fb_pixel
Skip to content Skip to main navigation Skip to footer

46. Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum17. september 2022

Rétt til fundarsetu hafa: Kjörnir bæjarfulltrúar, framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaga og gestir.

Skráning fulltrúa og afhending gagna

Fundinn sóttu 37 sveitarstjórnarmenn, aðal- og varamenn.

Reykjanesbær: 12 fulltrúar

Grindavík: 7 fulltrúar

Suðurnesjabær: 10 fulltrúar

Vogar: 8 fulltrúar

Gestir og frummælendur á fundinum voru:

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæ; Gunnar Axel Axelsson bæjarstjóri Vogum; Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæ; Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavík; Aðalsteinn Þorsteinsson, skrifstofustjóri Innviðaráðuneytisins; Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga; Ingþór Guðmundsson, stjórnarformaður SSS; Birna María Sigurðardóttir, Deloitte; Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS; Magnús Árni Skúlason, Reykjavík Economics; Gunnar Haraldsson, Reykjavík Economics; Sveinbjörn Indriðason, framkvæmdastjóri Isavia; Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco; Þuríður Halldóra Aradóttir Braun, forsvarsmaður Markaðsstofu Reykjaness; Fjóla María Ágústsdóttir, Samband íslenskra sveitarfélaga; Sveinn Waage, skemmtikraftur; Guðrún Hafsteinsdóttir, Alþingi; Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Alþingi; Jóhann Friðrik Friðriksson, Alþingi; Ásmundur Friðriksson, Alþingi; Oddný G. Harðardóttir, Alþingi; Guðbrandur Einarsson, Alþingi; Jón Guðlaugsson, Brunavarnir Suðurnesja; Kristján Ásmundsson, Fjölbrautaskóli Suðurnesja; Þórdís Ósk Helgadóttir, Reykjanesbær; Sigurgestur Guðlaugsson, Reykjanesbær; Eyþór Sæmundsson, SSS; Logi Gunnarsson, SSS; Ásdís Júlíusdóttir, SSS; Ásta M. Jónsdóttir, SSS; Laufey Kristjánsdóttir, SSS og Hanna María Kristjánsdóttir, Þekkingarsetur Suðurnesja.

  • Fundarsetning

Ingþór Guðmundsson setti fundinn, bauð gesti velkomna og kynnti tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Sveitarfélagsins Voga, en Arnbjörg Hjartardóttir söng tvö frumsamin lög og spilaði sjálf undir á píanó.

  • Kosning fundarstjóra og ritara

Lögð fram tillaga um Jóngeir Hjörvar Hlinason sem fundarstjóra. Jafnframt var lögð fram tillaga varðandi fundarritara um þau Friðrik Valdimar Árnason, Evu Björk Jónsdóttur, Björn G. Sæbjörnsson og Andra Rúnar Sigurðsson. Hanna María Kristjánsdóttir er fundarskrifari.

Jóngeir Hjörvar Hlinason tók við fundarstjórn og bauð gesti velkomna.

  • Ávarp frá Aðalsteini Þorsteinssyni, skrifstofustjóra Innviðaráðuneytisins

Aðalsteinn þakkaði boðið í fjarveru innviðaráðherra sem bað fyrir góðar kveðjur. Aðalsteinn kynnti starfsemi Innviðaráðuneytisins, þær breytingar sem hafa orðið á málaflokkum þess og áherslur ráðuneytisins og helstu verkefni í dag. Aðalsteinn minntist m.a. á þörf þess að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar, sem ráðherra leggur mikla áherslu á að vinna hefjist við sem fyrst. Þá talaði hann um mikilvægi sóknaráætlana og þess að efla þær enn frekar.  

  • Ávarp frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga flutti ávarp. Karl sagði frá Sambandinu í stuttu máli, en aðild sveitarfélaga að því er frjáls. Hann fjallaði um hlutfall karla og kvenna meðal kjörinna fulltrúa en í ár eru konur í fyrsta skipti orðnar fleiri en karlar í þeim hópi. Endurnýjunarhlutfall í sveitarstjórnum er frekar hátt eða 55% árið 2022. Á landsþingi Sambandsins í lok september mun fara fram stefnumótunarvinna sem lýkur með stefnumörkun stjórnar. Karl fjallaði sérstaklega um þjónustu sveitarfélaga við fatlaða, þar sem mikið fjármagn vantar, og samtal ríkis og sveitarfélaga. Þá sagði hann frá því að vinna við stafræna umbreytingu stendur yfir, til að sem mest af þjónustu sveitarfélaganna verði stafræn, og kynnti starfsemi Sveitarfélagaskólans sem býður upp á stafræna fræðslu til kjörinna fulltrúa.

