Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

40. Aðalfundur SSS 14. og 15. október 2016

 

Föstudagur 14. október.

1. Skráning fulltrúa og afhending gagna

Fundinn sóttu alls 35 sveitarstjórnarmenn aðal- og varamenn.

Reykjanesbær 10  fulltrúar
Grindavík 6 fulltrúar
Sandgerði 6 fulltrúar
Garður 7 fulltrúar
Vogar 6 fulltrúar

Gestir og frummælendur á fundinum voru:

Magnús Stefánsson, bæjarstóri Garði, Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Vogum, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæ, Vilhjálmur Árnason, Alþingi, Jón Guðlaugsson, Brunavarnir Suðurnesja, Guðni Þór Gunnarsson, Íslenskir endurskoðendur, Ásmundur Friðriksson, Alþingi, Silja D. Gunnarsdóttir, Alþingi, Sævar Kristinsson KPMG, Hreinn Haraldsson, Vegagerðin, Jónas Snæbjörnsson, Vegagerðin, Páll Ketilsson, Víkurfréttir, Páll Valur Björnsson, Alþingi, Sigrún Árnadóttir, Sandgerði, Helgi Arnarson, Reykjanesbær, Ásgerður K. Hjaltadóttir Sveitarfélagið Hornafjörður, Kristján Ásmundsson, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs  Sambands íslenskra sveitarfélaga, Sváfnir Sigurðsson og Kristján Hjálmarsson frá HN ráðgjöf, Eggert S. Jónsson, verkefnastjóri Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, Vífill Karlsson, dósent og ráðgjafi Sambands sveitarfélaga á vesturlandi, Huginn Freyr Þorsteinsson, Aton,  Karl Friðriksson, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ásbjörn Jónsson, Reykjanesbær,  Björn Óli Hauksson, ISAVIA, Oddný Harðardóttir, Alþingi.

2. Fundarsetning.

Einar Jón Pálsson formaður stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum setti fundinn. Formaðurinn bauð fundarmenn og gesti velkomna í Garðinn. 

3. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

Formaður gerði tillögu að fundarstjórum, Jónínu Magnúsdóttur og Jónínu Hólm og voru þær samþykktar samhljóða. Formaður gerði tillögu um fundarritara, Brynju Kristjánsdóttur og Einar Tryggvason sem aðalmenn og Gísla Heiðarsson og Pálma S. Guðmundsson sem varamenn. Voru þeir samþykktir samhljóða. Björk Guðjónsdóttir er settur fundarritari.
Fundarstjórar tóku til starfa og skiptu með sér verkefnum.

4. Skýrsla stjórna. Einar Jón Pálsson S.S.S.

Formaður stjórnar flutti skýrsluna.

Á 39. aðalfundi SSS sem haldinn var í Fjölbrautarskóla Suðurnesja  2.- 3.  október 2015 voru eftirtaldir kjörnir í stjórn sambandsins eftir tilnefningu sveitarstjórna:

• Einar Jón Pálsson, Garði, formaður
• Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Reykjanesbæ, varaformaður
• Ingþór Guðmundsson,  Vogum
• Guðmundur L Pálsson, Grindavík
• Ólafur Þór Ólafsson, Sandgerði

Stjórnin hélt 14 stjórnarfundi á starfsárinu. Auk þess fundaði stjórnin með nefndum Alþingis (samgöngu- og fjárlaganefnd) og einnig með ráðherrum.  Sú nýbreytni var tekin upp eftir síðasta aðalfund að fara á fund ráðherra og afhenta þeim ályktanir fundarins persónulega. 

Síðasti aðalfundur verður lengi hafður í minnum, enda hófst hann á annan hátt en flestir hefðu átt von á og má segja að kröftugar og á tíðum snarpar umræður hafi farið fram um stöðu og tilvist SSS.
Í framhaldi af umræðum undir skýrslu stjórnar var dagskrá fundarins breytt og ákveðið að ræða stöðu samstarfs sveitarfélaganna undir sér dagskrárlið á laugardeginum.

