Á þitt verkefni heima í Startup Tourism?
Verkefnastjórar KLAK kynntu í dag hraðalinn Startup Tourism en tekið verður á móti umsóknum til og með 13. október n.k.
Markmið hraðalsins er að hvetja til nýsköpunar á sviði ferðaþjónustu, styrkja stoðir nýrra fyrirtækja, fjölga afþreyingarmöguleikum, ýta undir tæknivæðingu í ferðaþjónustu og stuðla að dreifingu ferðamanna víðsvegar um landið, allan ársins hring.
Allt að tíu fyrirtæki verða valin til þátttöku. Þau fá aðgang að fullbúnu skrifstofurými meðan á verkefninu stendur og gefst kostur á að njóta fræðslu og þjálfunar og þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn reyndra frumkvöðla, fjárfesta, lykilaðila á sviði ferðaþjónustu og annarra sérfræðinga og stjórnenda, þeim að kostnaðarlausu.
Startup Tourism er fimm vikna viðskiptahraðall sem skiptist upp í fimm tveggja daga lotur. Þær fara fram á mánudögum og þriðjudögum í Grósku í Reykjavík og í gegnum fjarfundarbúnað.
Hraðallinn hefst 28. október og lýkur með glæsilegum lokadegi þann 27. nóvember.
Áhugasöm sækið um hér.