  • Skýrsla stjórnar

Formaður stjórnar, Ingþór Guðmundsson, flutti skýrslu stjórnar:

Kæru aðalfundar gestir

Fyrir hönd stjórnar býð ég ykkur hjartanlega velkomin á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem að þessu sinni er haldinn hér í Tjarnarsal við Stóru-Vogaskóla. Síðastliðið ár voru haldnir 10 stjórnarfundir og einn vorfundur sem var haldinn 29. apríl síðastliðinn.

  • Almenningssamgöngur

Í febrúar síðastliðnum tók stjórn fyrir mál þar sem lögmaður SSS fór yfir dómsmál er varða almenningssamgöngur á Suðurnesjum þetta nær aftur til 2018 þar sem SSS krafðist bóta vegna uppsafnaðs rekstrar taps á rekstri almenningssamgangna á Suðurnesjum. Síðastliðin febrúar sýknaði Landsdómur Íslenska ríkið af kröfu um skaðabætur. Í ágúst barst svo bréf frá Vegagerðinni  vegna erindi SSS vegna uppsafnaðs halla af rekstri almenningssamgangna á Suðurnesjum þar sem vegagerðinn lítur á að málinu sé lokið, en stjórn ákvað að óska eftir fundi með ráðherra innviða um þetta mál og er það eitt af verkefnum nýrrar stjórnar að hitta ráðherra og vonandi fá lyktir í þetta mál. Þess má geta að uppsafnað tap var orðið 91 milljónir króna.

  • Sóknaráætlanir landshluta

Í janúar bárust þau tíðindi að framlög til Suðurnesja voru hækkuð um 16,1%  á milli árana 2021 og 2022 heildarframlög voru tæpar 97 milljónir og nam hækkunin rúmum 13 milljónum.

Fyrr á árinu barst bréf frá Reykjavíkurborg vegna uppbyggingar hjólreiðastígs frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur og á SSS einn fulltrúa í þeim vinnuhóp. Það væri mikill akkur fyrir okkur og ferðaþjónustuna að fá þessa hjólreiðastígs tengingu.

  • Vorfundur SSS

Þema vorfundarins að þessu sinni var úrgangsmál en breyting á lögum verður nú eftir áramót á þann veg að safna verður lífrænum úrgangi því bann við urðun lífræns úrgangs liggur fyrir og safna verður fleiri flokkum frá heimilum stjórn Kölku er nú kominn með tillögur á breyttri hirðingu og unnið er að kostnaðarmati á þeim og vonast er til að hægt sé að senda það til sveitarfélagana á næstu vikum til umsagnar.

Á síðasta starfsári var undirritaður samningur um stofnun áfangastaðastofu. Að samningunum koma ráðuneyti ferðamála, S.S.S. og Ferðmálastofa. Samningarnir eru til þriggja ára og er markmið samningana að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar og stuðla að jákvæðum framgangi ferðaþjónustunnar um allt land. Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030 er leiðistefið í samningunum.

Áfangastaðastofu er einnig ætlað að styðja við ferðaþjónustu í viðkomandi landshluta og er hún byggð á grunni Markaðsstofa í hverjum landshlutana. Hlutverk hennar er m.a. gerð og framkvæmd áfangastaðaáætlana ásamt tengingu við aðrar opinberar stefnur og áætlanir. Áfangastaðastofan á að hafa aðkomu að og vinna að gerð stefnumótunar- og áætlana er snerta ferðaþjónustu. Henni er ætlað að sinna svæðisbundinni markaðssetningu í samstarfi við sveitarfélög og ferðaþjónustuaðila sem dregur fram sérstöðu landshlutanna og styður við markaðssetningu Íslands í heild.

