fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

388. fundur SSS 5. október 1995

 Árið 1995 er fundur haldinn í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fimmtudaginn 5. október kl. 13.00.

Mætt eru:  Hallgrímur Bogason, Sigurður Jónsson, Kristján Gunnarsson, Sigurður Valur Ásbjarnarson, Jón Gunnarsson, Drífa Sigfúsdóttir, Guðjón Guðmundsson og Jóhanna M. Einarsdóttir ritari.

Dagskrá:

1. Samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum – tillögur til aðalfundar um breytingar á samþykktum sambandsins.

Á fundinum voru lögð fram 2 bréf:

a)  frá Sigurði Jónssyni sveitarstjóra Gerðahrepps dags. 5. október 1995 þar sem fram kemur að hreppsnefnd Gerðahrepps telur rétt að vinna áfram að tillögum um samstarfið í þeim í anda sem fram kom á fundinum 28.9. s.l.

b)  frá Jóni G. Stefánssyni bæjarstjóra í Grindavík dags. 5. október 1995 þar sem fram kemur að bæjarráð Grindavíkur getur ekki fallist á, að fjárhagsleg andstaða komi í veg fyrir afgreiðslu mála og ennfremur teljist það óeðlilegt með hliðsjón af eðli samstarfsins, að Reykjanesbær hafi formenn í S.S.S. og S.S. umfram önnur sveitarfélög í samstarfinu.

Kristbjörn Albertsson mætti á fundinn.

Eftir miklar umræður var ákveðið að leggja fram þær hugmyndir, sem fram komu á fundi 28. september s.l. á n.k. aðalfundi S.S.S.  Breytingartillaga við samþykktir S.S.S. verður send út með fundarboði.

 

Fulltrúi Grindavíkur sat hjá við afgreiðslu tillögunnar og er vísað í samþykkt bæjarráðs Grindavíkur. 

Jafnframt verður eftirfarandi tillaga send út:

“Aðalfundur S.S.S. haldinn í Grindavík 13. – 14. október 1995 samþykkir að leggja til við stjórn S.S. og D.S. að á næstu aðalfundum S.S. og D.S. verði sett inn ákvæði í samþykktir S.S. og D.S. sem séu efnislega á þá leið að samþykktir stjórnar skulu því aðeins ná fram að ganga að þær séu studdar af aðilum sem bera meirihluta kostnaðar eignaraðila við rekstur félaganna og hafa meirihluta í stjórn hennar.

Ennfremur er því beint til stjórnanna að haga formannskjöri á þann veg að fulltrúi frá Reykjanesbæ verði formaður stjórnar annað hvert ár.”

Fulltrúi Grindavíkur sat hjá við afgreiðslu tillögunnar og er vísað til samþykktar bæjarráðs Grindavíkur.

Samþykkt að fulltrúar Gerðahrepps, Sandgerðis og Vatnsleysu-strandarhrepps eigi viðræður við bæjarráð Grindavíkur.

2. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 1994 – seinni  umræða –
Ársreikningarnir samþykktir samhljóða og undirritaðir.

3. Aðalfundur S.S.S. 1995.
Rætt um dagskrána og hún samþykkt.

4. Bréf dags. 3/10 1995 frá Jóhanni D. Jónssyni ferðamálafulltrúa þar sem óskað er eftir að S.S.S. kosti lokakvöldverð á Ferðamálaráðstefnu næsta árs.  Samþykkt og vísað til Fjárhagsnefndar S.S.S.

5. Verkefni fræðsluskrifstofu – Sigurður Jónsson gerði grein fyrir málinu.  Sigurði Jónssyni og Guðjóni Guðmundssyni falið að ræða við Helga Jónsson fræðslustjóra um að hann vinni upp hugmyndir að fyrirkomu-lagi skólamálaskrifstofu fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum.

6. Sameiginleg mál.
Lagt var fram bréf dags. 25/9 1995 frá Jóhönnu Reynisdóttur sveitarstjóra Vatnsleysustrandarhrepps ásamt 2 afritum af bréfum varðandi samstarfsnefnd um gönguleið frá Þingvöllum til Suðurnesja og bréf frá Starfskjaranefnd S.S.S. og S.F.S.B. varðandi vinnufatnað.  Samþykkt að afgreiða bréfin á næsta fundi.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.