Ekki voru allir sveitarstjórnarmenn á eitt sáttir um hvort tilgangur SSS væri til góðs fyrir alla og að rekstur þess væri dýr sveitarfélögunum. Fulltrúar Reykjanesbæjar töldu að nauðsynlegt væri að endurskoða samstarfið og hvort þeir væru hugsanlega betur settir utan þess. Hreinskiptar umræður voru um stöðu sambandsins og óhætt að segja að ekki hafi allir verið á sömu skoðun, þó held ég að enginn hafi yfirgefið fundinn mjög illur og flestir hafi nú skilið í bróðerni. 
Ekki er laust við að einhverjir hafi haldið uppi þeirri skoðun að sameining væri „lausnin“ en eins og öllum er ljóst þá er ekki mikil samstaða um þá skoðun. Eflaust mun sameining einhverra sveitarfélaga verða á komandi árum, nú eða eða áratugum en þangað til er mikilvægt að við eigum mikið og gott samstarf um málefni svæðisins.

Að loknum síðasta aðalfundi ákvað stjórnin að taka saman skjal þar sem lagt var mat á það hversu mikið sveitarfélögin væru að greiða í sameiginleg verkefni á vegum sambandsins og var niðurstaðan sú, að íbúar sveitarfélaganna njóta mikils ávinnings af sameiginlegum verkefnum m.a. í uppbyggingu á ferðamannastöðum og styrkja úr Uppbyggingarsjóði.

Öldungaráð Suðurnesja fundaði með stjórn SSS á árinu og þar voru niðurstöður síðasta aðalfundar sambandsins um málefni aldraðra ræddar.  Öldungaráðið lagði áherslu á fjölgun hjúkrunarrýma og að mörkuð verði stefna um uppbyggingu hjúkrunarrýma til framtíðar.  Ráðið lagði ríka áherslu á að samþætta þjónustu við aldraðra.  Stjórn SSS ákvað að funda með heilbrigðisráðherra að loknum fundi, ekki síst vegna fréttar sem hægt var að finna á heimasíðu ráðuneytisins að ekki væri gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á Suðurnesjum, a.m.k. ekki næstu 5 árin.  Ráðherra staðfesti þær upplýsingar á fundinum og sagði að ljóst væri að ekki yrði um frekari uppbyggingu að ræða fyrr en eftir árið 2020.

Þessi niðurstaða er okkur mikil vonbrigði og alls ekki ásættanleg fyrir íbúa svæðisins. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að standa saman að uppbyggingu fyrir aldraða og tel ég nauðsynlegt að við höldum áfram með þá vinnu sem hafin var á síðasta aðalfundi um stefnumótun í málefnum aldraðra og þar með samþætta þjónustu. Kæru félagar það er okkar að sjá til að þessari vinnu verði hraðað sem mest, allar tafir eru því óásættanlegar.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum er í sögulegu lámarki um þessar mundir og er það ánægjulegt.  Þó eru einhverjir sem enn sitja eftir á skrá og fékk stjórn sambandsins, fulltrúa Vinnumálastofunnar á sinn fund til að fara yfir samsetningu þess hóps sem eftir situr.

Vetrarfundur SSS sem haldinn var 11. mars var tileinkaður atvinnumálum, ekki síst vegna breyttrar stöðu þeirra.  Mikil eftirspurn hefur verið eftir vinnuafli á svæðinu og ljóst er að ekki er hægt að manna eftirspurnina með núverandi fjölda íbúa. Áhugaverð erindi þessu tengd munu verða flutt á fundinum á morgun en ljóst er að sveitarfélaganna bíður verðugt verkefni í samstarfi við fyrirtækin á svæðinu að mæta þessari auknu þörf.
Samband sveitarfélag á Suðurnesjum styrkti verkefnið Fluglestina um 1 mkr.  en þegar félagið var formlega stofnað, var ákveðið að breyta áður greiddum styrkjum í hlutafé.  SSS eignaðist þá mann í stjórn félagins og situr framkvæmdastjóri þar í umboði stjórnar.

Nú sá „óvænti viðburður“ gerðist á árinu að samþykkt var að stofna slitastjórn, en hún fékk það hlutverk að leggja niður Héraðsnefndar Suðurnesja, en sú nefnd hafði verið „skúffu nefnd“ í mörg ár.  Verkefni Héraðsnefndar var fært yfir til SSS, en eina verkefni nefndarinnar var beitarréttur í landi Krýsuvíkur.

Ekki er hægt að komast hjá því að minnast á almenningssamgöngur.  Stjórn SSS ritaði bréf til Bílastæðasjóðs Sandgerðis þar sem óskað var eftir því að fá stoppistöð við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem og upplýsingar um gjaldskrá vegna rútustæða.  Bílastæðasjóður gat ekki liðsinnt í málinu þar sem hann úthlutar ekki stæðum, það er hins vegar ennþá beðið eftir upplýsingum um gjaldskrá frá sjóðnum.   Ákveðið var að senda stjórn ISAVIA formlegt erindi vegna stoppistöðvar í maí en því hefur ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekanir. 