Kæru aðalfundar gestir

Ég vil ljúka skýrslu stjórnar með því að hvetja ykkur öll til dáða. Samstarfið á Suðurnesjum er traust. Það byggir á sameiginlegum vilja okkar til þess að efla svæðið sem við búum á með virðingu fyrir hvort öðru að leiðarljósi. Samstarf sveitarfélaganna er mikilvægt fyrir íbúana. Flokkadrættir eða hreppapólitík eiga þar ekki við. Það er mín skoðun að gott og enn frekara samstarf á vettvangi SSS geti styrkt Suðurnesin enda samvinna forsenda framfara.

Fyrir hönd stjórnar vil ég þakka Berglindi og hennar frábæra starfsfólki fyrir samstarfið og þeirra framlag á starfsárinu og reyndar síðastliðin ár ég er nú að hverfa af vettvangi SSS eftir 8 ára stjórnarsetu.

Ég óska Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum velfarnaðar um ókomin ár.

Ingþór Guðmundsson, stjórnarformaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

  • Ársreikningur S.S.S. fyrir árið 2021

Birna María Sigurðardóttir, endurskoðandi hjá Deloitte kynnti ársreikninginn.

  • Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikning

Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu stjórnar og ársreikninga en fundargestir höfðu engar spurningar eða athugasemdir.

Fundarstjóri bar upp reikninga sambandsins og voru þeir samþykktir samhljóða.

  • Ársskýrslur S.S.S./Heklunnar/Markaðsstofu Reykjaness/Reykjanes Geopark

Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri S.S.S., kynnti skýrslurnar, starfsemi landshluta-samtakanna og helstu hlutverk og verkefni þeirra.

  • Umræður um ársskýrslur

Fundarstjóri gaf orðið laust en fundargestir höfðu engar spurningar eða athugasemdir.

  • Tillögur og ályktanir lagðar fram

Tillögur og ályktanir lagðar fram en afgreiddar síðar á fundinum.

Kaffihlé

  • Suðurnesjalína II – kynning á skýrslu Heklunnar

Magnús Árni Skúlason frá Reykjavík Economics, kynnti skýrsluna sem fjallar um efnahagsleg áhrif Suðurnesjalínu II. Teknar voru saman upplýsingar og lagt mat  á kostnað og ábata sem línan hefði fyrir Suðurnesin. Í skýrslunni er litið til kostnaðar vegna raforkurofs, uppbyggingar og orkuþarfar og umhverfisáhrifa, en ekki af hvaða tagi línan á að vera. Að mati Landsnets er nauðsynlegt að koma á annarri og öflugri tengingu en þeirri sem fyrir er til að bæta orkuöryggi og áreiðanleika afhendingar meðal annars. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að verði línan ekki lögð, verði mörg töpuð fjárfestingatækifæri á svæðinu enda orkuþörfin mikil. Mikil íbúafjölgun og húsnæðisuppbygging á svæðinu kalla auk þess á öflugri tengingu, og komi hún ekki til gæti það haft töluverð áhrif á efnahag svæðisins ásamt mögulegum orkuskorti.

Magnús Árni bauð upp á spurningar. Til máls tóku: Gunnar Axel Axelsson, Kjartan Már Kjartansson, Björn Sæbjörnsson, Ásmundur Friðriksson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Einar Jón Pálsson.

Hádegisverður

  • Ferðalagið framundan – Sveinbjörn Indriðason, framkvæmdastjóri Isavia

Sveinbjörn sagði frá stöðunni eins og hún er í dag, og fjallaði um þau verkefni og miklu breytingar sem fram undan eru. Áhrif Covid voru gríðarleg en eftir heimsfaraldurinn hafa flugfélögin komið til baka og gekk það betur en búist hafði verið við. Meðalfjöldi stöðugilda er að nálgast það sem var árið 2019. Unnið er að stækkun flugstöðvarinnar og það stefnir í eitt stærsta framkvæmdaár í sögu flugvallarins í ár. Keflavíkurflugvöllur er einn mjög fárra flugvalla í Evrópu sem hafa náð fullri endurheimt eftir heimsfaraldur Covid.

Sveinbjörn bauð upp á spurningar. Til máls tóku: Jóhann Friðrik Friðriksson, Kjartan Már Kjartansson og Ásmundur Friðriksson.

