709. fundur S.S.S. 9.nóvember 2016
Árið 2016, er fundur haldinn í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum miðvikudaginn 9.nóvember 2016 kl. 17:00 á skrifstofu S.S.S., Skógarbraut 945, Reykjanesbæ.
Mætt eru: Einar Jón Pálsson, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Hjálmar Hallgrímsson, Ólafur Þór Ólafsson, Ingþór Guðmundsson og Berglind Kristinsdóttir sem
jafnframt ritaði fundargerð.
1. Stjórn skiptir með sér verkum.
Formaður: Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Reykjanesbæ
Varaformaður: Guðmundur L. Pálsson, Grindavík
Ritari: Ólafur Þór Ólafsson, Sandgerði
Meðstjórnandi: Einar Jón Pálsson, Sveitarfélagið Garður
Ingþór Guðmundsson, Sveitarfélagið Vogar
2. Ályktanir og tillögur aðalfundar 2016.
a) Ályktun um samgöngumál.
b) Ályktun um raforkukerfi.
c) Ályktanir um tekjustofna sveitarfélaga.
d) Tillaga um úttekt á ávinningi af sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Stjórn S.S.S. leggur til að ályktanir aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum verði sendar þingmönnum kjördæmisins og ráðherra viðkomandi málaflokka. Framkvæmdastjóra falið að panta tíma hjá hlutaðeigandi ráðherra að lokinni stjórnarmyndun.
Tillaga um úttekt á ávinningi af sameiningu sveitarfélaga á Suðurnesjum rædd af stjórn.
Fulltrúar Sveitarfélagsins Voga og Grindavíkur sögðu frá því að ekki væri vilji til þess að skoða sameiningarkosti eins og staðan er núna.
Fulltrúi sveitarfélagsins Voga hefði viljað fá frekari upplýsingar um kostnað, tíma og hvaða sameiningarmódel eigi að kanna fyrst þessi gögn fylgja ekki, getur sveitarfélagið Vogar ekki fallist á tillöguna.
Fulltrúi Reykjanesbæjar óskaði að eftirfarandi yrði fært til bókar;
„Ég undirrituð harma það að sveitarfélögin Garður, Sandgerði, Vogar og Grindavík vilji ekki standa saman að gerð faglegrar úttektar á hverjir eru mögulegir kostir og gallar við sameiningu allra eða einhverra sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Íbúar og sveitarstjórnarmenn hafa flestir sína skoðun á því hvort viðkomandi vilji sameinast einhverju öðru sveitarfélagi eða sé alfarið á móti því að sameinast. Hafa tilfinningar sveitarstjórnarmanna til sinnar heimabyggðar örugglega alltaf talsverð áhrif á ákvörðun þeirra.
Ég tel það afar mikilvægt að fá óháða og faglega úttekt á því hvort sameining sveitarfélaganna hér á svæðinu geti þjónað hagsmunum íbúa og styrkt stjórnsýsluna á Suðurnesjum til lengri tíma litið.
Við stöndum andspænis miklum áskorunum sem geta skipt miklu varðandi uppbyggingu svæðisins og því er mikilvægt að við séum tilbúin til að mæta þeim þegar að þar að kemur“.
Eftirfarandi var bókað af fulltrúum sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðis: Bæjarstjórnir Sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðisbæjar voru fyrir síðasta aðalfund SSS búin að samþykkja að hefja vinnu við að kanna kosti og galla mögulegrar sameiningar sveitarfélaganna tveggja. Rétt er að sú vinna sé kláruð áður en frekari sameiningarkostir verða skoðaðir. Því teljum við ekki rétt að fara í þá vinnu sem felst í fyrirliggjandi tillögu á þessum tímapunkti.
3. Fjárhagsáætlun 2017.
Lögð fram og samþykkt.
Stjórn S.S.S. leggur áherslu á að fjárhagsáætlun almenningssamgangna verði endurskoðuð þegar niðurstaða dómsmáls liggur fyrir.
4. Fundartímar starfsárið 2016-2017.
Frestað til næsta fundar.
5. Önnur mál.
Næsti fundur stjórnar S.S.S. verður miðvikudaginn 14.desember kl. 8:00.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl.18:05.