fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

Skapandi kraftur á Suðurnesjum

 
Heklugos verður haldið í annað sinn fimmtudaginn 16. maí 2013 en markmið viðburðarins er að kynna fjölbreytta hönnun á Suðurnesjum.Þetta er í annað sinn sem viðburðurinn er haldinn en hann er samstarfsverkefni Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar en Heklugos fer fram á Ásbrú.Aðrir þátttakendur og stuðningsaðilar eru SKASS sem eru samtök kraftmikilla, alvöru, skapandi Suðurnesjakvenna og Fríhöfnin. Þeir eru margir sem leggja hönd á plóg í jafn viðamiklu verkefni þar sem áhersla er lögð á samvinnu og sjálfboðavinnu og bera hönnuðir sjálfir hitann og þungan af framkvæmdinni.Dagskráin fer fram í Eldey frumkvöðlasetri og hefst kl. 19:00 en hafa margir hönnuðir komið sér fyrir en jafnframt er hönnuðum á Suðurnesjum boðið að taka þátt. Á dagskránni er glæsileg tískusýning sem haldin verður í kvikmyndaverinu Atlantic Studios kl. 20:00 en það er staðsett við hlið Eldeyjar. Einnig verða vinnustofur hönnuða í Eldey opnar auk þess sem kynnt verður handverk af svæðinu.Heklugos verður með amerískum blæ enda fer hátíðin fram á fyrrum varnarsvæði Bandaríkjahers.Heiðursgestir verða forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Mousaief.
Boðið verður upp á léttar veitingar og lifandi tónlist og gestir hvattir til þess að kynna sér skapandi kraftinn á Suðurnesjum og efla um leið tengslanetið með hækkandi sól.