  • Þróunarsvæðið við Keflavíkurflugvöll – Pálmi Freyr Randversson, framkvæmdastjóri Kadeco

Pálmi Freyr kynnti sögu og starfsemi Kadeco – Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Kadeco leiðir samstarf ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar við þróun og uppbyggingu á landi ríkisins við Keflavíkurflugvöll. Svipuð verkefni er að finna víða, til dæmis við Amsterdam flugvöll og Helsinki flugvöll. Unnið var að samkeppnisútboði á vinnu við gerð þróunaráætlunar sem 25 hönnunarteymi buðu að endingu í. Samstarf er hafið við það teymi sem átti vinningstillöguna og er nú unnið að gerð þróunaráætlunar og endurskoðun skipulagsáætlana.

Pálmi Freyr bauð upp á spurningar. Til máls tók: Sveinbjörn Indriðason.

  • Ferðaþjónusta á Reykjanesi og áhrif af eldgosi – Þuríður Halldóra Aradóttir Braun, forsvarsmaður Markaðsstofu Reykjaness

Þuríður sagði frá samstarfsvettvanginum sem Markaðsstofa eða Áfangastaðastofa Reykjaness er. Unnið er að uppbyggingu vörumerkisins Reykjanes. Tekið hefur mörg ár að bæta jákvæðni gagnvart svæðinu og aðsókn að því en staðan í dag er góð, í kjölfar eldgosa. Svæðið er einstakt á heimsvísu og áhersla lögð á það. Ákveðin áhersluverkefni eru í gangi sem snúa m.a. að því að ferðamenn ferðist meira um svæðið, dvelji lengur og gisti á Reykjanesi.

Þuríður bauð upp á spurningar. Til máls tóku: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Guðbergur Reynisson, Einar Jón Pálsson og Oddný Harðardóttir.

Kaffihlé

  • Samstarf í stafrænni þróun – Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Fjóla María Ágústsdóttir, leiðtogi stafræns þróunarteymis

Kjartan Már er fulltrúi S.S.S. í stafrænu ráði Sambands íslenskra sveitarfélaga og hélt stutta kynningu. Þetta er stórt verkefni sem öll sveitarfélögin eru að einhverju leyti þátttakendur í, og markmiðið er að kynna það vel fyrir öllum bæjarfulltrúum. Fjóla María tók svo við í fjarfundi þar sem hún kynnti verkefnið nánar. Helst nefndi hún samstarf á milli sveitarfélaganna og við ríkið, ýmsa greiningarvinnu og svo nokkur afmörkuð verkefni sem hún fjallaði um. Æskileg framtíðarstaða er m.a. að öll sveitarfélög landsins vinni í samræmdu skrifstofuumhverfi.

Fundarstjóri gaf færi á spurningum en fundargestir höfðu engar spurningar.

  • Húmor virkar – Sveinn Waage – fyndnasti maður Íslands

Sveinn Waage hélt erindið Húmor virkar – í alvöru!

  • Ályktanir og umræður

Ályktun um heilbrigðismál

Ályktun lögð fram á 46. Aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 17. september 2022 krefst þess að ríkisvaldið bæti heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hefur íbúum á Suðurnesjum fjölgað um 23% á árunum 2016-2022 en landsmeðaltalið er 12%. Fjárveitingar til heilbrigðismála á Suðurnesjum hafa ekki endurspeglað þá þróun.

Í tölum hins opinbera kemur fram að heilbrigðisútgjöld vegna þeirra sem eru 65 ára og eldri eru um helmingur af öllum heilbrigðisútgjöldum hins opinbera. Fólk í þessum aldurshópi eru rúmlega 14% mannfjöldans. Í ljósi þess að fjöldi eldri borgara mun tvöfaldast á næstu 25 árum er ekki einungis þörf á auknum fjármunum í heilbrigðiskerfið heldur á stórauknu átaki í þjónustu við aldraða í heimahúsum.

Jafnframt er kallað eftir stefnumótun til framtíðar í hjúkrunar- og dagdvalarrýmum á Suðurnesjum og landinu öllu og að slík stefna feli í sér reglur um fjölda rýma miðað við íbúafjölda.

