44. Aðalfundur SSS 10. október 2020 fjarfundur
- Skýrsla stjórnar
- Endurskoðaður ársreikningur síðasta árs lagður fram til samþykktar
- Stjórn sambandsins tilnefnd
- Kosning endurskoðanda eða endurskoðendafyrirtækis
- Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna
- Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur mál sem löglega eru upp borin
Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, setti fundinn og tók að sér fundarstjórn. Berglind fór yfir tilhögun fundarins með breyttu formi.
Mæting:
Reykjanesbær: 11 fulltrúar
Suðurnesjabær: 7 fulltrúar
Vogar: 7 fulltrúar
Grindavík: 4 fulltrúar
Bæjarstjórar: 4
Alþingismenn: 3
- Einar Jón Pálsson formaður stjórnar flytur skýrslu stjórnar.
Kæra sveitarstjórnarfólk, bæjarstjórar og aðrir gestir
Fyrir hönd stjórnar býð ég ykkur velkomin til aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, en fundurinn er haldinn við mjög sérstakar aðstæður í samfélaginu, Covid-19 faraldurinn hefur víst ekki farið fram hjá neinum. Stjórn sambandsins ákvað fyrir nokkru að stytta aðalfundinn í ljósi aðstæðna og hafa hann aðeins einn dag og um leið slá kvöldverð og skemmtun af, en aðalfundur á að fara fram í október mánuði ár hvert. Þegar svo aukning smita varð um síðustu helgi tókum við í stjórn þá ákvörðun að halda fundinn í gegnum fjarfundabúnað og afgreiða einungis nauðsynleg mál og slá fyrirlestrum á frest.
Vetrarfundur SSS sem halda átti 20. mars sl. var einnig sleginn af vegna Covid-19 en fyrsta bylgja veirunnar stóð einmitt yfir á þeim tíma. Starfsárið hefur því verið nokkuð öðruvísi en áður.
Stjórn og framkvæmdarstjóri hafa að venju unnið í takt við samþykktir sambandsins sem eru meðal annars að vinna að hagsmunum sveitarfélaganna, koma fram sem ein heild í sameiginlegum málum gagnvart ríkisvaldinu og efla samvinnu, búsetu og atvinnulíf á Suðurnesjum. Í takt við þetta hófst starfsárið á því að fylgja eftir þeim ályktunum sem samþykktar voru á síðasta aðalfundi okkar og fór stjórn meðal annars á fund nokkurra ráðherra og ráðuneyta þeirra.
Stjórn hefur sem fyrr lagt ríka áherslu á að leiðrétta hlut svæðisins gagnvart fjárframlögum til ríkisstofnanna á Suðurnesjum. Í lok árs 2019 var framkvæmdarstjóra falið að leita til umboðsmanns alþingis með það að markmiðum að kanna rétt íbúa á Suðurnesjum til opinberrar þjónustu með tilliti til jafnræðisreglu. Við nánari skoðun lögmanns reyndist ekki hægt að leita til umboðsmanns fyrir hönd „fjöldans“ (allra íbúanna), einungis væri þessi leið fær ef einstaklingur færi í „prófmál“ en ekki hefur orðið af því.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skipaði starfshóp haustið 2019 til að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingi um stöðu sveitarfélaga á Suðurnesjum í samstarfi forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, ferðamála-, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Vinna hópsins fékk svo aukna þýðingu í kjölfar Covid-19 faraldursins. Í starfshópnum sátu fulltrúar ráðuneytanna og sveitarfélaga á Suðurnesjum. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu í maí og segir í samantekt hennar að mikil niðursveifla hafi orðið í tengslum við brotthvarf flugfélagsins Wow air auk þess hafi Covid-19 faraldurinn leitt til þess að ferðaþjónusta á svæðinu hafi hrunið og starfsemi Keflavíkurflugvallar og tengd starfsemi lægi að mestu leyti niðri. Slíkar aðstæður kalli á sérstakan viðbúnað og enn nánara samstarf ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja. Nú hefur verið skipuð samstarfsnefnd um stöðu Suðurnesja og er fyrsti fundur í næstu viku. Í nefndinni sitja fulltrúar allra ráðuneytanna, bæjarstjórar á Suðurnesjum og framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Á þessum nótum hefur einnig mikil umræða verið um stöðu Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja og þjónustu við íbúa svæðisins og þá hvernig hægt væri að auka þjónustuna og aðstoða HSS við að sækja aukið fjármagn. Fjöldi íbúa eru nú skráðir á heilsugæslustöðvar á höfuðborgasvæðinu og mun það draga úr fjárframlögum til HSS þar sem nýtt greiðslukerfi tekur gildi á árinu 2021, en þá mun fjármagn frá ríkinu fylgja einstaklingnum og því hvar hann sækir þjónustu. Ljóst er að hér er ennþá mikið verk að vinna fyrir HSS og sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum.