Endurskoðuð lög um farþegaflutninga á landi bíða enn eftir að verða fullgild á Alþingi.  Ekki virðist vera mikill áhugi stjórnvalda að ljúka þessari vinnu þrátt fyrir gott aðhald allra landshlutasamtakanna.

Almenningssamgöngur eru reknar með miklum halla ekki síst vegna ákvörðunar þáverandi Innanríkisráðherra að svipta SSS einkarétti á akstri til og frá Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.  Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að farþegum hefur fjölgað í kerfinu þrátt fyrir þetta.

 
Sóknaráætlun

Á árinu 2015 skrifaði SSS undir samning við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið um Sóknaráætlun Suðurnesja fyrir árin 2015-2019. Markmið sóknaráætlunar er að ráðstafa þeim fjármunum sem ríkið hefur varið í atvinnu-, byggða- og menningarmál á Suðurnesjum í samræmi við stefnu sem landshlutinn mótar sjálfur á þessum sviðum.

Landshlutasamtökin settu upp uppbyggingarsjóð í tengslum við sóknaráætlun og leysti hann af hendi verkefni Vaxtarsamnings Suðurnesja og Menningarsjóðs Suðurnesja.

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja styður við menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni í samræmi við þau markmið sem sett voru í sóknaráætlun. Í mars sl. var úthlutað 45 milljónum króna til 35 verkefna og er nú opinn umsóknarfrestur til 31. október eftir frekari styrkjum.

Kæru félagar, ég hef setið sem formaður SSS síðastliðið ár og hefur verið ánægjulegt að takast á við þau verkefni sem því fylgja. Samstarf landshlutasamtaka er einn hluti þess og var ánægjulegt að kynnast kollegum víða um landið og ræða sameiginleg verkefni landshlutasamtakanna.

Innan SSS hefur sú hefð verið við lýði að formennskan flyst milli sveitarfélaganna og situr formaður einungis í eitt ár. Ég vil taka undir með mörgum af fyrrverandi formönnum að þetta er fyrirkomulag sem taka þarf til endurskoðunar. Verkefnin sem formaður sinnir eru þess eðlis að reynsla og þekking skipta máli og er samstarf formanna og framkvæmdarstjóra landshlutasamtaka eitt dæmi þess.
Það er því vænlegra að mínu mati að formaður sé lengur í embætti og ætti ekki að skipta máli frá hvaða sveitarfélagi hann kemur. Verkefnið er að vinna fyrir öll sveitarfélögin jafnt og hef ég lagt mikla áherslu á að svo sé. Ég hef jafnvel fengið „skot“ á mig frá þingmönnum og ráðherra fyrir að vera mikinn talsmann fyrir Reykjanesbæ, þetta eru ánægjuleg „skot“ og vísa bara til þess að ég hef staðið rétt að málum kæru samherjar.

Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka samstarfsfólki mínu í stjórn, starfsmönnum sambandsins og síðast en ekki síst framkvæmdarstjóra fyrir ánægjulegt samstarf.

Framundan eru tveir dagar þar sem við fáum áhugaverð og fræðandi erindi, leggjum fram áherslur fyrir komandi ár, tökumst líka eflaust á um einhver mál, en fyrst og fremst eigum saman ánægjulega daga hér í Garðinum.

Kæru félagar, ég þakka fyrir mig.

5. Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2015. Íslenskir endurskoðendur.
Guðni Þ. Gunnarsson fór yfir ársreikning Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir árið 2015.

6. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning.
Fundarstjóri gaf orðið laust. Engin óskaði eftir að taka til máls.
Fundarstjóri bar upp ársreikninginn og var hann samþykktur samhljóða.

7. Umræður um skýrslur.

• Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, Heklan.
• Markaðsstofa Reykjaness.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Friðjón Einarsson, Baldur Þórir Guðmundsson, Kristinn Þór Jakobsson, Fríða Stefánsdóttir, Ólafur Þór Ólafsson, Gunnar Þórarinsson, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Kristín María Birgisdóttir og Einar Jón Pálsson. Þau ræddu um eflingar Atvinnuþróunarfélagsins, styrkingu svæðisins og sameiningarmál. 

Tillögur og ályktanir lagðar fram.

