Eldvirkni og eldgosavá
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur við Háskóla Íslands fjallaði um eldvirkni og eldgosavá á Reykjanesskaganum á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldinn var þann 14. október sl.
Þar sagði hann frá sögu eldgosa á skaganum og orsök þeirra sem að stórum hluta má rekja til jarðfræðilegrar legu Íslands en Atlantshafshryggurinn gengur upp á land á Reykjanesi.
Að sögn Þorvaldar standa gostímabil á Reykjanesskaga í 3 – 400 ár með hléi í 6 – 1000 ár. Sprungugos eru lang algengust á Reykjanesskaganum. Eldgosagerðir eru nokkrar og má þar nefna hraungos, blandgos á landi og gjóskugos í sjó.
Umfang eldgosavárinnar ræðst m.a. af staðsetningu, afli og lengd, forvörnum og viðbragði. Helsta váin er gjóskufall, gasmengun, hraunflæði og það sem helst er í hættu eru íbúar, innviðir, atvinnustarfsemi og eldgosaferðamenn. Gjóskugos í sjó eru almennt ekki mannskæð en þau geta valdið verulegum truflunum og m.a. haft áhrif á flugsamgöngur.
Hraun býr til eigið landslag og þau hylja og eyðileggja það sem er á vegi þeirra. Við stoppum ekki flæði hrauns en við getum hugsanlega stýrt því upp að vissu marki. Íslenskrar hraunbreiður hafa kjörlengd þ.e. lengd sem hraunflæði nær við ákveðna kvikuframleiðni. Kjörlengd hrauna í aflmestu gosunum t.d. Laka er um 100km en í millistærðinni t.d. Ögmundarhraun er algeng kjörlengd um 12 – 13 km.
Geldingadalagosið 2021 hafði mjög lága framleiðni (4-8m3/s) og hraunið safnaðist fyrir í pollum sem síðan miðluðu því áfram og gerði þannig hraunflæði ófyrirséð og skapaði augljósar hættur fyrir ferðamenn. Mesta lengd hrauns án hraunpolla var 1,3 km.
Þorvaldur telur að skaðlegasta eldgosaváin tengist hraunflæði og kynnti spá um þau gos sem hugsanlega gætu ógnað þéttbýli á Suðurnesjum og innviðum.
Eldgos og eldgosavá á Reykjanesi – Þorvaldur Þórðarson
Mynd: Hér má sjá helstu hættu sem eldgosavirkni gæti haft á þéttbýli og innviði á Reykjanesi.