Stjórn SSS kallaði öll bæjarráð sveitarfélaganna saman til fundar í lok síðasta árs til að ræða ósk framkvæmdarstjóra Keilis um að sveitarfélögin á Suðurnesjum mundu kaupa 40% hlut í skólahúsnæði Keilis. Fjárhagsleg staða skólans hefur verið erfið og ekki hjálpaði til þegar Covid-19 fór að herja á og mikið dró úr flugi og áhugi fór dvínandi um stund. Vel hefur þó gengið að vinna úr málum og flugnám er aftur að taka flugið. Eftir situr þó að fjárhagsleg staða er ennþá háð aðkomu ríkis og sveitarfélaganna og virðist sem lausn sé komin fram sem vonandi verður kláruð á næstu vikum
Á árinu veitti stjórn SSS byggingarnefnd Fjölbrautaskóla Suðurnesja heimild til að bjóða út stækkun skólans en samið var um það verk við ríkið á árinu 2019. Fimm tilboð bárust í stækkun skólans og var samið við lægstbjóðenda sem var Húsagerðin ehf og er ráðgert að taka viðbygginguna í notkun í apríl 2021.
Á árinu gekk stjórn frá kaupum á húsnæði sem sambandið hefur haft til leigu undir starfsemi sína og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. Lán var tekið fyrir kaupunum en vegna hagstæðara lánakjara og sanngjarns verðs á húsnæði mun greiðslubyrði verða lægri en við leigu.
Aðalmálmeðferð í máli S.S.S. gegn íslenskra ríkinu vegna almenningssamganga fór fram þann 1. september s.l. en vonir eru bundnar við að dómari skili af sér á næstu vikum. Þó er ljóst alveg sama hvernig sá málarekstur fer að málið verður rekið fyrir æðra dómsstigi.
Ný Sóknaráætlun leit dagsins ljós á árinu en samið var um endurnýjun á samningi um Sóknaráætlun sem gildir til ársins 2024. Sóknaráætlun er lifandi plagg sem við verðum að uppfæra eftir þörfum og ljóst að það verkefni bíður nýrrar stjórnar. Styrkjum að upphæð 45 mkr. var úthlutað úr Uppbyggingarsjóð í desember 2019 vegna ársins 2020.
S.S.S., Eignarhaldsfélag Suðurnesja og Keilir skrifuðu upp á samning um rekstur frumkvöðlaseturs í Keili. Er það afar ánægjulegt en ekki síður mikilvægt í ljósi stöðunnar í atvinnumálum.
Atvinnumálin og aukið atvinnuleysi hefur verið rætt reglulega í stjórn SSS og meðal sveitarstjórnamanna á Suðurnesjum enda er staðan fordæmalaus og atvinnuleysi í hæstu hæðum og virðist ekkert lát vera á. Flug til og frá landinu hefur nær lamast og fyrirtæki tengd ferðaþjónustu lagst í dvala. Þar sem alþjóðaflugvöllurinn hefur verið stærsti vinnustaðurinn á Suðurnesjum hefur atvinnuleysi verið hvað mest hér á landsvísu. Ekki er að sjá fyrir endann á þessari stöðu og verður eflaust ekki fyrr en bóluefni við Covid-19 verður komið í notkun að ferðamenn fari að koma til landsins. Ljóst er að reikna má með þröngri stöðu allra á meðan þetta gengur yfir og vonandi gefst okkur færi á að spyrna okkur fast frá botninum þegar líða tekur á næsta ár.
