpbrennslumálum/brennslustöðvum, tunnum og ílátum við heimahús.

Fyrirspurnirnar dreifðust á þá sem sátu í pallborði og var þeim öllum svarað.

Formaður bauð gestum að þiggja veitingar að fundi loknum. Formaður þakkaði þeim sem fluttu erindi og fundarmönnum fyrir komuna og sleit fundi kl. 16.15.

Björk Guðjónsdóttir fundarritari