• Formaður S.S.S. lagði fram þrjár ályktanir stjórnar.
• Fulltrúi Reykjanesbæjar lagði eftirfarandi tillögu fram:

Tillaga um úttekt á ávinningi af sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Lagt er til að stjórn S.S.S. láti gera úttekt á kostum og göllum sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Einnig er lagt til að S.S.S. sæki um styrk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til verkefnisins.
Tillagan er undirrituð af,  Gunnari Þórarinssyni, Friðjóni Einarssyni, Lovísu Hafsteinsdóttur, Guðnýju Birnu Guðmundsdóttir, Kolbrúnu Jóna Pétursdóttir og Kristni Jakobssyni.

8. Kynning á sviðsmyndum um framtíð ferðaþjónustunnar árið 2030. Sævar Kristinsson KPMG.

Sviðsmyndagreining byggir á því að –  finna mikilvægustu óvissuþætti og drifkrafta í starfsumhverfi atvinnugreinarinnar – skoða hvernig framtíðin gæti litið út ef nokkrir þessara þátta þróast samtímis í ólíkar áttir.

Mælikvarði góðra sviðmynda snýst ekki um það hversu vel eða nákvæmlega efnistök þeirra rætast í framtíðinni, heldur hvort þær leiði til betri ákvarðana í dag.

Hann talaði um leiðarljós í áhættugreiningu og mikilvægi samtalsins, þeim árangri  sem við námum  ef okkur ber gæfa til að setjast niður og eiga samtalið.

Hann lýsti grunngerð og áhrifaþætti sviðsmyndanna, fjallaði um stefnuleysi í greininni og innviðauppbyggingu, menntun í greininni, arðsemi og fleira.

Sævar bauð upp á fyrirspurnir,   Friðjón Einarsson tók til máls.

Vinnustofa í framhaldi af sviðsmyndum.

Þar sem fjórir hópar fengu þetta verkefni:

1. Hver væru mestu áhrifin sem þessi sviðsmynd hefði á ykkar sveitarfélag.
2. Hvar liggja helstu tækifærin?
3. Er sviðsmyndin á einhvern hátt ógnandi ykkar sveitarfélagi s.s. varðandi rekstur, fjárfestingar, fyrirtæki og mannfjöldaþróun.

Sviðsmyndirnar sem unnið er með eru:
Niceland
Ferðamenn – Nei takk
Laus herbergi
Fram af bjargbrúninni

Sævar mun vinna úr niðurstöðum hópanna.

Fundi frestað kl. 17.50.

Laugardagur 15. október.
Morgunkaffi.

9. Ávarp ráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra.
Hann talaði fyrst um auglýsingaherferð sem nú er í gangi og varðar ímynd Suðurnesja.
Forsætisráðherra sagði m.a. eitt af forgangsmálum þessa kjörtímabils var að ná tökum á efnahagsástandinu og það tókst. Staðan í þjóðarbúinu er betri nú en hún var í upphafi kjörtímabilsins. Nú þarf að huga að því hvernig við skipuleggjum okkur til framtíðar. Það er ljóst að ekki er hægt að eyða öllum aurunum sem koma í kassann, sagði ráðherrann.
Hann ræddi um samstarf og Sóknaráætlun. Það þarf að ráðast í það verkefni að klára að tvöfalda Reykjanesbrautina. Umferðin hefur stóraukist og á hún eftir að aukast enn og það verulega á næstu árum. Reykjanesbrautin er nú komin á 12 ára áætlun. Stóraukin umferð hlýtur að kalla á stórauknar almenningssamgöngur. Hann fjallaði um almennings-samgöngur á Suðurnesjum en þær hafa ekki gengið eins og vonast var eftir. Þar er verk að vinna á komandi misserum. Hann talaði um stefnumótun í atvinnuuppbyggingu svæðisins. Hann fjallaði um Helguvík, fjármál og ríkisstyrki og sagði að ríkið muni koma að uppbyggingu Helguvíkur eins og lofað hefur verið. Að lokum talaði ráðherrann um  mikilvægi stöðuleika fyrir atvinnugreinar almennt.

Ávörp gesta.

Guðjón Bragason, sviðstjóri lögfræði- og  velferðarsviðs Sambands ísl. sveitarfélaga.

Guðjón talaði um almenningssamgöngur sem sveitarfélögin tóku að sér með samningi við Vegagerðina. Þar sem átti að skjóta sterkari stoðum undir landshlutana til að sinna þessu verkefni. Verkefnið hefur ekki gengið eins og upphaflega var ætlað þar sem ríkisvaldið hefur ekki staðið sig  sem skyldi.