Kæru vinir, ég vil fyrir hönd stjórnar þakka framkvæmdarstjóra og starfsmönnum sambandsins fyrir frábært starf á árinu og þá vil ég þakka stjórn fyrir samstarfið á árinu sem hefur sem fyrr verið mjög gott.
Nýr aðalmaður mun taka sæti í stjórn í stað mín á komandi starfsári og vil ég því þakka fyrir að hafa fengið að vinna með ykkur, já og fyrir ykkur, það hefur gefið mér mikið og vonandi hef ég skilað góðu starfi. Einnig mun nýr aðalmaður Reykjanesbæjar taka sæti í stjórn og færi ég ykkur kveðjur frá fráfarandi stjórnarmanni Kolbrúnu Jónu Pétursdóttir með þökkum fyrir samstarfið. Við sem förum úr stjórn munum ekki fara langt og verðum klár á hliðarlínunni ef þörf er á.
Að lokum þetta, verum bjartsýn, horfum fram á veginn og munum að fara varlega, því eins og einn góður maður segir svo oft „við erum öll almannavarnir“.
Einar Jón Pálsson
Formaður stjórnar
- Guðni Gunnarsson frá Íslenskum endurskoðendum fer yfir ársreikning S.S.S. fyrir árið 2019.
Í áliti endurskoðanda kemur fram að það sé álit þeirra að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu félagsins á árinu 2019, efnahag hans 31. desember 2019, breytingu á handbæru fé á árinu 2019 í samræmi við lög um ársreikninga og að skýrsla stjórnar hafi að geyma þær upplýsingar sem þar ber að veit í samræmi við lög og reglur um ársreikninga og koma ekki fram í skýringum.
Orðið var gefið laust um skýrslu stjórnar og ársreikning S.S.S. Enginn óskaði eftir að taka til máls.
Ársreikningur samþykktur samhljóða.
- Stjórn S.S.S. tilnefnd.
Eftirfarandi eru tilnefndir í aðal- og varastjórn S.S.S. á starfsárinu 2020-2021.
Reykjanesbær:
Aðalmaður: Jóhann Friðrik Friðriksson
Varamaður: Kolbrún Jóna Pétursdóttir
Suðurnesjabær:
Aðalmaður: Laufey Erlendsdóttir
Varamaður: Einar Jón Pálsson
Grindavíkurbær:
Aðalmaður: Hjálmar Hallgrímsson
Varamaður: Guðmundur Pálsson
Sveitarfélagið Vogar:
Aðalmaður: Ingþór Guðmundsson
Varamaður: Birgir Örn Ólafsson
- Kosning endurskoðanda eða endurskoðendafyrirtækis.
Samkvæmt útboði sem gert var árið 2015 var endurskoðun bókhalds Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum boðin út til 5 ára.
Lægstbjóðandi var Íslenskir endurskoðendur og er því lagt til að Íslenskir endurskoðendur verði kjörið endurskoðunarfyrirtæki Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Samþykkt samhljóða.
- Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna.
Lagt er til að þóknun til stjórnarmanna S.S.S. verði óbreytt en hún er:
Formaður stjórnar 6% af þingfarakaupi eða kr. 70.234,- fyrir hvern fund.
fyrir stjórnarmenn 4% af þingfarakaupi eða kr. 46.823,- fyrir hvern fund.
Lagt er til að þóknun fyrir aðra fundi en stjórnarfundi verði 3% eða kr. 35.117,-
Samþykkt samhljóða.
- Ályktun um stöðu Suðurnesja vegna Covid 19
Ályktun lögð fram á 44. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 10. október 2020 hvetur ríkisvaldið til að ráðast í aðgerðir til hjálpar einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum á Suðurnesjum en Suðurnes hafa orðið hvað harðast úti í kjölfar sóttvarnaraðgerða vegna Covid 19.
Íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað mikið á árunum 2013-2020 eða um 31,2% sem er samtals 6.623 íbúar. Á sama tímabili fjölgaði landsmönnum um 13% eða 42.277 íbúa. Auðvelt er að færa rök fyrir því að aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli hafi verið stór áhrifavaldur í fjölgun íbúa á þessum árum.
Umsvif atvinnugreina frá einu tímabili til annars gefa vísbendingar um þróun efnahagsmála á einstökum svæðum. Árið 2012 voru ferðaþjónusta, verslun, veitingar og samgöngur um 28% af umsvifum atvinnugreina á Suðurnesjum en árið 2017 var hlutfallið komið í 43%.
Allt frá falli Wow air hefur samdráttur verið í umsvifum í kringum Keflavíkurflugvöll en 11 mánuðum eftir fall Wow air beið annað og stærra verkefni, Covid 19 sem varð þess valdandi að flugfarþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 73,2% á milli áranna 2019-2020.
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var atvinnuleysi á landsvísu 8,1% í septembermánuði. Á Suðurnesjum er staðan alvarlegri en atvinnuleysi í september var 18%. Íhópi atvinnuleitenda eru 47% konur, 66% atvinnulausra eru yngri en 40 ára og 54% eru með erlent ríkisfang. Í september voru um 4000 einstaklingar á Suðurnesjum á skrá hjá Vinnumálastofnun en vinnumarkaðurinn á Suðurnesjum telur 13.714 einstaklinga.
Sveitarfélög á Suðurnesjum hafa orðið fyrir miklu tekjutapi en á sama tíma hefur þörf á þjónustu aukist verulega umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum. Áætluð fjárhagsleg heildaráhrif á sveitarfélög á Suðurnesjum á tímabilinu febrúar-ágúst 2020 eru um 1,6 makr. Lagt er til að sérstakt framlag komi í Jöfnunarsjóð til að vega upp á móti mikilli skerðingu framlaga. Lögð er áhersla á að slík mótvægisaðgerð fari til þeirra sveitarfélaga sem mest þurfa á henni að halda en ekki dreift t.d. samkvæmt höfðatölu.
Sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu atvinnumála á Suðurnesjum og hvetur ríkisvaldið til að fara í framkvæmdir á Suðurnesjum með það að markmiði að skapa atvinnu fyrir fjölda Suðurnesjamanna sem misst hafa vinnuna.
Fundurinn leggur til að unnið verði að fjármögnum verkefna á Suðurnesjum sem hægt er að fara í með litlum fyrirvara t.d. skipaklasa á Suðurnesjum. Skipaþjónustuklasi getur tiltölulega fljótt skapað á annað hundrað störf og fært samfélaginu umtalsverðar tekjur til framtíðar. Bein vinna í hinni nýju kví kallar á 70-80 heilsársstörf auk óbeinna starfa. Varlega áætlað er gert ráð fyrir að verkefni sem tengjast kvínni fyrst um sinn skapi þannig um 120 störf. Ekki er óraunhæft að ætla að á fáum árum gæti orðið til í Njarðvík þekkingarklasi í viðhaldi og þjónustu við skip sem teldi um 250 – 350 bein og óbein störf.
Mikilvægt er að styðja við nýsköpun á svæðinu með því að auka framlög til Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem sinnir atvinnuráðgjöf, þróun- og nýsköpun og fræðslu í gegnum Hekluna – atvinnuþróunarfélag Suðurnesja. Uppbyggingarsjóður Suðurnesja hefur gegnt lykilhlutverki í úthlutun styrkja til nýsköpunar og menningarmála á Suðurnesjum í gegnum tíðina, hann hefur aldrei verið mikilvægari en nú og því er lagt til að framlög í hann verði aukin.
Það eru fjölmörg atvinnuskapandi verkefni sem hægt er að ráðast í með litlum fyrirvara og mikilvægt að allir rói samtaka til að lágmarka skaðann.
Orðið var gefið laust. Enginn óskaði eftir að taka til máls.
Ályktunin samþykkt samhljóða.
Fleira ekki á dagskrá 44. aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri sleit þessum óvenjulega aðalfundi
kl. 10.30.
Björk Guðjónsdóttir fundarritari.