fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Fordæmalaus hækkun íbúðarverðs á Suðurnesjum

Íbúðaverð á Suðurnesjum hækkaði um 35% milli áranna 2016 og 2017, sem er næstum því fordæmalaus hækkun á einu ári. Verðið hækkaði einnig mjög mikið í Árborg, Hveragerði og Ölfusi.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs febrúar 2018 en þar segir að miklar sveiflur á húsnæðismarkaði að undanförnu varpi ljósi á mikilvægi þess að bæta áætlanagerð í húsnæðismálum hér á landi. Þá sé mikilvægt að kanna hvers konar íbúðir þörf er á og ekki síður hvernig megi tryggja að þær komi á markaðinn. Undanfarin ár hefur töluvert verið kallað eftir því að byggðar séu minni og hagkvæmari íbúðir en þeirri þörf hefur ekki verið mætt

Íbúðalánasjóður hefur undanfarið ár unnið að því að aðstoða sveitarfélög landsins við gerð húsnæðisáætlana. Tilgangurinn með þeim er að draga fram mynd af stöðu húsnæðismála í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið áætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, bæði til lengri og skemmri tíma. Þannig má auka gagnsæi varðandi umfang íbúðauppbyggingar og sporna gegn því að offramboð eða framboðsskortur myndist.

Í janúar 2018 höfðu fimm sveitarfélög birt húsnæðisáætlun opinberlega, þar af tvö sveitarfélög á Suðurnesjum, Sandgerisbær og Sveitarfélagið Garður sem nú hafa sameinast í eitt sveitarfélag.

Vonast er til þess að með aðkomu samræmdra húsnæðisáætlana sveitarfélaganna megi ná fram mun áreiðanlegri upplýsingum um stöðu húsnæðismála á landsvísu, áætlaða uppbyggingu og spá um þörf fyrir húsnæði á komandi árum

Húsnæðismarkaðurinn – mánaðarskýrsla Íbúðarlánasjóðs