Guðjón talaði um endurskoðun kosningalaga, tillögur vinnuhóps forseta Alþingis.  Hann talaði um kosningaþátttöku ungs fólks og verkefni í samvinnu við landssamband æskulýðfélaga.  Hann talaði um fjármál sveitarfélaga og um kjörið tækifæri til að lækka skuldirnar nú í góðærinu. Hann ræddi kjarasamninga og lausa samninga við grunnskólakennara þar sem enginn fundarhöld eru í gangi. Hann talaði um samkomulag um opinber fjármál , lífeyrismálin og frumvarpið um lífeyrismál sem ekki fór í gegn á þessu þingi. Hjúkrunarheimili og daggjöld, bankaskatt og tekjutap vegna séreignarsparnaðar, ferðaþjónustu og aðkomu sveitarfélaga að þeim. Hann talaði um bílastæðisgjöld og gistináttagjöld hækkun á þeim gjöldum og tillagan væri að gjöldin mundu renna að mestu leyti til sveitarfélaganna. Hann talaði um ný lög um húsnæðismál þar sem stærsta breytingarnar eru gagnvart sveitarfélögunum. Skipulagsmálin eru mikil áskorun vegna uppbyggingar ferðaþjónustunnar og mikið hagsmunamál að sveitarfélögin sæki þær tekjur sem eru í boði sagði Guðjón meðal annars og lauk sínu  erindi með umfjöllun um byggðamál og sóknaráætlun.

10. Við höfum góða sögu að segja. Sváfnir Sigurðarson og Kristján Hjálmarsson.
Þeir byrjuðu að fara yfir skoðanakönnun sem gerð var í upphafi verkefnisins. Sögðu frá auglýsingaherferðinni sem rekin er undir heitinu „Við höfum góða sögu að segja“. Hluti af verkefninu er að deila jákvæðum fréttum af svæðinu bæði á samfélagsmiðla og til fjölmiðla  og hefur slíkum fréttum fjölgað mjög mikið síðan verkefnið hófst. Einnig kom fram að önnur skoðanakönnun verður gerð í nóvember.

11. Uppbygging í Reykjanes Geopark – Hvernig er staðan. Eggert S. Jónsson, verkefnastjóri Heklunnar.
Eggert fór yfir framkvæmdir á Reykjanesi 2016-2018. Hann sagði frá bifreiðatalningu á sjö stöðum frá og með október 2016, sem ætti að gefa betri mynd af fjölda ferðamanna og nauðsynlegum framkvæmdum á svæðinu. Hann talaði um samræmda ásýnd og  bílastæðismál. Einnig sagði hann frá og sýndi mynd af fyrirhuguðu þjónustuhúsi við Reykjanesvita, en einkaaðilar hafa fengið úthlutaðri lóð undir starfsemina. Að lokum fór Eggert yfir fjárhagshlið framkvæmdaáætlunarinnar Reykjanes Geopark.
Orðið var gefið laust. Kristinn Jakobsson, Kjartan Már Kjartansson og Guðjón Bragason tóku til máls.

Matarhlé.

12. Íbúakönnun á Suðurnesjum. Vífill Karlsson, dósent og ráðgjafi SSV.
Vífill kynnt niðurstöður könnunar sem var gerð á Suðurnesjum í lok september. Þátttakendur voru 1018 talsins. Aldursdreifingin hefði mátt vera heppilegri að hans sögn, en minnsta þátttakan var hjá ungu fólki á aldrinum 18-24 ára. Þrátt fyrir að sá hópur sé mjög tölvutengdur og könnunin var gerð rafrænt. Spurt var um ýmsa þætti varðandi samfélagið s.s. búsetuskilyrði og skoðun viðkomandi á ýmsum málaflokkum í sveitarfélaginu.

13. Samgönguáætlun. Hreinn Haraldsson, Vegamálastjóri.
Hann talaði um samgönguáætlun 2015-2018 og 2015-2026 með áherslu á SV-landið auk jarðganga og annarra stærstu verkefna. Fjögurra ára áætlun er framkvæmdaáætlun og endurskoðuð annað hvert ár, en tólf ára samgönguáætlunin er stefnumarkandi. Hann fjallaði um fjárhagsramma vegaáætlunar, helstu stærðir.