Langvarandi mönnunarvandi í heilbrigðiskerfinu er staðreynd, sem bregðast verður við af krafti. Meðal annars væri hægt að horfa til heilbrigðismenntunar á Suðurnesjum líkt og var áður. Það er í samræmi við helstu áherslur atvinnu og nýsköpunar í Sóknaráætlun Suðurnesja. Í fimm ára fjármálaáætlun kemur fram að árleg fjáraukning til heilbrigðismála til ársins 2026 verður einungis á bilinu 1,3% – 1,7% og á síðasta ári fjármálaáætlunarinnar lækka útgjöld til heilbrigðismála um 2% stig á milli ára. Það er því ljóst að framlög til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu munu lækka á næstu árum þrátt fyrir fjölgun eldri borgara

Sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum bendir á að í Heilbrigðisstefnu ríkisins til ársins 2030, kemur fram að Heilsugæslunni er ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustu við landsmenn samkvæmt lögum. Hún á að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem notendur eiga kost á almennum lækningum, hjúkrun, endurhæfingu, heilsuvernd og forvörnum. Viðmið heilsugæslu í þjónustu er 8.000-10.000 íbúar á heilsugæslu. Á Suðurnesjum ættu að vera þrjár heilsugæslur miðað við íbúafjölda. Samkvæmt fjármálaáætlun 2023 er dregið úr fjármögnun nýrrar heilsugæslu um 100 milljónir.

Byggja þarf upp þjónustu Heilbrigðisstofnunnar Suðurnesja í öllum þéttbýliskjörnum á Suðurnesjum svo hún geti tekist á við verkefnin sem henni er ætlað að sinna samkvæmt heilbrigðisstefnu ríkisins.

Guðný Birna Guðmundsdóttir og Díana Hilmarsdóttir lögðu fram breytinga- og viðaukatillögu.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku: Einar Jón Pálsson, Margrét Sanders, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Bjarni Páll Tryggvason.

Fundarstjóri bar upp viðaukatillögur og voru þær samþykktar samhljóða.

Fundarstjóri bar upp breytingatillögur og voru þær samþykktar samhljóða.

Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

  • Ályktun um menntamál

Ályktun lögð fram á 46. Aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 17. september 2022 hvetur ríkisvaldið til að ráðast í aðgerðir til að bregðast við aðgengi að menntun.

Sjávarútvegurinn hefur verið ein af grunnstoðum atvinnulífs á Suðurnesjum. Það er mikilvægt að styrkja tengsl atvinnulífs og menntunar. Aðalfundur SSS leggur til, að ríkið styrki til framtíðar og með myndarlegum hætti starfsgrundvöll Fisktækniskóla Íslands með verulegri aukningu fjárveitinga skólans til kennslu og þróunar og vinni jafnframt með sveitarfélögum á Suðurnesjum að því að skapa skólanum þá umgjörð, sem menntun í einni af undirstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar sæmir.

Aðalfundurinn lýsir yfir áhyggjum vegna aðgengi að iðnmenntun en það skýtur skökku við að á sama tíma og mikil vöntun er á iðnaðarmönnum er miklum fjölda ungmenna vísað frá skólum eða í aðra menntun. Fjölbrautaskóli Suðurnesja er hornsteinn menntunar á Suðurnesjum og hvetur aðalfundurinn til að aðstaða til iðnnáms verði bætt til muna til að þjóna eftirspurn samfélagsins og að stoðir bóknáms verði ekki skertar eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi.

Guðný Birna Guðmundsdóttir, Díana Hilmarsdóttir og Hjörtur M. Guðbjartsson lögðu fram breytinga- og viðaukatillögu.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku: Valgerður Pálsdóttir, Hjörtur Guðbjörnsson, Margrét Sanders, Bjarni Páll Tryggvason og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Fundarstjóri bar upp viðaukatillögu og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar upp breytingatillögu og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða með áorðnum breytingum.

  • Ályktun um uppbyggingu ferðamannastaða

Ályktun lögð fram á 46. Aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 17. september 2022, hvetur ríkisvaldið til að ráðast í uppbyggingu ferðamannastaða á Reykjanesi.

Ferðamálastofa gaf í sumar út skýrslu um erlenda ferðamenn á Íslandi þar sem fram kemur að um 15% fjölgun hafi verið á gestum á Reykjanesi árið 2021 miðað við árið 2019. Áætlað er að þrír af hverjum fjórum gestum landsins hafi komið á Reykjanesið. Á sama tíma hefur gistinóttum fækkað en meðal dvalarlengd gesta er undir 1 nótt (0.7).

