Hvernig getur LinkedIn hjálpað þínu fyrirtæki?
Næsti hádegisfyrirlestur í fyrirlestrarröð Heklunnar, Kadeco, Keilis, Reykjanes jarðvangs og Markaðsstofu Reykjaness, verður haldinn 3. desember kl. 12.00 í Vitanum Sandgerði.
Þar mun Súsanna Westlund fara yfir reynslu sína á notkun samfélagsmiðlanna LinkedIn og Twitter og hvernig hún nýtti þessar gáttir til að byggja upp öflugt tengslanet og markaðssetja fyrirtækið. Súsanna stofnaði ferðaskrifstofu árið 2011 og hefur nær eingöngu nýtt þessa miðla til að ná til sinna viðskiptavina. Með tvær hendur tómar í upphafi hefur hún náð að byggja upp ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í að selja þematengdar ferðir til margvíslegra hópa sem sækja Ísland heim.
Að byggja upp öflugt tengslanet er mikils virði og var LinkedIn hannað með það að markmiði að tengja saman fagaðila víða um heim. Í dag er LinkedIn stærsta faglega netverkið á vefnum með um 259 milljón aðila frá yfir 200 löndum, yfir 3 milljón fyrirtækjasíður og er enn að vaxa. Aðilar sem nýta sér þessa síðu eru misvirkir en þeir sem hafa nýtt sér þessa leið til að byggja upp sinn faglega bakgrunn, sitt faglega netverk og þjónustu hafa náð ótrúlegum árangri.
Boðið verður uppá hádegishlaðborð á kr. 1.750.- og súpa/brauð kr. 1.150.-