14. Búsetuþróun á Íslandi til 2030. Karl Friðriksson, Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Hann sagði frá undirbúningi vinnu að byggðaáætlun og  sagði frá hvað sviðsmyndir fyrir byggðaþróun þurfa að ná fram.  En sviðsmyndir voru unnar í tengslum við gerð byggðaáætlun 2017-2023. Gert er ráð fyrir að fjöldi íbúa á Suðurnesjum árið 2030 verði 34.845. Karl talaði um helstu drifkrafta við íbúaþróun og lauk sínu máli á að fjalla um næstu skref og þeim orðum að íbúaþróun  er m.a.  að höndla ný viðhorf og tækifæri til velferðar.

Kaffihlé

15. Keflavíkurflugvöllur – stóriðja í stöðugum vexti.  Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson.
Skýrslan sem Huginn Freyr kynnti var unnin af fyrirtækinu Aton fyrir ISAVIA. Ferðaþjónustan er orðin risagrein og farin að skila miklum gjaldeyristekjum. Mjög hröð þróun hefur átt sér stað á síðustu árum. Áætlunin er að vöxtur í ferðaþjónustu haldi áfram. Fjöldi skiptifarþega hefur aukist og er gert ráð fyrir að verði til framtíðar og kallar það á mikla þjónustu. Hann fór yfir farþegafjölda og spá ISAVIA 1985 til 2040, sem kallar á gríðarlega miklar fjárfestingar á næstu árum. Farþegaspáin kallar á einnig á gríðarlega fjölgun beinna starfa við þjónustu í flugstöðinni á spátímabilinu.  Ef farþegaspár ganga eftir verður Keflavíkurflugvöllur stærsti vinnustaður landsins árið 2018. Í þessu felast mikil tækifæri fyrir okkur og áskoranirnar mikla.  Þessari fjölgun  þarf að mæta með langtíma stefnumótun, sagði Huginn Freyr meðal annars.

16. Staða Suðurnesjalínu. Kynning frá Landsneti. Sverrir Jan Norðfjörð.
Hann byrjaði á að fara yfir hlutverk Landsnets í einfaldri mynd sem er fyrst og fremst að flytja orku um landið og stjórna raforkukerfinu á Íslandi. Einnig er hlutverk Landsnets að sjá um uppbygging raforkukerfisins og skapa forsendur fyrir virkri samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku. Síðan horfði hann til Suðurnesja og nokkur ár fram á veginn. Hann fór yfir undirbúning Suðurnesjalínu 2 sem er langur og vandasamur ferill og einnig fór hann yfir hæstaréttardóma sem nýlega hafa fallið í málinu. Einnig koma fram að Landsnet vinnu að samanburði á loftlínu- og jarðstrengjakostum sem verður settur fram í valkostaskýrslu.

17. Ályktanir og umræður.

Ályktun um samgöngumál.

Lögð fram á 40. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Sveitarfélaginu Garði.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 14.-15. október 2016 skorar á Innanríkisráðherra að beita sér fyrir úrbótum á lagaumhverfi almenningssamgangna.  Nauðsynlegt er að tryggja landshlutasamtökunum einkaleyfi almenningssamgangna eins og kemur fram í samningum milli Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Vegagerðarinnar.  Leggja verður áherslu á að einkaréttur landshlutasamtakanna til að starfrækja almenningssamgöngur á tilleknum leiðum og svæðum verði virtur og að þeim rétti sé veitt ríkari vernd í lögum.  Gera verður skýrari greinarmun á almenningssamgöngum og farþegaflutningum í atvinnuskyni.  Þá skorar fundurinn   á stjórnmálamenn að standa vörð um almenningssamgöngur á Suðurnesjum sem og landinu öllu og tryggja að þær séu raunhæfur kostur fyrir almenning. 
Fundurinn bendir á að mikilvægt er að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar upp í Flugstöð Leifs Eiríkssonar til að bregðast við auknum umferðarþunga og tryggja öryggi notenda.   Nauðsynlegt er að auk umferðaröryggi við Aðalgötu og Þjóðbraut inn á Reykjanesbraut, sem og tengingu við Hafnarveg.

Aðalfundurinn leggur áherslu á að unnið verði að því að breikka Grindavíkurveg.  Vegurinn er einn af fjölförnustu ferðamannavegum landsins en tæp milljón gestir sækja Bláa lónið heim ár hvert. Þá er vegurinn illa farinn vegna mikilla þungaflutninga og mjög sprunginn á köflum.  Vert er að benda á að vegurinn liggur í gegnum vatnsverndarsvæði Suðurnesja og því afar mikilvægt að hann sé þannig úr garði gerður að hægt sé að bregðast við mengunarslysum.

