fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Hvernig fjármagna ég hugmyndina mína?

Fjármagn þarf til að hugmynd geti orðið að raunverulegum rekstri. Því betur sem þú hefur skilgreint hugmyndina og getur rökstutt viðskiptagrundvöll hennar, því meiri líkur eru á að þú getir fjármagnað verkefnið með því að fá fjárfesta inn eða tryggt þér aðra fjámögnun.

Ýmsar leiðir eru til að fjármagna rekstur eða viðskiptahugmynd. Algengustu leiðirnar eru bankalán, fjárfestar,  hópfjármögnun og fjölskyldulán.

Yfirlit yfir sjóði

Lán og önnur fjármögnun

Eignarhaldsfélag Suðurnesja
Eignahaldsfélag Suðurnesja (ES) er fjárfestingafélag sem stofnað var í þeim tilgangi að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum. Félagið er að stærstum hluta í eigu ríkissjóðs, Byggðastofnunar, sveitafélaganna á Suðurnesjum og Festa lífeyrissjóðs.

ES tekur þátt í stofnun og starfsemi félaga sem rekin eru á grundvelli arðsemissjónarmiða og styðja við megintilgang félagsins, að skapa nýmæli í atvinnulífi og byggja upp atvinnulíf á Suðurnesjum.

Byggðastofnun

Byggðastofnun veitir langtímalán til fjárfestinga, hagræðingar og fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja á starfssvæði stofnunarinnar. Lánastarfsemi Byggðastofnunar er valkostur í fjármögnun sem stuðlar að hagstæðum lánskjörum og lánsframboði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í landsbyggðunum.

Byggðastofnun býður upp á sérstakan lánaflokk til stuðnings atvinnurekstri kvenna á landsbyggðunum og græn lán.

Lán til kvenna með góðar viðskiptahugmyndir

Svanni veitir lánatryggingar til kvenna með góðar viðskiptahugmyndir og er í samstarfi við Landsbankann um lánafyrirgreiðslu. Sjóðurinn veitir helming ábyrgðar á móti banka. Eingöngu verkefni/fyrirtæki sem eru í meirihlutaeigu konu/kvenna og undir stjórn konu/kvenna geta sótt um tryggingu og er gerð krafa um að í verkefninu felist nýsköpun/nýnæmi að einhverju marki. Einnig er gerð krafa um að líkur séu verulegar á að verkefnið/fyrirtækið leiði til aukinnar atvinnusköpunar kvenna.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er áhættufjárfestir sem tekur virkan þátt í þróun og vexti atvinnulífsins með því að fjárfesta í vænlegum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum.

  • Hlutafjárþátttaka Meginstarfsemi Nýsköpunarsjóðs felst í kaupum á hlutafé í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum en fyrir framlag sjóðsins eignast hann hlutdeild í fyrirtækinu í samræmi við það verðmat sem eigendur viðskiptahugmyndarinnar og Nýsköpunarsjóður koma sér saman um.
  • Lán með breytirétti
    Nýsköpunarsjóður getur veitt nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum lán með breytirétti í hlutafé.
    Lánin eru veitt til áhugaverðra fjárfestingakosta, þar sem ekki er talið tímabært að leggja fram hlutafé í viðskiptahugmyndina og einnig til fyrirtækja sem sjóðurinn hefur þegar fjárfest í og vill ekki auka hlut sinn í félaginu að svo stöddu.
  • Frumtak
    Markmið Frumtaks er að byggja upp öflug fyrirtæki sem geta verið leiðandi á sínu sviði og um leið skilað góðri ávöxtun til fjárfesta. Frumtaki er ætlað að fjárfesta í fyrirtækjum sem eru komin af klakstigi og er áskilið að fyrir liggi ítarlegar viðskiptaáætlanir. Frumtaki er heimilt að fjárfesta erlendis að því marki sem nauðsynlegt er vegna útrásar eða markaðssóknar íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði, ekki síst þegar möguleiki er á sameiningu eða samruna við fyrirtæki í eigu Frumtaks.