fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Skaginn hlýtur nýsköpunarverðlaun Íslands

Fyrirtækið Skaginn hf. hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2017 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun. Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans, veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Nýsköpunarþingið var haldið á Grand Hótel Reykjavík undir yfirskriftinni Draumaland nýsköpunar.

Skaginn hefur undanfarin ár verið leiðandi fyrirtæki í nýsköpun í matvælaiðnaðinum og þá sérstaklega í sjávariðnaði. Fyrirtækið byggir á sterkum þekkingargrunni og virku samstarfi við önnur fyrirtæki og rannsóknastofnanir. Undanfarin ár hefur fyrirtækið náð góðri fótfestu á markaði sem hefur skapast vegna nýrra lausna sem fyrirtækið hefur sett á markað. Lausnir Skagans byggja á mikilli sjálfvirkni með áherslu á bætt gæði og nýtingu afurðar auk þess sem hagkvæmar og umhverfisvænar kæli-, pökkunar- og flutningslausnir eru hafðar að leiðarljósi. Hjá fyrirtækinu starfa um 90 manns við hönnun, þróun og framleiðslu.

Það er mat dómnefndar að Skaginn sé fyrirtæki sem hefur sýnt árangur á markaði með framúrskarandi nýsköpun að leiðarljósi og er líklegt til að halda áfram á þeirri braut í framtíðinni.

Nýsköpunarverðlaun Íslands

Nýsköpunarverðlaun Íslands eru veitt af Rannís, Íslandsstofu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, til fyrirtækja sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna og þekkingaröflunar og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu. Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.

Efni Nýsköpunarþings 2017

Kynnt var glæný úttekt á nýsköpunarumhverfinu á Íslandi að fyrirmynd MIT tækniháskólans í Boston. MIT hefur þróað frumkvöðlahraðal fyrir landsvæði sem kallaður er REAP (Regional Entrepreneurship Acceleration Program) og miðar að því að bæta umhverfi frumkvöðlastarfs. Ísland tekur þátt með því að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem styrkja umhverfið og skapa grunn fyrir öflugan og nýsköpunardrifinn frumkvöðlageira. Slík vinna ætti að leiða til fjölgunar á íslenskum þekkingarfyrirtækjum sem eru samkeppnisfær á alþjóðavísu. Samstarfinu við MIT var ýtt úr vör síðastliðið haust af Háskólanum í Reykjavík og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.