Mikilvægt er að ljúka við gerð Suðurstrandavegs og tryggja fjármagn til vetrarþjónustu.  Lagt er til við Vegagerðina að breytt verði um skilgreiningu á vetrarþjónustu fyrir Suðurstandaveg með þeim hætti að þjónusta á veginum verði færð upp um þjónustuflokk.  Miðað við þjónustuskilgreiningar Vegagerðarinnar ætti Suðurstandavegur að vera í þjónustuflokki 3 og fá vetrarþjónustu 5 daga vikunnar.  Fundurinn bendir á að þetta er ekki einungis hagsmunamál Suðurnesjanna heldur líka allra þeirra sem fara um Suðurlandið.  Mikilvægt er að geta beint umferð um veginn vegna tíðra lokanna Suðurlandsvegar á Hellisheiði og í Þrengsla.  Nauðsynlegt er að fara aðra leið færa á milli Suðurlands og Suðurnesja.

Því er jafnframt beint til Fjarskiptasjóðs að ráðist verði í það að setja upp farsímasenda á Suðurstandavegi með það í augum að tryggja almannavarnaröryggi vegfarenda.

Laga þarf vegi til Sandgerðis og Sveitarfélagsins Garðs, sem og á milli þeirra sveitarfélaga.  Breikka þarf vegina og þarfnast þeir talsverðar lagfæringa.  Nokkur straumur er um vegina af stórum bifreiðum m.a. vegna fiskflutninga og uppfylla vegirnir ekki öryggiskröfur.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tók Ólafur Þór Ólafsson  og lagði fram breytingartillögu.

Við ályktunina bætist eftirfarandi málsgrein: Aðalfundurinn leggur áherslu á að haldið verði áfram að byggja upp göngu- og hjólreiðastíga á milli sveitarfélaga á Suðurnesjum og við flugstöðvarsvæðið. Það er sérstaklega mikilvægt að bæta öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sem sífellt fjölgar á svæðinu.

Undir breytingartillöguna rita Ólafur Þór Ólafsson, Magnús S. Magnússon, Daði Bergþórsson, Fríða Stefánsdóttir, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir, Sigursveinn B. Jónsson.

Til máls tók Páll Jóhann Pálsson og lagði fram breytingatillögu.

Nýlegar mælingar sem Póst og Fjarskiptastofnun lét gera á GSM símasambandi á þjóðvegum landsins sýndi að mjög misjafnt er eftir fjarskiptafélögum hvernig símasamband er á Suðustrandarvegi, allt frá því að vera mjög lélegt og upp í að vera þokkalegt.

Því skorar fundurinn á fjarskiptafélögin að samnýta fjarskiptasenda við Suðurstrandarveg með það í huga að bæta þjónustuna og tryggja almannaöryggi vegfarenda um leið og komið verði í veg fyrir offjárfestingu á fjarskiptabúnaði.

Breytingartillagan er undirrituð af Páli Jóhanni Pálssyni.

Til máls tók Einar Jón Pálsson.

Fundarstjóri bar upp breytingatillögurnar og voru þær samþykktar samhljóða.

Fundarstjóri bar upp ályktunina með áorðnum breytingum. Var ályktunin samþykkt samhljóð.

Ályktun um raforkukerfi

Lögð fram á 40. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Sveitarfélaginu Garði.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 14.-15. október 2016 skorar á Iðnaðar- og viðskiptaráðherra að beita sér fyrir öryggi í raforkumálum á Suðurnesjum.  Mikilvægt er að Suðurnesjalína 2 verði reist sem fyrst. Flutningsgeta núverandi línu er fullnýtt og hamlar núverandi kerfi uppbyggingu á svæðinu.  Suðurnesjalína 1 er eina tenging Reykjanesskagans við meginflutningskerfi Landsnets og hafa bilanir á henni valdið straumleysi.  Það er ekki ásættanlegt m.a. með tilliti til þess að eini alþjóðaflugvöllur landsins er staðsettur á Suðurnesjum.  Mikið álag veldur enn frekari hættu á truflunum á raforkuflutningum, sem og getur valdið tjóni hjá notendum.  Það er brýnt hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesi að flutningskerfi raforku verði styrkt sem fyrst.

Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina. Enginn óskaði eftir að taka  til máls. Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

Ályktanir um tekjustofna sveitarfélaga.

