fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Óstaðbundin störf – Hver er reynslan?

Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri hefur nýverið lokið rannsókn og birt skýrslu um reynsluna af óstaðbundnum störfum. Rannsóknarskýrslan ber heitið: „Ef þú vilt búa út á landi þá þarft þú að geta haft þetta val.“

Verkefnisstjóri var Sæunn Gísladóttir en auk hennar unnu Anna Soffía Víkingsdóttir og Rannveig Gústarfsdóttir að rannsókninni. Rannsóknin var styrkt af Byggðarannsóknasjóði vorið 2024 og einnig af byggðaáætlun.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna reynslu fólks af óstaðbundnum störfum og hjá yfirmönnum þeirra, mannauðsstjórum eða forstöðufólki. Einnig að koma með ábendingar um hvernig megi bæta árangur með byggðaaðgerðinni „óstaðbundin störf“. Tekin voru viðtöl við einstaklinga í óstaðbundnu starfi og mannauðsstjóra með óstaðbundið starfsfólk. Einnig voru tekin rýnihópaviðtöl, eitt fyrir fólk í óstaðbundnu starfi og annað fyrir mannauðsstjóra.

Niðurstöður rannóknarskýrslunnar greina frá því að almennt séð er starfsfólk í óstaðbundnum störfum farsælt í starfi og upplifi jákvætt viðhorf gagnvart vinnufyrirkomulaginu. Helsti kosturinn sé að geta unnið starf sem annars er ekki í boði á svæðinu þar sem það býr. Sveigjanleiki starfsins er nefndur sem kostur. Auk þess sem óstaðbundin störf fjölgi atvinnutækifærum fyrir háskólamenntað fólk í landsbyggðunum. Frá sjónarhorni mannauðsstjóra þá sé helsti kostur óstaðbundinna starfa að geta valið hæfasta fólkið til starfa óháð búsetu. Það sé kostur að geta boðið fólki upp á búsetufrelsi og það styðji við betri samræmingu vinnu- og fjölskyldulífs.

Að mati mannauðsstjóra er kostnaður óstaðbundinna starfa stór áskorun fyrir stofnanir. Einnig geti það verið krefandi fyrir mannauðsstjóra að passa upp á vinnuheild og starfsanda í þessu umhverfi. Að mati fólks í óstaðbundnu starfi er fjarlægðin frá samstarfsfélögum og áhrif þess á samskipti einn helsti gallinn. Fram kemur að þarft sé á að kynna betur fyrirkomulag óstaðbundinna starfa fyrir mannauðsstjórum. Einnig að möguleikinn sé kynntur einstaklingum sem starfa fyrir ríkisstofnanir sem og allt regluverk í kringum þessi störf, vinnuverndarsjónarmið og réttindi.

Bent er á að víða sé mikill áhugi sé fyrir innleiðingu vinnuklasa þar sem boðið er upp á vinnurými í samfélagi við aðra í svipaðri stöðu. Það fyrirkomulag dragi úr félagslegri einangrun óstaðbundins starfsfólks og sé árangursríkara en að einstaklingar fái skrifborð hjá starfandi stofnunun í bæjarfélaginu.

 Sjá nánar rannsóknarskýrsluna í heild sinni:

Ef þú vilt búa úti á landi þá þarft þú að geta haft þetta val.“

Umfjöllun um rannsóknina er einnig að finna á heimasíðu RHA, Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri: Ráða ekki fleiri óstaðbundna án stuðnings frá ríkinu.