Markaðsstarf undanfarinna ára, uppbygging á ferðamannastöðum og aðrir innviðir í ferðaþjónustu auk eldgossins í Fagradalsfjalli útskýri að mestu þessa aukningu ferðamanna og breytta ferðahegðun um áfangastaðinn Reykjanes. Mun fleiri gestir eru að fara um svæðið daglega og heimsækja bæði þekkta og þróaða áningarstaði og einnig viðkvæm svæði sem eru ekki tilbúin að taka á móti ferðamönnum miðað við núverandi álag. Þessi athygli og umferð hefur leitt til viðsnúnings í ferðaþjónustu á svæðinu eftir Covid en á sama tíma hefur þetta leitt til mikils álags á ferðamannastaði á svæðinu sem margir hverjir hafa látið á sjá.

Ljóst er að með áframhaldandi eldvirkni á Reykjanesi og aukins áhuga á Íslandi sem áfangastaðar mun gestum halda áfram að fjölga. Það er því mikilvægt að þróa áfangastaðinn með frekari uppbyggingu og viðhaldi á þeim stöðum sem hafa látið á sjá sem og dreifingu á álagi með uppbyggingu á nýjum áningarstöðum. Með þessu móti er áfram hægt að taka vel á móti gestum og veita þeim jákvæða upplifun á ferð sinni um svæðið.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum hvetur því ríkisvaldið til að taka þátt í þeim verkefnum sem Reykjanes Geopark, sveitarfélög á svæðinu og landeigendur á Suðurnesjum þurfa að takast á við næstu árin.

Guðbergur Reynisson lagði fram breytingatillögu.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku: Guðbergur Reynisson, Einar Jón Pálsson og Margrét Sanders, bæjarfulltrúi Reykjanesbæ.

Fundarstjóri bar upp breytingatillögu og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða.

  • Ályktun um tvöföldun Reykjanesbrautar

Ályktun lögð fram á 46. Aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 17. september 2022 krefst aðgerða vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar.

Reykjanesbraut er lífæð landsins en um hana fara nánast allir þeir ferðamenn sem koma til landsins með flugi. Það er því mikilvægt að klára tvöföldun hennar, bæði fyrir gesti sem fara þar um og ekki síður íbúa Suðurnesja.

Fundurinn krefst þess að kaflinn frá Krísuvíkurafleggjara að Hvassahrauni verði boðinn út um áramótin 2022-23.

Fundarstjóri gaf orðið laust. Til máls tóku: Bjarni Páll Tryggvason, Guðbergur Reynisson og Einar Jón Pálsson.

Fundarstjóri bar upp ályktunina og var hún samþykkt samhljóða.

  • Tilnefning stjórnar og varastjórnar fyrir næsta starfsár

Reykjanesbær:

Aðalmaður – Friðjón Einarsson

Varamaður – Guðný Birna Guðmundsdóttir

Suðurnesjabær:

Aðalmaður – Anton Kristinn Guðmundsson

Varamaður – Einar Jón Pálsson

Grindavíkurbær:

Aðalmaður – Sverrir Auðunsson

Varamaður – Ásrún Kristinsdóttir

Sveitarfélagið Vogar:

Aðalmaður – Björn G. Sæbjörnsson

Varamaður – Guðmann Rúnar Lúðvíksson

  • Kosning endurskoðunarfyrirtækis

Samkvæmt útboði sem gert var sumarið 2021 var endurskoðun bókhalds Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum boðin út til fimm ára. Lægstbjóðandi var Deloitte og hafa þeir nú lokið fyrsta starfsári sínu fyrir S.S.S. Það er því lagt til að Deloitte verði kjörið endurskoðunarfyrirtæki Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

  • Ákvörðun um greiðslu þóknunar til stjórnarmanna

Lagt er til að þókun til stjórnarmanna SSS verði óbreytt en hún er:

Formaður stjórnar: 6% af þingfararkaupi eða kr. 80.735,- fyrir hvern fund.

Aðrir stjórnarmenn: 4% af þingfararkaupi eða kr. 53.823,- fyrir hvern fund.

Lagt er til að þóknun fyrir aðra fundi en stjórnarfundi verði 3% eða kr. 40.367,-

Fundarstjóri bar upp tillöguna og var hún samþykkt samhljóða.

  • Fundarslit

Fundarstjóri sleit fundi í fjarveru verðandi formanns stjórnar, Friðjóns Einarssonar, kl. 17:15.

Fleira ekki gert.

Hanna María Kristjánsdóttir, fundarskrifari.