Lögð fram á 40. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Sveitarfélaginu Garði,

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 14.-15. október 2016 skorar á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir nauðsynlegum breytingum á tekjustofunum sveitarfélaganna til að tryggja að þeir séu í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögum er falin og þeim ber að uppfylla samkvæmt lögum.  Útgjöld sveitarfélaganna hafa vaxið og verkefnum þeirra fjölgað án þess að tekjuliðir hafi fylgt þeirri þróun.  Afar mikilvægt er að sveitarfélögin fái aukna hlutdeild í heildarskatttekjum. 

Ferðaþjónustan hefur skapað tekjur í heimabyggð en einnig kallað á aukin útgjöld, bæði við ferðamannastaði sem og við ýmsa innviði samfélagsins.  Í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir árin 2014-2018 kemur fram að sveitarfélögum skuli tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar í samræmi við þau verkefni sem þeim eru falin. Þeir skulu vera nægjanlega fjölþættir og sveigjanlegir í eðli sínu svo þeir geti staðið undir þeirri fjölbreyttu þjónustu sem íbúar þeirra kalla eftir.

Auka þarf einnig framlög til Markaðsstofa landshlutanna svo þær geti brugðist við fjölgun verkefna.  Eins og staðan er í dag dugir styrkur Ferðamálastofu ekki nema fyrir 25-50% af rekstri landshlutamiðstöðvanna. 

Fundarstjóri gaf orðið laust um ályktunina. Enginn óskaði eftir að taka til máls. Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri gaf orðið laus um tillöguna sem lögð var fram á fundinum undir 8. Lið.

Tillaga um úttekt á ávinningi af sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Lagt er til að stjórn S.S.S. láti gera úttekt á kostum göllum sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Einnig er lagt til að S.S.S.sæki um styrk frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til verkefnisins. Tillagan er undirrituð af Gunnari Þórarinssyni, Friðjóni Einarssyni, Lovísu Hafsteinsdóttur, Guðnýju Birnu Guðmundsdóttir,  Kolbrúnu Jóna Pétursdóttir og Kristni Jakobssyni.

Fundarstjóri gaf orðið laust um tillöguna. Til máls tóku, Gunnar Þórarinsson, Jóngeir Hlinason,  Fríða Stefánsdóttir, Kristín María Birgisdóttir, Kolbrún Pétursdóttir, Kristinn Jakobsson, Friðjón Einarsson, Böðvar Jónsson, Baldur Þórir Guðmundsson, Áshildur Linnet, Hólmfríður Sveinsdóttir, Einar Jón Pálsson, Jónína Hólm, Páll Jóhann Pálsson, Marta Sigurðardóttir, Ólafur Þór Ólafsson og Jónína Magnúsdóttir.

Tillaga kom fram um að vísa tillögunni til stjórnar.

Fundarstjóri bar upp þá tillögu og var hún samþykkt með meirihluta atkvæða.

18. Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár.

Reykjanesbær: 

Aðalmaður: Kolbrún Jóna Pétursdóttir.

Varamaður: Guðbrandur Einarsson.

Grindavíkurbær:

Aðalmaður: Guðmundur Pálsson.

Varamaður: Hjálmar Hallgrímsson

Sandgerðisbær:  

Aðalmaður: Ólafur Þór Ólafsson.  

Varamaður: Hólmfríður Skarphéðinsdóttir.

Sveitarfélagið Garður:

Aðalmaður: Einar Jón Pálsson .

Varamaður: Jónína Magnúsdóttir

Sveitarfélagið Vogar:

Aðalmaður: Ingþór Guðmundsson.

Varamaður: Birgir Örn Ólafsson

19. Kosning endurskoðendafyrirtækis.

Samkvæmt útboði sem gert var árið 2015 var endurskoðun bókhalds Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum boðin út til 5 ára. 
Lægstbjóðandi var Íslenskir endurskoðendur og er því lagt til að Íslenskir endurskoðendur verði kjörið endurskoðunarfyrirtæki Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

20. Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.

Lagt er til að þóknun til stjórnarmanna S.S.S. verði sem hér segir;
Formaður stjórnar 4,5% af þingfararkaupi eða kr. 34.332,- fyrir hvern fund.
Aðrir stjórnarmenn 3% af þingfararkaupi eða kr. 22.888,- fyrir hvern fund.
Þingfararkaup alþingismanna er frá 1. júní 2016 Kr. 762.940.

Tillagan samþykkt samhljóða.

Formaður stjórnar S.S.S. Einar Jón Pálsson, sleit fundi kl. 17.10.

Björk Guðjónsdóttir, fundarritari.